Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Þegar hefur um 330 þúsund fuglum verið lógað í Kasakstan.
Þegar hefur um 330 þúsund fuglum verið lógað í Kasakstan.
Fréttir 12. október 2020

Ný tilfelli fuglaflensu í Kasakstan og Rússlandi

Höfundur: Vilmundur Hansen

Yfirvöld í Kasakstan hafa áhyggjur af útbreiðslu fuglaflensu, H5N8, í norðvesturhéruðum landsins. Sömu sögu er að segja frá Rúss­landi þar sem flensan hefur þegar greinst.

Ekki er talið ólíklegt að flensan hafi borist frá Rússlandi til Kasakstan þar sem flest tilfelli hennar hafa greinst hjá smábændum og í hænum í heimilisgörðum í býlum og þorpum nálægt rússnesku landsmærunum. Einnig er mögulegt að flensan hafi borist til landsins með farflugum frá Mið-Asíu.

Þegar hefur um 330 þúsund fuglum verið lógað í Kasakstan og 1,7 milljónir verið bólusettir vegna flens­unnar og má búast við að þær tölur muni hækka á næstu vikum.

Eftir fréttina um útbreiðslu fuglaflensunnar í Rússlandi og Kasakstan hvatti stjórn Evrópu­sambandsins þjóðir í Evrópu um að að vera á verði gagnvart flensunni og auka viðbúnað til að draga úr hættu á að hún berist til álfunnar. Talið er að lönd í Norður- og Austur-Evrópu séu útsettust fyrir smiti.