Ræktar skarfakál í Grímsey
Í Grímsey er nú í gangi tilraunaverkefni sem snýst um ræktun á skarfakáli, sem síðan á að markaðssetja ferskt, þurrkað og sem skarfakálspestó.
Kjörlendi er í Grímsey fyrir vöxt á villtu skarfakáli en eyjan hentar einnig vel til ræktunar á þessari mat- og lækningajurt. Hún á auðvitað sérstakan sess í þjóðarvitund Íslendinga sem hafa löngum gripið til hennar til að lækna og koma í veg fyrir skyrbjúg, vegna þess hversu auðug hún er af C-vítamíni.
Ættuð frá Filppseyjum
Frumkvöðullinn sem stendur að tilraunaræktuninni heitir Mayflor Perez Cajes, er ættuð frá Filippseyjum en kom átta ára gömul til Íslands og er nú gift Grímseyingi. Hún segir að skarfakálið sé að vissu leyti erfitt í ræktun og lítil reynsla sé af slíkri ræktun almennt í heiminum eftir því sem hún best viti.
„Þess vegnar er ég eiginlega að ryðja brautina og prófa mig áfram, get lítið stutt mig við reynslu annarra. Það þurfa að vera ákveðin skilyrði til staðar, skarfakál vex vel í söltu umhverfi og sendnum jarðvegi. Því líður best utan dyra og þrífst vel innan um illgresi. Skarfakál er af krossblómaætt, eins og kál, rófur, grænkál og brokkolí. Ég hef tekið eftir því að þegar það vex villt eitt og sér, þá gulnar það frekar og virkar ekki eins heilbrigt. Ég held að það sé vegna þess að það fær þá ekki skjól frá öðrum plöntum.
Ég hef prófað að rækta það í mold sem er keypt verslun, en kálið hefur ekki lifað lengi í henni. Þá hef ég komist að því að jarðvegurinn sem það vex í þarf að vera mjög súr. Sem hentar okkur vel því við erum með kindur hér og getum nýtt súrt sauðataðið sem áburðargjafa.“

Frístundabúskapur með kindur
„Við erum með um 80 kindur, fjölskylda mannsins míns og höfum verið í þessum frístundabúskap frá 2009,“ segir Mayflor. „Þau komu hingað árið 1984 frá Hjalteyri. Við erum líka með hænur. Afgangurinn af skarfakálinu sem ég er að vinna með fer í hænurnar og kindurnar. Við höldum að lömbin okkar verði óvenju stór vegna þess að þau hafa skarfakálið.
Hér er slátrað heima og vinir okkar njóta góðs af því líka í vöruskiptum. Við þurfum aldrei að kaupa lambakjöt.
Ég geri mér einnig vonir um að sauðfjárræktin gagnist við sjálfa ræktunina og ætla að gera tilraunir með að rækta kálið í snoðull, því hún er heldur rakanum svo vel í sér.“

Vinnslupláss hjá Vörusmiðjunni
Að sögn Mayflor stendur þessi þróunarvinna nú yfir, sem felst bæði í tilraunaræktuninni en líka að safna fræjum, þurrka þau og sá síðan fyrir næsta sumar. Samhliða vinnur hún að tilraunum í úrvinnslu á villtu káli og markaðsmálum.
„Ég er með tvær vörutegundir í vinnslu og hef fengið pláss í aðstöðu vörusmiðjunnar á Skagaströnd. Önnur tegundin er bara þurrkað skarfakál en hin er skarfakálspestó. Það er ekki komið söluleyfi en vonandi kemur það sem fyrst.
Ég reikna með að byrja á því að selja vörurnar bara á matarmörkuðum – þannig að þær fara ekki strax inn í matvörubúðir.
Krónan hefur samt sýnt áhuga á vörunum frá mér þegar allt verður tilbúið og svo hef ég fengið góð viðbrögð frá veitingastöðum við hugmyndinni.“
Saltur og sætur keimur
„Það er mjög sætur keimur af kálinu í bland við saltið,“ segir Mayflor spurð um bragðeinkennin. „Sumir hafa lýst sinnepskeimi en ég held að það sé ekki rétt. Hins vegar er smá piparbragð, í ætt við klettasalat og það getur verið að fólk tengi það við sinnep. En auðvitað eru bragðlaukar fólks mismunandi og fólk finnur ekki alveg sama bragðið. Það er rosalega gott bara sem ferskt salat, til dæmis í salatblöndu. Svo er það þekkt lækninga jurt með ýmsa góða eiginleika.“

Heimskautsbaugurinn hentar vel til markaðssetningar
Mayflor hefur gefið vörumerki sínu heitið Skarfakál ArcticCircle, sem hún segir mjög viðeigandi vegna þess að heimskautsbaugurinn liggur jú þvert í gegnum Grímsey, frá vestri til austurs.
„Það ætti að henta vel til fyrir markaðssetninguna, en ég er einmitt að gera viðskiptaáætlun núna og er kominn með lógó. Erlendir ferðamenn eru flestir mjög meðvitaðir um að heimskautsbaugurinn liggur í gegnum eyjuna og áhugasamir um hann. Hún segist alltaf hafa haft áhuga á að nýta náttúruna til matargerðar og svo týnir hún jurtir líka til tegerðar – til dæmis villta blóðbergið.
„Ég ólst upp við þessa hugsun á Filippseyjum. Afi minn var maísbóndi og því í nánu sambandi við náttúruna eins og margir Filippseyingar eru“
Listaverk úr svartfuglseggjum
Í nokkur ár hefur Mayflor unnið listaverk úr svartfugls- og langvíueggjum, sem njóta vaxandi vinsælda meðal ferðamanna sem koma í Grímsey. „Standurinn fyrir eggin er úr rekaviði sem sóttur er í fjörur Grímseyjar. Ljós er sett í standinn og svo eru útlínur og Grímseyjar og Íslands boruð í eggin. Svo set ég resin efni yfir eggin til að styrkja þau. Ég hef líka verið að gera skartgripi úr eggjunum, nýti skurnina sem brotnar til að útbúa hálsmen.“
Mikill áhugi er meðal heimamanna á þessari listsköpun, að sögn Mayflor, enda eru listaverkin góð kynning fyrir eyjuna. „Nú þarf bara að kynna eyjuna betur fyrir Íslendingum,“ segir hún.

Heyrt sögur og lesið um skarfakálið
Verkefni Mayflor á næstu mánuðum mun því á næstu mánuðum snúast um að nýta og rækta skarfakál, auk þess að halda striki sínu í listsköpuninni. „Skarfakálið er fyrsta flokks hráefni frá náttúrunnar hendi; bragðgott, Cvítamínríkt og græðandi, sem gerir það tilvalið í matargerð og matvælaframleiðslu.
Frá því ég flutti til Grímseyjar árið 2009 hafði ég heyrt sögur og lesið um skarfakálið, sem hér vex allt í kringum okkur. Heimamenn tína kálið og nota í matargerð heimavið en mig langaði til þess að gera meira og kynna landann og ferðamenn fyrir þessum vannýtta mat. Hér eru kjöraðstæður til að rækta skarfakál því kálið vill gjarnan vera í söltu umhverfi og helst nálægt björgum.
Ætlaði upphaflega að nýta þara í Grímsey
Hún segir að sér hafi fyrst dottið í hug að rækta skarfakál árið 2012. „Reyndar var efst á hugmyndalistanum að nýta þara í Grímsey, en það er frekar langsótt. Ráðgjafinn hjá SSNE nefndi þá skarfakál við mig og það var einmitt númer tvö á listanum hjá mér, svo ég fór af stað með þetta.“
Mayflor fæddist í Filippseyjum en kom til Íslands árið 1991, en hún ólst upp í Ólafsvík. Hún er fjögurra barna móðir.
Hún var valin í tíu manna hóp viðskiptahraðalsins Vaxtarrýmis hjá Norðanátt árið 2022 og tók svo þátt í viðskiptahraðli Atvinnumála kvenna. Skarfakálsverkefni Mayflor hefur verið styrkt af Sóknaráætlun Norðurlands eystra og Atvinnumálum kvenna.