Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Hulda Brynjólfsdóttir í Uppspuna er í forsvari fyrir íslensku þátttakendurna.
Hulda Brynjólfsdóttir í Uppspuna er í forsvari fyrir íslensku þátttakendurna.
Mynd / smh
Líf og starf 19. apríl 2021

Framlag Íslands var meðal annars myndband um hvernig garn verður til

Höfundur: smh

Fyrsti Evrópski ullardagurinn var haldinn á föstudaginn. Ísland var þátttakandi í viðburðinum sem fór fram með fjarfundarfyrirkomulagi en um útsendingu sá sjónvarpsstöð í Róm á Ítalíu.

Ísland er aðili að félagsskap sem stofnaður var utan um þennan viðurð og heitir European Wool Exchange og er Hulda Brynjólfsdóttir í forsvari fyrir íslensku þátttakendurna, en hún er framkvæmdastjóri smáspunaverksmiðjunnar Uppspuna og sauðfjárbóndi í Lækjartúni nálægt austurbökkum Þjórsár. „Heitið á félagsskapnum er skammstafað EWE, en það er enska orðið yfir kvenkyns sauðkind.“

Róandi handavinna

„Á Kýpur er prófessor í skurðlækningum, sem kominn er á eftirlaun, styrktur af landbúnaðarráðuneytinu þar í landi til að efla vitund fólks fyrir evrópskri ull og nýtingarmöguleikum hennar.

Hann veitti því athygli í sínu starfi að fólk, sem kom með prjónana með sér í skurðaðgerð, var ekki eins stressað þegar það kom í aðgerð og yfirleitt fljótara að jafna sig eftir aðgerðir en þeir sem ekki höfðu neitt milli handanna.

Heilbrigðisfólk fór að velta fyrir sér þessari staðreynd og nota handavinnu til að aðstoða fólk sem á við veikindi að stríða eða er að jafna sig eftir aðgerðir. Það varð strax kappsmál að nýta efni sem væri náttúruvænt og gott fyrir umhverfið til að nota í handavinnuna og kom ullin þar sterk inn. Ákveðið var að leita leiða til að sameina gæði ullarinnar og handavinnu sem læknisaðferð og sýna fólki fram á að ull er hráefni sem vert er að sýna virðingu og nýta betur en gert er í dag.

Stofnaður var hópur um verkefnið sem síðan var víkkaður út til fleiri landa í Evrópu og innan skamms voru komnir fulltrúar í hópinn úr fjölmörgum Evrópulöndum,“ segir Hulda um forsögu þessa viðburðar.

Fræðslumyndbönd um ullarvinnslu

„Annar hópur í Evrópu sem í eru framleiðendur ullar, bændur, ullarvinnslufólk og vísindafólk tengt ull, sameinaðist þessum hópi í því að tala máli ullar á sem víðustum grunni og ákveðið var að halda fyrsta Evrópudag ullarinnar 9. apríl síðastliðinn,“ útskýrir Hulda.
Hún fór því á stúfana og hafði samband við tengiliði sína um allt land og hvatti þá til að taka þátt í deginum á einn eða annan hátt og láta vita af því á Facebook eða öðrum miðlum.

„Evrópska ullardeginum var streymt beint frá Róm á Ítalíu frá því klukkan átta um morguninn til klukkan 17. Þangað sendi fólk úr öllum löndum inn myndbönd eða fréttaglærur um ull og hvað verið er að gera í þeirra landi fyrir ull og úr ull. Ég sendi til að mynda inn myndband um hvernig garn verður til sem heitir How yarn is made. Í myndbandinu fer ég yfir ferlið frá fjárhúsi til fullunninnar flíkur á skýran og lifandi hátt,“ segir Hulda.

Góð þátttaka um allt land

„Þetta var alveg frábær dagur. Það var svo gaman hversu vel fólk tók í þetta og hversu mikið var gert.

Um allt land voru uppákomur eins og leyfilegt var að hafa þær nú þegar Covid setur okkur hömlur. Fólk hittist í smáum hópum og prjónaði, spann, óf eða eitthvað annað tengt ull. Opið var í verslunum og afslættir á ullargarni eða ullarvörum hér og þar um landið.
Ég sá til dæmis útsendingu frá Prjónagleðinni á Blönduósi, þar sem þau fóru í heimsókn í Skagafjörð og víðar og hittu þar handverksfólk við vinnu sína og sýndu beint frá því, og einnig í fjárhús í Húnavatnssýslunni, enda nauðsynlegt að leyfa kindinni sem gefur okkur þetta hráefni að vera með í þessum viðburði.

Í Eyjafirði stóð Handraðinn fyrir þremur viðburðum (vegna fjöldatakmarkana) í firðinum. Það var prjónað og ofið og spunnið á hverjum stað og samvera nýtt í að búa til gersemar úr ull.

Hér eru Ingibjörg Sveinsdóttir og Sigurlaug Steingrímsdóttir, Spunasystur í Uppspuna. Mynd / Úr einkasafni

Í Uppspuna komu Spunasystur saman með rokkana sína og horfðu saman á streymið frá Ítalíu og í Þingborg og Ullarselinu á Hvanneyri var opið og tilboð í gangi.

Forystusetrið opnaði sýningu um ull af forystufé og ætlaði að vera með prjónakeppni en henni var frestað vegna samkomutakmarkana.
Gilhagi sýndi frá vinnslunni sinni og þau í ÍSTEX stóðu vaktina og unnu ull allan daginn.

Við í Uppspuna fengum að taka yfir Instagram-reikning frá hópnum Prjónum saman og sýna frá vinnslunni og okkur sjálfum allan daginn, auk þess að vera sýnileg á okkar eigin miðlum, þannig að það var reynt að vera eins víða og áberandi og við komumst upp með og ég held að það hafi bara tekist,“ segir Hulda um þátttökuna á Evrópska ullardeginum.

Gekk ótrúlega vel

Hulda segir að streymisútsendingin hafi tekist mjög vel og hafi komið á óvart hversu vandræðalítið allt saman gekk fyrir sig, miðað við hversu umfangsmikinn viðburð var að ræða.

Ég dáðist alveg að tímasetningum og hversu skemmtileg mörg myndböndin voru. Ég á að sjálfsögðu eftir að horfa á eitthvað af þessu, en það er hægt að fara inn á Facebook-síðu viðburðarins til að horfa á streymið. Auðvitað eru einhverjir hnökrar sums staðar, en þetta voru 25 lönd eða meira sem tóku þátt í þessu og sendu inn efni og þá eru líkur á að eitthvað sé ekki fullkomið. Ég mæli með að kíkja á þetta, það er mjög gaman að sjá hvað Evrópubúar eru að fást við.

Ég á eftir að fá fréttir frá nokkrum aðilum um hvað gert var, en það var mjög gaman að sjá viðbrögðin og finna hvað fólk var áhugasamt og tilbúið til að taka þátt í þessu með mér. Ég get sagt frá mörgu á næsta fundi með Ullarhópunum í Evrópu.“

Landakort þar sem búið er að merkja öll þau lönd sem tóku þátt.

Verður örugglega framhald

Hulda gerir fastlega ráð fyrir að framhald verði á slíkum viðburðum, enda sé talað um „fyrsta Evrópska ullardaginn“ í heitinu. „Það var allan tímann gert ráð fyrir að þeir yrðu fleiri. Það er gríðarlegur áhugi á ull í heiminum öllum. Prjónafólk sækir orðið meira og meira í ullina. Spunafólk, vefarar, þæfingarfólk, heklarar, útsaumur – nefndu það, það er hægt að nota ull í allt mögulegt.

Á næstu dögum munu liggja fyrir niðurstöður úr Ullarþoninu sem Textílmiðstöðin á Blönduósi stóð fyrir um daginn og gaman að sjá hvað kemur út úr þeirri hugmyndavinnu. Ég sé ekki annað en að ull eigi sér glæsta framtíð, því ull er gull.“

Siggi Dan gegn Sævari
Líf og starf 4. október 2024

Siggi Dan gegn Sævari

Í þessum skákpistli hefur áður verið birt skák sem Sigurður heitinn Daníelsson t...

Sýn féhirðis á sauðkindina:
Líf og starf 2. október 2024

Sýn féhirðis á sauðkindina:

Að bera fé: Afklæða kind. Aflafé: Kindur sem stunda veiðiskap. Áhættufé: Fífld...

Ávaxtakarfan í Hveragerði
Líf og starf 2. október 2024

Ávaxtakarfan í Hveragerði

Eins og vani er á haustin eru áhugaleikhúsin komin á fullt og eitt þeirra, Leikf...

Mannlífið í réttum
Líf og starf 1. október 2024

Mannlífið í réttum

Réttir eru mannfögnuður og annáluð lopapeysupartí. Magnús Hlynur Hreiðarsson, fa...

Ljósið sigrar myrkrið
Líf og starf 1. október 2024

Ljósið sigrar myrkrið

Seint í september, um svipað leyti og heyskaparlok, fjárleitir og upphaf sláturt...

Blítt og létt í Ölfusrétt
Líf og starf 30. september 2024

Blítt og létt í Ölfusrétt

Sólin skein á gangnamenn og gesti Ölfusréttar sunnudaginn 15. september síðastli...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 30. september 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn þarf að vera opinn fyrir nýjungum í takt við þau skref sem hann hefu...

Tjaldur
Líf og starf 25. september 2024

Tjaldur

Tjaldur er stór og auðþekkjanlegur vaðfugl sem finnst um allt land. Tjaldar eru ...