Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Björgvin Filippusson stofnaði KOMPÁS Þekkingarsamfélag sem hann lýsir sem eins konar verkfærakistu atvinnulífs og skóla.
Björgvin Filippusson stofnaði KOMPÁS Þekkingarsamfélag sem hann lýsir sem eins konar verkfærakistu atvinnulífs og skóla.
Fréttir 16. júní 2022

Vinnur að samnýtingu þekkingar og reynslu á milli ólíkra atvinnugreina

KOMPÁS er óháður samstarfsvettvangur vinnuveitenda og launþega, þar sem stórir vinnustaðir vinna með þeim litlu.

Byggist hugmyndafræðin á því að þekking sé því verðmætari sem hún er aðgengilegri og miðlun fagefnis á skilvirkan hátt skapi margþættan ávinning.

Björgvin Filippusson er stofnandi KOMPÁS Þekkingarsamfélagsins og framkvæmdastjóri. Hann segir að hugmyndin á bak við þetta sé að með víðtæku samstarfi og miðlun þekkingar milli ólíkra greina losni menn við að þurfa stöðugt að vera að finna upp hjólið aftur og aftur. Þannig náist líka aukin skilvirkni og tímasparnaður.

Áhersla á mannauðinn

„Þekkingarsamfélagið verður til með áherslu á mannauðinn sem okkar mestu verðmæti og birtist sem KOMPÁS Mannauður.

Þrátt fyrir að strax í upphafi hafi verið horft víðtækt til þess málaflokks var kallað eftir því að útfæra verkfærakistuna fyrir fjölda annarra viðfangsefna og atvinnugreina.

Hefur margt verið nefnt í því sambandi og hefur aukist ákallið um að KOMPÁS Landbúnaður fái aukið vægi. Þó svo að sá samstarfsvettvangur sé ekki formlega kominn í loftið, þá er þegar í verkfærakistu KOMPÁS mikið efni sem nýtist þeirri atvinnugrein og fjöldi hagaðila landbúnaðar eru þegar þátttakendur í Þekkingarsamfélaginu.“

Verkfærakista atvinnulífs og skóla

KOMPÁS Þekkingarsamfélagið er að sögn Björgvins eins konar verkfærakista atvinnulífs og skóla, þar sem komið er samstarf meðal fjölda fyrirtækja, stofnana, sveitarfélaga, háskóla, fræðsluaðila, stéttarfélaga og fleiri um miðlun og gerð hagnýtrar þekkingar sbr. verkferla, eyðublaða, gátlista, vinnulýsinga, leiðbeininga, reiknivéla, myndbanda og tengdrar fræðslu og þekkingar.

„Þessi vettvangur er hugsaður þannig að vottaðir vinnustaðir vinni með nýsköpunarfyrirtækjum og opinberir aðilar vinni með einkageiranum.

Þá vinni fræðasamfélagið með reynsluboltunum og íþróttahreyfingin með atvinnulífinu. Einnig er KOMPÁS að vinna samkvæmt samstarfssamningum við nokkra aðila t.d. háskóla.

Samkvæmt þeim samstarfssamningum hefur verið gert kennsluefni með kennurum og nemendum, nemendur hafa nýtt verkfærakistuna í sínu námi, hún nýtt til kennslu og vera brú milli atvinnulífs og skóla, sem og fræða og hagnýtrar þekkingar.“

KOMPÁS Landbúnaður

Innan landbúnaðar eru stórar sem smáar rekstrareiningar og fjöldi búgreina, einnig eru hagaðilar öflugs landbúnaðar mjög margir. Segir Björgvin að aukið samstarf og aðgengi hagnýtrar þekkingar sé þarna mikið og samnýtist öðrum atvinnugreinum. Fyrir páska átti hann góðan fund með stjórn Samtaka ungra bænda. Hann telur að hugmyndafræði Kompáss geti einmitt komið að góðum notum í landbúnaði.

„Hefðbundinn bóndi er með rekstur, er að ráða fólk eða verktaka til vinnu, þarf að hlúa að öryggismálum, heilsuvernd, sinni sí- og endurmenntun o.s.frv. en býr jafnframt yfir mikilli reynslu sem getur nýst öðrum. Innan landbúnaðar eru líka stórar rekstrareiningar með fjölda fólks í vinnu, þar sem gerðar eru ýmsar kröfur og væntingar til faglegrar stjórnunar og árangurs.

Á vegferð KOMPÁS hefur reglulega komið fram ákall um aukna áherslu Þekkingarsamfélagsins á þá atvinnugrein. Einnig samnýtist sú þekking og vinna inn í önnur viðfangsefni Þekkingarsamfélagsins sbr. KOMPÁS Mannvirki eða KOMPÁS Nýsköpun,“ segir Björgvin.