Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Kúabóndinn og búfræðikennarinn Karen Björg Gestsdóttir. Fjölskylda hennar lagði niður kúabúið á Kaldárbakka en stofnaði þess í stað fyrirtæki um búrekstur á nýjum stað í Hrauntúni. Báðir bæirnir eru í Kolbeinsstaðahreppi hinum forna. Hún segir ekki sjálfsagt að sex aðilar af tveimur kynslóðum geti unnið saman en í þessu tilfelli sé það styrkur.
Kúabóndinn og búfræðikennarinn Karen Björg Gestsdóttir. Fjölskylda hennar lagði niður kúabúið á Kaldárbakka en stofnaði þess í stað fyrirtæki um búrekstur á nýjum stað í Hrauntúni. Báðir bæirnir eru í Kolbeinsstaðahreppi hinum forna. Hún segir ekki sjálfsagt að sex aðilar af tveimur kynslóðum geti unnið saman en í þessu tilfelli sé það styrkur.
Mynd / ÁL
Viðtal 1. desember 2023

Kúabú flutt milli bæja

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Miklar breytingar hafa átt sér stað á Kaldárbakka í Kolbeinsstaðahreppi hinum forna. Rekstur kúabús á bænum hefur verið lagður niður, en í staðinn keypti fjölskyldan jörðina Hrauntún og hóf mjólkurframleiðslu þar. Á bak við hinn nýja rekstur standa sex aðilar og vilja þau hugsa um þetta sem fyrirtæki.

Karen Björg Gestsdóttir er alin upp á Kaldárbakka. Hún segir fjölskyldu sína hafa staðið frammi fyrir því að leggjast í miklar fjárfestingar eða hætta búskap, en fjósið á Kaldárbakka er básafjós með brautarkerfi. Það var upphaflega með rörmjaltakerfi og hugsað fyrir tuttugu kýr þegar það var tekið í notkun árið 1998, en með smávægilegum breytingum var kúnum fjölgað í þrjátíu og tvær.

Nú sé þessi mjaltatækni á útleið, sem Karen segir vel skiljanlegt. Það sé mun betra fyrir dýr og menn að hafa kýrnar í lausagöngu.

Jörðin Hrauntún var boðin til sölu fyrir nokkrum misserum, en þar var rekið kúabú í lausagöngufjósi frá 2009 með mjaltaþjón. Fjölskyldan á Kaldárbakka sá tækifæri í þessu og voru þau sex sem slógu til og keyptu jörðina til að hefja þar búskap. Með kaupunum fylgdi nágrannajörðin Tröð, þar sem er ræktarland og gamalt húsnæði, þangað sem Karen hyggst flytja með tíð og tíma.

Kaupin gengu í gegn í fyrrahaust og tók fjölskyldan á Kaldárbakka við búskapnum í Hrauntúni í október í fyrra. Þau voru ekki að sameina jarðirnar, því þó þær séu spölkorn frá hvor annarri liggja þær ekki saman. Því má frekar segja að þau hafi flutt kýrnar á nýjan stað til að komast í betri aðstöðu.

Karen segir rekstrargrundvöll Kaldárbakka og Hrauntúns hafa verið veikari þegar jarðirnar störfuðu hvor í sínu lagi. Með því að nýta báðar undir einn rekstur styrkist stoðirnar til muna.

Karen Björg Gestsdóttir segir ekki sjálfsagt að fjölskyldur geti unnið svo náið saman eins og í hennar tilfelli. Auðvitað séu ýmsar áskoranir, en alla jafna sé mikill kostur að hafa eldri kynslóðina með, enda finnst þeim gaman að vinna. Hópurinn á bak við búreksturinn telur sex einstaklinga og segir Karen mikinn drifkraft þegar þau séu svona mörg. Eftir að hafa flutt búreksturinn í fjós af nýjustu gerð hafi bústörfin orðið mun skemmtilegri.

Tíu sinnum skemmtilegra

„Ég hélt að þetta væri gaman áður, en þetta varð tíu sinnum skemmtilegra eftir að við komumst í þessa aðstöðu,“ segir Karen aðspurð um að fara úr básafjósi í lausagöngufjós með mjaltaþjón. Áður hafi þau alltaf reynt að drífa af mjaltir og gjafir sem fyrst, á meðan núna sé hægt að sinna verkum í nýja fjósinu í marga klukkutíma án þess að finna fyrir því.

Áhugasvið Karenar liggur á sviði nautgriparæktar. Í sveitinni sé hamingjan, þótt líf bóndans sé krefjandi.

Karen telur að kýrnar á Kaldárbakka hafi tekið breytingunum vel. Þær hafi þó verið með harðsperrur fyrstu dagana vegna hinnar auknu hreyfingar.

Þar sem kýrnar eru lausar sjáist mun betur að innan hjarðarinnar sé goggunarröð. Karen nefnir sérstaklega kúna Eldey, sem mjög mikið fari fyrir. Hún lúffi þó fyrir kýrinni Emmu, sem sé annars ekki mikið til vandræða.

Fyrirtækið fjórar einingar

Eins og áður segir eru þau sex sem standa á bak við búskapinn í Hrauntúni. Það er Karen sjálf og foreldrar hennar, Gestur Úlfarsson og Stefanía Hulda Þórðardóttir.

Þá er yngri systir Karenar, Selma Rakel Gestsdóttir, með sínum kærasta, Benedikt Stephani Jóhannessyni. Að lokum er það Jónatan Úlfarsson, föðurbróðir Karenar. Hver fjölskylda eigi sinn fjórðung af fyrirtækinu og var jörðinni á Kaldárbakka haldið fyrir utan fjárfestinguna. „Við stofnuðum fyrirtæki sem kaupir hinar jarðirnar og þann rekstur. Svo leggjum við þessi yngri til fjármagn og pabbi, mamma og Nóni kvóta og skepnur.“

Með því að vera svona mörg á bak við reksturinn segir Karen að mikill drifkraftur sé í hópnum. Það sé gaman að fara í framkvæmdir og þau hafi gert mikið á því ári sem er liðið frá því þau tóku við. „Hvort sem verið er að þrífa, rífa eða byggja upp – þá er þetta allt mjög skemmtilegt.“

Á búinu eru tveir starfsmenn, Hulda og Selma Rakel, sem sinni daglegum störfum. Á meðan öll hin sæki tekjur utan bús og sinni bústörfum í frítíma. „Sem betur fer finnst okkur gaman að vinna,“ segir Karen.

Geti verið áskorun

Aðspurð um góð ráð segir Karen að fólk þurfi alltaf að ræða málin í rekstrarformi sem þessu.

„Að sjálfsögðu kemur alltaf eitthvað upp inn á milli. Það er alveg áskorun að vinna svona náið með fjölskyldunni. Það þýðir ekkert að vera í fýlu – heldur þarf að ræða málin, klára þau og halda svo áfram,“ segir Karen. Fólk eigi að hugsa að þetta sé fyrirtæki og það þurfi að gera það sem sé best fyrir reksturinn, án þess að stíga á tærnar á hinum.

„Að sjálfsögðu er ekki allra að gera þetta svona og oft vilja þeir sem eldri eru út. En svoleiðis er það ekki í þessu tilfelli og þá er mikill stuðningur og styrkur að hafa fleiri.“

Í Hrauntúni og í Tröð voru þrjár íbúðir og mikill húsakostur fyrir búreksturinn. Þetta sé mikil breyting miðað við það sem áður var, en á Kaldárbakka var allt húsnæði fullnýtt.

„Það er mjög gaman að hafa allt í einu fullt af möguleikum og geta gert mikið, þó manni þyki vænt um þennan stað líka,“ segir Karen og vísar til Kaldárbakka. Húsin þar standi þó ekki auð, því hinn nýi búrekstur í Hrauntúni fær að nýta gamla fjósið til nautauppeldis. Þá hefur engin breyting orðið á nýtingu íbúðarhúsanna á bænum, fyrir utan að systir Karenar og mágur hafa flutt í íbúðarhúsið í Hrauntúni.

Fékk að mjólka í Danmörku

Karen lauk námi í búfræði á Hvanneyri og skráði sig í kjölfarið í búvísindanám við sama skóla. Eftir að hafa útskrifast með BS próf í búvísindum árið 2017 fór hún að kenna við LbhÍ. Síðar lá leiðin í meistaranám við þann skóla, með skiptinámi við Háskólann í Árósum. Hún reiknar með að reka smiðshöggið á lokaverkefnið sitt í vetur. Samhliða búfræðináminu fór Karen í verknám á stórt kúabú á Jótlandi í Danmörku.

Reynslan þar hafi verið afar dýrmæt og heldur hún enn tengslum við fólkið sem hún kynntist þar. „Svo þegar ég fór út í háskólann var ég sótt nánast aðra hverja helgi –þáfékkégaðfaraútísveitað mjólka.“ Það hafi verið upplífgandi tilbreyting frá borgarlífinu.

Karen segir námið víkka sjóndeildarhringinn og auðvelda leit að þekkingu eða svörum við vandamálum síðar. Hún tekur þó fram að til séu margir mjög góðir bændur sem hafi ekki tekið nám í landbúnaðarfræðum. Þetta sé það breið grein að nám á öðrum sviðum geti gagnast við ýmsar hliðar búrekstursins auk þess sem reynsla sé dýrmætt veganesti.

Með því að starfa sem búfræðikennari á Hvanneyri segist Karen sífellt þurfa að viðhalda þekkingu sinni sem gagnist í búrekstrinum.
Besta úr báðum heimum

Karen er nú í fullu starfi sem búfræðikennari á Hvanneyri. Þar sé þó sveigjanlegur vinnutími sem henti vel með búskapnum. Hún kennir í áföngum eins og nautgriparækt, búfjárhaldi, atferli og velferð, fóðurfræði ásamt fleiru. Nokkuð misjafnt sé milli ára hvaða fög hún kenni, en segist hún alltaf kenna meira og meira á sviði nautgriparæktar, þar sem áhugasviðið liggur.

„Églítsvoáaðégfáiþað besta úr báðum heimum,“ segir Karen. Það sé mikill kostur fyrir búfræðikennara að vera með góð tengsl við búrekstur, á sama tíma sem hún þurfi stöðugt að bæta við sig nýrri þekkingu fyrir kennsluna, sem gagnist aftur búrekstrinum. Hún segir flesta samkennara sína á Hvanneyri vera með góða tengingu við landbúnaðinn, sem komi nemendunum til góða. „Þetta er svo sterkt í okkur að vilja búa,“ segir hún og bætir við að það sé ekki verra starf að vera bóndi en að vera kennari.

Mikil ásókn í búfræði

Stemningin meðal búfræðinema sé mjög góð, þrátt fyrir að það gefi á bátinn hjá bændum, og er ásóknin í námið mjög mikil. Þó reikni Karen með að fólk hugsi sig tvisvar um áður en það leggi fyrir sig landbúnað og ekki sé auðvelt að fá fjármagn frá bönkunum. Sjálf hafi hún lent í ýmsum hindrunum þegar hún var að leita að fjármagni til að kaupa sinn hlut í Hrauntúni og endaði hún á því að fara í gegnum Byggðastofnun.

Flestir nemendurnir í búfræði komi úr sveit eða úr þéttbýli með einhver tengsl við bændur. Síðarnefndi hópurinn bæti oft flóruna, því nemendur sem hafi ekki alist upp í sveitaumhverfi komi oft með aðra vinkla á hlutina sem myndi góðar umræður.

Þetta séu oft mjög sterkir nemendur því þau hafi opinn huga og ekki fastmótaðar hugmyndir um hvernig hlutirnir eigi að vera.

Framtíðin björt

„Ég held að framtíðin sé björt í landbúnaði. Þó að staðan sé svona í dag þá hefur þetta alltaf verið sveiflukennt og ég held að við viljum halda matvælaframleiðslu áfram á Íslandi,“ segir Karen.

Íslenskir bændur standi sig meðal annars vel í velferð manna og dýra og það sé ósanngjarnt að setja ekki sömu kröfur á framleiðsluaðferðir í þeim löndum þaðan sem við kaupum landbúnaðarvörur.

„Hér er hamingjan, en auðvitað er þetta krefjandi líf,“ segir Karen, sem mælir hiklaust með búskap.

Hrauntún (á mynd) er í sömu sveit og Kaldárbakki (á mynd fyrir neðan), eða í Kolbeinsstaðahreppi sem nú tilheyrir Borgarbyggð. Fjósið á fyrrnefnda bænum er nútímalegt og útbúið mjaltaþjóni.
Kaldárbakki

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt