Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Mæting á herrakvöld Kótelettufélags togarajaxla var um 150 karla og hafa þeir aldrei fleiri.
Mæting á herrakvöld Kótelettufélags togarajaxla var um 150 karla og hafa þeir aldrei fleiri.
Fréttir 22. desember 2014

Vilja kynbætur á sauðfé til að fá lengri hrygg og fleiri kótelettur

Höfundur: Vilmundur Hansen

Góð mæting var á herrakvöld Kótelettufélags togarajaxla í Turninum fyrr í mánuðinum. Þar komu saman 150 karlmenn sem tóku hraustlega til matarins, rifjuðu upp sögur af sjónum og skemmtilegum mönnum og hlógu saman.


Á boðstólum voru lúbarðar og ófituhreinsaðar kótelettur í raspi ásamt rauðkáli, maískorni, steiktum kartöflum, brúnni sósu eða laukfeiti. Ekkert áfengi var á borðum en þess í stað vatn og blanda af malti og appelsíni. Veislustjóri var Ásmundur Friðriksson alþingismaður og reytti hann af sér brandara og skemmtisögur af sjómönnum og öðru skemmtilegu fólki.

Lítið til um síðutogarana

Birgir Ingimarsson, einn af togarajöxlunum sem skipuleggur kótelettukvöldið, segir að upphaf samkomunnar megi rekja til félags sem heiti Hafliðafélagið.

„Félagið er stofnað af nokkrum félögum sem voru saman á síðutogaranum Hafliða SI frá Siglufirði sem ungir menn. Við höfum hist annað slagið í gegnum árin, borðað saman og rifjað upp lífið um borð. Þegar við fórum aftur á móti að leita að heimildum um síðutogarana sáum við að það er lítið sem ekkert til um sögu þeirra eða tangur né tetur af minjum um þá. Í framhaldi af því fórum við að grúska í pappírum og fundum teikningar af síðutogurum, Elliða SI og Hafliða SI, sem báðir voru gerðir út frá Siglufirði.

Við höfum einnig verið að leita að hlutum úr síðutogurum og stefnum jafnvel að því að sækja gamlan trollhlera á Langanes og gera hann upp. Því miður er lítið til af minjum úr þessum togurum því þeir voru allir dregnir út í brotajárn.“

Létti yfir bæjarbúum

„Okkur langar líka að láta skrifa sögu síðutogaranna og mannanna sem voru þá um borð. Oft og tíðum var umræðan í kringum síðutogarana neikvæð og þeir mannaðir að stórum hluta af hraustum drykkjumönnum og dugmiklum fyllibyttum. Á Siglufirði létti hreinlega yfir bæjarbúum þegar síðutogararnir sigldu út og eins og allar bytturnar hefðu farið í meðferð á sama tíma. Þegar síðutogararnir fóru út rann af mönnum og þeir voru edrú þar til að þeir komu í land aftur. Eftir að í land var komið voru þeir oft fullir á virkum dögum og álitnir meiri fyllibyttur en þeir sem voru fullir um helgar. Flestir af þessum voru dugnaðarforkar og voru að draga björg í bú og afla mikilla tekna fyrir bæjarfélagið,“ segir Birgir.

Tvö líkön smíðuð

Hafliðafélagið lét smíða líkön eftir teikningunum sem eru varðveitt á Síldarminjasafninu á Siglufirði og hefur í hyggju að láta smíða fleiri. Birgir segir að til þess að framkvæma það sem Hafliðafélagið er að gera og langi að gera í framtíðinni þurfi fjármagn.

„Við erum allir miklir matmenn í Hafliðafélaginu og þegar við hittumst höfum við oft eldað kótelettur. Okkur datt því í hug í fjáröflunarskyni að halda herrakvöld þar sem togarakarlar sem hefðu áhuga gætu hist og borðað saman. Í fyrstu fimm skiptin sem við héldum þessi kvöld var boðið upp á hangikjöt fyrir gamla togarajaxla en svo þróast maturinn yfir í kótelettur og að allir karlmenn sem vildu gætu mætt og borðað á sig gat með okkur.“

Að sögn Birgis er þetta þriðja árið sem Hafliðafélagið stendur fyrir kótelettukvöldi og þátttakan alltaf að aukast og að þessu sinni mættu 150 karlar.

Öllum finnst kótelettur góðar

„Ástæðan fyrir því að við bjóðum upp á kótelettur er að þær eru íslenskar og það þykir öllum þær góðar og sérstaklega körlum.

Meðal gesta voru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætis­ráðherra og Sigurður Ingi Jóhanns­son, sjávarútvegs- og land­búnaðarráðherra. „Við ætlum að leggja fyrir þá beiðni um að það verði farið út í kynbætur á íslensku sauðkindinni sem stuðli að lengingu á hryggnum þannig að fleiri kótelettur fáist af hverjum dilk,“ segir Birgir Ingimarsson. 

Skylt efni: Skemmtanir

Notkun á„lambatöflum“ mjög algeng á Íslandi
Fréttir 5. desember 2022

Notkun á„lambatöflum“ mjög algeng á Íslandi

Þrír starfsmenn Matvælastofnunar vekja athygli á nýjum lögum um dýralyf, í grein...

Fögur framtíðarsýn
Fréttir 5. desember 2022

Fögur framtíðarsýn

Svandís Svavarsdóttir matvæla­ráðherra kynnti á Matvælaþinginu drög að matvælast...

Þreifingar hafnar um útflutning
Fréttir 5. desember 2022

Þreifingar hafnar um útflutning

Mjólkurvinnslan Arna í Bolungarvík hóf nýlega framleiðslu á hafrajógúrt og hafra...

Meiri uppskera af gulrótum og kartöflum en minna af rauðkáli
Fréttir 2. desember 2022

Meiri uppskera af gulrótum og kartöflum en minna af rauðkáli

Samkvæmt nýjum uppskerutölum frá garðyrkjubændum í útiræktun grænmetis, varð tal...

Örvar nýr fjármálastjóri Bændasamtaka Íslands
Fréttir 2. desember 2022

Örvar nýr fjármálastjóri Bændasamtaka Íslands

Stefnir í takmarkanir á veiðum grágæsa
Fréttir 2. desember 2022

Stefnir í takmarkanir á veiðum grágæsa

Þar sem fjöldi skráðra grágæsa á talningastöðum á Bretlandseyjum er 30% færri en...

Minkur til Danmerkur
Fréttir 1. desember 2022

Minkur til Danmerkur

Hópur danskra minkabænda, sem kallast Dansk mink, vinnur nú að því að endurvekja...

Frummenn vildu vel steiktan fisk
Fréttir 30. nóvember 2022

Frummenn vildu vel steiktan fisk

Rannsóknir á beinaleifum vatnakarfa sem fundust þar sem í dag er Ísrael benda ti...