Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Salthúsið sem staðsett er á milli Róaldsbrakka og Gránu á safnasvæði Síldarminjasafnsins. Unnið er að endurbótum og þeim lokið utanhúss en að innandyra eru mörg handtök eftir.
Salthúsið sem staðsett er á milli Róaldsbrakka og Gránu á safnasvæði Síldarminjasafnsins. Unnið er að endurbótum og þeim lokið utanhúss en að innandyra eru mörg handtök eftir.
Mynd / Ljósmyndasafn Síldarminjasafnsins
Líf og starf 14. ágúst 2019

Gestum á Síldarminjasafninu á Siglufirði fjölgaði um 12% á fyrri hluta ársins

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Gestum sem sótt hafa Síldar­minjasafnið á Siglufirði heim fyrstu sex mánuði ársins hefur fjölgað um 12% miðað við sama tímabil í fyrra. Mikil breyting hefur orðið á aðsókn á safnið, en gestir eru nú á ferðinni allan ársins hring.
 
Vetrarferðamennska á staðnum hefur tekið stakkaskiptum í kjölfar opnunar Héðinsfjarðarganga og má til gamans geta að fyrir tíu árum síðan, árið áður en göngin opnuðu, voru gestir safnsins fyrstu sex mánuði ársins tæplega 200% færri en þeir eru nú. 
 
Anita Elefsen safnstjóri segir að á liðnum árum hafi hvert aðsóknarmetið á fætur öðru verið slegið, en árið 2018 komu tæplega 28 þúsund gestir á Síldarminjasafnið og hafa aldrei verið fleiri. Nú er enn og aftur útlit fyrir að metaðsókn liðins árs verið toppuð.
 
Anita Elefsen, safnstjóri Síldarminjasafnsins á Siglufirði, segir að mikil breyting hafi orðið á aðsókn á safnið, en gestir eru nú á ferðinni allan ársins hring.
 
Erlendir ferðamenn um 70% safngesta
 
Anita segir að mikil umskipti hafi orðið í kjölfar þess að Héðinsfjarðargöng voru opnuð árið 2010. „Sú samgöngubót leiddi til þess að við fáum nú gesti allan ársins hring, þó vissulega sé enn mikill árstíðamunur og umferð er mest að sumarlagi eins og gefur að skilja.“ Erlendir ferðamenn eru ríflega 70% gesta safnsins og hefur þeim fjölgað ár frá ári. Það má meðal annars rekja til þess að sífellt fleiri skemmtiferðaskip staldra við á Siglufirði og gestir þeirra sækja safnið í töluverðum mæli.
 
Anita segir að árið í ár verði líklega engin undantenkning. „Við höfum nú í sumar fengið mikinn fjölda fólks til okkar í skipulögðum heimsóknum og enn er von á fleiri slíkum það sem eftir lifir sumars. Að auki fáum við fjölmarga aðra gesti sem eru á eigin vegum,“ segir hún.
 
Safnastarfið tekur töluverðum breytingum yfir sumarið, en þá gefst minni tími til rannsókna, skráningar og annarra faglegra starfa og gestamóttaka og miðlun verður veigamest. 
 
70 bókaðar síldarsaltanir í sumar
 
Síldarminjasafnið hefur um árabil sett upp síldarsaltanir á planinu við Róaldsbrakka, þar sem síldarstúlkur sýna gömlu handtökin við að hausskera, slógdraga og leggja síldina niður í tunnur. Það er jafnframt sungið, dansað og slegið upp bryggjuballi en tilgangurinn er að vekja upp gamla andann af síldarplönunum sem og að varðveita verkþekkinguna. Anita segir sýningarnar alla tíð hafa notið mikilla vinsælda og er þar ekkert lát á því í sumar eru 70 sýningar bókaðar. „Það er heilmikið umstang í kringum hverja sýningu, bæði hvað varðar undirbúning og frágang. En þetta væri ekki mögulegt án síldargengisins svokallaða. Síldarstúlknanna og -strákanna sem halda uppi fjörinu og eru mikilvægur þáttur í miðlun til gestanna,“ segir Anita. 
 
Síldina fær safnið heilfrysta frá Síldarvinnslunni í Neskaupstað og með auknum vinsældum er sífellt meiri síld verkuð á planinu við Róaldsbrakka. Að hverri sýningu lokinni er síldinni umsaltað og hún pækluð, og er svo nýtt til fóðurs fyrir bæði hross og sauðfé hjá bændum í nágrannabyggðum.
 
Síldarminjasafnið hefur um árabil sett upp síldarsaltanir á plan­inu við Róaldsbrakka, þar sem síldarstúlkur sýna gömlu hand­tökin við að hausskera, slógdraga og leggja síldina niður í tunnur.
 
Endurbætur standa yfir á Salthúsi
 
Sýningar Síldarminjasafnsins eru í fimm húsum; í Róaldsbrakka, Gránu og Njarðarskemmu, Bátahúsinu og Gamla Slippnum, samtals á um 2500 fermetrum að grunnfleti sem  gerir safnið að einu því stærsta hér á landi. Unnið er að endurreisn Salthússins svonefnda, en það hús var flutt til Siglufjarðar sjóleiðina frá Akureyri árið 2014. Það er um 600 fermetrar að stærð, á tveimur hæðum og því hefur verið komið fyrir á miðri safnlóð Síldarminjasafnsins, á milli Róaldsbrakka og Gránu. Endurbætur hafa staðið yfir frá árinu 2014 og er það nánast fullgert að utan, en innanhúss bíða allmörg handtök.
 
Í húsinu verður varðveislurými fyrir safnkost auk sérútbúinnar ljós­mynda­­geymslu. Gert er ráð fyrir að safn­­verslun verði í húsinu sem og kaffihús. Á efri hæð stendur til að setja upp nýja sýningu sem fjallar um vet­ur­­inn í síldarbænum, atvinnulífið utan síldarvertíðarinnar og félags- og mann­lífið á Siglufirði almennt.

5 myndir:

Uppskipun á áburði
Líf og starf 15. apríl 2025

Uppskipun á áburði

Einn af vorboðunum er innflutningur á tilbúnum áburði til túnræktar.

Samspil ljóss og hljóðs veitir vellíðan
Líf og starf 15. apríl 2025

Samspil ljóss og hljóðs veitir vellíðan

Bryndís Bolladóttir vakti fyrst athygli vegna hönnunar sinnar á Kúlunni, hljóðde...

Glæsileg vörn
Líf og starf 15. apríl 2025

Glæsileg vörn

Við sögðum í síðasta briddsþætti frá snjallri sagnvenju á Norðurlandamóti bridds...

Í lok vertíðar
Líf og starf 14. apríl 2025

Í lok vertíðar

Eftir því sem líða fer að sumri ljúka áhugaleikhús landsins sýningum sínum, en a...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 14. apríl 2025

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn gengur nú inn í tímabil þar sem gott er að vinna að nýjum hugmyndum ...

Bæjarnöfn á ská og skjön
Líf og starf 11. apríl 2025

Bæjarnöfn á ská og skjön

Nöfn íslenskra bæja og býla til sveita eru fjölskrúðug, svo ekki sé dýpra í árin...

Prjónavetri lýkur
Líf og starf 10. apríl 2025

Prjónavetri lýkur

Íslenskur prjónaiðnaður hættir aldrei að vera móðins enda hefur Listasafn Sigurj...

Falleg sumarpeysa
Líf og starf 9. apríl 2025

Falleg sumarpeysa

Falleg peysa fyrir sumarið, prjónuð úr DROPS Muskat eða DROPS Belle sem er á 30%...