Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Kryddið sem unnið er úr múskathnetum og múskathnetuhýðinu var svo eftirsótt að 15 þúsund íbúum á Banda-eyjum var útrýmt árið 1621 til að ná yfirráðum yfir múskatræktuninni og verslun með múskat.
Kryddið sem unnið er úr múskathnetum og múskathnetuhýðinu var svo eftirsótt að 15 þúsund íbúum á Banda-eyjum var útrýmt árið 1621 til að ná yfirráðum yfir múskatræktuninni og verslun með múskat.
Fréttir 9. október 2020

Múskat og þjóðarmorð

Höfundur: Vilmundur Hansen

Saga viðskipta með múskat er blóðið drifin. Ásókn í kryddið og hagnaðurinn sem því fylgdi leiddi til þjóðarmorðs á Banda-eyjum árið 1621. Hollendingar útrýmdu innfæddum til að ná yfir­ráðum yfir ræktun og verslun með múskat. Seinna gerðu Holl­endingar landaskipti við Breta. Hollendingar fengu eyjuna Run í Banda-eyjaklasanum en Bretar Manhattan-eyju eða Nýju Amsterdam í staðinn.

Áætluð heimsframleiðsla á þurrkuðu múskati árið 2019 er 52 þúsund tonn. Indónesía framleiðir um 50% af öllu múskati í heimi. Þar á eftir eru Indland, Súmatra, Java og Srí Lanka.

Holland er það land sem flytur inn mest af múskati allra Evrópu­þjóða og Hollendingar flytja einnig út mest af kryddinu til annarra ríkja í Evrópu. Mest af múskatinu sem Hollendingar versla með kemur upprunalega frá Indónesíu. Sameinuðu arabísku furstadæmin eru stærsti útflytjandi múskats til annarra Arabaríkja en þar sem Furstadæmin rækta ekki múskat er það flutt inn frá Indlandi og síðan flutt út aftur.

Múskathnetur og duft.

Samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofu Íslands voru árið 2019 flutt inn 116 kíló af heilum múskat­hnetum, 949 kíló af pressuðu eða muldu múskati og 1.049 kíló af pressuðu eða muldu múskathýði. Af heilum múskathnetum kemur mest frá Spáni, eða 56 kíló, af pressuðu eða muldu múskati kemur mest frá Hollandi, 620 kíló, og allt pressað eða mulið múskathýðið kemur frá Kína.

Auk þess sem talsvert er flutt inn af múskati sem hluta af kryddblöndum og í tilbúnum réttum og drykkjum.

Ættkvíslin Myristica og tegundin fragrans

Innan ættkvíslarinnar Myristica teljast yfir 150 tegundir sem finnast villtar í Asíu og við vestanvert Kyrrahaf. Tegundirnar eru ólíkar að stærð og mynda aldin og hnetur sem eru misjöfn að hæð og lögun en allar eiga þær það sameiginlegt að blöðin eru ilmsterk.

Sú tegund sem mest er ræktuð kallast M. fragrans og er 5 til 30 metra hátt og sígrænt tré sem er haldið í lægri kantinum í ræktun. Blöðin dökkgræn á um eins sentímetra löngum stilk, stakstæð, 5 til 15 sentímetra að lengd og 2 til 7 á breidd. Öll blóm á hverju tré eru einkynja þrátt fyrir að einstaka tré beri blóm af báðum kynjum. Blómin bjöllulaga, fölgul og vaxkennd viðkomu. Karlblómin standa ein sér eða allt upp í 10 saman í hnapp og eru 5 til 7 millimetrar að lengd. Kvenblómin eitt til þrjú saman og um 10 millimetrar að lengd. Kvenplöntur eða tré mynda slétt og gult perulaga eða hnöttótt aldin sem er 6 til 9 sentímetra langt og þrír til fimm sentímetrar í þvermál. Inni í aldininu er hneta sem er hulin mjúku hýði sem rifnar eftir aldininu endilöngu og hylur það að hluta eftir að það stækkar og þroskast.

Aldinið er gult og hnöttótt og inni í því er hneta sem er hulin mjúku hýði.

Hnetan er það sem kallast múskat en hjúpurinn sem umliggur hana kallast múskathýði. Þrátt fyrir að hvort tveggja komi af sama aldininu er munur á því kryddi sem fæst úr muldri múskathnetu og af muldu múskathýði. Bragðið af múskathýðisdufti er sterkara og rammara en hnetuduftsins og rauðara á litinn. Múskathýðiskrydd er eingöngu fáanlegt sem duft.

Við góðar aðstæður tekur sjö til níu ár frá því að fræ spíra þar til múskattré gefa aldin en mest er uppskeran eftir tuttugu ár og að öllu jöfnu gefur hvert tré af sér til 60 ára aldurs. Þar sem eingöngu kvenplöntur mynda aldin er trjánum talsvert fjölgað með ágræðslu.

Tvær tegundir M. malabarica og M. argentea eru mikið notaðar til að drýgja og þynna út alvöru múskatduft úr M. fragrans.

Þjóðarmorð á Kryddeyjunum

Talið er að Rómverjar og Grikkir hafi þekkt til einhvers konar múskats í gegnum verslun við Araba og hugsanlega Silkileiðinni. Ekki fer mörgum sögum af nytjum þess meðal þeirra nema að þeir notuðu það sem krydd en aðallega munu þeir hafa brennt það sem reykelsi. Rómverjinn Plyni eldri, upp 23 til 79, sagði um múskat að plantan bæri hnetur með tvenns konar bragði og er þá væntanlega að vísa til hnetuduftsins og duftsins sem unnið er úr hnetuhýðinu.

Blöðin dökkgræn á um eins sentímetra löngum stilk, stakstæð, 5 til 15 sentímetra að lengd og 2 til 7 á breidd.

Elstu þekktar minjar um notkun á múskati til manneldis er að finna í 3.500 ára gömlum leirbrotum sem fundust á eyjunni Pulau Ai sem er hluti af Banda-eyjaklasanum austan við Indónesíu. Bandaeyjar, sem eru ellefu, voru eina uppspretta þess múskats sem barst til Evrópu fram á miðja nítjándu öld.

Persneski læknirinn og fjölfræðingurinn Ibn Sina, uppi 980 til 1037, var fyrsti Vesturlandabúinn sem vitað er um að hafi minnst á Banda-eyjar og Banda-hnetur, eða jansi ban eins og hann kallaði múskathnetur, í riti.

Á þrettándu öld höfðu arabískir sjófarendur og verslunarmenn uppgötvað uppruna múskats í Indónesíu en héldu honum leyndum fyrir Evrópumönnum og þannig verði þess háu.

Mikil eftirspurn og hátt verð á kryddi varð til þess að heilu flotar evrópskra skipa lögðu í háskaför um öll heimsins höf í leit að gulli, gimsteinum og kryddi eftir að Kólumbus fann Ameríku. Leiðangur Kólumbusar var upphaflega ætlaður til að finna styttri siglingaleið til Indlands en leiðina fyrir Hornhöfða í Suður-Afríku til að versla krydd. Það er þess vegna sem innfæddir í Ameríku kallast Indíánar, Kólumbus hélt í fyrstu að hann hefði náð til Indlands.

Banda-eyjaklasinn eða Krydd­eyjarnar, eins og þær voru kallaðar um tíma, vöktu snemma áhuga fyrstu evrópsku sjófarendanna. Árið 1511 lagði flotaforinginn og landkönnuðurinn Afonso de Albuquerque, uppi 1453 til 1515, undir sig þáverandi höfuðborg Malasíu, Malacca, í nafni Manuels konungs Portúgal, uppi 1469 til 1521. Borgin var á þeim tíma miðja kryddverslunar Araba í Asíu. Sama ár komst Albuquerque á snoðir um Banda-eyjar og sendi þrjú skip undir stjórn António de Abreu, uppi 1480 til 1514, flotaforingja til að finna eyjarnar sem hann fann með hjálp sjóliða frá Malasíu 1512.

Abreu og skip hans sigldu milli eyjanna í um það bil mánuð og fylltu lestar sínar af múskathnetu, múskat­hnetuhýði og negul. Í riti eftir portúgalska lækninn Tomé Pires, uppi 1465 til 1524 eða 1540, sem kallast Suma Oriental, segir að þrátt fyrir ábatasöm viðskipti hafa Portú­galar aldrei náð fullum yfirráðum á eyjunum.

Banda-eyjaklasinn austan við Indónesíu.

Hollendingar fylgdu í kjölfar Portúgala og hófu fljótlega múskatviðskipti við eyjaskeggja og skömmu eftir aldamótin 1600 höfðu þeir rutt Portúgölunum úr vegi.

Hrifning Evrópubúa af múskati var mikil. Það var notað til að krydda mat og drykki. Duftið var sagt hafa lækningarmátt og í plágum báru konur það í litlum pokum um hálsinn og önduðu að sér lækningarmætti þess gegnum pokann. Karl­menn blönduðu duftinu aftur á móti út í neftóbak og tóku í nefið. Eftir­spurnin var gríðarleg og verðið svimandi hátt og sagt er að verðgildi múskats í Evrópu hafi um tíma verið 68 þúsund sinnum hærra en það kostaði að rækta það og sigla því til Amsterdam.

Til að tryggja sér einokun á ræktun og verslun með múskat á Banda-eyjum fór Hollenska Austur-Indíafélagið í blóðugt stríð gegn eyjaskeggjum árið 1621. Áætlaður fjöldi íbúa eyjanna fyrir herför málaliða félagsins var um 15 þúsund en talið er að einungis um eitt þúsund þeirra hafi lifað slátrunina af. Þeir sem komust af voru eltir uppi og hnepptir í þrældóm, þrælað út og sveltir í hel. Á nokkrum árum tókst að útrýma öllum innfæddum íbúum Banda-eyja og því um hreint og klárt þjóðarmorð að ræða.

Hiatus

Harðræði landstjóra Hollendinga á eyjunum var gríðarlegt og innfluttir þrælar miskunnarlaust pískaðir áfram og refsað með pyntingum til að auka framleiðsluna. Eftir misheppnaða þrælauppreisn árið 1650 barði landsstjórinn allar tennurnar úr uppreisnarforingjanum, skar síðan úr honum tunguna áður en hann skar á háls öðrum til viðvörunar.

Pyntingar og limlestingar þóttu sjálfsagt máli á Banda-eyjum til að auka uppskeru á múskati.

Í framhaldinu varð Hollenska Austur-Indíafélagið einrátt með viðskipti með múskat frá Banda-eyjum og um leið í heiminum það sem eftir var sautjándu aldar. Framleiðslu­aukningin var slík að Hollendingar þurftu á hverju ári að brenna hluta uppskerunnar til að halda verðinu uppi.

Árið 1638 náðu Bretar með hervaldi yfirráðum á eyjunni Run, sem er ein Banda-eyja, í óþökk Hollendinga.
Hollendingar voru ósáttir við að Bretar hefðu stolið af þeim eyjunni en þeir áttu spil uppi í erminni. Á þessum árum tilheyrði Manhattaneyja eða Nýja Amsterdam, sem hluti New York borgar stendur á í dag, Hollandi. Bretar vildu komast yfir eyjuna og árið 1667 gerðu þjóðirnar með sér samkomulag um skipti. Holland fékk Run-eyju og land til að rækta sykurreyr í Suður-Ameríku frá Bretum í skiptum Manhattan.

Hollendingar voru hæstánægðir með skiptin og styrktu einokunarverslun sína með múskat eins vel og þeir gátu og til að koma í veg fyrir að fræ sem voru flutt út gætu spírað var þeim velt upp úr kalki og lá dauðarefsing við að smygla frjóum fræjum eða lifandi plöntum frá eyjunum. Á eyjunum voru einnig veiðimenn sem höfðu það starf að drepa fugla sem sóttu í aldin múskattrjánna og spilltu uppskerunni.

Árið 1776 tókst einhenta, franska grasafræðingnum og garðyrkju­manninum Pierre Poivre, uppi 1719 til 1786, að smygla nokkrum hnetum úr landi og setja á fót litla múskatræktun á eyjunni Máritíus.

Afskiptum Breta af Banda-eyjum var samt ekki lokið. Í Napóleonstríðunum, 1803 til 1815, var Holland hluti af veldi Napóleon og um leið óvinaríki Breta. Englendingar sáu sér leik á borði og árið 1810 hertóku þeir Banda-eyjar með skyndiárás.

Holleska Austur-Indíafélagið var lengi einrátt með viðskipti með múskat frá Banda-eyjum og um leið í heiminum. Framleiðsluaukningin var slík að Hollendingar þurftu á hverju ári að brenna hluta uppskerunnar til að halda verðinu uppi. Málverk Hendrik Cornelisz Vroom árið 1599.

Í kjölfar yfirráða Breta á Banda-eyjum 1810 fluttu þeir múskatfræ og plöntur til Srí Lanka og annarra nýlenda í Asíu og í Afríku og hófu ræktun þeirra þar og rufu þannig einokun Hollendinga á verslun með múskat. Í bókinni Hortus Botanicus Malabaricus lýsir Hollendingurinn Hendrik van Rheede, uppi 1636 til 1691, fyrstu tilraunum Indverja til að rækta múskat.

Árið 1814 fengu Hollendingar eyjarnar aftur eftir samningaviðræður en viðskipti með múskat urðu aldrei eins ábatasöm eftir það. Hollendingar héldu yfirráðum sínum á Banda-eyjunum til loka seinni heimsstyrjaldarinnar 1944.

Langar múskathnetur

Breski ethnobotanistinn dr. Roy Ellen telur að verslun með ýmsar aðrar tegundir Myristica en fragrans eigi sér mun eldri sögu og sé ekki bundin við Banda-eyjar. Ellen bendir réttilega á að tegundir innan ættkvíslarinnar séu margar og vaxi víða í Asíu og fjöldi þeirra séu ilm- og bragðsterkar. Hann telur að verslað hafi verið með langar múskathnetur frá Papúa Nýju Gíneu og víðar í Asíu löngu áður en arabískir og evrópskir kaupmenn og landkönnuðir komu til sögunnar.

Nafnaspeki

Latneska ættkvíslarheitið Myristica er komið úr grísku, myristikos, og þýðir angan eða ilmur. Tegundar­heitið fragrans þýðir einnig að plantan angi.

Á ensku kallast plantan, hnetan og múskatduft nutmeg en hnetuhýðið og hnetuhýðisduft mace. Arabar kalla kryddið jawzat altayib en í Kína segja ròu dòukòu. Víðast hvar í Afríku þekkist kryddið sem nutmeg og sem neutmuskatt á afríkansk.

Hollendingar segja nootmuskaat, en Frakkar og Ítalir noix de muscade. Pólverjar kalla hnetuna gałka muszkatołowa, Finnar muskottipähkinä, Svíar muskot og Danir muskatnød.

Á Íslandi er talað um múskat og er þá hvort sem er átt við hnetuna og hnetuduftið.

Nytjar

Í Malasíu eru múskathnetur og blóm notuð til að stilla meltinguna og sem örvandi til ástarleikja. Evrópumenn á fimmtándu til átjándu öld töldu kryddið styrkjandi til Venusarleikja og var það síst til að draga úr eftirsókn í það.

Auk þess sem múskat er mikið notað sem krydd er unnin úr hnetunni olía og það sem er kallað múskatsmjör. Múskatolía er meðal annars notuð í hóstamixtúrur og tannkrem en múskatsmjör í bakstur, sápur og sem smurefni í iðnaði.

Myristica fragrans er 5 til 30 metra hátt og sígrænt tré sem er haldið í lægri kantinum í ræktun.

Ilmurinn af múskati er mjög afgerandi og bragðið eilítið sætt. Í indónesískri og indverskri matargerð er kryddið notað í margs konar kjöt- og grænmetisrétti, súpur og sósur. Einnig þekkist á Indlandi að mulið múskat sé reykt líkt og tóbak. Í Evrópu er kryddið notað til að bragðbæta kökur, sælgæti, búðinga, kjöt og sósur, ýmiss konar drykki eins og eggjapúns og espressókaffi. Það er einnig sagt gott í kartöflurétti.
Úr aldininu sem umliggur hnetuna er búin til sulta eða að það er borðað hrátt með sykri.

Eins og með flest annað er best að nota múskat í hófi því ofnotkun getur valdið ofnæmisviðbrögðum og útbrotum, ofskynjunum og lifrarskemmdum.

Múskat á Íslandi

Íslenskar húsmæður voru farnar að nota múskat í bakstur fyrir þar­síðustu aldamót og það nefnt í Kvennablaðinu 1895 sem eitt af mögu­legum hráefnum í bakaða smjörsnúða og árið 1899 er það auglýst í Stefni ásamt öðrum nýlenduvörum.

Í Hagskýrslum um utanríkisverslun segir að árið 1926 hafi verið flutt inn 394 kíló af múskati frá Danmörku sem sýnir að notkun á kryddinu hefur verið talsverð snemma þriðja áratug síðustu aldar. Fram eftir öldinni er múskat reglulega auglýst og er vinsælt í matar- og kökuuppskriftum blaða.

Múskat er í garam masala og mörgum karríblöndum og því víða að finna í eldhúsum og því talsvert mikið notað í matargerð, jafnvel þó að við vitum ekki alltaf af því.

Tínsla og vinnsla á múskati fer nánast öll fram með höndum og er mannfrek.