Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Sautjándi júní
Mynd / Ragnar Th / Höfuðborgarstofa
Fréttir 16. júní 2022

Sautjándi júní

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Í íslensku almanaki kemur fram, að við stofnun Íslenska lýðveldisins, árið 1944, hafi 17. júní verið valinn sem þjóðhátíðardagur Íslendinga til heiðurs og minningar um framlag Jóns Sigurðssonar forseta (f. 17. 1811–d. 07.12. 1879) í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga frá Dönum.

Þennan dag er mikið um hátíðahöld víða um land og gjarnan eru sungnir ættjarðarsöngvarnir fallegu, Hver á sér fegra föðurland og Lands míns föður.
Í blaðinu Ísafold árið 1876 eru auglýst „hátíðahöld og skemmtanir vegna sumardagsins fyrsta, þar sem Jóni Sigurðssyni er fagnað“ og svo næst, tíu árum síðar kemur fram að Þorlákur Ó. Johnson, kaupmaður í Reykjavík, hafi, upp á sitt einsdæmi, staðið fyrir hátíðinni sem slíkri.

Aðrar heimildir kynna daginn til leiks árið 1907, en þá hafi helmingur bæjarbúa í Reykjavík, um fimm þúsund manns, mætt á Austurvöll, lúðrar voru blásnir og ræður haldnar, allt til heiðurs fæðingardags forsetans fyrrverandi, Jóns Sigurðssonar.

Nokkrum árum síðar, 1911 var svo haldin sérstök hátíðarguðsþjónusta í Dómkirkjunni og að henni lokinni var farið í skrúðgöngu að leiði Jóns þar sem blómsveigur var lagður. Ungmennasamband Íslands hélt fyrsta allsherjar íþróttamótið á Melavellinum, tónlistaratriði til skemmtunar og rétt er að nefna að þennan dag var Háskóli Íslands settur, en við það tilefni var hinum bláhvíta fána flaggað af svölum Alþingishússins, sem var eitt hitamál þjóðarinnar á þessum tíma – staða íslenska fánans.

Vestfirðir, Akureyri og svo Íslendingafélagið í Winnipeg héldu þennan dag hátíðlegan samhliða Reykvíkingum og var í kjölfarið farið að tala um þennan dag sem þjóðhátíðardag Íslendinga

Kona í gervi fjallkonunnar – sem tákngervingur Íslands – kom svo fyrst fram á Íslendingadeginum í Winnipeg í Kanada 1924 og eftir lýðveldisstofnun á Íslandi 1944 hefur kona í skautbúningi jafnan flutt ávarp fjallkonunnar við hátíðahöld 17. júní.

Á millistríðsárunum var þó 1. desember einnig talinn þjóðhátíðar- dagur, en Ísland varð fullvalda ríki 1. des. árið 1918. Fullveldisdeginum var þó frekar fagnað innandyra, enda ekki eins hægt um vik að efla til skrúðgöngu og þurfa að ösla krap upp að ökklum. Þar sem hátíðahöldin urðu veigameiri er árstíminn var annar, varð sú þróun að 17. júní hafði betur sem dagur þjóðhátíðar þótt 1. desember hefði og hafi enn mikla þýðingu í hjörtum okkar Íslendinga.

Árið 1945 lýsti svo Ólafur Thors, þáverandi forsætisráðherra, því yfir að 17. júní væri formlega þjóðhátíðardagur landsins.

Nú, þegar rúm öld er liðin frá fyrstu hátíðahöldum, hefur yfirbragð þeirra eðlilega breyst nokkuð í takt við tímann. Enn eru skrúðgöngur við lýði, lúðrasveitir blása og ávarp fjallkonunnar alltaf jafn hátíðlegt, en nú er meira um gasblöðrur, leiktæki og skemmtidagskrá fyrir börn.