Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Búin að vera í þrjátíu og eitt ár að gera verksmiðjuna upp
Líf og starf 12. júlí 2016

Búin að vera í þrjátíu og eitt ár að gera verksmiðjuna upp

Höfundur: Vilmundur Hansen

Hjónin Eva Sigurbjörnsdóttir og Ásbjörn Þorgilsson fluttu til Djúpavíkur fyrir rúmum þrjátíu árum og stofnuðu hótel sem þau reka í dag. Hótelið er í húsi sem var svefnaðstaða söltunarkvenna við síldarverksmiðjuna í Djúpavík. Í haust verður verksmiðjan sviðsmynd í stórri Hollywood-kvikmynd.

Ásamt því að kaupa kvennaskálann undir hótelrekstur keyptu þau einnig gömlu síldarverksmiðjuna í Djúpavík, sem Ási hefur verið að gera upp í þrjátíu og eitt ár.

Ási segir að verksmiðjan sé 22 þúsund rúmmetrar, eða sex þúsund fermetrar að flatarmáli. „Þegar menn eru með söfnunareðli er eitt og annað sem þarf að geyma og taka til handargagns ef ske kynni að hægt væri að nýta það seinna. Ég er lítið fyrir að henda hlutum þrátt fyrir að hætt sé að nota þá tímabundið og því gott að hafa nóg pláss til að geyma hluti.“

Stærsta steinsteypta hús landsins

Framkvæmdir við byggingu síldarverksmiðjunnar í Djúpavík hófust vorið 1934 en í september sama ár var hlutafélagið Djúpavík stofnað í Reykjavík, nánar tiltekið á Hótel Borg. Markmið félagsins var að reka síldarverksmiðju í Djúpavík og stærstu hluthafar voru Útgerðarfélagið Alliance og Einar Þorgilsson & Co.

Þegar verksmiðjan tók til starfa 1935 var hún stærsta bygging landsins úr steinsteypu. Mölinni og sandi í steypuna í verksmiðjuna var ekið frá Kjós í Reykjafirði á fimm Ford-vörubílum sem báru hálft annað tonn og steypan hrærð á staðnum.

Verksmiðjan var búin nýjum og fullkomnum tækjum til lýsis- og mjölvinnslu á mælikvarða síns tíma og árangurinn var góður. Fastir starfsmenn voru um sextíu og vel á annað hundrað manns unnu við söltunina auk fólks í mötuneytinu og á skrifstofu verksmiðjunnar.

Verksmiðjan var í notkun í tuttugu ár en eftir að síldin hvarf kom upp sú hugmynd að breyta verksmiðjunni í frystihús en úr því varð ekki. Engin starfsemi var í húsinu í mörg ár, eða þar til Ási fór að taka til og gera hana upp.

Allt mjög nákvæmt

Ási segir að eftir þessi þrjátíu ár sem hann hefur verið að stússa í verksmiðjunni þekki hann húsnæðið orðið mjög vel og rati um það blindandi. „Á þessum árum hefur auðvitað ýmislegt komið á óvart. Hingað kom einu sinni Norðmaður sem var í námi í arkitektúr og eyddi drjúgum tíma í að mæla og teikna verksmiðjuna upp. Það sem er einna athyglisverðast við bygginguna er hversu allt er nákvæmlega byggt. Bil á milli súlna eru öll nákvæmlega jafn stór og þar fram eftir götunum.

Það sem verst hefur farið með verksmiðjuna eftir að notkun hennar var hætt er leki og vatn. Síðastliðin þrjú ár hef ég ásamt öðrum verið að setja tjörupappa ofan á þökin til að stöðva leka og í dag lekur þakið ekki lengur. Næsta skref er að sandblása steypuskemmdir og gera við þær.“

Endist ekki aldur til að klára verkið

Ási segist ekki gera sér neinar grillur um að honum endist aldur til að koma verksmiðjunni í það horf sem hann vill sjá hana í. „Fyrstu tuttugu árin sem ég var hér var árangurinn af vinnunni fremur lítill og flestir héldu að ég væri stjörnugalinn að standa í þessu. Fyrir tíu árum snerist dæmið við og árangurinn fór að koma í ljós.

Mér hefur sem betur fer tekist að smita afkomendur mína svo rækilega að þessari þráhyggju minni að þeir eru eiginlega farnir að taka fram úr mér í hugarflugi um hvað hægt sé að gera við húsið.“

Óþrjótandi möguleikar

„Við Eva förum fljótlega að draga okkur til hlés og unga fólkið tekur smám saman við og þá kemur í ljós með framhaldið. Möguleikarnir hér eru óteljandi og ef ég hugsa til upphafsins þá hefði mér aldrei dottið í hug allt sem búið er að gera og hvað hefur verið gert hér.

Hér hefur verið haldinn sirkus, skákmót, Sigur Rós var með tónleika og það verða hér þrjú brúðkaup í sumar. Í dag eru hér fjórar myndlistarsýningar og í haust verður tekin upp stór Hollywood-mynd hér.“
Ási er þögull sem gröfin þegar hann er spurður um hvaða mynd sé að ræða en segir að fyrirtækið sem framleiðir myndina sé búið að leigja hótelið í haust og að von sé á 200 manns í Djúpavík til að vinna að myndinni. „Auk þess að leigja hótelið er von á skemmtiferðaskipi þar sem fólkið mun gista meðan á tökum stendur.“

Bryndís og Rosemary
Líf og starf 5. nóvember 2024

Bryndís og Rosemary

Kunnar briddskempur, Bryndís Þorsteinsdóttir og Rosemary Shaw, eru Íslandsmeista...

Lopi leiðtoganna
Líf og starf 4. nóvember 2024

Lopi leiðtoganna

Íslenska ullin hefur lengi verið aðaluppistaðan í klæðnaði hérlendis og staðið a...

„... smalinn er alkominn heim“
Líf og starf 4. nóvember 2024

„... smalinn er alkominn heim“

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Stephan G. Stephanssyni.

Kýrbyrjunin eða Cow opening
Líf og starf 1. nóvember 2024

Kýrbyrjunin eða Cow opening

Í skák eru til mjög margar byrjanir, sem í gegnum tíðina hafa fengið ýmis nöfn. ...

Sparneytinn sjö manna jepplingur
Líf og starf 31. október 2024

Sparneytinn sjö manna jepplingur

Bændablaðið fékk til prufu Kia Sorento Plug-in Hybrid. Hér er á ferðinni stór sj...

Limrur og léttar hugleiðingar
Líf og starf 31. október 2024

Limrur og léttar hugleiðingar

Þorsteinn G. Þorsteinsson er höfundur nýrrar bókar, Limrur og léttar hugleiðinga...

Húllumhæ á áttræðisafmælinu
Líf og starf 30. október 2024

Húllumhæ á áttræðisafmælinu

Árið 1944 var Leikfélag Blönduóss formlega stofnað og starfaði nánast óslitið fr...

Heil vika til eflingar íslenskri sauðfjárrækt
Líf og starf 30. október 2024

Heil vika til eflingar íslenskri sauðfjárrækt

Þann 5. október síðastliðinn lauk ævintýralegri viku sem haldin var að frumkvæði...