Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Öllum þjóðríkjum samningsins var gert að skrifa skýrslu sem lýsir á gagnsæjan hátt áætlaðri losun/bindingu „eldri“ skóga á tímabilinu 2021–25, miðað við að hirt yrði um þá með sama hætti og gert var á árunum 2000–2009.
Öllum þjóðríkjum samningsins var gert að skrifa skýrslu sem lýsir á gagnsæjan hátt áætlaðri losun/bindingu „eldri“ skóga á tímabilinu 2021–25, miðað við að hirt yrði um þá með sama hætti og gert var á árunum 2000–2009.
Mynd / VH
Fréttir 9. nóvember 2020

Metið -30,345 kílótonn CO2 ígilda á ári

Höfundur: Vilmundur Hansen

Ísland, ásamt Noregi, er í samstarfi við Evrópusambandið um sameiginlega framkvæmd við að ná markmiðum Parísar­samkomulagsins. Mark­miðið er að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir árið 2030, miðað við losun ársins 1990.

Niðurstaða skýrslunnar er að skógræktarviðmið Íslands fyrir árin 2021-2025 var metið 30,345 kílótonn CO2-ígilda á ári án bindingar í innlendum viðarafurðum en 30,405 kílótonn CO2-ígilda á ári að meðtalinni bindingu í innlendum viðarafurðum. Hér er um nettóbindingu að ræða en í loftslagsbókhaldinu er binding alltaf táknuð með mínusgildum en losun með plúsgildum.

Þess ber að geta að verði losun frá eldri skógum meiri eða binding minni en skógræktarviðmiðið á tímabilinu 2021–2025 þarf Ísland að telja þann mun fram sem skuld eða losun í loftslagsbókhaldi sínu. Að sama skapi verður minni losun eða meiri binding en sem nemur skógræktarviðmiðinu talin fram sem innistæða eða binding.

Skógrækt á Íslandi léttvæg

Samkvænt því sem segir á heimasíðu Skógræktarinnar fjallar hluti samningsins um losun og bindingu frá skógrækt og annarri landnotkun. Í Evrópu er skógrækt og meðferð skóga sú landnotkun sem hefur langmest áhrif. Í samkomulaginu eru sérstakar reglur um hvernig losun og binding frá skógrækt skuli talin fram í loftslagsbókhaldi hverrar þjóðar og þrátt fyrir að skógrækt á Íslandi teljist lítil og léttvæg í samanburði við skógrækt annarra Evrópulanda, er okkur Íslendingum gert að fara eftir þeim reglum. Í tilviki Íslands gilda þessar reglur fyrir svæði sem hafa verið skógi vaxin í meira en 50 ár og því snerta þær ekki nýskógrækt. Það þýðir að í nýju skógunum er öll nettóbinding talin fram. Í stuttu máli ganga reglurnar út á það að eðlileg þróun kolefnisforða „gömlu“ skóganna hafi ekki áhrif á loftslagsbókhald þjóðarinnar. Losun kolefnis frá þessum skógum vegna viðarnýtingar skal í þessu skyni miðast við árin 2000 til 2009, að teknu tilliti til breyttrar aldurssamsetningar.

Öllum þjóðríkjum samningsins var gert að skrifa skýrslu sem lýsir á gagnsæjan hátt áætlaðri losun/bindingu „eldri“ skóga á tímabilinu 2021-25, miðað við að hirt yrði um þá með sama hætti og gert var á árunum 2000-2009. Þessi áætlun eða spá er kölluð skógræktarviðmið Íslands, á ensku „forest reference level“.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið fól Skógræktinni þetta verkefni og eru höfundar skýrslunnar starfsmenn loftslagsdeildar Mógilsár, rannsókna­sviðs Skógræktarinnar. Skýrslan er skrifuð á ensku og hefur farið gegnum nákvæmt jafningjamat hjá sérfræðingum annarra Evrópuþjóða þar sem efni og aðferðir hafa fengið umsögn. Hér er kynnt uppfærð og betrumbætt útgáfa í samræmi við ábendingar og tilmæli um breytingar frá fyrri útgáfu.