Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Hestaábreiðurnar frá Elínu Dögg hafa slegið í gegn enda hefur hún vart undan að afgreiða pantanir.
Hestaábreiðurnar frá Elínu Dögg hafa slegið í gegn enda hefur hún vart undan að afgreiða pantanir.
Mynd / Einkasafn
Fréttir 15. apríl 2021

Saumar Covid-grímur, hestaábreiður og merkir fatnað og reiðtygi

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

Elín Dögg Arnarsdóttir á bænum Litluflöt í Holtum í Rangárþingi ytra kallar ekki allt ömmu sína þegar kemur að saumaskap og alls konar vinnu með höndunum því hún hefur stofnað fyrirtækið „Saumað í sveitinni“ og þar er brjálað að gera.

Búin að sauma 700 grímur

„Þetta byrjaði þannig að ég keypti mér vél að utan sem sker út límmiða, og var það nú aðallega bara áhugamál, sem ég vann með í ferðaþjónustunni á Litluflöt. En svo kom Covid og þar með lítil vinna, grímuskylda hjá unglingnum í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi, sem þoldi illa einnota grímurnar. Þá voru góð ráð dýr, ég fann frítt snið á netinu og fór að sauma grímur, svo fór það að spyrjast út  og hef ég saumað hátt í 700 grímur. Svo hægðist á því og þar sem við stundum hestamennsku líka fór ég að sauma ábreiður á hnakka og poka undir hjálminn með og merki þær með nafni og mynd af hesti og vakti það mikla lukku. En ég sker líka út vegglímmiða, bílamerkingar upp að ákveðinni stærð, merki alls konar fatnað og reiðtygi, skreyti alls konar gler, eins og blómavasa, kertaluktir, glerbakka og annað slíkt. Einnig hef ég verið að taka að mér fataviðgerðir og rennilásaskipti,“ segir Elín Dögg þegar hún var beðin um að segja frá helstu verkefnum sínum.

Frábærar viðtökur

Elín Dögg segist aldrei hafa átt von á þeim viðtökum sem hún hefur fengið, þær hafi verið frábærar.

„Já, viðtökurnar hafa farið langt framar mínum vonum enda hef ég haft meira en nóg að gera. Þegar sem mest var í grímusaumnum þá vorum við öll fjölskyldan að hjálpast að og ég sjálf var að vinna frá því eldsnemma á morgnana og langt fram á kvöld. Nú er vinnudagurinn orðinn miklu eðlilegri. Mér finnst öll verkefnin sem ég tek að mér skemmtileg og gefa mér ánægju. Það er líka gaman að fá skilaboð frá góðum viðskiptavinum, sem segjast vera ánægðir með það sem ég hef gert. Skemmtilegast finnst mér þá þegar ég fer í Bónus á Selfossi og sé að fólk er með grímur á andlitinu frá mér, það er góð tilfinning,“ segir Elín Dögg og hlær.

Gott að vinna í sveitinni

Elín Dögg segir einstaklega gott að vinna í sveitinni því þar er lítið áreiti og lítil umferð, hún geti því einbeitt sér að því sem hún er að gera. „Ég er með nokkuð góða aðstöðu fyrir verkefnin mín og er alltaf að. Ég er á Facebook, „Saumað í sveitinni“, fyrir þau sem vilja sjá hvað ég er að gera og setja sig í samband við mig. Ég stefni líka á að opna heimasíðu þar sem yrði hægt að versla beint við mig.  Ég er þakklát fyrir alla sem hafa keypt vörur af mér og hlakka til komandi tíma,“ segir saumakonan í sveitinni að lokum. 

Elín Dögg Arnarsdóttir að stoppa í buxur á vinnustofunni sinni. Hún er fædd og uppalin í
Mosfellsbæ árið 1983, dóttir Arnars Stefánssonar í Litlagerði og Kristínar Helgu Þorsteinsdóttur.
Hún er gift Vigni Frey Þorsteinssyni og eiga þau þrjú börn, elsta 17 ára, sem stundar nám á
hestabrautinni á Selfossi, svo er drengurinn, 14 ára, og yngsta barnið, sem er stelpa, 9 ára,
og þau eru í Laugalandsskóla í Holtum.