Skoðað hvort uppsagnir séu liður í samruna KS og KN
Samkeppniseftirlitið sendi Kjarnafæði Norðlenska og Kaupfélagi Skagfirðinga bréf á þriðjudag þar sem velt er upp hvort uppsagnir starfsmanna SAH afurða sé liður í samruna félaganna.
Í tilefni af dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember sl. ritaði Samkeppniseftirlitið kjötafurðastöðvum og samtökum þeirra bréf. Þar voru fyrirmæli um að stöðva þegar í stað hvers konar aðgerðir eða háttsemi sem farið geta gegn samkeppnislögum og stofnast hafði til á grundvelli undanþáguheimilda sem Alþingi samþykkti sl. vor en dæmdar voru ógildar.
„Þegar héraðsdómur féll hafði samruni Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á eignarhlutum í Kjarnafæði Norðlenska (KN) átt sér stað, en starfsemi SAH afurða á Blönduósi er í eigu síðarnefnda félagsins. Í tilefni af nýlegum fréttaflutningi af uppsögnum á starfsmönnum sláturhúss SAH afurða hefur Samkeppniseftirlitið ritað KS og KN bréf, dags. 4. mars sl., þar sem minnt er á efni fyrra bréfs frá 19. nóvember sl. Sérstaklega er minnt á að eftirlitið hafi beint því til afurðastöðva að stöðva aðgerðir sem tengdust m.a. samrunum afurðastöðva.
Jafnframt er í bréfinu áréttað að til skoðunar geti komið hvort kaup KS á KN hafi samræmst gildandi lögum, í ljósi dóms Héraðsdóms Reykjavíkur. Af sömu ástæðum geti á síðari stigum komið til athugunar hvort ráðstafanir í rekstri félaganna feli í sér brot á samkeppnislögum eða ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins. Uppsagnir á starfsfólki geta verið liður í framkvæmd samruna,“ segir í tilkynningu frá eftirlitinu.
