Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, tók til máls við setningu Búnaðarþings.
Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, tók til máls við setningu Búnaðarþings.
Mynd / Helga Dögg
Fréttir 5. apríl 2023

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Á nýloknu Búnaðarþingi 2023 lagði stjórn Bændasamtaka Íslands (BÍ) það fyrir þingið að yfirfara og uppfæra stefnumörkun samtakanna sem samþykkt var á Búnaðarþingi 2022 og hefur yfirskriftina „Framsýnn landbúnaður“. Skipaðar voru fimm starfsnefndir sem unnu að þessum markmiðum og er afraksturinn ný heildarstefnumörkun samtakanna.

Ályktanir og tillögur frá Búnaðarþingi birtast því í uppfærðri stefnumörkun eftir málaflokkum. Meðal helstu ályktana um stefnumörkun fyrir félagskerfi landbúnaðarins má nefna að samþykkt var að fela stjórn BÍ að taka þátt í stofnun heildarsamtaka í landbúnaði með Samtökum fyrirtækja í landbúnaði.

Velferð bænda og dýra

Í starfsnefnd Búnaðarþingsfulltrúa um stefnumörkun í félagsmálum var fjallað bæði um velferð bænda og dýra. Ályktað var að BÍ leggi áherslu á að áfram verði unnið að verkefninu Bændageð, sem byggir á vitundarvakningu, forvörnum og jafningjafræðslu til bænda, og að þeir sem og aðstandendur hafi og þekki greiðar leiðir til sjálfsbjargar.

Í því ljósi að ekkert afleysingakerfi fyrir bændur sé í landinu verði unnið í samráði við stjórnvöld að því að koma upp slíkri þjónustu. Skortur á afleysingaþjónustu sé streituvaldandi og geti leitt til þess að bændur gangi of nærri sér, bæði andlega og líkamlega.

Þá var ályktað um að Bændasamtökin muni áfram vinna að verkefninu „Búum vel“ í samvinnu við búnaðarsamböndin, sem felst í að bæta öryggis- og vinnuverndarmenningu í sveitum.

Trúverðugt búfjáreftirlit

Í ályktun um dýravelferð segir að mikilvægasta forsenda þess að sátt ríki í samfélaginu um að nýta dýraafurðir til matvælaframleiðslu sé að velferð dýranna sé tryggð af þeim sem um þau annast og að eftirlit með því sé trúverðugt, virkt og gegnsætt.

Þar kemur einnig fram að gera þurfi eftirlit með dýrahaldi skilvirkara. Leita þurfi leiða til að hægt verði að greina aðsteðjandi vanda sem fyrst þannig að hægt sé að grípa fyrr til aðgerða en núverandi kerfi leyfir og greina þurfi vandlega hvort þörf sé á breytingum á lögum eða reglugerðum.

Skoða þurfi hvort setja eigi reglur um að umráðamenn dýra þurfi að uppfylla eðlilegar kröfur um þekkingu á eðli og þörfum dýranna sem og gildandi reglum um velferð þeirra.

Lagt er til að skipað verði viðbragðsteymi sem starfi þegar upp koma erfið dýravelferðarmál.

Endurnýting á lífrænum úrgangi

Í starfsnefnd um loftslags- og umhverfismál var ályktað um lífrænan úrgang og áburðarframleiðslu.

Þar segir að brýnt sé að stjórnvöld stuðli þegar í stað að samstarfsvettvangi um fjárfestingu, rannsóknir og þróun til endurnýtingar alls lífræns úrgangs sem til fellur á Íslandi sem verði nýttur til framleiðslu innlends tilbúins áburðar til landbúnaðarnota. Ísland hafi allt til að bera til að vera leiðandi á þessu sviði auk þess sem slík endurnýting leiði til sjálfbærni Íslands varðandi áburðarþörf. Mikilvægt sé að slíkur samstarfsvettvangur verði stofnaður á allra næstu vikum.

Varðandi loftslagsáhrif landbúnaðarins er lagt til að samtökin skuldbindi sig til að vinna að því að draga úr losun á framleiðslueiningu í landbúnaði og auka samhliða kolefnisbindingu. Mikilvægt sé að einblína á verkefni sem skili árangri fyrir atvinnugreinina.

Krafist verði viðurkenningar á bindingu eldri skóga á lögbýlum sem mótvægi við losun frá landbúnaði og áfram verði stutt við framleiðslu og sölu á vottuðum kolefniseiningum á lögbýlum.

Stefna mörkuð um landnotkun

Talið er mikilvægt að stuðla að hagkvæmri nýtingu lands og landgæða með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Brýnt sé að sveitarfélög marki sér stefnu um landnotkun þannig að skipulag landnotkunar stuðli að möguleikum á fjölbreyttri og hagkvæmri nýtingu landbúnaðarlands í sátt við umhverfið.

Ályktað var um að búfjárbeit ætti að samræma annarri landnýtingu svæðisbundið. Ólíkar aðstæður og hagsmunir séu milli svæða og talið mikilvægt að samþykktir séu yfirfarnar, þar sem ágreiningur er uppi.

Nýliðun nauðsynleg

Í starfsnefnd um innri starfskilyrði landbúnaðar var ályktað um mikilvægi nýliðunar. Þar kom fram að nýliðun sé nauðsynleg til að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar og byggðafestu. Auka þurfi framlög í nýliðunarstuðning, endurskoða fyrirkomulagið, sem og að leita nýrra leiða til að styðja við kynslóðaskipti. Leggja þurfi grunn að því að nýir aðilar komi inn í greinina óháð aldri. Atvinnugreinin þurfi aðgang að þolinmóðu fjármagni á lágum vöxtum til að nýliðar sjái sér hag í að velja landbúnað umfram annan rekstur. Til að svo megi verða þurfi landbúnaðarstefnan að vera til lengri tíma og má ekki sveiflast vegna geðþóttaákvarðana einstakra valdhafa hverju sinni. Framleiðendur verði að geta búið við fyrirsjáanleika og stöðugleika.

Lagt er til að styðja sérstaklega við þá frumkvöðla sem hefja ræktun á nýjum tegundum, enda þurfi að auka fjölbreytni í íslenskri frumframleiðslu matvæla. Í þessari starfsnefnd var einnig ályktað um tryggingamál bænda. Lagt er til að Bjargráðasjóður verði hluti af Náttúruhamfaratryggingu Íslands og veiti tryggingavernd vegna áfalla í landbúnaði sem ekki er hægt að tryggja hjá íslenskum tryggingafélögum.Trygginga- sjóðurinn starfi með bakábyrgð ríkissjóðs þannig að ávallt sé ljóst að tjón séu bætt að fullu í samræmi við skilmála hverju sinni.

Einföldun á reglu- og eftirlitskerfi

Í starfsnefndinni um innri starfsskilyrði landbúnaðarins var ályktað um að einfalda þurfi reglu verk í landbúnaði og framleiðslu annars vegar og í eftirlitskerfinu hins vegar.

Nýta þurfi fjórðu iðnbyltinguna til að draga úr kostnaði og auka skilvirkni eftirlitskerfisins og tryggja að það styðji við nýjar leiðir til verðmætasköpunar án þess að slá af kröfum um matvælaöryggi.

Framleiðsla og markaðssetning

Í ályktun starfsnefndarinnar er þess krafist að innlendir framleiðendur sitji við sama borð og samkeppnisaðilar þeirra erlendis. Óheimilt ætti að vera að framleiða, selja og markaðssetja vörur úr erlendum hráefnum sem ekki uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til innlendra frumframleiðenda.

Mælst er til þess að BÍ beiti sér fyrir því að neytendur á Íslandi hafi möguleika á upplýstu vali þegar kemur að upprunamerkingum matvæla. Því sé hægt að ná með því að staðla merkingar um uppruna og framleiðsluland allra landbúnaðarvara og að merkingar uppfylli kröfur merkingareglugerðarinnar og fánalaganna og viðurlögum beitt sé það ekki gert.

Eins með því að hvetja fram leiðendur til að upprunamerkja tilbúna rétti og unnar kjötvörur þó þeim sé það ekki skylt samkvæmt reglugerð. Hvatt er til þess að innlendir framleiðendur sameinist um eitt upprunamerki sem fari á sem flest matvæli.

Meiri fjármunir til búvörusamninga

Í starfsnefnd um ytri skilyrði landbúnaðar er mælst til þess að fjármögnunarþak búvörusamninga verði afnumið. Óhjákvæmilegt sé að með aukinni framleiðslu, sem stefnt sé að í landbúnaðarstefnunni, muni auknir fjármunir úr ríkissjóði renna inn í búvörusamningana. Sama eigi við um fjárfestingar- og nýliðunarstuðning en eðli slíkra styrkja sé þannig að tilgangi þeirra sé ekki náð þegar mjög takmarkaðir fjármunir eru til skiptanna.

Í umfjöllun um afkomu bænda ályktar nefndin að BÍ beiti sér fyrir því að komið verði á sameiginlegum hagtölugrunni um öll þau atriði er áhrif hafa á íslenskan landbúnað, að slíkur grunnur sé forsenda þess að hægt sé að eiga samtöl á sameiginlegum grundvelli um breytingar á starfsumhverfi landbúnaðarins.

Tollverndin hluti af starfsskilyrðum bænda

Nefndin telur tollverndina vera órjúfanlegan hluta af starfsskilyrðum í landbúnaði og þurfi að þjóna tilgangi sínum með skilvirkum hætti.

Mikilvægt sé að fá viðurkenningu á sérstökum framleiðsluaðstæðum á Íslandi vegna hnattrænnar legu landsins. Ályktað er að innflutningur landbúnaðarvara hafi aukist síðustu ár og þær forsendur sem lágu til grundvallar tollasamningi við ESB árið 2015 séu brostnar. Talið er að segja þurfi upp tollasamningnum við ESB og að magntollar á búvörur verði uppreiknaðir til verðlags dagsins í dag. Samningurinn vinni gegn fyrirætlunum stjórnvalda um eflingu innlendrar matvælaframleiðslu.

Lækkun eða niðurfelling tolla kippi með öllu stoðum undan íslenskum landbúnaði og séu ótækar án jafngildra mótvægisaðgerða.

Markmiðum með tollvernd verði ekki náð án eftirlits með innflutningi og því þurfi stjórnvöld að tryggja virkt eftirlit samhliða tollvernd en á því hafi verið alvarlegir brestir.

Fæðu- og matvælaöryggi

Loks fjallaði starfsnefndin um ytri skilyrði landbúnaðar, um fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi. Þar segir að mikilvægt sé að marka stefnu um hvernig tryggja megi fæðuöryggi þjóðarinnar. Í því felst að stjórnvöld setji markmið um getu innlendrar matvælaframleiðslu til að takast á við skyndilegar breytingar á aðgengi að innfluttri matvöru og aðföngum þannig að fæðuöryggi þjóðarinnar sé tryggt.

Íslenskur landbúnaður verði sjálfbær grunnur að fæðuöryggi Íslands til að styrkja stoðir áfallaþols samfélagsins.

Til að tryggja fæðuöryggi verði áherslan meðal annars að vera á orkuskipti og þá möguleika sem eru til staðar fyrir innlenda orkugjafa til að mæta orkuþörfum í landbúnaði. Stjórnvöld þurfi að setja fram viðbragðsáætlanir sem tryggja fæðu- og matvælaöryggi, sjálfbærni í matvælaframleiðslu og birgðageymslu matvæla.

Sambærilegt regluverk

Til að tryggja fæðu- og matvælaöryggi sé nauðsynlegt að innlendar afurðastöðvar lúti sambærilegu regluverki og afurðastöðvar í helstu samkeppnislöndum.

Uppbygging öflugs og trausts flutningskerfis raforku og fjarskipta sem tryggir jafnt aðgengi að dreifikerfum er forsenda öflugrar byggðar. Landbúnaður sé háður tryggum dreifikerfum sem séu undirstaða fæðu- og matvælaöryggis.

Nánari upplýsingar um heildarstefnumörkun Bændasamtaka Íslands verður að finna á vef samtakanna, bondi.is.

Skylt efni: Búnaðarþing

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust
Fréttir 4. október 2024

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust

Skógræktarfélag Íslands hefur valið skógarfuru í Varmahlíð tré ársins 2024.

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir
Fréttir 4. október 2024

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir

Nýlega voru skipaði þrír forstjórar fyrir nýjar ríkisstofnanir sem urðu til með ...

Eftirlíking af hálfri kú
Fréttir 4. október 2024

Eftirlíking af hálfri kú

Nautastöð Bændasamtaka Íslands tók á dögunum í notkun eftirlíkingu af kú sem er ...

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti
Fréttir 3. október 2024

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti

Heilbrigðisnefndir kringum landið hafa gagnrýnt skort á kynningu á nýrri regluge...

Aðgerðaáætlun gefin út
Fréttir 3. október 2024

Aðgerðaáætlun gefin út

Matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hefur gefið út aðgerðaáætlun fyrir...

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun
Fréttir 3. október 2024

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun

Verkefnið Vatnaskil á Austurlandi miðar að því að efla nýsköpun og stuðla að fjö...

Áburðarverkefni í uppnámi
Fréttir 3. október 2024

Áburðarverkefni í uppnámi

Áburðarverkefni í Syðra-Holti í Svarfaðardal, sem gengur út á moltugerð úr nærsa...

Aukinn innflutningur á lægri tollum
Fréttir 2. október 2024

Aukinn innflutningur á lægri tollum

Ekki er hægt að fá uppgefna þá aðila sem standa að baki innflutningi á landbúnað...