Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Framleiða íslenskar tómatasultur með mið-amerískum blæ
Mynd / ehg
Líf og starf 4. janúar 2021

Framleiða íslenskar tómatasultur með mið-amerískum blæ

Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir

Mæðgurnar Andrea Maria Sosa Salinas og Silvia Dinora Salinas Martinez eru búsettar í Borgarnesi en koma frá El Salvador í Mið-Ameríku. Nýverið hófu þær framleiðslu á handgerðum tómatasultum úr tómötum og blanda saman við þá alls kyns kryddum. Vinsældirnar létu ekki á sér standa og nú framleiða þær mæðgur fjórar tegundir af tómatasultum án aukaefna undir vörumerkinu Olivia´s Gourmet og hafa ekki undan að framleiða. 

„Við erum afar þakklátar fyrir viðtökurnar og stefnum á að koma sultunum inn í verslanir Krónunnar bráðlega í gegnum Samtök smáframleiðenda matvæla. Núna erum við komnar með fjórar tegundir sem við vinnum með, sumt úr grænum tómötum sem þroskast ekki og væri annars illa nýtt en jólasultuna gerum við úr rauðum tómötum og blöndum við hana appelsínu, kanil, púðursykri, engifer, negul og vanillu. Hinar eru með appelsínubragði, myntu og chili,“ segir Andrea sem er konditori að mennt. 

Silvia, Bjargey, Olivia og Andrea kampakátar með Olivia´s Gourmet-sulturnar sem framleiddar eru í Borgarnesi og fást nú í fjórum bragðtegundum.

Framleiða í 240 krukkur í einu

Bjargey Magnúsdóttir, tengdamóðir Andreu, er samstarfsaðili þeirra mæðgna en þær leigja aðstöðu hjá Matarsmiðju Vesturlands fyrir framleiðsluna. Signý Óskarsdóttir hefur verið þeim innan handar varðandi viðskiptahlið verkefnisins og vinkona Andreu, Monica Gómez, sem er grafískur hönnuður, sá um hönnun umbúða. 

„Við höfum verið að framleiða einu sinni í mánuði en tvisvar núna í desember fyrir jólin. Í hvert sinn framleiðum við úr um 50 kílóum af tómötum sem gefa í kringum 240 krukkur af fullunninni vöru. Þetta hefur gerst mjög hratt frá því að við byrjuðum og spurst út svo við náum að selja allt sem við framleiðum,“ segir Andrea og bætir við:

„Þetta byrjaði allt síðasta sumar þegar ég ræddi við vini mína um að mig langaði að gera eitthvað úr grænum tómötum og kynna Íslendinga fyrir latín-amerískri matargerð. Ég var með salsa fyrst í huga en eftir að vinur minn ræddi við garðyrkjubændur hér í nágrenninu og fékk hjá þeim græna tómata sem annars eru illa nýttir þróaðist þetta út í að gera marmelaði í fyrstu tilraun og síðan salsa enda fengum við svo mikið magn af tómötum. Það varð mjög vinsælt, svo eftir nokkra tilraunastarfsemi urðu til þessar sultur.“

Andrea Maria Sosa Salinas, einn af frumkvöðlunum á bak við tómatasulturnar Olivia´s Gourmet, er hér í óðaönn að bæta út í jólasultu fyrirtækisins.

Úrvals með ostum, hráskinku og silungi

Andrea kom hingað til lands fyrir fjórum árum og hefur líkað vel. Hún kynntist manni sínum, Eyþóri Orra Þórðarsyni frá Borgarnesi, og eiga þau dótturina Oliviu sem vörumerkið er kennt við. 

„Við höfum selt sulturnar í gegnum samfélagsmiðla og keyrum þær til fólks hér í Borgarnesi. Þegar við náum upp í nógu stóra pöntun keyrum við líka til Reykjavíkur. Við eigum einnig vini í Sviss og Svíþjóð sem hafa sýnt sultunum áhuga og vilja prófa að koma þeim á markað þar. Varan er 100% náttúruleg og við leggjum mikið upp úr því. Viðtökurnar hafa verið framar vonum og höfum við fengið mjög jákvæða endurgjöf á bragð og gæði sultanna. Mörgum finnst gott að borða þetta með alls kyns ostum og hráskinku en einnig með silungi sem dæmi,“ segir Andrea og bætir við:

„Þetta er lítið fjölskyldufyrirtæki og mjög skemmtilegt fyrir okkur mæðgurnar að geta verið í þessu saman. Tengdamamma mín, Bjargey, kom líka inn í þetta og hún var sú fyrsta til að styðja okkur með hugmyndina og erum við mjög þakklátar fyrir það. Síðan verðum við að sjá hvernig þetta þróast, við erum með endalausar hugmyndir í kollinum að nýjum bragðtegundum í tómatasultunni en einnig að gera eitthvað annað, eins og til dæmis íslenska salsasósu með suður-amerískri ástríðu.“

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 15. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn er eitthvað órór þessa dagana enda einhver stífla á verkefnum í krin...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 12. júlí 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Bænder
Líf og starf 12. júlí 2024

Bænder

Sumir fara á Tinder. Aðrir hafa ekki tíma í slíkt vegna anna í búskapnum. Hér, k...

Vættafundur á Eyjabökkum
Líf og starf 10. júlí 2024

Vættafundur á Eyjabökkum

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Oddbjörgu Sigfúsdóttur.

Sumarkveðja
Líf og starf 10. júlí 2024

Sumarkveðja

Nú þegar lífið kviknar með sumrinu og golan leikur við kinn, skulum við gleðjast...

Himbrimi
Líf og starf 9. júlí 2024

Himbrimi

Himbrimi er nokkuð stór vatnafugl og er einn af einkennisfuglum íslenskra heiðav...

Sumarsveiflan 2024
Líf og starf 8. júlí 2024

Sumarsveiflan 2024

Áherslur tískunnar fara nokkuð vítt og breitt þetta árið en nú þegar er farið að...

Dugur og elja ofar öllu
Líf og starf 8. júlí 2024

Dugur og elja ofar öllu

Eitt þeirra mætu kvenfélaga sem hér á landi sitja er Kvenfélag Hringsins sem hef...