Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Hvanneyrarfjósið hefur mikla sérstöðu
Mynd / ÁL
Viðtal 31. mars 2023

Hvanneyrarfjósið hefur mikla sérstöðu

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Landbúnaðarháskóli Íslands á fjós á Hvanneyri sem er notað til rannsókna og kennslu. Egill Gunnarsson, sem er 34 ára, tók við starfi bústjóra sumarið 2015, en hann er upphaflega frá Egilsstöðum í Norðurdal í Fljótsdal.

Egill segir að starfið á Hvanneyri hafi ekki verið hugsað nema til nokkurra ára og hann gæti tekið ákvörðun um að gera eitthvað allt annað síðar. „Mig langar alltaf að verða atvinnumaður í fótbolta en ég held að það muni ekki gerast,“ segir Egill. Enn nýtur hann starfsins og hefur ekki fundið ástæðu til að breyta til.

Áður en Egill gerðist bústjóri, var yfirstjórn og búrekstur Hvanneyrarfjóssins ekki endilega sú fyrirmynd sem hæfði Landbúnaðarháskóla. Árið 2014 var skipuð þriggja manna stjórn fagmanna og sáu aðilar hennar fljótlega að nauðsynlegt væri að gera róttækar breytingar.

„Ég byrjaði hérna 1. júlí 2015. Ástandið á búrekstrinum var ekki í lagi og ýmislegt sem mátti laga. Við getum orðað það þannig að greinilega hafi vantað nýtt blóð í búreksturinn.

Við vorum ráðnir tveir í fullt starf, ég og Hafþór Finnbogason, og var Jóhannes Kristjánsson með okkur fyrsta sumarið,“ og segir Egill þá ekki síður eiga heiðurinn af því að koma rekstrinum á rétta braut. Enn fremur nefnir hann stjórn búsins og lykilstjórnendur LbhÍ í þessu samhengi, en bæði nemendur og starfsfólk tala um að mikill munur sé á Hvanneyrarfjósinu samanborið við áður. „Sem nemandi Landbúnaðarháskólans hafði maður verið með í því að gagnrýna ástandið á hlutunum hérna. Það voru send bréf á yfirstjórn skólans, sem ég lagði nafn mitt við, um það að þetta væri ekki til fyrirmyndar,“ segir Egill. Þegar honum var svo boðin staða bústjóra og þar með tækifæri til að laga hlutina, segir hann að erfitt hafi verið að segja nei.

„Ég var búinn að vita í nokkur ár að þetta var ekki í góðum málum. Á fyrstu tveimur, þremur vikunum sá ég að þetta var svolítið mikið. Það var fullt af dóti og drasli hérna úti um allt og ekkert tæki var í lagi. Við áttum ekki nothæfan búsbíl fyrsta sumarið og hjóluðum út um allt,“ segir Egill.

Egill Gunnarsson segist ekki endilega ætla að vera bóndi alla tíð. Starfið sé ólíkt öðrum, þar sem oft koma upp vandamál sem ekki geta beðið.

Eins og að þjálfa landslið

„Ég fatta hvernig það er að vera landsliðsþjálfari þar sem margir dæma það sem ég geri. Stundum er ég meira helvítis fíflið og stundum er þetta helvíti gott hjá mér,“ segir Egill, en Hvanneyringar og bændur hafa oft miklar skoðanir á gangi rekstursins.

„Ég er ekkert viss um að mig langi að verða bóndi á venjulegu býli. Þetta er mjög skemmtileg dýnamík – að fá alltaf nýja uppskeru af nemendum og maður kynnist mikið af skemmtilegu fólki,“ segir Egill. Einnig kann hann að meta návígið við kennara og fræðimenn í landbúnaðarvísindum sem koma með nýjustu þekkinguna hverju sinni.

„Fjósið er einn aðal samkomustaður nemenda. Þau höfðu verið á flæðiskeri stödd með aðstöðu mjög lengi og ég hef mikinn skilning á partíþörf nemenda,“ segir Egill, en hann hefur leyft þeim að halda viðburði í hlöðunni og klúbbarnir fá að nýta setustofuna á efri hæðinni til að halda fundi. Einnig hefur verið haldið dellubingó, en þá eru reitir merktir á bitunum í fjósinu og fólk kaupir sér númer. Sá sem á reitinn með flestar kúadellur í lok kvölds fer með sigur af hólmi.

Egill telur að sjaldan líði sá dagur þar sem enginn nemandi komi í byggingarnar. Margar kennslustundir fara fram í fjósinu, en einnig koma nemendur til að sækja sér upplýsingar fyrir hin og þessi verkefni. Búfræðinemendur fara í reglulega tíma í gegningum fyrir áramót. „Eftir jól koma sömu nemendur og eiga að sjá um fjósið tveir og tveir upp á eigin spýtur yfir eina helgi. Við erum þá bara á bakvakt ef eitthvað kemur upp á.“

Verknámskennsla hefur ekki alltaf verið eins mikil og hún er núna. „Það voru lagðar kannanir fyrir útskrifaða búfræðinga þar sem þeir voru spurðir hvernig þeim hefði þótt námið og hverju þeir myndu breyta. Í framhaldi af þessu var búin til ný námskrá fyrir búfræðina árið 2015 þar sem aukin áhersla var lögð á þetta verklega og að kenna meira í þeirri aðstöðu sem er til hérna.“

Óhefðbundnar leiðir í tilraunafjósi

Egill nefnir að fjósið á Hvanneyri hafi verið byggt árið 2004 og þó þetta sé nútímaleg bygging, þá séu ýmsir vankantar á því sem rannsóknarfjós. „Það er til dæmis ekki hægt að framkvæma einstaklingsfóðrunartilraunir hérna inni. Það eru til tæknilausnir fyrir lausagöngufjós í dag og ég held að þær þurfi að skoða.

Þetta er svolítið sérstakur rekstur að mörgu leyti. Við eigum að vera fyrirmynd fyrir svona rekstrarform – ég held að margir horfi til þess hvernig hlutirnir eru gerðir hérna og hvaða árangri við erum að ná. Þótt það standi í samþykktum félagsins að það eigi að reka mjólkurframleiðslu með „hagkvæmum hætti“ þá er það ekki fyrsta takmarkið með rekstrinum. Heldur að veita aðstöðu og til þess að mennta tilvonandi bændur og búa til nýja þekkingu fyrir greinina,“ segir Egill. Enn fremur geta nemendur og starfsmenn LbhÍ í rannsóknarverkefnum nýtt aðstöðuna í fjósinu og taka starfsmenn búsins þátt í þeim þótt þeir séu ekki beinir rannsakendur.

„Við þurfum kannski að sætta okkur við að hlutirnir hér innandyra verði erfiðari og ekki eins og við myndum vilja hafa þá frá degi til dags,“ segir Egill varðandi þátttöku starfsmanna fjóssins í fjölmörgum rannsóknum, en segir það ekki eitthvað til að kvarta yfir, enda hluti starfsins. „Þetta er jafnvægislist. Við eigum ekki að vera ankeri landbúnaðarframleiðslu í magni og það má alveg spyrja sig af hverju við erum að framleiða meira en fimm hundruð þúsund lítra í þessu fjósi, en svo viljum við samt að reksturinn sé þannig að hann sé „raunverulegur“ rekstur – svo þetta sé ekki einhver húsdýragarður,“ segir Egill.

Nýlega tók LbhÍ metanbás til notkunar til að safna gögnum um metanframleiðslu íslenskra mjólkurkúa. Egill segir básinn vera mjög auðfæranlegan og einfaldan í notkun, en hann virkar eins og kjarnfóðurbás. Fóðurtrogið er nokkuð lokað og er undirþrýstingur þar sem kýrin stingur höfðinu inn. Þar með dregur básinn ropann og andardráttinn frá kúnum í gegnum gasgreiningarferlið. Enn fremur eru hreyfi- og nálægðarskynjarar sem sjá hvar höfuð kýrinnar er staðsett þegar ropinn á sér stað, sem eykur öryggi mælinga.

Eftir að hafa verið notaður á Hvanneyri um tíma hefur hann verið sendur til gagnaöflunar að Litla- Ármóti. Til stendur að senda básinn á þriðja staðinn í kjölfarið, enda hafa erlendar metanmælingar sýnt fram á mikinn breytileika milli búa.

Fjósið á Hvanneyri var byggt árið 2004 og er hugsað sem tilrauna- og kennslufjós. Þar er framleidd um hálf milljón lítra mjólkur á ári hverju.

Óttast ekkert eftir kennslu unglinga

Egill útskrifaðist úr búvísindum árið 2012 og tók búfræði í kjölfarið. Að því loknu vissi hann ekki hvaða stefnu hann ætti að taka og flutti því aftur austur og gerðist menntaskólakennari eina önn.

Hann segir að eftir að hafa kennt unglingum þar sem hormónastarfsemin er í hámarki sé hann ekki hræddur við neitt.

„Fyrstu tvær vikurnar var þetta alveg hræðilegt,“ segir Egill, en hann byrjaði önnina á að kenna nemendum á félagsfræðibraut náttúrufræðifög og nemendurnir höfðu lítinn áhuga á því sem hann hafði fram að færa. Seinni hluta annarinnar kenndi hann nemendum á náttúrufræðibraut sömu fög og segir Egill þá upplifun hafa verið allt aðra og þá hafi hann skynjað hvernig kennsla getur verið gefandi. „Svo var ég að kenna lífsleikni einhverra hluta vegna – hvaða húmorista datt það í hug veit ég ekki. Ég fékk að fara í kennaraverkfall – það var geggjað! Ég fór á verkfallsbætur frá Kennarasambandi Íslands. Það var stórkostlegt – ég þurfti ekki að gera neitt.“

Óvænt vandamál viðbúin

„Þetta er starf sem stýrist af hlutum sem maður ræður ekki við, eins og allir bændur þekkja,“ segir Egill, en þótt hann sé launamaður sem á rétt á sumarfríi stjórnist tímasetning þess af heyskap og veðurfari.

Kýrnar hafa stöku sinnum sloppið, eins og frægt var þegar þær opnuðu sjálfar dyr á fjósinu um nótt að vetri og gengu hring í kringum fjósið áður en þær skiluðu sér allar inn. Þar sem búið er í návígi við þorpið á Hvanneyri segist Egill oft heyra frá íbúum ef kýr eru á víðavangi áður en mjaltaþjónninn sendir skilaboð um að eitthvað sé að.

„Þessi lífsstíll er furðulegur fyrir mjög marga sem ég þekki. Ég held til dæmis að kærustunni minni finnist þetta oft erfitt. Ég get ekki sagt með afgerandi hætti að ég geti komið í eitthvert partí eða heimsókn með henni. Núna erum við að horfa á Clarksons Farm á Amazon Prime. Ég held að hún sjái mjög vel í þeim þætti að það getur allt farið í fokk hvenær sem er og það komi upp vandamál í þessum rekstri sem þú getur ekki beðið með til morguns að leysa.

Að lokum legg ég til að Karþagó verði lögð í eyði,“ segir Egill aðspurður um góð lokaorð og hvetur jafnframt fólk til að spila meira Catan á óvissutímum í efnahagslífi þjóðarinnar.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt