Biblía allra tískuunnenda
Eitt áhrifamesta tískutímarit veraldar er án efa Vogue. Þetta eitt mest áberandi tímarit heims hefur haft mikil áhrif á þróun tískublaðaiðnaðarins og heldur áfram að móta nútíma tískustrauma svo og vitund um betri veröld.

Ekki bara þegar kemur að tísku heldur einnig meðvitund um manneskjuna í heild sinni og svo vistkerfi jarðar.
Upphaflega, árið 1892, var Vogue stofnað sem vikurit ætlað hástétt New York-borgar undir ritstjórn Josephine Redding. Í því mátti skemmta sér við lestur um félagslíf borgarinnar, hefðir og siði hástéttar, hvað þótti móðins og hvað ekki. Einnig voru í því umfjallanir um helstu bókmenntir, leiksýningar og tónlist. Árið 1909 keypti Condé Nast Publications (sem í dag á m.a. House & Garden, GQ og The New Yorker) vikuritið Vogue og breytti því í tískutímarit fyrir konur, með áherslu á fegurð, útlit og innri mann.
Staðalímyndum steypt
Tímaritið varð fljótlega þekkt fyrir áberandi ljósmyndir og skemmtileg og fróðleg skrif ritstjórnar. Condé Nast réð bestu teiknara og ljósmyndara þess tíma sem og framleiddu fágaðar og stundum byltingarkenndari forsíður fyrir tímaritið en áður höfðu þekkst. Sem dæmi, árið 1932 varð Vogue eitt af fyrstu tímaritunum til að prenta litmynd á forsíðunni. Á sjöunda áratugnum endurskilgreindi þáverandi ritstjóri, Diana Vreeland, útlit kvenfyrirsæta – frá því að vera þéttvaxnar og lögulegar yfir í mun grennri og kynhlutlausari líkamsbyggingu, eitthvað sem fyrirsætan Twiggy var þekkt fyrir.

Forsíðu Vogue í ágúst 1974 prýddi svo fyrsta fyrirsætan sem var dökk á hörund, Beverly Johnson, en á þeim tíma voru hörundsdökkar fyrirsætur ekki beinlínis uppi á pallborðinu þegar kom að módelstörfum. Í kjölfar forsíðu Vogue tóku þó helstu blaðaútgáfur við sér og þótti hámóðins að birta svipaðar myndir í fjölmiðlum.
Tískumógúllinn Hubert de Givenchy bætti þó um betur og réði nær einungis til sín hörundsdökkar fyrirsætur fyrir sýningu sem fór fram um þessar mundir. Má nærri geta hversu smart það þótti en þarna var verið að kollsteypa þeim staðalímyndum sem áður höfðu verið í fyrirrúmi.
Vistkeðja í jafnvægi

Vogue Scandinavia, sem fór í loftið nú 2021, hefur frá upphafi haft það að markmiði að gera fjölmiðlaiðnaðinn vistvænni. Þó augljóst sé að engin prentuð útgáfa geti nokkurn tíma verið fullkomlega sjálfbær, hafa yfirmenn Vouge Scandinavia gert allar mögulegar ráðstafanir til að tryggja að sú losun spilliefna og koltvísýrings sem verður til við framleiðsluna skili sem minnstum áhrifum á plánetuna. Á vefsíðu þeirra kemur fram að fyrsta verkefni þeirra hafi verið að tryggja að við framleiðslu tímaritsins verði sem fæst vistfræðileg fótspor. „Markmið okkar er að skila meira til baka en við neytum, að hafa kolefnisjöfnun að leiðarljósi með tilliti til allrar virðiskeðjunnar,“ segir Mariann Jacobsson, yfirmaður sjálfbærni Vogue Scandinavia. „Við vonumst til að hvetja hagsmunaaðila okkar, starfsfélaga og dygga lesendur til að gera litlar breytingar til góðs, því jafnvel lítil skref með vistkerfi jarðar í huga skapar hreyfingu á málunum.“
Kemur fram á vefsíðunni að það sé nokkuð háleitt markmið að vilja hrófla við hefðbundnu fjölmiðlalandslagi og eitthvað sem þurfti að íhuga vel. Forsvarsmenn sjálfbærnistefnu Vogue fóru því í samstarf við eitt elsta pappírsfyrirtæki heimsins, Stora Enso, sem hefur aðsetur í Helsinki, og hófu breytingu í átt að endurnýjanlegum pappír og umbúðum. Samvinnan tryggir að hvert skref framleiðsluferlisins sé gert með náttúruna og umhverfið í fyrirrúmi. M.a. var plastumbúðum tímarita skipt út fyrir endurnýjanlegar, kolefnishlutlausar, viðartrefjaumbúðir, prentað er á endurnýjanlegan pappír og tvær plöntur eru gróðursettar fyrir hvert tré sem notað er – til að tryggja að skilað sé meiru til baka en tekið er.
Ljósmyndalaust eintak

Á meðan Vogue Scandinavia hefur frá upphafi haft vistvæna stefnu að leiðarljósi hefur að sama skapi Vogueveldið eins og það leggur sig verið vakandi fyrir því gegnum árin.
Áhuga vakti forsíða fyrsta tölublaðs ítalska Vogue árið 2020 – sem var teikning, auk þess sem áhugasamir lesendur komust að því að í blaðinu var ekki að finna eina einustu ljósmynd. Í yfirlýsingu frá þeim kom fram að með þessu móti væri ekki verið að notast við raunverulegan fatnað, notkun á myndavélum eða öðru sem skilur undantekningarlaust eftir sig slóð umhverfiskostnaðar.
Til viðbótar sparaðist heilmikill rekstrarkostnaður, en á bak við hverja tískumynd eru fyrirsætur, ljósmyndarar, stílistar, förðunarfræðingar og áfram má lengi telja. Það þarf að ferðast í myndatökur, viðstaddir þurfa að borða, klæðast aðsendum tískufatnaði og þar fram eftir götunum. Allir þessir þættir valda óvistvænum áhrifum á heiminn, einungis til þess að hægt sé að birta glansmynd á síðum tímarits ... sem fer svo í ruslið.
Taka skal fram að þeir peningar sem spöruðust við útgáfuna fóru í söfnun til styrktar fórnarlömbum Feneyjaflóða þess árs.