Spjallað við bændur í Efstadal
Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Í nýjasta þætti Spjallað við bændur er farið í heimsókn í Efstadal í Bláskógabyggð en þar er rekið myndarlegt kúa- og ferðaþjónustubú. Rætt er við Sölva Arnarsson sem sér um reksturinn ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum. Sölvi fer yfir búskapinn og fjallar um það hvernig hann fléttast saman við ferðaþjónustuna sem er afar blómleg á hans heimaslóðum.
Þorsteinn Roy Jóhannsson, spyrill þáttanna, segir að það sé margt fróðlegt í þessum þætti.
„Bændurnir í Efstadal vilja að upplifun ferðamannsins sé þannig að hann sé í raun að koma í heimsókn á sveitabæinn Efstadal og sjá þá starfsemi sem er í gangi. Svo getur hann gætt sér á dýrindis kræsingum af matseðli, ís, ostum og skyri sem þau búa til úr þeim afurðum sem þau eru að framleiða. Þau eru einnig með hestaleigu og fimm hunda á bænum,“ segir Þorsteinn. Fyrr á árum voru um 700 fjár á vetrarfóðrum á bænum en það var skorið niður vegna riðu og alfarið farið í kúabúskap og nautgripaeldi.
„Sölvi sagði okkur líka að jörðin væri á þannig stað að kúabúskapurinn henti mun betur en fjárbúskapurinn. Kindunum finnst nefnilega blómin í görðum sumarhúsanna þarna í kring langbest á bragðið!“
Þættirnir Spjallað við bændur eru aðgengilegir á vef Bændablaðsins, bbl.is og líka á Facebooksíðu blaðsins.