Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Í Breiðargerði stundar Elínborg Erla meðal annars ræktun hindberja, erta og gulróta.
Í Breiðargerði stundar Elínborg Erla meðal annars ræktun hindberja, erta og gulróta.
Mynd / Aðsendar
Viðtal 19. apríl 2024

Elínborg í Breiðargerði nýr formaður

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Elínborg Erla Ásgeirsdóttir, garðyrkjubóndi í Breiðargerði í Skagafirði, er nýr formaður VOR – félags um lífræna ræktun og framleiðslu.

Elínborg Erla Ásgeirsdóttir.

Elínborg keypti landið árið 2015 en þá hafði enginn búskapur verið á jörðinni frá árinu 1975 og enginn tækja- eða húsakostur. Hún hefur frá 2016 stundað mest útiræktun grænmetis og selt í verslunum í nágrenninu og nýlega einnig beint frá býli úr eigin sveitabúð. Vörurnar frá Breiðargerði hafa verið vottaðar lífrænar frá árinu 2020, en hún selur bæði ferskt grænmeti og eins vinnur hún úr því ýmsar sælkeravörur.

Hún segir að spennandi tímar séu fram undan og krefjandi verkefni, en matvælaráðuneytið birti í nóvember aðgerðaráætlun um eflingu lífrænnar matvælaframleiðslu á Íslandi. „Ég er mjög þakklát fyrir traustið sem mér er sýnt og ætla mér að vinna eins vel að framgangi greinarinnar og mér er unnt. Eygló [Björk Ólafsdóttir] hefur sinnt þessu starfi af ótrúlegum krafti undanfarin ár og verður seint fullþakkað fyrir hennar vinnu í þágu samtakanna og lífræna geirans í heild,“ segir Elínborg.

Lífrænir framleiðsluhættir sjaldan átt betur við

Ísland hefur dregist aftur úr nágrannalöndunum hvað varðar framleiðslu á lífrænt vottuðum matvörum; hér er mun lægra hlutfall landbúnaðarlands með lífræna vottun en í flestum öðrum Evrópulöndum og margt bendir til að markaðshlutdeild lífrænnar framleiðslu hér á landi sé einnig minni, þótt nákvæmar upplýsingar liggi ekki fyrir um stöðu mála. „Með þessari aðgerðaráætlun var að mínu mati stigið mjög stórt skref í rétta átt og mikilvægt að áætlunin verði fjármögnuð og komi til framkvæmdar eins fljótt og mögulegt er.

Lífrænir framleiðsluhættir hafa sjaldan átt betur við en einmitt núna. Við erum að átta okkur á að ein mikilvægasta aðgerð nútímans er að stuðla að sjálfbærni. Við erum með jörðina og auðlindir hennar að láni hjá komandi kynslóðum og okkur ber skylda til þess að skila henni af okkur í eins góðu ástandi og hægt er.

Þetta þarf alls ekki að þýða stöðnun, yfirlýstur vilji og aðgerðir til þess að huga að þessum þáttum og gera eins vel og við getum kemur okkur ansi langt. Mér finnst ég stundum upplifa rangar hugmyndir og jafnvel fordóma gegn lífrænni ræktun og framleiðslu, en ég held jafnframt að oftast séu þær skoðanir einfaldlega á misskilningi byggðar.

Til dæmis raddir þess efnis að um gamaldags og úreltar aðferðir sé að ræða. Virkt samtal milli allra greina hlýtur að vera besti kosturinn, að við mætumst með opnum hug og það sjónarmið að leiðarljósi að geta lært hvert af öðru.“

Grænmetisbollur úr matarsmiðju býlisins.
Hvorki illgresis- eða skordýraeitur

„Þegar kostir íslenskra landbúnaðarafurða eru ræddir er mikið talað um þá staðreynd að notkun eiturefna og sýklalyfja sé í lágmarki. Illgresis- og skordýraeitur er auðvitað ekki notað í lífrænni ræktun, notkun lyfja er haldið innan mjög skynsamlegra marka og gefinn er lengri útskolunartími,“ segir Elínborg.

„Lögð er áhersla á dýravelferð og meiri kröfur eru gerðar um rými og aðbúnað. Jarðvegurinn er okkar mikilvægasta auðlind og unnið er að því að auðga hann, auka kolefnisinnihald hans og jarðvegslíf. Þetta er til dæmis gert með því að notast við lífrænan áburð og ræktun belgjurta. Ég myndi kalla það mjög nútímalega framleiðsluhætti að nýta lífrænan úrgang sem áburðarefni frekar en líta á hann sem vandamál og jafnvel urða hann. Skiptiræktun er heldur alls ekki hugtak sem á bara heima í lífrænum búskap, heldur mikilvægt verkfæri fyrir alla sem stunda ræktun.

Það er svo auðvitað sjálfsagður réttur neytenda að geta valið vörur sem innihalda ekki eiturefnaleifar eða misgáfuleg aukefni,“ heldur hún áfram.

Hætta sér ekki út í óvissuna

Spurð um þá stöðnun sem hefur ríkt í lífrænt vottaðri matvælaframleiðslu á Íslandi og hvað skýri þá stöðu, segir Elínborg að óvissuþátturinn spili stórt hlutverk hjá bændum.

„Það er vel skiljanlegt að fólk stökkvi ekki á það að breyta sínum framleiðsluháttum til aðferða sem það hefur minni þekkingu á, að ég tali ekki um þegar fjárhagsleg óvissa ríkir almennt í samfélaginu. Það er því mjög brýnt að halda áfram að auka þekkingu fólks á því hvernig lífræn ræktun og framleiðsla virkar, að eyða óvissunni.

Aðgerðaáætlun stjórnvalda er auðvitað mikilvægur þáttur í þessari vegferð. Þar er til dæmis gert ráð fyrir að verkefnið Lífrænt Ísland haldi áfram, en það er mikilvægur þáttur í upplýsingagjöf til neytenda.

Svo er mikilvægt að bæta í praktísku þættina, að tilraunir séu gerðar með lífræna áburðargjöf, tæki til illgresiseyðingar og jarðvinnslu. Þarna held ég reyndar að tækniframfarir gætu orðið sérstaklega hliðhollar lífrænni ræktun, ég get ekki ímyndað mér að neinn velji eitur fram yfir illgresisbrennslu með gervigreindarstýrðum róbóta þegar þar að kemur. Stuðningskerfið þarf svo auðvitað að taka mið af framleiðsluaðferðum og stefnu stjórnvalda. Í því samhengi má benda á að rannsóknir benda til að kolefnisbinding í lífrænum jarðvegi sé mun meiri en þar sem tilbúinn áburður er notaður.“

Í Breiðargerði stundar Elínborg Erla meðal annars ræktun hindberja, erta og gulróta.
Bein aðild að búvörusamningum

Hún leggur áherslu á að lífræna geirann þurfi að taka alvarlega, þetta séu framleiðsluaðferðir sem eigi fullt erindi í nútímanum. Til þess að lífrænum framleiðendum fjölgi hraðar þurfi rödd þeirra að heyrast og hagsmunamál þeirra að ná fram að ganga.

„Á nýafstaðnum aðalfundi var samþykkt ályktun, þar sem þess var krafist að VOR fái beina aðild að komandi búvörusamningum. Við teljum það góða leið til þess að okkar grein fái tækifæri til að vaxa og dafna án þess að áherslan sé á það að aðrar búgreinar muni þá fá minna í staðinn. Það hlýtur að vera allra hagur að íslenskur landbúnaður sé sem fjölbreyttastur og að hann sé stundaður á þann hátt að ekki sé verið að takmarka tækifæri framtíðarbænda.“

Grænmetisbollur og bokashi-gerjun

„Vorið er auðvitað dásamlegur tími, fátt sem jafnast á við það. Ræktunin verður á svipuðum nótum og í fyrra, ég er með nokkuð fjölbreytt úrval af káli, gulrætur, rófur, hindber og svo smávegis sellerí, ertur og kryddjurtir,“ segir Elínborg spurð um tíðindi úr hennar eigin búskap.

„Þessa dagana er ég að sá og forrækta og koma gróðurhúsum og beðum í stand fyrir sumarið. Ég setti líka fyrstu pakkana af grænmetisbollum í sölu um daginn og hef fengið góð viðbrögð við þeim. Framleiðslan á bollunum er sett þannig upp að ég get undirbúið hráefnið á haustin á meðan uppskeran er á fullu, en fullvinn svo bollurnar eftir þörfum. Ég er þó enn þá að vinna í að ná ásættanlegum afköstum í framleiðslunni svo þær eru í takmörkuðu magni enn sem komið er.

Svo er ég alltaf að reyna að læra eitthvað nýtt, prófa nýjar tegundir, yrki og aðferðir. Ég varð til dæmis þátttakandi í verkefninu Loftslagsvænn landbúnaður á seinasta ári og partur af minni áætlun þar er að prófa mig áfram í ræktun án jarðvinnslu og að nýta bokashi-gerjun til þess að vinna lífrænan úrgang. Mjög spennandi verkefni sem ég hlakka til að vinna áfram með, enda margt í lífrænum búskap sem vinnur vel með markmiðum um minni losun.“

Spurt og svarað um lífræna ræktun

Að lokum vill Elínborg benda fólki á að fylgjast með Facebook-síðu VOR. „Þar verðum við með viðburð 17. apríl á milli 16 og 18. Um er að ræða umræðuþráð þar sem áhugasamir geta sett inn spurningar um lífræna ræktun og fengið skrifleg svör í rauntíma.

Það er öllum velkomið að senda inn spurningar, en þetta er auðvitað sérstaklega tilvalið fyrir þau sem stefna á að hefja aðlögun og sækja um aðlögunarstuðning í ár.“

Skylt efni: lífrænn búskapur

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt