Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Það er áskorun að grilla góða steik
Mynd / BGK
Fréttir 11. ágúst 2017

Það er áskorun að grilla góða steik

Höfundur: Bjarni Gunnar Kristinsson
Margir veigra sér við að grilla stórar nautasteikur en ef rétt er staðið að málum er það leikur einn. 
Það er áskorun að grilla fullkomna „T-bone“ steik því hún skiptist í raun í tvö kjötstykki, nautafile og nautalund, sem taka mismunandi tíma að grillast. Lykillinn að því að ná  fullkomnun í eldun á T-beinssteik er að byrja á því að elda steikina við lægri hita fyrst og hækka svo hitann í lokin. Gakktu úr skugga um að salta kjötið rétt áður en grillað er og leggðu þig fram við að ná miklum hita í lokin til þess að ná fram dýrindis grillskorpu á kjötið. 
 
Hvernig á að grilla „ T-bone “ steik?
 
Hráefni:
 • 2 stk.  T-bein steikur, að minnsta kosti 2 cm að þykkt (þynnri steikur eru fljótari að eldast í gegn)
 • Salt og ferskur malaður svartur pipar
Aðferð:
1. Að minnsta kosti 45 mínútum áður en eldað er: Kryddið steikina með salti og pipar á öllum hliðum, ekki gleyma brúnunum heldur. Þá nær kryddið að komast inn í kjötið. Sumir vilja krydda með salti síðast til að forðast að draga vökva úr kjötinu en það er smekksatriði.
 
2. Setjið kolin í hrúgu og kveikið upp í grillinu. Bíðið þar til kolin eru þakin grárri ösku. Þá má dreifa kolunum undir helmingi grindarinnar. Þegar um gasgrill er að ræða má hafa helming brennaranna á mesta hita en hluta á lágum hita. Grillið er  látið forhitast í 5 mínútur. Til að halda grillgrindinni hreinni er gott að bursta það eða pensla með olíu.
 
3. Raðið steikunum á kaldari hlið grillsins með lundinni fjær frá kolunum eða heitasta hluta grillsins. Notið hitamæli og mælið í þykkasta hluta nautafile bitans (stærri hlutar kjötsins). Þegar kjarnahitinn er orðinn  46°C og lundin um 43°C er kjötið miðlungs hrátt (medium rare) eftir um 15 mínútur. Annars fer matreiðslutíminn eftir hitastigi grillsins svo það er ráðlegt að hefja mælingar eftir um 10 mínútur á grillinu.
 
4. Ef kolin eru ekki logandi heit á þessum tímapunkti, þarf kannski að bæta meira við eldinn. Nokkrar þurrar birkigreinar gætu gert gagn og hleypt hita í kolin. Setjið steikurnar beint yfir kolin og brúnið. Snúið kjötinu þar til það er mjög vel brúnað á báðum hliðum. Notið töng og haldið kjötinu líka á hlið til að fá brúna steikingu á hliðarnar.
 
5. Látið hvíla í 10 mínútur og framreiðið.
 
Hollt brokkolí-hrásalat með trönuberjum 
Einfalt og hollt spergilkálshrásalat með þurrkuðum trönuberjum og sólblómafræjum er dýrindis meðlæti. Það er hægt að blanda saman ýmsu grænmeti til fá nýtt bragð og flotta liti.
 
Hráefni:
 • 3 matskeiðar hreint jógúrt
 • 1 msk. sítrónusafi
 • 1 msk. hlynsíróp, hunang eða agave
 • 1 tsk. Dijon sinnep
 • ¼ tsk. salt
 • 3 bollar rifið eða fínt skorið spergilkál (má blanda með gulrótum og hvítkáli)
 • ¼ bolli saxaður vorlaukur 
 • ¼ bolli þurrkuð trönuber
 • 2 msk. léttsöltuð og ristuð 
 • sólblómafræ
Aðferð: 
Hrærið saman í stóra skál jógúrt, sítrónusafa, hlynsíróp, sinnep og salt. Bætið saman spergilkáli (blöndu), vorlauk og trönuberjum. Blandið saman til að sameina.
 
Setjið plastfilmu yfir skálina og kælið í að minnsta kosti 30 mínútur. Fyrir framreiðslu er salatið toppað með stökkum sólblómafræjum.
 
Marengs Pavlova með kókoskremi og karamellusósu
 
Hráefni:
 • 1 bolli rifinn kókos eða kókosmjöl 
 • 1 bolli hvítur sykur eða flórsykur 
 • 1 msk. kartöflusterkja (eða maíssterkja )
 • 3 stórar eggjahvítur, við stofuhita (geymið eggjarauðu)
 • Klípa af salti
 • 1 tsk. hvítt edik
 • 1/2 tsk. Vanillu- eða kókosbragðefni (dropar)
 • Fylling: Þeyttur rjómi
Aðferð:
Hitið ofninn í 150°C. Setjið kókosinn í þurra pönnu. Ristuðu kókosmjölið yfir miðlungsháum hita þar til mest af  kókosmjölinu er gullbrúnt, hrærið stöðugt til að forðast að brenna. Fjarlægið frá hita og setjið til hliðar.
 
Hrærið saman í skál sykur og kartöflusterkju (eða maíssterkju). Setjið eggjahvítu og klípu af salti í hrærivél eða notið handþeytara. Hrærið á miðlungshraða í um 5 mínútur þar til mjúk froða myndast. Hækkið hraðann á hrærivélinni og bætið hægt við sykurblöndunni í um það bil 1 til 2 mínútur. Setjið varlega í edik og vanillu og hrærið þar til þetta verður gljáandi eins og marengs. Bætið kókosnum varlega í með spaða.
 
Takið stóra ofnplötu með smjörpappír. Mótið að vild á pappírinn. Setjið plötuna í ofninn og bakið þar til Pavlovan er þurr og „stökk“ að utan í um 45 til 55 mínútur. Slökkvið á ofninum og opnið ofnhurðina til hálfs. Látið Pavlovuna kólna í ofninum við stofuhita áður en hún er tekin út úr ofninum.
 
Hráefni í karamellusósu:
 • 1/2 bolli hvítur sykur
 • 1/2 bolli púðursykur
 • 2 msk. vatn
 • 1 tsk. vanilludropar
 • 1/4 bolli kókosmjólk
Til að gera karamellusósu þá þarf að hræra saman púðursykur, hvítan sykur og vatn í potti við háan hita þar til sykurinn leysist upp. Sjóðið niður þar til karamella hefur myndast og bætið þá við kókosmjólk og vanilludropum. Hrærið saman og kælið.
 
Þegar Pavlova er orðin köld má færa hana á fat og smyrja þeyttum rjóma á milli laga af marengsinum. Berið fram með karamellusósu.

5 myndir: