Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Verðlaunahrossaræktendur í Hjarðartúni. Bjarni Elvar Pjetursson heldur í Svaða frá Hjarðartúni, 5 vetra, undan Dögun frá Hjarðartúni og Hring frá Gunnarsstöðum og Kristín Heimisdóttir heldur í Sindra frá Hjarðartúni, 8 vetra, undan Dögun frá Hjarðartúni og Stála frá Kjarri. Á milli þeirra situr tíkin Loppa.
Verðlaunahrossaræktendur í Hjarðartúni. Bjarni Elvar Pjetursson heldur í Svaða frá Hjarðartúni, 5 vetra, undan Dögun frá Hjarðartúni og Hring frá Gunnarsstöðum og Kristín Heimisdóttir heldur í Sindra frá Hjarðartúni, 8 vetra, undan Dögun frá Hjarðartúni og Stála frá Kjarri. Á milli þeirra situr tíkin Loppa.
Viðtal 21. apríl 2023

Rækta ekki tilviljunargæðinga

Höfundur: Hulda Finnsdóttir

Það var kaldur sunnudagsmorgunn þegar ég hitti hjónin Kristínu Heimisdóttur og Bjarna Elvar Pjetursson, í hesthúsinu í Hjarðartúni í Hvolhreppi. Það er ekki að sjá á þeim að þau hafi verið að klára 20 kílómetra skíðagöngu deginum áður. Við setjumst niður við eldhúsborðið í kaffistofunni og ræðum lífið og tilveruna og hvernig það gerist að tveir sérfræðingar í tannlækningum ákveða að hella sér af fullum krafti í hrossaræktina.

Þau Kristín og Bjarni byrjuðu ekki í hestamennsku fyrr en í kringum fertugt. Bæði höfðu þau verið í sveit þegar þau voru yngri en aldrei neitt í kringum hross. Árið 2004 fara þau í fyrstu hestaferðina sína og eignast fyrsta hestinn sinn. Þá fór boltinn að rúlla. „Sumarið 2004 hringja tvenn vinahjón okkar og bjóða okkur með í hestaferð. Þau höfðu hringt tvisvar sinnum áður og við alltaf neitað. Í þetta sinn sögðu þau að ef við kæmum ekki með núna þá yrði okkur aldrei boðið með aftur, svo við létum slag standa og fórum með þeim í átta daga hestaferð,“ segir Bjarni en á þessum tíma bjuggu þau í Sviss þar sem þau voru í framhaldsnámi í tannlækningum. „Gréta Rut, dóttir okkar, var búin að vera á hestbaki á stórum hestum í Sviss og var alveg hestasjúk. Ég var ólétt og gat því ekki setið hest og var rosalega glöð að þurfa ekki að koma nálægt þeim. Fannst þetta hálf ógnvænlegt allt saman,“ segir Kristín.

Hestaferðin gekk vel þrátt fyrir reynsluleysi hjónanna. Þegar þau lentu á Keflavíkurflugvelli brunuðu þau beinustu leið í Eystra-Fróðholt í Vestur-Landeyjum, þar sem Ársæll Jónsson hrossaræktandi og kona hans, Anna Fía Finnsdóttir, búa en Anna Fía og Bjarni eru systkinabörn.

Þar fengu þau lánaða nokkra hesta og varð eitt hrossið í hópnum í eigu þeirra í lok ferðarinnar.

„Ég ímyndaði mér að þetta væri bara eins og hringja í bílaleiguna Hertz og panta átta hesta í átta daga. Það virkaði náttúrlega alls ekki þannig,“ segir Bjarni og hlær. Í hópnum var grá hryssa sem Gréta Rut heillaðist af og varð að eignast. Samdi hún við pabba sinn um að gefa sér hryssuna sem hann jánkaði. „Þarna var Heimir sonur okkar árinu yngri og þriðja barnið á leiðinni. Það var ekki hægt að kaupa hest handa öðru barninu en ekki hinu. Þannig hún var látin borga hryssuna sjálf og það tók hana tæp tvö ár,“ bætir Kristín við. Schneeglocke var nafnið á hryssunni til að byrja með enda þýskan allsráðandi í þeirra umhverfi í Sviss en var síðar þýtt yfir í Snjóbjöllu.

Eftir þetta fóru þau Bjarni og Kristín alltaf í eina hestaferð á ári þar til þau fluttu aftur til Íslands. „Við komum því inn í hestamennskuna sem ferðaáhugafólk enda vön hálendisferðum á jeppum og snjósleðum. Við fórum í aðra ferð árið 2005 en á þessum tíma vissum við ekkert að hestaferðir gætu verið tveir eða þrír dagar því þá var farið í fjórtán daga ferð. Farið upp Arnarvatnsheiði og norður í land og Kjöl til baka.

Ég ákvað að taka þátt í slíkri ferð, með Tryggva sjö mánaða á brjósti. Það voru allir af vilja gerðir til að hjálpa og ég fékk einhverja hesta lánaða. Ég skildi ekki af hverju allir sátu afslappaðir á baki á meðan ég var í loftköstum, með 20 cm á milli mín og hestsins, en ég kunni ekkert að láta hest tölta. Ég man voða lítið úr þessari ferð af landslagi og einhverju svoleiðis og drengurinn fékk bara rjóma að drekka,“ segir Kristín.

Í kjölfar hestaferðar árið 2004 keyptu hjónin sitt fyrsta hross.

Kaupin handsöluð við eldhúsborðið

Árið 2008 eru þau bæði komin aftur til Íslands eftir Svissdvölina og eiga orðið fimm hesta og leigja sér stíur, fyrst í Heimsenda í Kópavogi og síðan í Sörla í Hafnarfirði. Lífið í hesthúsahverfinu fór að vera þeim íþyngjandi vegna tímaskorts og þau þurftu að leita sér annarra leiða til að halda áfram að stunda hestamennsku.

„Þarna áttum við Snjóbjöllu og Svaða, sem er hestur sem allir sem eru að byrja í hestamennsku verða að eiga. Hann tölti út í eitt, lyfti ekki fótunum, en algjör töltmylla,“ segir Kristín og Bjarni bætir við: „Við mættum eftir vinnu til að hreyfa hestana til að koma þeim í form fyrir sleppitúr eða hestaferðir. Mér reyndar fannst þessi nálgun alltaf rosalega skrítin. Taka inn í desember eða janúar þegar það er myrkur, snjór og leiðindi. Hreyfa þá um veturinn kannski fram í maí. Fara þá í sleppitúr austur fyrir fjall og jafnvel sleppa og sjá þá ekki meir fyrr en í janúar á næsta ári. Þá er hesturinn úti á túni alla bestu mánuði ársins. Þetta fannst mér vera rosalega ólógískt en ég er kannski bara óþarflega lógískur í hugsun,“ segir Bjarni.„Við vinnum líka óþarflega mikið og langa vinnudaga. Þegar við komum upp í hesthús var oft búið að gefa hrossunum. Krakkarnir voru ekki allir í hestunum svo þetta var aðeins farið að hafa tvístrandi áhrif á okkur fjölskylduna. Hestamennskan var því ekki alveg sú slökun sem hún átti að vera.“

Á þessum tímapunkti fara hjónin að velta fyrir sér að kannski væri betra að fá sér þjálfara sem myndi þjálfa hrossin og þau gætu komið um helgar og riðið út.

„Þegar ég var kominn með þessa hugmynd í hausinn að kaupa einhverja aðstöðu sem ber þjálfara er okkur bent á Hjarðartún. Ég heyri í Óskari Eyjólfssyni, fyrrum eiganda Hjarðartúns, og hittumst við þremur vikum seinna. Við setjumst niður við eldhúsborðið heima og náðum bara lendingu þarna á einum eftirmiðdegi heima á Laugarásveginum,“ segir Bjarni og bætir við að eftir að Kristín sá vel heppnað íbúðarhúsið í Hjarðartúni þá var ekki aftur snúið. Á endanum keyptu þau ekki bara Hjarðartún heldur flestar ræktunarhryssurnar hans Óskars ásamt nokkrum öðrum hrossum, það gerðist þó í nokkrum áföngum.

Rúmum 11 árum eftir að hafa farið í fyrsta sinn á hestbak eru þau Kristín og Bjarni búin að eignast eitt fremsta ræktunarbú landsins í dag, Hjarðartún, sem er við austurbakka Eystri-Rangár í Hvolhreppi. Þau búa bæði þar sem og í Reykjavík þar sem þau reka tannlæknastofuna Valhöll. Kristín er sérmenntuð í tannréttingum og Bjarni í munn- og tanngervalækningum sem og tannholdslækningum. „Best að útskýra þetta þannig að ef þú færð tannpínu er ég ekki rétta addressan en ef þú ert sleginn af hrossi og tapar öllum framtönnunum þá talarðu við mig,“ segir Bjarni en bæði eru þau einnig að kenna við Háskóla Íslands, Bjarni er prófessor við Tannlæknadeild HÍ og Kristín lektor.

„Við kunnum rosalega vel við okkur hérna í Hjarðartúni og draumurinn er auðvitað að í staðinn fyrir að vera í bænum að vinna meirihluta vikunnar að snúa því við,“ segir Bjarni og Kristín bætir við „Það er vandamál í mínu fagi að það er skortur á sérfræðingum. Ég gæti alveg séð fyrir mér að vera bara hér og kenna síðan með en við höfum bæði gaman af kennslunni.“

Hjarðartún er staðsett við austurbakka Eystri-Rangár í Hvolhreppi.

Horfir mikið í tölfræðina

Við rekstur hrossaræktarbús er margt sem þarf að huga að og á stóru búi er í mörg horn að líta. Er eitthvað sem kom þeim á óvart eftir að þau byrjuðu í rekstrinum?

„Mér finnst svolítið gott grín sem ég heyrði einu sinni að til þess að verða milljónamæringur af hrossarækt að þá þarftu að vera milljarðamæringur þegar þú byrjar. Það er kannski eitthvað til í þessu,“ segir Bjarni í kímni. „Ég er svolítið eins og lest á teinum en við erum með ákveðið langtímaplan í kollinum og förum bara eftir því. Eins og er hefur allt gengið samkvæmt áætlun. Mér finnst líka fegurðin við hrossaræktina að hafa þennan vinkil lífinu sem gengur frekar hægt fyrir sig. Lífið gengur svo hratt; áður en þú veist af eru komin aftur jól og síðan aftur sumar en með hrossaræktina, þú parar hryssu við hest og þarft síðan að bíða í fimm ár eftir því að sjá fyrstu merki um niðurstöðuna.“

Hrossaræktin er Bjarna hugleikin og hefur hann ef til vill öðruvísi sýn á ræktunina en margur annar. „Hann er algjörlega búinn að missa sig í WorldFeng en þarna opnaðist alveg nýr gagnabanki fyrir honum,“ segir Kristín og Bjarni bætir við: „Ég skrifaði doktorsritgerð þar sem við þróuðum tölfræðiaðferð til að meta líkur á langtíma endingu munngerva. Þessi aðferð líkist BLUP útreikningum. Við notumst mikið við tölfræði á bak við okkar ræktun og höfum sett okkur ákveðin skilyrði sem við reynum að halda í vali á stóðhestum og ræktunarhryssum,“ segir Bjarni en hugmyndafræðin hjá þeim er mjög einföld; rækta undan hryssum sem eru með ákveðna útgeislun og fyrstu verðlaun fyrir byggingu og hæfileika, mæður þeirraa og ömmur þurfa líka að standast sömu kröfur.

„Þetta er mjög feminísk ræktunarstefna en þetta er ekki flókið, ef þú horfir á tölfræði þá skiptir hryssan bara svo gríðarlega miklu máli. Stóðhesturinn getur ekki bjargað öllu, ég hef reiknað út alls konar í tengslum við hrossaræktina og við vöndum valið vel. Það er kannski engin tilfinning í þessu – en það er mikil tölfræði,” segir Bjarni og brosir.

Kristín er nú kannski ekki alveg sammála þessu en oft fara hestar sem hrífa þau í brautinni á listann yfir líklega hesta til undaneldis. Blaðamaður bendir þeim á að margir af bestu hestunum hafi nú orðið til undan lágt skrifuðum hrossum og er Bjarni snöggur að svara því.

„Það köllum við tilviljunargæðinga en samkvæmt mínum útreikningum eru ekki nema 7% líkur, eða 1 af 18, á því að það gerist. Orri frá Þúfu, sem er án efa mesti kynbótahestur allra tíma, er dæmi um tilviljunargæðing undan ósýndri hryssu þannig að sem betur fer eru ekki allir að beita tölfræðinni eins og við.“

Þau Bjarni og Kristín hafa átt í góðu samstarfi með þeim Óskari og Ásu, fyrrum eigendum Hjarðartúns. Hér á góðri stundu á Landsmóti, f.v. Bjarni, Kristín, Arnhildur Helgadóttir á Völu frá Hjarðartúni, Klara Sveinbjörnsdóttir á Dagmar frá Hjarðartúni, Birgitta Bjarnadóttir á Dimmu frá Hjarðartúni, Óskar og Ása Margrét Jónsdóttir. Mynd / Louisa Lilja

Langt fram úr villtustu útreikningum

Á Landsmóti síðasta sumar var Sindri frá Hjarðartúni sýndur. Sindri, sem er ræktaður af Óskari en í eigu þeirra Kristínar og Bjarna, sló hæfileikamet Spuna frá Vesturkoti og Arion frá Eystra-Fróðholti og er nú hæfileikamesti íslenski hesturinn. Hesturinn var sýndur af Hans Þór Hilmarssyni en hann og kona hans Arnhildur Helgadóttir eru bústjórar í Hjarðartúni.

„Við kaupum Sindra veturgamlan og þegar við tókum hann inn til frumtamningar létum við hann hlaupa í reiðhöllinni. Okkur leist strax vel á hann. Hann þróaðist vel og vorum við Hansi farnir að gera okkur vonir um að hann færi kannski einhvern tímann yfir 9,0 fyrir hæfileika. Að hann myndi slá metið ímyndaði ég mér aldrei,“ segir Bjarni og Kristín skýtur inn í að hans villtustu útreikningar hefðu aldrei komist að þessari niðurstöðu.

„Það var alveg merkilegt að fá að upplifa þetta. Ég sat í brekkunni og hreifst svo af hestinum. Síðan allt í einu í miðri sýningu þá fattaði ég að þetta var hesturinn minn. Ég get alveg tárast yfir fallegu tölti en að sjá hest getur oft snert listrænar taugar hjá mér, bara eins og þegar maður hrífst af fallegri tónlist eða einhverju slíku. Þarna greip hann mig alveg,“ segir Kristín. Þau Bjarni eru ævintýralega ánægð með árangur Sindra og ræktunarbúsins síðustu ár en Hjarðartún hefur verið tilnefnt sem ræktunarbú ársins þrjú ár í röð.

„Gallinn við þetta hjá okkur er kannski að þetta hefur byrjað aðeins of vel. Til að ná góðum árangri þá þarftu góða aðstöðu, góðan hestakost og gott samstarfsfólk. Við höfum verið ótrúlega heppin með allt þetta þrennt. Ef eitthvað af þessu er ekki í lagi þá er þetta aldrei að fara virka.“

Sindri frá Hjarðartúni og Hans Þór Hilmarsson í verðlaunaafhendingu á Landsmóti þar sem Sindri stóð efstur í flokki 7 vetra og eldri stóðhesta. Mynd / Henk Petersen

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt