Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Hjónin Ólafur Þröstur Ólafsson og Agnesi Sigurðardóttir. Mynd tekin 2010.
Hjónin Ólafur Þröstur Ólafsson og Agnesi Sigurðardóttir. Mynd tekin 2010.
Fréttir 16. september 2016

Óraði ekki fyrir þessum vexti þegar við byrjuðum

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Mig óraði aldrei fyrir því þegar við hófum þessa vegferð að fyrirtækið myndi vaxa með þessum hætti, nokkuð hratt en örugglega, og við sjáum ekki fyrir endann á vextinum,“ segir Agnes Sigurðardóttir, einn eigenda og framkvæmdastjóri Bruggsmiðjunnar á Árskógs­strönd.  Bruggsmiðjan fagnar 10 ára afmæli 30. september næstkomandi og verður haldið upp á daginn með viðeigandi hætti. 
 
Sérstakur afmælis Kaldi kemur þá á markað og verður í sölu í október. Það er framkvæmdahugur í Bruggsmiðjufólki, til stendur að byggja tvö ný hús til viðbótar þeim sem fyrir eru, annars vegar vöruhús og hins vegar hús undir það sem kallast Bjór-spa, sem er nýjung hér á landi og mun án efa hleypa nýju og annars konar lífi í ferðaþjónustu á Eyjafjarðarsvæðinu.
 
 Bruggsmiðjan sem staðsett er ofan við höfnina á Árskógssandi var fyrsta fyrirtækið í hópi lítilla brugghúsa hér á landi og ruddi þannig brautina fyrir þá sem á eftir komu. Bruggsmiðjan er fjölskyldufyrirtæki, auk Agnesar og eiginmannsins, Ólafs Þrastar Ólafssonar, er einn sonur þeirra, Sigurður Bragi Ólafsson, aðalbuggmeistari hennar og fleiri úr fjölskyldunni starfa við fyrirtækið, en starfsmenn eru 12 talsins.
 
Viðtökur fram úr björtustu vonum
 
Fyrir 10 árum, í september árið 2006, var framleiðslugeta Bruggsmiðjunnar 170 þúsund lítrar á ári. Vörumerki hennar er Kaldi og eru gerðirnar af margvíslegu tagi. Viðtökur á markaði fóru strax í upphafi fram úr björtustu vonum að sögn Agnesar þannig að fljótlega var farið að huga að stækkun.
 
„Við höfum á okkar 10 ára ferli stækkað fyrir­tækið fjórum sinnum, fyrst eftir þrjú ár jukum við fram­leiðslu­get­una upp í 330 þúsund lítra og þóttumst nokkuð góð,“ segir hún.  Byggt hefur verið við húsakynni, en verksmiðjan var í fyrstu í 380 fermetra húsnæði og hefur öðru eins verið bætt við. Síðast í fyrra, sumarið 2015, var ný bygging tekin í notkun.  Jafnframt hefur verið aukið við tækjabúnað, gömlu tækjunum skipt úr fyrir nýrri og öflugri og þá er ekki langt síðan ný kútavél var keypt „og það var algjör bylting fyrir okkur,“ segir Agnes. 
 
Nú þegar 10 ára afmælið er framundan eftir fáa daga stendur mikið til, framkvæmdir hefjast innan tíðar við tvö ný hús á svæðinu. Annars vegar verður að sögn Agnesar hafist handa við byggingu 270 fermetra vöruskemmu. „Það er afar brýnt fyrir okkur að fá meira rými undir okkar vörur hér á svæðinu og algjör nauðsyn að ráðast í þessa byggingu,“ segir hún. 
 
Bjór-spa rís innan tíðar
 
Þá eru eigendur Bruggsmiðjunnar í startholunum og ætla sér á næstunni að taka fyrstu skóflustungu að nýrri byggingu sem hýsa mun svonefnt Bjór-spa. Fyrirmyndin er sótt til Tékklands og einnig Slóveníu þar sem slíkt á vinsældum að fagna. 
 
„Þetta er nýjung hér á landi og verður hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Með þessu færum við okkar starfsemi að hluta til nær ferðaþjónustunni á svæðinu og væntum þess að eiga við þá atvinnugrein gott samstarf til framtíðar. Ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en að bjór-spa muni falla í kramið hér á landi líkt og raunin er annars staðar þar sem slíkt er í boði,“ segir Agnes.
 
Alls verða sett upp 7 baðkör, sérsmíðuð úr Kambala-við sem fluttur er inn frá Ghana í Afríku. Baðkörin verða fyllt af ungum bjór, geri, vatni og humlum, en þessi blanda þykir fara einstaklega mjúkum höndum um húð og hár þess er nýtur baðsins. Gestum er uppálagt að liggja um 25 mínútur í baðinu, slaka vel á í 20 mínútur á eftir og helst ekki fara í sturtu fyrr en 4 tímum eftir baðið. 
 
„Við stefnum að því að hefja framkvæmdir nú í haust og ætlunin er að reisa húsið fljótt og örugglega og taka það í notkun við fyrsta tækifæri,“ segir Agnes. Auk baðkaranna verða einnig settir upp útipottar við húsið og þar verður veitingastofa sem tekur um 70 manns í sæti.
 
Verksmiðjan keyrð allan sólarhringinn
 
Þegar horft er til næstu ára segir hún fyrirsjáanlegt að ýmsu þurfi að bæta við, nýr ketill er til að mynda á óskalistanum, en sá gamli sem keyptur var notaður þegar Bruggsmiðjan hóf starfsemi er einn helsti flöskuhálsinn þegar kemur að því að auka framleiðsluna.  Fyrirtækið framleiðir nú um 650 þúsund lítra af bjór árlega, en það hefst með því að keyra verksmiðjuna allan sólarhringinn.
 
„Við erum með næturvaktir hjá okkur, þetta hefst ekki öðruvísi. Vissulega hefur verksmiðjan stækkað, eftirspurnin eftir okkar vöru hefur aukist og við mætum því með þessum hætti,“ segir Agnes.  Það gefur augaleið að nokkur kostnaður hlýst af því að halda verksmiðjunni á fullum dampi allan sólarhringinn, en tæki og búnaður sem til þarf svo auka megi framleiðslu kosta líka sitt.
 
Aldrei hægt að reikna allt sem upp á kemur inn í áætlanir
 
Hún bætir við að eigendur horfi til framtíðar, „ég hef aldrei verið mjög dugleg við að gera margra ára áætlanir, en auðvitað eigum við í handraðanum plan um uppbyggingu og hvernig við ætlum að standa að henni.  Það er ljóst að við þurfum á næstu 5 árum að endurnýja bruggtækin sem og kælitankana. Þetta er allt saman heilmikil fjárfesting, líklega upp á 60 til 70 milljónir króna, en við höfum alla tíð haft að leiðarljósi að stíga varlega til jarðar, taka eitt skref í einu og það hefur reynst okkur farsælt,“ segir Agnes.  
Hún sér fyrir sér að þegar Bruggsmiðjan verður 15 ára hafi þessu takmarki verið náð auk þess sem stækkun verði þá komin í 980 þúsund lítra framleiðslugetu.
 
„Það held ég að sé alveg passlegt, við stefnum ekki á að fara yfir milljón lítra, þá yrðum við ekki lengur í flokki lítilla brugghúsa, en þar viljum við endilega vera. Það er að mínu mati góð eining og við stefnum að því. Mér finnst þó mikilvægt að vera ekki of stíf í einhverri áætlanagerð og það er aldrei hægt að reikna allt inn í áætlanir sem settar eru á pappír. Fæstir hafa örugglega reiknað hrunið inn í sínar áætlanir svo dæmi sé tekið, það koma oft upp einhverjir utanaðkomandi þættir sem alls ekki eru fyrirséðir.“
 
Íslendingar góðu vanir
 
Íslendingar tóku Kalda vel frá fyrsta degi og segir Agnes að eftirspurn hafi aukist jafnt og þétt eftir því sem árin líða. Síðustu ár hefur erlendum ferðamönnum sem sækja landið heim fjölgað gríðarlega og þeir vilja fyrir alla muni bragða á framleiðslu heimamanna.
 
„Það sem ég tel að skipti mestu þegar kemur að vinsældum t.d. Kalda er íslenska vatnið, það er uppistaðan í okkar vöru og við erum svo lánsöm að hafa aðgang að mjög góðu vatni úr Sólarfjalli ofan Árskógssands. „Íslendingar vilja, að því er mér finnst, kaupa íslenskar vörur, en þær verða að standast samanburð þegar kemur að gæðum. 
 
Við erum góðu vön bæði í mat og drykk, hvort sem um er að ræða fisk, kjöt, grænmeti eða bjór.  Íslendingar kjósa þessar vörur umfram þær innfluttu ef kostur er,“ segir Agnes. „Það eru gæðin númer eitt, tvö og þrjú sem skipta sköpum.“
 
Hvert áfallið á fætur öðru
 
Agnes fer rúman áratug aftur í tímann og rifjar upp hvernig ævintýrið um Bruggsmiðjuna hófst. Staða fjölskyldunnar hafði breyst, Ólafur, sem starfaði sem skipstjóri með góðar tekjur, varð fyrir slysi og meiddist mikið á fæti. Þau eiga fjögur börn og bæði það elsta og yngsta áttu við veikindi að stríða.
 „Þetta var mjög erfitt tímabil, hvert áfallið á fætur öðru dundi yfir,“ segir Agnes sem sjálf veiktist, fékk heiftarlega sýkingu sem aldrei fékkst skýring á, en eflaust má rekja til álags. „Ég vissi eiginlega ekki hvað var í gangi hjá okkur, fannst þessu aldrei ætla að linna.“
 
Fréttaskot og boltinn fór að rúlla
 
Í apríl árið 2005 sá Agnes örstutt fréttaskot í sjónvarpinu þar sem rætt var við Dana sem sett hafði upp lítið brugghús og taldi að þau gætu átt framtíð fyrir sér sem valkostur við stóru bjórframleiðendurna.
„Ég kveikti strax á þessu, hljóp út í garð til Ólafs, sagði honum frá og viðraði þá hugmynd hvort við ættum ekki að slá til. Hann tók undir og sagði að vel mætti skoða málið, en á þessum tíma var ljóst að hann þyrfti að finna sér léttari vinnu því hann var alls ekki á þeim buxunum að hætta störfum þótt hann væri með hálfónýtt hné. Ég hringdi líka í pabba sem ég hef alltaf tekið mikið mark á og hann tók þessu líka vel og fannst ómaksins vert að kanna hvort grundvöllur væri fyrir þessu.  Þá fór boltinn að rúlla,“ segir Agnes.
 
Gæfuspor að horfa til Tékklands
 
Þau leituðu fyrir sér á netinu sem í þá daga var hægvirkt og langt í frá að hægt væri að finna þar jafnmikið af upplýsingum og nú. Úr varð að þau fóru til Danmerkur og skoðuðu nokkur lítil brugghús þar í landi. Komust þau að því í ferðinni að þeim sem gekk best höfðu einhverja tengingu við Tékkland og veðjuðu sjálf á þann hest. – „Það var okkar gæfuspor,“ segir Agnes, en næsta ferð var einmitt farin þangað og nutu þau aðstoðar ræðismanns Íslands þar í landi í ferðinni. Þau kynntust bruggmeistaranum David Masa í Tékklandi og varð úr að hann kom til Íslands þegar fyrirtækið hóf starfsemi. Hann starfaði hjá Bruggsmiðjunni í þrjú ár og hefur um árin komið af og til.  Hann var einnig lærimeistari sonar þeirra, Sigurðar Braga, sem nú er bruggmeistari fyrirtækisins.
 
Ljón í veginum
 
Agnes segir að ýmis ljón hafi verið í vegi þeirra áður en verskmiðjan hóf starfsemi, en illa gekk framan af að útvega fjármagn. 
 
„Bankamenn sáu ýmis tormerki á þessu og voru tregir að lána, kannski hafa þeir eftir á að hyggja vitað meira en við almúginn hvað fram undan var í íslensku fjármálalífi.  Mörgum þótti hugmyndin góð, en okkur var bent á að heppilegra væri að starfrækja fyrirtækið í þéttbýli, á Akureyri eða í Reykjavík, vegna flutningskostnaðar. Mér fannst þeir vanmeta landsbyggðina, en við vildum vera hér á okkar heimaslóðum og varð ekki haggað með það. Mér fannst það styrkur að vera utan alfaraleiðar og það hefur komið á daginn,“ segir Agnes.  Það fór loks svo að Sparisjóður Norðlendinga sem var og hét veitti félaginu fyrirgreiðslu.
 
„Allt saman gekk þetta svo vel þegar hjólin fóru að snúast,“ segir Agnes. „Við vorum á handbremsunni fyrstu árin og þegar hrunið skall á haustið 2008 vorum við því svo vön að það voru okkur engin viðbrigði að halda takinu áfram föstu.“ 
 
Lán Bruggsmiðjunnar hækkuðu umtalsvert í hruninu, en engin niðurgreiðsla fékkst á þeim. „Við skulduðum ekki nægilega mikið til að fá fyrirgreiðslu, komumst í gegnum þennan hildarleik af eigin rammleik og ég er afskaplega stolt af því.“
 
Von á 12 þúsund gestum í ár
 
Auknar tekjur fengust m.a. með aukinni framleiðslu og sölu en einnig hafa þau Agnes og Ólafur tekið á móti miklum fjölda gesta í Bruggsmiðjuna. Bæði er um að ræða landsmenn, fólk úr nærsveitum í óvissu- eða starfsmannaferðum og eins hafa nokkrar ferðaskrifstofur viðkomu með sína ferðalanga þar. Agnes gerir ráð fyrir að á þessu ári muni um 12 þúsund manns koma við og skoða verksmiðjuna.
 
„Það eru margir forvitnir og fýsir að vita hvernig lítið brugghús úti á landsbyggðinni gengur. Það kom mér skemmtilega á óvart hvað fólki þykir gaman að koma til okkar,“ segir Agnes. Með tilkomu Bjór-spa stofunnar má svo gera ráð fyrir að gestafjöldinn aukist umtalsvert.
 
Áfengi á ekkert erindi í matvöruverslanir
 
Hún nefnir að rekstrarumhverfið sé frekar erfitt, áfengisgjald hér á landi er hátt og hækkaði um áramót, þá leggst skilagjald á framleiðsluna og virðisaukaskattur og er þá ekki allt talið, þannig leggja t.d. Vínbúðirnar 18% ofan á vöruna fyrir sig.
 
„Svo það segir sig sjálft að þetta er dýr vara, enda álagning mikil, en svona er þetta bara,“ segir Agnes.  Spurð um álit sitt á því að selja áfengi í matvörubúðum svarar hún afdráttarlaust að hún sé á móti slíku fyrirkomulagi og tali þar sem móðir. „Ég segi hiklaust, áfengi á ekkert erindi í matvöruverslanir,“ segir hún og bendir á að í Vínbúðunum sé veitt góð og fagleg þjónusta þar sem starfsfólk miðli af þekkingu sinni og sé það til fyrirmyndar. Þá sé það kostur að fáir undir tvítugu reyni að fá afgreiðslu í Vínbúðunum, enda stíft beðið um skilríki þar á bæ. Meiri hætta sé á að ungmenni reyndu fyrir sér í stórmörkuðum.
„Það líta margir til okkar öfundaraugum vegna þess kerfis sem við erum með við afgreiðslu á áfengi.  Að mínu mati ætti að halda í það kerfi, en vera má að það megi laga að einhverju leyti, t.d. að rýmka afgreiðslutíma ef það er málið.  Mér finnst að við ættum alls ekki að rústa kerfi sem virkað hefur vel. En það má örugglega laga eitthvað til að koma til móts við kröfur viðskiptavina,“ segir Agnes. 

15 myndir:

Skylt efni: bjórframleiðsla | ölgerð | Kaldi