Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Hyundai Kona er einn af vönduðustu rafmagnsbílunum á markaðinum. Útlitið er nútímalegt og smekklegt og er upplifunin af akstrinum í flestum tilfellum  ánægjuleg.
Hyundai Kona er einn af vönduðustu rafmagnsbílunum á markaðinum. Útlitið er nútímalegt og smekklegt og er upplifunin af akstrinum í flestum tilfellum ánægjuleg.
Mynd / ÁL
Líf og starf 8. desember 2023

Kona í fremstu röð

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændablaðið fékk til prufu nýjustu útgáfu af rafmagnsbílnum Hyundai Kona í Style útfærslu, sem er næstdýrasta týpan.

Þetta er fólksbíll í meðalstærð og er á margan hátt eins og smækkuð útgáfa af Hyundai Ioniq 5, sem er afbragðsgóð bifreið. Þessi bíll tekur við af fyrstu útgáfu Hyundai Kona, sem var á tímabili einn mest seldi rafmagnsbíll landsins.

Ytra útlit bílsins er með því nútímalegasta sem gerist. Hyundai hefur tekist að gera „speisaðan“ bíl sem er ekki furðulegur og fráhrindandi. Nýi bíllinn er mun áhugaverðari á að líta en forverinn, en að þeim bíl ólöstuðum, þá var hann nokkuð lúðalegur. Mest áberandi eru framljósin, sem eru mjó lína sem nær þvert yfir fremsta hluta húddsins. Afturljósin eru jafnframt grönn lína sem nær þvert yfir skottlokið og til hliðanna. Þegar stigið er um borð tekur á móti manni innrétting sem ber merki um mikil gæði en engan óþarfa lúxus. Allt er af misdökkum gráum tónum, með áhugaverðri áferð á sumum stöðum, eins og plastlista sem lítur út eins og burstað stál. Það er nóg af geymsluplássi hér og þar, til að mynda stórir hurðavasar og myndarlegt hanskahólf.

Þá er geymsluplássið milli sætanna sérstaklega nytsamlegt. Þetta er stór bakki með tveimur glasahöldurum, sem er auðvelt að færa til hliðar, sem gerir hirsluna það víðáttumikla að hægt er að koma fyrir hálffullum innkaupapoka.

Panorama-skjár

Margmiðlunarskjárinn sem Hyundai býður er með þeim betri. Stýrikerfið er einfalt og fljótvirkt og er skjárinn breiður og langur (panorama), sem getur sýnt tvær til þrjár valmyndir samtímis. Notandinn getur stillt uppsetninguna eftir eigin höfði. Helstu skipunum fyrir miðstöð og útvarp er stjórnað með tökkum.

Fljótlegt er að tengja símann með Bluetooth. Bíllinn er með möguleika á Android Auto og Apple CarPlay, en þá þarf síminn að ná sambandi með snúru. Þegar kemur að því að hlusta á tónlist, hvort heldur sem er í útvarpinu eða Spotify, þá er hljóðkerfið undursamlegt. Hyundai er ekkert að grobba sig af því að hafa útbúið bílinn með Bose hátölurum, því merkið sést aðeins á tveimur mjög óáberandi stöðum. Hljóðgæðin ein og sér eru fullnægjandi ástæða til að fara á rúntinn.

Innréttingin er vönduð og með allt sem þarf.

Pláss fyrir fólk og farangur

Í Style útgáfunni eru sætin klædd með vönduðu tauáklæði. Þau eru mjúk og vel formuð með fjöldann allan af stillingum sem stjórnað er með rafmagni. Það er til að mynda stillanlegur mjóbaksstuðningur og halli á sessunni. Sætið fer mjög langt aftur, en það eru pínu vonbrigði að aðdrátturinn í stýrinu er heldur takmarkaður – sem er í stíl við Hyundai Ioniq 5. Hávaxnir ökumenn þurfa því að velja á milli þess að rétta úr fótunum eða teygja sig óralangt í stýrið.

Öll fimm sætin eru rúmgóð á alla vegu og geta fullorðnir einstaklingar vel við unað í aftursætunum. Þar eru jafnframt Isofix festingar fyrir barnabílstóla. Skottið er prýðilega rúmgott og nytsamlegt. Fljótlegt er að stilla hæðina á gólfinu, ýmist til að fá sem mest rúmmál, eða til að skotthlerinn flútti við gólfið í efri stöðunni. Síðarnefnda stillingin býður upp á að hafa lítið geymslupláss undir gólfinu, sem er mátulegt fyrir hleðslukapla og fjölnota innkaupapoka.

Aftursætin rúma fullorðna.

Mikil hljóðeinangrun

Akstur bílsins er áreynslulaus. Hann er lipur og léttur í stýri og fljótur að ná hámarkshraða. Þá er þessi bíll ekki með óhóflega stórar felgur, sem skilar sér í belgmiklum dekkjum sem gera bílinn mýkri og hljóðlátari en ella. Hljóðeinangrunin er því með besta móti og líður maður áfram í þögninni (eða góðri tónlist).

Nokkrar stillingar eru á hversu mikla mótstöðu mótorinn veitir þegar inngjöfinni er sleppt. Í hörðustu stillingunni nemur bíllinn alveg staðar án þess að ýtt sé á bremsufetilinn, sem er sérstaklega þægilegt í borgarakstri.

Hyundai Kona er einungis fáanleg með framhjóladrifi. Það kemur ekki að sök, enda nær bíllinn góðu gripi með spólvörn, stöðugleikastýringu og öðrum tæknibúnaði. Ekki tókst að láta bílinn spóla á malbiki þó blautt væri – þrátt fyrir að mótorinn skili 217 hestöflum. Dekkin missa smá grip ef allt er gefið í botn á malarvegi, en spólvörnin kemur í veg fyrir að bíllinn grafi sig ofan í jörðina.

Skottið er með hæðarstillanlegu gólfi sem eykur nytsemi þess.

Sparar ekki skammirnar

Þessi bíll er með býsna fullkomna akstursaðstoð. Ökumaðurinn fær hjálp við að halda sér á miðri akrein og vera í hæfilegri fjarlægð frá bílnum fyrir framan. Þetta minnkar álagið við aksturinn umtalsvert. Það þýðir samt ekki að hægt sé að horfa dreyminn út í bláinn og njóta tónlistarinnar, því bíllinn fylgist með þér. Hann skynjar ef athyglin er ekki á veginum og pípir eftir ákveðinn tíma

Þá leggst illa í bílinn ef ekið er yfir hámarkshraða og fær ökumaðurinn að heyra þrjú píp. Þetta kerfi er nytsamlegt við sumar aðstæður, enda finnst lítið fyrir hraðanum. En þar sem það er ekki alveg nákvæmt og óumburðarlynt, þá er það stundum óþolandi.

Sé ekið á jöfnum hraða á 70 þar sem hámarkshraðinn er 60 þá lætur bíllinn nægja að kvarta einu sinni. Sé hins vegar ekið á 61 eða rétt yfir hámarkshraða þá koma skammirnar með mjög reglulegu millibili.

Svo á bíllinn til að halda að skiltin sem segja að hámarkshraðinn á afreinum sé 50 eigi líka við um stofnbrautina og hikar því ekki við að gefa ökumanninum ákúrur.

Blessunarlega er pípið ekki mjög hvellt og það er hægt að slökkva á því. Það þarf hins vegar að fara í gegnum fimm skref á snertiskjánum í hvert sinn þegar kveikt er á bílnum, því þessi breyting vistast ekki. Þeir sem nenna því eru á grænni grein – fyrir okkur hin spillir þetta upplifuninni af akstrinum.

Afturljósin eru afgerandi og gefa sterkan svip.

Að lokum

Bíllinn í þessum prufuakstri kostar 7.390.000 krónur með virðis- aukaskatti hjá BL. Rafhlaðan í bílnum er 65 kílóvattstundir og á að skila 517 kílómetra drægni samkvæmt framleiðanda. Eins og alltaf er það óraunhæf tala og má reikna með að komast 400 til 500 kílómetra á fullri hleðslu.

Þessi bíll er gífurlega vandaður og er verðið nokkurn veginn á pari við aðra góða rafmagnsbíla.

Þeir sem hafa kynnst eldri útgáfunni af þessum bíl ættu að finna sína fjöl í þessum og geta auðveldlega réttlætt að skipta út gömlu Konunni fyrir nýja.

Skylt efni: prufuakstur

Berjaflóra Íslendinga
Líf og starf 10. september 2024

Berjaflóra Íslendinga

Ber eru nú í óðaönn að stinga upp kollinum og alltaf notalegt að fara eins og ei...

Brögðóttur Aðalsteinn
Líf og starf 10. september 2024

Brögðóttur Aðalsteinn

Briddssveitir Infocapital og Hótel Norðurljósa tókust á í höfuðstöðvum Bridgesam...

Sveppir fyrir húð, hár og heilsu
Líf og starf 9. september 2024

Sveppir fyrir húð, hár og heilsu

Nú þykir einhverjum fyrirsögnin sérkennileg, enda ef við hugsum okkur húð- eða h...

Að brúka bekki
Líf og starf 9. september 2024

Að brúka bekki

Nýverið kortlagði Vestmannaeyjabær tvær gönguleiðir þar sem tryggt er að ekki sé...

„Við vorum ekki Akureyringar“
Líf og starf 6. september 2024

„Við vorum ekki Akureyringar“

Rit Sögufélags Eyfirðinga, Súlur, er komið út og færir fjölbreytt efni að venju ...

Teflt á netinu
Líf og starf 6. september 2024

Teflt á netinu

Vinsældir netskákar náðu hámarki á Covid- tímunum og vinsælasti vefurinn, chess....

TTK, Tik Tok og skyr
Líf og starf 4. september 2024

TTK, Tik Tok og skyr

Haustið er farið að banka ansi hraustlega á gluggann hjá okkur flestum og hitatö...

Hvers vegna fólki líður vel í náttúrunni
Líf og starf 4. september 2024

Hvers vegna fólki líður vel í náttúrunni

Jörð, ár, fjöll og tré. Þögul gljúfur, iðandi lækir og gróskumiklar grænar lauti...

Brögðóttur Aðalsteinn
10. september 2024

Brögðóttur Aðalsteinn

Heimsframleiðslan 37 milljarða virði
10. september 2024

Heimsframleiðslan 37 milljarða virði

Manstu vorið?
10. september 2024

Manstu vorið?

Berjaflóra Íslendinga
10. september 2024

Berjaflóra Íslendinga

Af hverju lífræni dagurinn?
10. september 2024

Af hverju lífræni dagurinn?