Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Ullu steig fyrst á bak íslenskum hesti þann 29. september árið 1959, þá sem ungur blaðamaður. Síðan þá hefur líf hennar snúist um íslenska hestinn
Ullu steig fyrst á bak íslenskum hesti þann 29. september árið 1959, þá sem ungur blaðamaður. Síðan þá hefur líf hennar snúist um íslenska hestinn
Fréttir 31. júlí 2017

Þegar lífið snýst um töltandi furðuveru

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Ævintýralegt lífshlaup Ullu Becker hverfist um íslenska hestinn. Hún þeysti Bandaríkin þver á töltandi fákum á sjöunda áratugnum og var brautryðjandi fyrir útbreiðslu hestakynsins í Þýskalandi. 
 
Þýska hestakonan Ullu Becker var stödd hér á landi til að skoða nýjasta ferfætlinginn sinn. Hún kemur reglulega til Íslands enda á hún hér stóran hóp af vinum og nokkur hross. Ullu er í dag á áttræðisaldri en íslenski hesturinn hefur skipað stærsta sess í lífi hennar í yfir 60 ár.
 
Þann 29. september 1959 steig Ullu Becker fyrst á bak íslenskum hesti.  Hún var þá ungur blaðamaður sem fyrir tilviljun hafði heyrt af litlu úfnu hestakyni. Hún var vön stórum hestum en komst þarna í tengsl við skepnu sem átti eftir að verða stærsti áhrifavaldur í lífi hennar. 
 
Ullu á stóðhestinum Hrappi frá Garðsauka sem fluttur var frá Íslandi til Þýskalands 1964 og er ættfaðir margra hrossa í Þýskalandi. Ullu keppti á honum með góðum árangri á fyrsta Evrópumóti íslenska hestsins árið 1970.
 
„Þarna vissi ég ekkert um tölt en þessi hestur tölti undir mér. Tilfinningin var stórkostleg en afar skrítin.“ 
Þann sama dag hitti Ullu verðandi eiginmann sinn, Claus Becker, en hann annaðist þennan íslenska hest. Claus var vinur Gunnars Bjarnasonar hrossaræktarráðunauts, sem hann kynntist gegnum rithöfundinn og hestakonuna Ursulu Bruns. 
 
Það var einmitt vegna vinskapar þeirra Gunnars og Ursulu að íslenskir hestar voru fyrst fluttir til Þýskalands á sjötta áratug síðustu aldar. Þeir voru ferjaðir á meginlandið til að leika hlutverk í kvikmyndinni Die Mädels vom Immenhof, sem byggð var á bók eftir Ursulu. Immenhof myndirnar, sem margir hestamenn þekkja, ruddu brautina fyrir íslenska hestinn og Íslandshestamennsku í Þýskalandi og varla er til sá þýski hestamaður sem ekki hefur orðið fyrir áhrifum þeirra.
 
Gæfuspor Gunnars
 
Samstarf Claus og Gunnars Bjarnasonar um innflutning og kynningu íslenskra hesta á meginlandinu hófst árið 1955 en tók stakkaskiptum á sjöunda áratugnum þegar ágæti þessa litla fjölhæfa hestakyns spurðist út.
 
Claus og Ullu bjuggu þá og ráku hrossa- og nautabú í Saarland, sem þá var ekki hluti af Þýskalandi. 
„Á þessum tíma voru engir smáhestar í Saarland og því vakti það athygli þegar við kynntum íslenska hestinn til sögunnar. Við vorum þegar kunnir reiðmenn á stærri hestakynjum og fólki þótti því eftirtektarvert að sjá okkur í útreiðartúr á þessum litlu furðuverum. Það heillaðist af gangtegundunum og hvernig hestarnir hreyfðu sig. Þá þótti, og þykir enn, karakterinn líflegur og öðruvísi en við vorum vön í stóru hestakynjunum. Íslenskir hestar eru bara svo skemmtilegir. Það var ástæðan fyrir að við heilluðumst, og aðrir með,“ segir Ullu.
 
Ullu og Claus ráku í mörg ár reiðskóla fyrir börn með íslenskum hestum. Útbreiðsla hestakynsins í Þýskalandi hefur vaxið stöðugt og í dag er íslenski hesturinn stærsta smáhestakyn þar í landi og vinsæll fjölskylduhestur.
 
Í áranna rás jókst aðdáendahópur íslenska hestsins í Þýskalandi og eigendum þeirra fjölgaði jafnt og þétt. Hún segir hafa verið auðvelt að koma þeim á framfæri. Hróður hestsins hafi borist hratt og víða og að á áttunda áratugnum hafi útbreiðsla þeirra og fjöldi verið svo til sjálfbær.
 
Í dag eru tæp 52.000 lifandi íslensk hross í Þýskalandi, samkvæmt WorldFeng, upprunarættbók íslenska hestsins. Það er rúm 19% af stofninum og fer þeim enn fjölgandi. Íslenski hesturinn er auk þess orðið næststærsta hestakyn í landinu, og stærsta smáhestakynið.
  
Kappreiðin mikla
 
Spólum aftur til áttunda áratugarins. Íslandshestaheimurinn á megin­landinu var orðinn það stór að Evrópumót báru sig, en þó huggulega lítill. „Ég þekkti hvern hest og hvern hestamann frá Danmörku til Ítalíu,“ segir Ullu.
 
Fyrsta Evrópumótið var haldið árið 1970 í Þýskalandi. Árið 1973 var það haldið í annað sinn, og þá í Sviss. Ullu mætti til að fylgjast með. „Ég sat á áhorfendabekkjum og horfði. Amerísk kona, sem sat við hliðina á mér, fer að spyrja mig út í gangtegundirnar, hvernig keppnin væri dæmd og svo framvegis. Upp úr þessu þróaðist gott samtal. Eftir mótið héldum við sambandi og höfum verið vinkonur síðan,“ segir Ullu. Konan er Linda Tellington-Jones, þekktur hestahvíslari.
 
The Great American Horse Race lauk í borginni Sacramento í Kaliforníu. Lið íslenska hestsins var það eina sem náði hverjum liðsfélaga á leiðarenda. Liðið var skipað Walter Feldmann jr., Johannesi Hoyos, Max Indehowr, Lothar Weiland, ásamt hjónunum Claus og Ullu Becker. Hver reiðmaður var með tvo hesta til reiðar.
 
 
Linda reyndist mikill áhrifavaldur í lífi Ullu og fyrir Íslandshestamennskuna í vestri.„Haustið 1975 sagði Linda mér frá kappreið sem átti að fara fram árið 1976 í tilefni af 200 ára afmæli Bandaríkjanna. Ríða átti þvert yfir Bandaríkin, frá austri til vesturs. Við Claus höfðum alltaf gaman af því að taka okkur eitthvað furðulegt fyrir hendur og fengum náttúrlega þá flugu í höfuðið að taka þátt í kappreiðinni á okkar íslensku hestum.“ 
 
Þetta gerðu þau og vorið 1976 voru tíu íslensk hross meðal 200 ferfætlinga sem lögðu upp í þriggja mánaða langa kappreið, The Great American Horse Race, frá New York til Sacramento, ásamt um 90 reiðmönnum. Íslenska liðið var skipað Walter Feldmann jr., Johannesi Hoyos, Max Indehowr, Lothar Weiland ásamt Claus og Ullu. Hver reiðmaður var með tvo hesta til reiðar.
 
Þolgæðin komu öllum að óvörum
 
„Ég man að dýralæknar keppninnar höfðu ekki mikla trú á okkur á fyrstu dögum keppninnar. Þeir kenndu frekar í brjósti um okkur og sannfærðu okkur um að við fengjum að sitja í hjá þeim þegar hrossin okkar gæfust upp,“ segir Ullu.
 
Fljótlega fóru þó að renna á þá tvær grímur. Úthald íslensku hrossanna komu aðstandendum keppninnar skemmtilega á óvart. „Einhvers staðar í kringum Missouri breyttist viðhorf þeirra. Þeim þótti mikið til þess koma að íslensku hestarnir væru alltaf, eftir hvern einasta dag, jafn hraustir og hamingjusamir, japlandi á mélunum og ekki úrvinda. Þeim þótti þetta eftirtektarvert og fóru að stilla þeim upp til sýnis fyrir áhorfendur,“ segir Ullu. 
 
Ullu í sólarlaginu í eyðimörk Utah-ríkis ásamt reiðskjótum sínum árið 1976.
 
„Í miðri eyðimörk í Utah þurftum við að minnka við fóðurgjöf til þeirra, því þeir voru byrjaðir að fitna úr hófi. Hlaupandi þetta 40–90 km á dag. Að hugsa sér. Þetta var undravert. Við vissum alltaf að við gætum öll klárað keppnina, en við áttuðum okkur ekki á því fyrr en þarna hvað íslenska hestakynið er í raun framúrskarandi. Við vorum eina liðið sem náðum öll á leiðarenda á vesturströndinni með bæði menn og hesta heilbrigða. Ekkert annað lið áorkaði það og fyrir okkur var það ákveðinn sigur.“
 
Að lokinni kappreið tóku þau þátt í fleiri viðburðum þar vestra, sumir fóru í 100 mílna kappreið um Virginia city og stóðu sig með prýði. Íslenskur stóðhestur, Hrappsson, stóð uppi sem sigurvegari á stóðhestasýningu keppninnar. „Það var í fyrsta og eina sinn í sögunni sem arabískur hestur vinnur ekki,“ segir Ullu og bætir við að verðlaunagripur Hrappssonar sé staðsettur á Bessastöðum. 
 
Stal hatti dýralæknisins
 
The Great American Horse Race markar einnig upphaf íslenska hestsins í Ameríku, því nokkrir fákar liðsins urðu eftir í Bandaríkjunum og urðu ættfeður íslenskra hesta vestra. En tæplega 5.000 íslensk hross eru nú í Bandaríkjunum.
 
Önnur íslensk hross úr keppninni fengu önnur mikilvæg hlutverk í Bandaríkjunum.
„Annar af mínum hestum, Tvistur, varð eftir. Hjón sem ráku heimili fyrir langveik munaðarlaus börn keyptu hann heimilismönnum til mikillar gleði. Það var góður staður fyrir Tvist því hann var einn af þessum hestum sem vildu alltaf leika sér. Ég var til að mynda löngu búin að gefast upp á að hafa hann í lokaðri girðingu, leyfði honum bara að ráfa um búgarðinn frjálsum eins og hundi. Hann tók einnig upp á því að stela ýmsu handhægu, til að mynda yfirbreiðslum og heilum sekkjum af fóðri. Það skemmtilegasta var þó þegar hann hnuplaði hattinum af yfirdýralækninum í Saaland og hljóp í burtu með hann.“
 
Heimsútbreiðsla möguleg
 
Þrátt fyrir sterka stöðu íslenska hestsins í Þýskalandi telur Ullu að áhrif frá Íslandi séu nauðsynleg. „Ég hefði kannski ekki sagt það fyrir 10 árum, en í dag er ég á þeirri skoðun að við þurfum enn á Íslandi að halda þegar kemur að kynbótum. Sérstaklega ef við ætlum að breyta einhverju í kyninu. Það virðist vera auðveldara að ná fram breytingum á Íslandi en í öllum öðrum löndum.“ 
 
Íslenskir hestar eru bara svo skemmtilegir. Það var ástæðan fyrir að við heilluðumst, og aðrir með,“ segir Ullu sem hér situr einn af Hrappssonum. 
 
 
Hún tekur dæmi. „Þegar Íslendingar ákváðu að gera eitthvað varðandi geðslag þá gengu þeir í verkið. Þeir gera það með úrvali, skera niður það sem ekki stenst kröfur. Ég kann að meta það við íslenska hestabændur. Annars staðar er oft of fast haldið í hvern einstakling og það stuðlar ekki að jafn hraðri framþróun. Af þessari ástæðu er æskilegt fyrir okkur að fá einstaklinga frá Íslandi til að bæta kynið,“ segir Ullu.
 
Í dag er hægt að finna íslenska hesta í um 40 löndum heims, m.a. á Filippseyjum, Oman og Ástralíu. Ullu telur frekari útbreiðslu hestakynsins liggja beint við. „Þeir geta augljóslega plumað sig í öllum umhverfisaðstæðum. Ég tel alla möguleika á því að íslenski hesturinn geti orðið þekktur um allan heim,“ segir Ullu Becker.
Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...