Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.

Sauðfjárbændurnir Þórdís Þórarinsdóttir og Eyþór Bragi Bragason ásamt dóttur sinni, Ernu Diljá. „Við erum því rosalega heppin að geta lifað okkar lífi og stundað vinnu sem við höfum ástríðu fyrir,“ segir Þórdís.
Sauðfjárbændurnir Þórdís Þórarinsdóttir og Eyþór Bragi Bragason ásamt dóttur sinni, Ernu Diljá. „Við erum því rosalega heppin að geta lifað okkar lífi og stundað vinnu sem við höfum ástríðu fyrir,“ segir Þórdís.
Mynd / ghp
Viðtal 24. febrúar 2023

Með framtíðina fyrir sér

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Eyþór Bragi Bragason og Þórdís Þórarinsdóttir á Bustarfelli í Vopnafirði eru ungir og metnaðarfullir sauðfjárbændur. Þau láta sig umhverfismál varða og sýna það í verki með því að stunda loftslagsvænan landbúnað.

Inn í Hofsárdal í Vopnafirði er ættarsetrið Bustarfell, undir samnefndu fjalli. Þar hefur sama fjölskylda búið síðan árið 1532. Eftir nám árið 2017 settust Eyþór Bragi og Þórdís þar að, á æskuheimili Eyþórs, og stunda þar sauðfjárbúskap. Foreldrar Eyþórs, Björg Einarsdóttir og Bragi Vagnsson, búa einnig á Bustarfelli og taka enn þá þátt í búskapnum. Eyþór Bragi mun vera fimmtándi ættliður fjölskyldunnar sem stundar búskap á Bustarfelli.

Rekstur sauðfjárbúsins gerir ráð fyrir einu ársstarfi, þó Eyþór og Þórdís segi að mun meiri tími en svo fari í búskapinn. Bæði stunda þau svo vinnu utan bús. Þórdís vinnur sem kynbótafræðingur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og hefur t.a.m. unnið við innleiðingu erfðamengisúrvals í nautgriparækt og við útreikninga kynbótamats í sauðfjárrækt og nautgriparækt. Eyþór er leiðsögumaður í laxveiði á sumrin ásamt því að taka að sér hin ýmsu tilfallandi störf í sveitinni. Auk þess er hann safnstjóri Minjasafnsins á Bustarfelli.

„Ég stefndi alltaf á nám tengt landbúnaði til að geta unnið við áhugamálið og samhliða því vil ég búa í sveit og rækta búfé. Eyþór er mikill veiðimaður og sumrin yrðu því ekki eins nema hann gæti starfað í laxveiðinni. Við erum því rosalega heppin að geta lifað okkar lífi og stundað vinnu sem við höfum ástríðu fyrir,“ segir Þórdís.

Undir það tekur Eyþór. „Lífið er aldrei einhæft og allir hjálpast hér að. Systkinin mín taka hluta af sumarfríinu til að komast á sauðburðarvaktir og með í smalamennsku, það veitir þeim ákveðna lífsfyllingu en er í okkar huga ómetanleg aðstoð við bústörfin. Ég held það myndi vanta stóran hluta af sjálfum mér ef veruleikinn snerist ekki um þessi árstíðabundnu verkefni sem fylgir sauðfjárbúskap.“

Þau benda þó á að margir ungir bændur lifi öðrum veruleika, bústörfin þurfa að vera aðaltekjulind og kostir á aukastörfum utan bús eru ekki fyrir hendi. Eyþór bætir við að sauðfjárræktin hafi verið fjársvelt í svo mörg ár. Því hafi eðlileg endurnýjun á tækjum og híbýlum jafnvel ekki átt sér stað. Í upphafi vegferðar sinnar þurfi ungir bændur því æði oft að leggja í stórar fjárfestingar og tilheyrandi skuldsetningu til þess að uppfæra búin samkvæmt nútímakröfum.

Þrátt fyrir ungan aldur er Erna Diljá strax orðin liðtæk í búskapnum.

Sameiginlegur vilji til að bæta búskap

Bustarfell er eitt af þeim fimmtán sauðfjárbúum sem fyrst var boðin þátttaka í verkefni Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, Loftslagsvænn landbúnaður, í ársbyrjun 2020.

„Okkar bú var í þessum fyrsta tilraunahóp. Við sóttum um því okkur þótti verkefnið áhugavert og vildum vita út á hvað þetta gengi. Meiningin er góð og pælingarnar líka,“ segir Eyþór og bætir við að síðan þá hafi verkefnið þróast mikið og breyst. Í dag hefur fjöldi bænda bæst í hóp þátttakenda og teljast nú 22 sauðfjárbú og 24 bú í nautgriparækt hluti af verkefninu.

Þau segja að þátttakendur séu afar ólíkur hópur bænda, fólk á öllum aldri sem býr við misjafnar aðstæður, jarðgæðum er misskipt, tækifæri til að minnka losun og auka bindingu er breytilegt og þekking fólks mismunandi.

Þau telja sig búa vel að því að hafa hafið vegferðina strax eftir háskólanám, Eyþór er búfræðingur og Þórdís meistari í búvísindum frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Þannig liggi t.d. sú tölvuvinna sem fylgi verkefninu vel fyrir þeim.

„Margt sem kemur fram í verkefninu er nokkuð augljóst fyrir okkur á meðan þær upplýsingar gætu verið nýlunda fyrir næsta bónda. En það sem við öll eigum sameiginlegt er viljinn til að skilja við hlutina í betra ástandi en við tókum við þeim,“ segir Eyþór.

Verkefnið sé því hvati til að fara af stað í vegferð í átt að betri búháttum. „Bændurnir eiga að setja sér raunsæ markmið miðað við sitt bú. Það getur til dæmis reynst miserfitt fyrir þátttökubæi að stunda landgræðslu, sumir búa á litlum jörðum. En með því að ræða við ráðgjafana og aðra bændur geta þátttakendurnir fengið innblástur og hugmyndir að því hvernig hægt er að binda eða minnka losun kolefnis,“ segir Þórdís.

Stórtæk landgræðsla

Á þátttökutímabilinu hafa Eyþór Bragi og Þórdís sett sér 10–15 mælanleg markmið á ári og náð þeim flestum.

„Markmiðin voru mörg til staðar áður en við fórum inn í verkefnið. Aðgerðirnar eru jú loftslagsvænar en líka hagkvæmar. Við reynum að hámarka afurðir eftir á, minnka olíunotkun og bæta nýtingu áburðar. Að sjálfsögðu er maður alltaf að stefna að því hvort sem er,“ segir Eyþór.

Samkvæmt kolefnisreiknivélinni bindur Bustarfellsbúið meira en það losar. Vegur þar þungt stórtæk landgræðsla, bæði niðri í dalnum og uppi á Vopnafjarðarheiði. Rétt er þó að taka fram að kolefnisreiknivél þessi er ekki fullkomin.

Eitt af markmiðunum sem þau settu sér í verkefninu Loftslagsvænn landbúnaður er aukin landgræðsla. „Við tökum þátt í tveimur verkefnum tengdum landgræðslu, annars vegar Bændur græða landið og hins vegar Landbótasjóðsverkefni uppi á heiði. Við höfum mjög stórt land undir og dreifum eins miklum áburði og við fáum úthlutað. Þarna á heiðinni er mikið rofið land eftir kuldatímabil fyrr á öldum, ekki bætir úr skák hvernig farið var að þegar þjóðvegirnir þar í gegn voru lagðir á síðustu öld. Viðkvæmur jarðvegur var þá rifinn upp og ekki hugað að því að loka honum eftir á,“ segir Eyþór. Á meðan Landgræðslan útvegar áburð leggur hann til vinnu og tækjabúnað til dreifingar.

Auk landgræðslunnar stefna þau á að rækta skjólbelti við túnin og í fyrra hófust þau handa við að planta trjám í dalnum fyrir innan bæinn. Samhliða því hefur þó átt sér stað ákveðin náttúruleg endurheimt vistkerfis því gamli birkiskógurinn sem þar er stækkar ört og má nú finna sjálfssáðar birkiplöntur á allstóru svæði.

Víðtæk landgræðsla og skógrækt er meðal viðfangsefna Bustarfellsbænda. Hér er Eyþór Bragi að planta trjám í dalnum fyrir innan bæinn. Mynd/Aðsend

Aðferðir sem minnka útgjöld

Eyþór og Þórdís halda 530 vetrarfóðraðar ær, sem telst til ríflegs meðalbús hér á landi. Þau hafa fjölgað fé síðustu ár og hafa áhuga á að fjölga enn frekar.

Hluti af markmiðunum sem þau hafa sett sér innan Loftslagsvæns landbúnaðar er að auka ekki olíunotkun þrátt fyrir fjölgun fjár og aukin umsvif t.d. með meiri jarðrækt og aukinni landgræðslu.Einnig er markmið að bæta nýtingu áburðar, en það gera þau með nákvæmri GPS dreifingu tilbúins áburðar og bættri nýtingu búfjáráburðar. Einnig er smárablöndu sáð við endurræktun túna því notkun á niturbindandi plöntum getur minnkað áburðarþörf túna.

„Þessar aðgerðir hafa haft í för með sér minni notkun tilbúins áburðar sem skilar sér í minni útgjöldum,“ segir Eyþór.

Eyþór og Þórdís halda 530 vetrarfóðraðar ær sem telst til ríflegs meðalbús hér á landi. Þau hafa fjölgað fé síðustu ár og hafa áhuga á að fjölga enn frekar. Hyrnt og hvítt er í meirihluta eins og hér sést. Ærin Skvísa er fyrir miðju.

Málefni sem varðar alla bændur

Þau telja nokkuð áleitið hve landbúnaður á undir högg að sækja í allri loftslagsumræðu. „Bændur virðast vera svo auðvelt skotmark, bæði hér heima og erlendis líka. Með verkefninu erum við bæði að skrá aðferðir og sanna árangurinn með tölum. Við erum ekki stóra vandamálið þegar kemur að kolefnislosun. Eins og við sýnum fram á erum við tæknilega séð í bindingu. Við erum líka í verkefninu til að sýna öðrum bændum hvað þeir geta gert til að takmarka losun og binda á móti þeirri losun þannig að framleiðslan geti í það minnsta orðið kolefnishlutlaus,“ segir Eyþór.

Samspil landbúnaðar og loftslagsmála er brýnt hvernig sem á það er litið. „Þetta snýst líka um að lesa samfélagsandann, vera ekki alltaf að malda í móinn heldur sýna í verki að hlutirnir geta verið öðruvísi. Bændur gera sér grein fyrir að þetta er málefni sem varðar okkur öll. Við erum að selja vöruna okkar til almennings og við viljum að neytendur sjái að við látum okkur umhverfismál varða,“ segir Þórdís.

Framtíð sauðfjárræktar ber á góma. „Ég held að þróunin verði í takt við allt annað, að búin verði færri og stærri. Við stefnum til dæmis á fjölgun enda erum við með landrými og getum fjölgað túnum. Við erum tilbúin til að láta sauðfjárbúskapinn verða stærri að umfangi og vinna þar af leiðandi minna utan bús. En við höldum að okkur höndum með fjárfestingar til stækkunar meðan afurðaverðið er ekki hærra. Grundvöllur fyrir stækkun er hækkun afurðaverðs,“ segir Eyþór.

Þórdís bendir á að vetrarfóðruðum kindum hafi farið fækkandi á Íslandi síðustu ár. Hugsanlega stefni í skort á lambakjöti í búðum og meiri eftirspurn en framboð sé á íslenskri ull frá sauðfjárbændum og Ístex. Eftirspurnin sé til staðar og því hljóti að vera grundvöllur fyrir hærra verði.

„Fólk kaupir lambafille í kjötborði fyrir 7.600 kr/kg. Það er meira en tíu sinnum hærra kílóverð en bóndinn fær greitt fyrir kjötið. Af hverju fær bóndinn ekki stærri hlut?“

„Ég held það myndi vanta stóran hluta af sjálfum mér ef veruleikinn snerist ekki um þessi árstíðabundnu verkefni sem fylgir sauðfjárbúskap,“ segir Eyþór Bragi.

Áhuginn smitar út frá sér

Hugur er í bændunum ungu og vilja þau leggja sitt af mörkum til að bæta hér skilyrði og ásýnd landbúnaðar svo framtíðin verði björt og byggð í sveitum landsins.

„Allir bændur mega hugsa um hvernig þeir geta gert hlutina betur, alveg sama hvort fólk sé að gera hlutina mjög vel eða ekki,“ segir Þórdís og bendir á mikilvægi kynbótastarfs. „Það snýst meðal annars um betri búskaparhætti en einnig að rækta hjarðirnar sínar og nýta sér kynbótastarfið sem verið er að stunda í sameiginlegum tilgangi og gagnast okkur öllum í erfðaframförum og meiri afurðum í framtíðinni.“

Eyþór brýnir mikilvægi snyrtimennsku í sveitum og fagmennsku í hvívetna.

„Ég væri alveg til í að það sé tekið með inn í gæðastýringuna að það sé snyrtilegt á bæjum. Það er ljótt að sjá rusl og plast á girðingum og fátt fer meira í taugarnar á bændum en búskussar, því þeir sverta orðspor greinarinnar. Einn getur skemmt fyrir svo mörgum.“

Þau telja verkefni eins og Loftslagsvænn landbúnaður gott leiðarstef inn í framtíðina.

„Svona verkefni getur fengið aðra til að hugsa. Því fleiri sem taka þátt í því leiðir til þess að fleiri nágrannar sjá hvað hægt sé að gera. Oft getur áhuginn kviknað og smitað út frá sér og orðið kveikjan að jákvæðum breytingum,“ segir Eyþór.

Jafningjafræðslan er nefnilega ákveðinn lykill. „Þó fræðsla hjá ráðgjöfum sé góðra gjalda verð, þá á maður stundum til að leiða hjá sér það sem spekingarnir segja, en svo hlustar maður af miklum áhuga á nágranna eða kunningja sem eru í kaffi hjá manni. Stundum eru hlutirnir gerðir á ákveðinn hátt í langan tíma og manni finnst það bara eðlilegt. En með svona samstarfsverkefnum þá sér maður hvað aðrir eru að gera og það opnar augu manns fyrir því að hægt er að gera hlutina öðruvísi. Það má alltaf læra af næsta manni,“ segir Þórdís.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt