Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Í öruggum heimi
Líf og starf 3. nóvember 2022

Í öruggum heimi

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Áhugaleikhúsið Hugleikur ber nú á borð sex einþáttunga sem hreyfa vel við áhorfendum. Hafa þeir allir komið fyrir augu fólks áður, yfir árin, en þó aldrei allir saman. Um ræðir verk Júlíu Hannam sem hefur getið sér afar gott orð á þeim vettvangi.

Júlía Hannam, leikkona og handverkshöfundur.

Júlía Hannam er höfundur þess sem gleðja mun áhorfendur og aðdáendur Hugleiks í nóvemberbyrjun, en sjálf lærði hún leiklist í San Francisco á árum áður – rétt eftir menntaskóla. Aðspurð segist Júlía þó ekki hafa farið á svið sjálf fyrr en í kringum 1994, þá með áhugaleikfélaginu Leyndir draumar þar sem hún sinnti lengi formannsstöðu og gekk um fimm árum síðar til liðs við Hugleik. Fjölskyldan var í forgrunni þó leiklistarbakterían hafi alltaf verið í blóðinu og því kom sér vel að standa á sviði áhugaleikhúss, enda vart hægt að hugsa sér skemmtilegra tómstundagaman. Í dag er Júlía ein þeirra mætu leikkvenna starfandi undir hattinum Leiklistarkonur 50+ og þar er margt skemmtilegt fram undan.

Einþáttungarnir sex

„Ástæðan fyrir því að einþáttungarnir sex eru settir á svið,“ segir Júlía, „er sú að mig langaði að styðja Hugleik, mitt gamla félag. Hugmyndina fékk ég frá góðri vinkonu sem gerði slíkt hið sama, nú síðastliðið vor, þá í tilefni stórafmælis hennar. Mér þótti þetta svo sniðugt – og átti nægt til í sarpinum sem hafði komið áður á fjalirnar og þótt skemmtilegt. Þannig ég valdi nokkra einþáttunga með aðstoð góðra kvenna og þykir gaman af því að þeir fái að lifna aftur við á sviðinu, jafnframt því að styrkja gott málefni.“

Í öruggum heimi

Við völdum semsagt alls sex þætti undir nafninu „Í öruggum heimi“ sem er auk heldur nafn á einum þættinum. Fjallar sá um að í raun er ekki allt sem sýnist. Ekki allt í hendi eins og menn vilja gjarnan ætla. Leikstjórinn er Hrefna Friðriksdóttir.

Síðan er verkið „Leit“. Því leikstýrir einn stofnfélagi Hugleiks og aldursforsetinn, rétt rúmlega áttræð, hún Unnur Guttormsdóttir. Fjallar „Leit“ um unga stúlku sem leitar að afa sínum. Næst má nefna verkið 

„Ég hefði ekki átt að segja þér þetta“ en þar er tekin fyrir sú hugmynd um að oft megi satt kyrrt liggja. Fólk lítur jafningja sína oft öðrum augum er þeir heyra af þeim sögur, sannar eða ekki.

Verkið „Stóllinn“ fjallar um vaktaskipti og er í leikstjórn Hrundar Ólafsdóttur. Svo eru það „Heilladísir“ sem Dýrleif Jónsdóttir stýrir. Þar er greint frá upplifun fólks á lífinu, sumir gefast upp á meðan aðrir halda í von um hamingju og betri tíð. Að lokum kemur svo „Hver er þessi Benedikt?“ í leikstjórn Ástu Gísladóttur og er um firringu markaðsaflanna.

Kvöldstund með meiru

Einþáttungana samdi Júlía yfir um 10 ára tímabil og geta þeir sem áður hafa fengið að njóta þeirra á sviðinu hlakkað til að sjá verkin nú í nýjum búningi. Verða sýningar þann 4. og 5. nóvember klukkan 20 í Funalind 2, húsnæði Leikfélags Kópavogs.

Miða er hægt að finna og panta á heimasíðu Hugleiks, www.hugleikur. is og kostar 2.000 kr. Annars verður posi á staðnum og einnig hægt að greiða með peningum. Er Hugleikur eitt þeirra áhugaleikhúsa sem naut ekki góðs af styrk frá borginni nú í ár og því um að gera að taka frá kvöldstund, njóta góðrar sýningar, sýna sig og sjá aðra.

Skylt efni: Áhugaleikhús

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...

Flugvélarflak í Eyvindarholti
Líf og starf 10. apríl 2024

Flugvélarflak í Eyvindarholti

Við Eyvindarholt undir Eyjafjöllum hefur gömlu flugvélarflaki verið komið fyrir....

„Hann gat ekki beðið“
Líf og starf 10. apríl 2024

„Hann gat ekki beðið“

Bændablaðið er mörgum ansi hjartfólgið enda nýtur blaðið mikils trausts meðal le...

Sefgoði
Líf og starf 10. apríl 2024

Sefgoði

Sefgoði er flækingur af goðaætt og fannst nýverið við Þorlákshöfn. Það er einung...

Fræ í frjóa jörð
Líf og starf 8. apríl 2024

Fræ í frjóa jörð

Fræbankar hafa á síðustu árum skotið upp kollinum hér og þar, en Svanhildur Hall...

Skyndibitar fyrir sálina
Líf og starf 5. apríl 2024

Skyndibitar fyrir sálina

Veitingar á vegum úti hafa í gegnum tíðina helst hljóðað upp á undirstöðugóðan a...

Íslensk tunga kveikir elda
Líf og starf 4. apríl 2024

Íslensk tunga kveikir elda

Undir Eyjafjöllunum skín alltaf sól segja sumir. Tíðarfarið, eins og víðast anna...

Viðburðaríkt ár framundan
Líf og starf 3. apríl 2024

Viðburðaríkt ár framundan

Landbúnaðarsafn Íslands rekur sögu sína til ársins 1940, þegar komið var upp saf...