Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Hjónin Jóhann Pjetur Jónsson og Harpa Jóhanna Reynisdóttir eru ráðin af Vegagerðinni til að smala umferðarþyngstu þjóðvegina frá Hvalfjarðargöngum að Holtavörðuheiði til að fækka slysum. Vegna umferðarþunga þurfa þau að sinna starfinu í skjóli nætur.
Hjónin Jóhann Pjetur Jónsson og Harpa Jóhanna Reynisdóttir eru ráðin af Vegagerðinni til að smala umferðarþyngstu þjóðvegina frá Hvalfjarðargöngum að Holtavörðuheiði til að fækka slysum. Vegna umferðarþunga þurfa þau að sinna starfinu í skjóli nætur.
Mynd / ÁL
Líf og starf 12. september 2023

Nætursmalar

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Hjónin Jóhann Pjetur Jónsson og Harpa Jóhanna Reynisdóttir á Hæl í Flókadal hafa smalað umferðarþyngstu þjóðvegi Vesturlands frá árinu 2008.

Fyrir hverja helgi á sumrin reka þau fé af vegunum til að fækka slysum, en vegna umferðarþunga sinna þau þessu starfi á næturnar.

Yfir björtustu mánuðina geta Jóhann og Harpa smalað í kringum miðnætti. Þegar dagarnir styttast þurfa þau alltaf að seinka brottför og þegar Bændablaðið slóst með í för fyrir skemmstu, fóru þau af stað í birtingu klukkan fimm að morgni. Hjónin fara alltaf á fimmtudögum og föstudögum, til þess að færra sauðfé sé á þjóðvegunum þegar mesta umferðin er um helgarnar, og aka samtals 330 kílómetra.

Jóhann segir að þetta sé minnst tveggja manna verk, þar sem annar aðilinn þurfi að aka bílnum, á meðan hinn sér um að reka. Jóhann sinnir oftast nær akstrinum en hann segir Hörpu vera lunknari með hundinn, níu ára Border Collie sem heitir Kolur.

Sauðfé rekið af Hringveginum í Norðurárdal í birtingu á föstudegi. Til að fækka slysum í helgarumferðinni á sumrin lætur Vegagerðin á Vesturlandi verktaka smala umferðaþyngstu vegina vikulega.

Fylgjast með sauðfé og bílum

Ferlið er yfirleitt þannig að þau aka eftir veginum og fylgjast með hvort þau sjái kindur á vegstæðinu, eða utan girðinga í návígi við þjóðveginn. Þau byrja gjarnan á að stugga við fénu með því að aka á eftir þeim flautandi. Þegar Jóhann er búinn að athuga hvort enginn bíll sé í návígi fer Harpa út. Kindurnar vita margar hvað er í vændum og hlaupa í burtu um leið og Kolur stekkur úr bílnum. Harpa skráir niður hvar þau stoppa og fjölda kinda á hverjum stað og eru gögnin notuð í tölfræði hjá Vegagerðinni.

Kindurnar rata oft aftur í göt á girðingunum, en víða eru hlið sem hægt er að hleypa þeim í gegn. Í Norðurárdal er stórt svæði þar sem þjóðvegurinn er ekki girtur, en þá hlaupa kindurnar yfir á. Þetta starf er á vissan hátt eilífðarverkefni þar sem margar kindur fari fyrr en seinna aftur á veginn. Harpa nefnir þó að kindurnar geti dólað sér í nokkra daga í öruggri fjarlægð frá veginum, eftir að þær hafa verið reknar.

Þar sem hjónin hafa sinnt þessu starfi í fimmtán ár þekkja þau leiðina afar vel. Þau vita því hvar öll hlið sem má reka í gegnum eru staðsett og hvert sé best að stugga fénu hverju sinni. Þau segja að þetta séu oft sömu kindurnar sem þau eru byrjuð að þekkja. Þau nefna dæmi um botnótta á með tveimur botnóttum lömbum, sem þau sáu alltaf á sama stað við þjóðveginn eitt sumarið. Í lok sumars hefur líklega einhver keyrt á ána, því þau hættu að sjá hana en lömbin héldu sig áfram á sama stað.

Harpa Jóhanna Reynisdóttir, Jóhann Pjetur Jónsson og smalahundurinn Kolur.

Frá Hvalfjarðargöngum að Holtavörðuheiði

Á fyrri smaladeginum, sem er fimmtudagur, hefjast hjónin handa við Borgarfjarðarbraut við Flókadal. Þar aka þau Borgarfjarðarbraut að Baulu. Þaðan aka þau Hringveginn í átt að Borgarnesi. Þá fara þau Snæfellsnesveg, alla leið að Hítará á Mýrum. Þar snúa þau við og smala veginn undir Hafnarfjalli og í kringum Akrafjallið. Eftir það aka þau Borgarfjarðarbrautina heim í Flókadal og smala því fé sem þau sjá á leiðinni.

Á seinni smaladeginum, sem er föstudagur, byrja þau við Baulu og smala féð við Hringveginn í Norðurárdal. Þau snúa svo við rétt ofan við Sveinatungu, við rætur Holtavörðuheiðarinnar. Á þessum vegarkafla er mestur ágangur fjár, en það leiti þangað úr Þverárhlíð.

Jóhann segir mikla breytingu hafa verið á ágangi fjár á þeim tíma sem Vegagerðin hefur látið smala áðurnefnda vegi. Forverar hans, sem sinntu starfinu frá því það var sett á laggirnar í kringum aldamótin, sögðust hafa þurft að fjarlægja upp undir 300 kindur af þjóðveginum í hverri viku. Mesti fjöldi kinda sem hjónin hafa þurft að reka í sumar voru 70 í einni viku. Algengast er að þau verði vör við 30 til 50 kindur. Jóhann og Harpa telja þetta skýrast af bættum girðingum og fækkun fjár.

Jóhann segir vandamálið oft vera að Vegagerðin heldur við sumum girðingum á meðan bændum hefur verið falið að sinna öðrum. Sumir bændur séu trassar, en oft þegar þéttbýlisbúar kaupi jarðir og stundi ekki búskap sé engu viðhaldi sinnt.

Skylt efni: smalamennska

Safnað fyrir Einstök börn
Líf og starf 26. apríl 2024

Safnað fyrir Einstök börn

Stóðhestaveisla Eiðfaxa var haldin 13. apríl í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli ...

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...