Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Þjóðtrú tengd áramótunum
Fréttir 30. desember 2014

Þjóðtrú tengd áramótunum

Höfundur: Vilmundur Hansen

Á nýársnótt er á margan hátt kynngimagnað andrúmsloft og hún skipar veglegan sess í íslenskri þjóðtrú. Álfar flytja búferlum, selir kasta hamnum, vatn breytist í vín, kirkjugarðar rísa, þá er óskastund og mark er takandi á öllum draumum á nýársnótt.

Á gamlárskvöld geta menn séð konuefnið sitt og konur mannsefnið með því að sitja í koldimmu herbergi og horfa í spegil. Til að þetta geti orðið þarf að fara með eldgamla þulu sem fáir kunna og ekki verður höfð eftir hér. Enginn má vita af uppátækinu og enginn má vera viðstaddur athöfnina því þá getur farið illa. Það fyrsta sem birtist í speglinum eru kynjamyndir en síðan kemur út úr honum hönd sem heldur á hníf eða einhverju vopni. Höndin kemur út þrisvar sinnum og réttir einhvern hlut að horfandanum en hann má ekki fyrir nokkurn mun taka við hlutnum því þá verður hann fyrir mikilli ógæfu. Myndirnar í speglinum fara smám saman að skýrast og að lokum birtist hin rétta mynd í nokkrar sekúndur.

Álfar og huldufólk eru mikið á ferli á nýársnótt og því er til siðs að láta ljós loga alla nóttina, einnig þótti sjálfsagt í gamla daga að skammta eitthvert góðgæti á disk og setja á afvikinn stað ef huliðsverurnar skyldu eiga leið hjá.

Kýr fá mannamál á nýársnótt og ræða saman um allt milli himins og jarðar. Einu sinni lá maður úti í fjósi á nýársnótt til að heyra um hvað kýrnar töluðu þegar þær fengu málið. Hann heyrði eina kúna segja: „Mál er að mæla.“ En þá segir önnur: „Maður er í fjósinu“, tekur þá þriðja kýrin til máls og segir: „Hann skulum við æra.“ Og sú fjórða: „Áður en ljósið kemur“. Maðurinn náði að segja heimafólki frá atburðinum um morguninn en síðan gekk hann af göflunum. Fari svo að flutt verði norskt kúakyn til landsins verður það endanlega til að æra óstöðuga að heyra kýrnar tala norsku í fjósinu á nýársnótt.

Dauðir rísa úr gröfum sínum á nýársnótt og er það kallað að kirkjugarður rísi. Hinir framliðnu koma þá upp í líkblæjum, ganga til kirkju og halda messu en hverfa síðan. Á meðan hinir látnu eru ofan jarðar eru grafir þeirra opnar og þá ganga svipir þeirra sem deyja á næsta ári í garðinn og máta sig í gröfunum.

Víða erlendis er því trúað að einstaklingar og heimilin eigi að borga upp allar skuldir fyrir áramót og hefja nýja árið kvitt við guð og menn því þá vegni einstaklingnum og heimilinu vel. Sem betur fer er þessi trú ekki í hávegum höfð hér á landi þar sem megnið af þjóðinni byrjar nýja árið með skuldabagga kreditkortanna og annarra lána á herðunum.

Gleðilegt nýtt ár.

Skylt efni: Stekkur

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð
Fréttir 29. nóvember 2024

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð

Suðurnesjamaðurinn Ingvar Georg Georgsson hefur verið ráðinn í starf slökkviliðs...

Rannsókn ungra bænda
Fréttir 29. nóvember 2024

Rannsókn ungra bænda

Samtök ungra bænda (SUB) eru að kortleggja hindranir og hvata nýliðunar og kynsl...

Haustrúningur í fullum gangi
Fréttir 29. nóvember 2024

Haustrúningur í fullum gangi

Baldur Stefánsson, rúningsmaður frá Klifshaga í Öxarfirði, klippir tólf til þret...

Skipuleggja lóðir fyrir súrefnisframleiðslu
Fréttir 29. nóvember 2024

Skipuleggja lóðir fyrir súrefnisframleiðslu

Sveitarfélagið Ölfus hefur auglýst nýtt deiliskipulag fyrir lóðina Laxabraut 31 ...

Kjúklingar aftur í Grindavík
Fréttir 29. nóvember 2024

Kjúklingar aftur í Grindavík

Reykjagarður hf. hefur endurvakið kjúklingarækt í Grindavík eftir ellefu mánaða ...

Svissnesk ferðaþjónusta við Hengifoss
Fréttir 28. nóvember 2024

Svissnesk ferðaþjónusta við Hengifoss

Svissneska parið Isabelle og Steff Felix komu í Fljótsdalinn snemma árs 2022 og ...