Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Þorði ekki að setja kiðlinga sína út af ótta við tófur
Fréttir 16. apríl 2014

Þorði ekki að setja kiðlinga sína út af ótta við tófur

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Á bænum Kvistási í Kelduhverfi býr Indriði Vignir Haraldsson með 40 kindur og 7 geitur. Þann 14. janúar bar fyrsta geitin og síðan 4 til viðbótar og lifðu samtals 8 kiðlingar. Þeir eru orðnir stálpaðir og tímabært að setja þá út enda snjólétt og tíðarfar ágætt. Indriði hefur hins vegar ekki þorað að setja þá út þar sem mikið hefur verið um tófuspor kringum fjárhúsin og einnig í görðum við íbúðarhús þar sem tófan hefur verið að eltast við rjúpur.

Eitt sinn að næturlagi leit hann út um eldhúsgluggann og sá þá tvær tófur í eltingaleik kringum olíutank og í annað sinn skaust mórauð tófa framhjá útidyrunum. Það varð að ráði að refaskyttan Ólafur Jónsson á Fjöllum lagði út gómsæta bita í haglabyssufæri við fjárhúsin og fór tófa fljótlega að koma þar að og gæða sér á þeim. Að kvöldi 4. apríl lá Ólafur svo fyrir þeim og skaut mórauðan ref og hvíta læðu þá um nóttina með haglabyssu út um fjárhúsdyrnar.

Nú leika sér ánægðir kiðlingar við fjárhúsvegginn í Kvistási og ábúendur geta sofið áhyggjulausir enda heyrist ekki lengur tófugagg um nætur. Síðustu tvær geiturnar báru svo í lok mars og bættust þar með þrír litlir kiðlingar við í hópinn en ærnar munu bera á tilsettum tíma í vor. Ólafur hefur skotið fimm tófur til viðbótar í sveitinni í vetur og hefur orðið var við margar sem ekki hafa náðst enn sem komið er.
„Það er orðið mikið meira um tófu hér en var fyrir tuttugu til þrjátíu árum. Enda tala menn um að tófustofninn hafi tífaldast og líklega vel það,“ sagði Ólafur í samtali við Bændablaðið.

„Svona er þetta um allt land og í Húnavatnssýslum lá maður þrjár nætur við æti og skaut 31 tófu. Hér á svæðinu við Öxarfjörðinn og til Húsavíkur er búið að taka um 60 tófur í vetur. Samt næst ekki nema brot af tófunum og því mikill fjöldi eftir.“

Hann segir tófuna á svæðinu vera óhrædda við menn og sækja því mikið heim að húsum. Hann velti því fyrir sér hvort þessar tófur alist upp í þjóðgarðinum þarna fyrir ofan þar sem bannað er að skjóta þær. Þar sé mikil umferð ferðamanna í næsta nágrenni við þekkt tófugreni og ekki óalgengt að séu óhræddar við menn.

Betri tækni léttir veiðimönnum starfið

Ólafur segir ekki auðvelt að eiga við tófurnar í skammdeginu. Þó séu menn nú komnir með ýmis hjálpartæki eins og hreyfiskynjara og myndavélar sem valda því menn geta lagt sig á meðan beðið er þar sem borið hefur verið út æti fyrir tófuna. Hreyfiskynjarinn vekur menn svo ef tófa kemur í færi. Þetta sé mikill munur frá því sem áður var þegar menn þurftu að vaka heilu næturnar. Þá segir hann að refaskyttur séu orðnar mun þjálfaðri í skotfimi en áður og með öflugir vopn sem hiklaust sé hægt að beita á tófur á yfir 200 metra færi. Segist hann hafa heyrt dæmi um að skytta hafi náð tófu á 468 metra færi. Þrátt fyrir þetta þá haldi tófunni áfram notar jafnhliða haglabyssunni er Tikka T3 300 magnum af gerðinni Winchester sem er með þeim stærstu sem hér þekkjast.

Ólafur segir að þó tófan sé ekki stórt dýr sé hún algjör ryksuga í náttúrunni og sem dæmi hafi læða eitt sinn komið með 23 þúfutittlingsunga í kjaftinum í sinni síðustu ferð heim á greni.

„Ég myndi giska á að tófa fari ekki undir 100 kílómetra í leit sinni að æti að næturlagi. Fróðlegt væri að fá staðfestingu á þessu með því að festa GPS-tæki við tófu. Hún fer þó aldrei beina línu, heldur sveimar um í leit að æti með nefið niðri við jörðu.“ 

Erfðabreytt búfé
Fréttir 6. desember 2021

Erfðabreytt búfé

Erfðafræðingar binda vonir við að með aðstoð erfðatækni megi koma í veg fyrir al...

Íbúar hópfjármagna byrjun framkvæmda
Fréttir 6. desember 2021

Íbúar hópfjármagna byrjun framkvæmda

„Undanfarin ár hefur sveitarstjórn Húnaþings vestra lagt áherslu á að framkvæmdu...

Óviðunandi vetrarþjónusta við vinsæla ferðamannastaði
Fréttir 6. desember 2021

Óviðunandi vetrarþjónusta við vinsæla ferðamannastaði

Það er til mikils að vinna að koma á bættri vetrarferðaþjónustu á Norðurlandi. E...

Erlendir ferðamenn hafa greitt um 30 milljónir fyrir ferðir um Vaðlaheiðargöng
Fréttir 6. desember 2021

Erlendir ferðamenn hafa greitt um 30 milljónir fyrir ferðir um Vaðlaheiðargöng

Erlendir ferðamenn sem farið hafa um Vaðlaheiðargöng á þessu ári hafa greitt fyr...

Nýtt 450 íbúða hverfi byggt í Þorlákshöfn
Fréttir 6. desember 2021

Nýtt 450 íbúða hverfi byggt í Þorlákshöfn

Framkvæmdir eru hafnar við uppbyggingu fyrsta áfanga Móabyggðar, nýs 450 íbúða h...

Rökstuddur grunur um blóðþorra
Fréttir 3. desember 2021

Rökstuddur grunur um blóðþorra

Veira sem getur valdið sjúkdómnum blóðþorra í laxi, Infectious salmon anaemia, h...

Nýsköpunar- og þróunarsetur verði byggt upp á Vesturlandi
Fréttir 3. desember 2021

Nýsköpunar- og þróunarsetur verði byggt upp á Vesturlandi

Landbúnaðarháskóli Íslands og Háskólinn á Bifröst hafa tekið höndum saman um að ...

Ísland er enn í sérflokki þegar kemur að lítilli notkun sýklalyfja í landbúnaði
Fréttir 3. desember 2021

Ísland er enn í sérflokki þegar kemur að lítilli notkun sýklalyfja í landbúnaði

Samkvæmt skýrslu European Medicine Agency, sem kom út í síðustu viku, er sýklaly...