Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Einar Eðvald Einarsson.
Einar Eðvald Einarsson.
Mynd / H.Kr.
Fréttir 9. október 2020

Þokkaleg sala en verð enn of lágt

Höfundur: Vilmundur Hansen

Skinnauppboði Kopenhagen Fur lauk í síðustu viku en það var síðasta skinnauppboð ársins 2020. Rúm 88% af skinnum sem í boði voru seldust og er það mun betri sala en á uppboðunum undanfarið. Þrátt fyrir þokkalega sölu var verðið það sama og á þarsíðasta uppboði og enn undir kostnaðarverði.

„Miðað við þær tölur sem ég hef séð er söluprósentan á þessu uppboði sú skásta á árinu,“ segir Einar Eðvald Einarsson, formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda og bóndi að Syðra-Skörðugili í Varmahlíð.
„Það seldust yfir 88% af skinnunum, sem er 12% meira en á þarsíðasta uppboði þegar 76% skinna í boði seldust en salan fór niður í 8% skinna þegar verst lét á fyrri hluta ársins og einu uppboði var alveg aflýst. Þannig að söluprósentan hefur lagast í gegnum árið en skinnaverðið er óbreytt frá síðasta uppboði en verðið á árinu í heild er mjög lélegt og langt undir framleiðslukostnaði.“

Skinnaverð langt undir framleiðslukostnaði

Lokaverð á skinni til íslenskra bænda á árinu er innan við þrjú þúsund krónur og stuðningur ríkisins er metinn á eitt þúsund krónur. Framleiðslukostnaðurinn er aftur á móti um fimm þúsund krónur á hvert skinn. Það er því ljóst að loðdýrabændur eru að tapa á framleiðslunni og slíkt gengur ekki til lengdar.

60% íslenskra skinna frá 2019 seld

Einar segir að um 60% af íslenskum skinnum sem framleidd voru árið 2019 séu seld en restin flyst milli söluára sem birgðir. „Við sitjum því uppi með um 40% skinna sem áætlað var að selja á þessu ári og alla framleiðslu þessa árs.“

Styrkjum ekki úthlutað nema að hluta

Íslenska ríkið ákvað fyrr á þessu ári að styrkja loðdýrabændur um 80 milljónir króna vegna minnkandi eftirspurnar á skinni vegna COVID-19. Ákveðið var að styrkurinn færi í gegnum fóðurstöðvarnar og nýtist minkabændum sem niðurgreiðsla á fóðri.

Skinn á uppboði.

Einar segir að því miður gangi hægt að fá peningana greidda út og það sé þessa stundina einungis búið að greiða út 30 milljónir af þeim 80 sem til stendur að leggja til á þessu ári og von sé á restinni seinna á árinu.

„Við náttúrlega treystum því að stjórnvöld og landbúnaðarráðherra standi við það sem þau segjast ætla að gera. Stuðningurinn sem felst í niðurgreiðslu upp á 80 milljónir króna, bæði á þessu ári og því næsta, er lífæð greinarinnar í dag og því nauðsynlegt að hún haldi.“

Markaðurinn sleginn í rot

„Ástandið vegna COVID-19 undanfarna mánuði hreinlega sló skinnamarkaðinn á árinu í rot. Það stoppaði allt, skinnaframleiðslufyrirtæki drógu verulega úr og sum hættu hreinlega að kaupa hráefni og það kom niður á bændum. Þetta er í rauninni það sama og með mikið af sam­bærilegri vöru sem notuð er í veislum, til gjafa, spari eða á ferðalögum. Samkomu- og ferðastoppið um heim allan er að valda verulegum samdrætti í sölu á þessum vöruflokkum og því breytta neyslumynstri sem fylgir þeirri hegðun fólks sem nú er í gangi vegna COVID-19.“

Nýtt uppboð í febrúar

„Næsta uppboð er í febrúar 2021 og ég held að það sé alveg sama hvernig menn snúa peningnum þá ráði næsta ár úrslitum um hvort við og fjöldi annarra loðdýrabænda í Evrópu getum haldið starfseminni gangandi áfram eða ekki. Mikill samdráttur verður eftir árið í ár en ef greinin verður ekki orðin sjálfbær í lok næsta árs þá sé ég illa fyrir mér að hún geti haldið áfram. Það getur enginn framleitt vöru langt undir kostnaðarverði til lengdar. En það er líka sorglegt að gefast upp fyrr en að fullreyndu, og því viljum við taka slaginn til loka árs 2021 með stuðningi ríkisins og vona að ástandið í heiminum færist til betri vegar á þeim tíma,“ segir Einar.