Það er ekki nóg að opna þjóðgarða með borðaklippingum og ráðherramyndatökum og friða allt sem hægt er að friða, ef fólk er ekki að fá neitt fyrir alla þá peninga sem það greiðir fyrir rekstur friðlands og þjóðgarða. Afskaplega döpur þjónusta blasti við ok
Öryggi, heilsa og umhverfi 23. júní 2020

Horfur á að ferðasumarsins 2020 verði minnst sem „COVID-sumars“

Hjörtur L. Jónsson - liklegur@internet.is
Flestir Íslendingar stefna á að ferðast innanlands í sumar, enda býður landið upp á fegurð og fjölbreytileika sem ætti að henta flestum. Það er þegar ljóst að afleiðingin af heimsfaraldrinum sem kenndur er við COVID-19 orsakar að árlegar hefðbundnar hátíðir sem hafa verið fastur liður víða um land verða með breyttu sniði.
 
Fólk og ferðamenn halda sig væntanlega meira út af fyrir sig og ferðast í smærri hópum á einkabílum og öðrum farartækjum. Það er því svolítið mikið atriði að yfirfara vel það farartæki sem nota skal í ferðalagið, kynna sér fyrirhugaða staði sem á að heimsækja og umfram allt að tala við staðkunnuga og heimamenn, fá ráðleggingar hvað sé gaman að skoða, besti matur og veitingar.
 
Þó að töluvert sé eftir af munstri dekkja þá endast þau ekki marga kílómetra ef þau vírslitna.
 
Fyrirbyggjandi viðhald er nauðsynlegt
 
Hafi maður ekki þekkingu og getu til að yfirfara bílinn (eða önnur farartæki) er best að leita til þjónustuverkstæða þar sem menn með þekkingu starfa. Einnig er gott að fara með bílinn í árlega skoðun áður en lagt er upp í langferð (það má alltaf fara með bíla í skoðun þó að ekki sé kominn tími á lögboðna skoðun samkvæmt númeraplötu). 
 
Það eru alltaf einhver atriði sem geta skapað óþarfa kostnað og fyrirhöfn ef ekki er skoðað, en sem dæmi þá eru margir bílar með varadekkið undir bíl aftast í þar til gerðri festingu. Þessar festingar geta verið ryðgaðar fastar og ekki nokkur leið að ná varadekkinu úr festingunni með þeim hefðbundnu verkfærum sem í bílum eru.  
 
Að athuga hluti eins og viftureim, olíu, kælivökva, bremsur og bremsuvökva er eitthvað sem allir ættu að skoða fyrir langferð. Hjólbarða þarf að skoða með langferð í huga, loft­þrýstingur réttur og munstur það mikið að dugi fyrirhugaða vegalengd.
 
Alla ofangreinda þjónustu geta flest verkstæði veitt og kostar ekki mikið.
 
Þarf að þjónusta Íslendinga með sömu alúð og útlendinga
 
Sjálfur hef ég rúllað einn tæplega 1.700 km hring um landið. Um hvítasunnuhelgina lagði ég upp í hringferð á minni „mótormeri“, eitthvað sem ég hef gert árlega á þessum tíma síðustu sjö árin. 
Strax á fyrsta degi af fjórum sá ég mikla breytingu á umferð og ekki minnist ég þess að hafa verið eini viðskiptavinurinn á bensínstöð N1 í Vík áður (að vísu bara í 3–5 mín.). 
 
Það sló mikið á gleði og skemmtun ferðarinnar að mjög víða voru þjónustustaðir einfald­lega lokaðir alveg eða bara opnir í mjög stuttan tíma dagsins svo sem veitingastaðir og kaffihús, en hólið fá bensínstöðvar N1 sem voru alls staðar opnar nema á einum stað. 
 
Lélegust var þjónusta þjóð­garðsins í minni heimasveit þar sem salernin bæði í Ásbyrgi og við Dettifoss voru lokuð þrátt fyrir töluvert mikla umferð. Taldi ég yfir 20 bíla á bílastæðinu við Dettifoss, bæði þegar ég kom og fór eftir göngutúrinn að fossinum. Á salernunum stóð LOKAÐ VEGNA COVID, afskaplega léleg þjónusta við fólkið sem borgar rekstur þjóðgarðsins með sköttum sínum.
 
Þurfum að hlýða „þríeykinu“ og vinna áfram saman í „COVID-baráttunni“
 
Eftir fréttir síðustu helgar um sýkta „bófa“ á Suðurlandi, er ljóst að þetta er ekki búin barátta, við þurfum að vinna saman og passa upp á að fara eftir tilmælum sóttvarnarlæknis og lögreglu. Það eru smit þarna úti og full ástæða til að passa sig, virða þær ráðlögðu umgengnisreglur frá lögreglu og læknum. Það eru of margir farnir að stytta óþægilega mikið metrana tvo, faðma félaga og vini full snemma. Þetta er ekki búið, en ef við stöndum saman vaktina þá styttist í endalok COVID-19.