Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Guðrún hefur mjög gaman af að taka á móti gestum til sín og fræða þá um starfsemi Hespuhússins. Hér er hún að tala við tvo félaga úr Rótarýklúbbi Selfoss, sem heimsóttu hana nýlega í Lindarbæ með sínum félögum.
Guðrún hefur mjög gaman af að taka á móti gestum til sín og fræða þá um starfsemi Hespuhússins. Hér er hún að tala við tvo félaga úr Rótarýklúbbi Selfoss, sem heimsóttu hana nýlega í Lindarbæ með sínum félögum.
Mynd / MHH
Fréttir 30. júní 2020

Með áhugann á jurtalitun í genunum

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Nýtt fyrirtæki hefur tekið til starfa í Lindarbæ í Árbæjarhverfinu í Sveitarfélaginu Ölfuss skammt frá Selfossi. Það er Hespuhúsið, sem er í eigu Guðrúnar Bjarnadóttur. Þar hefur hún komið sér fyrir í glæsilegu húsnæði þar sem hún er að lita band úr íslenskum jurtum, auk þess að vera með námskeið og verslun. Guðrún svaraði nokkrum spurningum Bændablaðsins um sjálfa sig, fyrirtækið og framtíðina.
 
„Hér er allt til alls og stutt í allt en samt er ég í sveitaumhverfi með kindur og hesta á næsta túni.
Selfyssingar og Árbæingar hafa tekið mér mjög vel og ég er spennt að kynnast þeim betur,“ segir Guðrún.
 
Fædd í Reykjavík og ólst upp á Bretlandseyjum til 7 ára aldurs
 
- Hver er Guðrún Bjarnadóttir í Hespu­húsinu? 
„Ég er fædd í Reykjavík og ólst upp til 7 ára aldurs á Bretlandseyjum þar sem pabbi var í námi og eftir það í Fossvoginum þar til ég flutti í miðbæinn upp úr tvítugu. Það var yndislegt að alast upp í Fossvoginum, þar voru margir krakkar og allir alltaf úti á leika í brennó eða „eina krónu“. Snemma fékk ég vinnu hjá Ríkisútvarpinu í Efstaleitinu við ýmis störf og endaði svo hjá Sjónvarpinu niðri á Laugavegi sem skrifta, sem er aðstoðarmaður útsendingarstjóra í fréttum. 
 
Lengi vel hélt ég að nafli alheimsins væri 101 Reykjavík og fór lítið út á land nema þá helst um verslunarmannahelgi og þá var ég ekki að skoða náttúruna. 
 
Árið 1994 var ég svo heppin að vera send út á vegum Ungliðadeildar Rauða kross Íslands til Gambíu í Vestur-Afríku í 7 mánuði og það hafði mikil áhrif á mig að búa í annarri heimsálfu og kynnast ólíkum siðum, mataræði og trúarbrögðum. 
 
Þegar heim var komið vann ég í nokkur ár í viðbót hjá Ríkisútvarpinu en söðlaði svo um og fór á Stöð 2 og var þá útsendingarstjóri í fréttum, Ísland í bítið og fleiri þáttum. Þetta voru skemmtileg ár, mikill hraði og mikið álag. 
 
Fljótlega var ég farin að sækja í að starfa sem landvörður á sumrin til að „afstressa“ mig. Flest sumur var ég í Mývatnssveitinni þar sem ég lærði að þekkja náttúruna, gróðurinn, fuglana og jarðfræðina. Þar vaknaði upp gömul blómaþekking frá ömmu en hún þreyttist aldrei á að kenna mér nöfnin á blómunum.“
 
Með áhugann á jurtalitun í genunum
 
– Hvað kom til að þú fékkst áhuga á jurtalitun og öllu sem tengist íslensku flórunni og þess háttar?
„Ég held að áhuginn á jurtalitun sé í genunum hjá mér. Amma kenndi mér að þekkja jurtirnar og mamma kenndi mér handverk en hún var handavinnukennari. Ég kannski hlustaði ekki endilega á ömmu  þegar ég var yngri en nöfnin rifjuðust upp þegar ég fór sjálf að grúska í plöntugreiningu í landvörslunni en það sem amma náði að kenna mér var að líta niður fyrir tærnar á mér og taka eftir gróðrinum.  
 
Ég á tvær systur, önnur er kjólameistari og hin listamaður sem vinnur með textíl. Ég var dálítið sein til að blómstra í mínu handverki þrátt fyrr að hafa verið mjög efnileg þegar ég var yngri. Mér fannst ekki að við systurnar gætum allar verið í handverki. Því forðaðist ég handverk eins og heitan eldinn í mörg ár, en loksins þegar ég byrjaði í handverkinu og fór að jurtalita þá var ekki aftur snúið. Ég datt alveg á bólakaf í jurtalitunina. Hugsanlega margra ára uppsöfnuð handverksþörf sem spratt fram á fimmtugsaldrinum,“ segir Guðrún og skellihlær. 
 
„Áhuginn á jurtalitun byrjaði þegar ég skrifaði mastersritgerðina mína um grasnytjar en þar skoðaði ég hvernig við nýttum villtan gróður og jurtalitun eru grasnytjar. Meðan ég var að skrifa ritgerðina þá fór ég að stelast til að setja í litunarpotta og missti alveg stjórn á þessu áhugamáli mínu. Jurtalitun tengir saman handverk, jurtir og íslensku sauðkindina, allt eitthvað sem ég hef áhuga á og því kom það engum á óvart að ég féll alveg fyrir þessu fagi.“
 
Opnaði Hespuhúsið upp við Andakílsárvirkjun sumarið 2012
 
– Hvenær stofnaðir þú fyrirtækið og hvar hefur þú haft aðsetur og hvernig hefur gengið í öll þessi ár?
„Árið 2012 var ég flutt í gott hús upp við Andakílsárvirkjun með ágætis bílskúr. Þar opnaði ég Hespuhúsið sumarið 2012. Ég hef verið þar með starfsemina þangað til ég flutti síðasta haust. Hespuhúsið jurtalitunarvinnustofa hefur gengið ljómandi vel öll þessi ár en ég hef fasta opnunartíma á sumrin en bara opið eftir samkomulagi utan þess tíma.  
 
Eftir bankahrunið þá jókst áhugi á því að prjóna og nýta náttúruna, ekki bara á Íslandi heldur víða um heim og það kom sér vel fyrir Hespuhúsið. En smám saman varð 24 fermetra bílskúrinn of lítill fyrir mína starfsemi og ég hef í nokkur ár verið að líta í kringum mig að stærra húsnæði sem væri auðfundnara fyrir gesti.“
 
Frekar rólegt yfir ferðamönnunum í Borgarfirði yfir veturinn
 
– Nú ertu flutt í Ölfusið, hvað kemur til?
„Já, eftir að hafa leitað lengi að rétta húsnæðinu og réttu stað­setningunni þá datt ég niður á þetta litla lögbýli hér í Árbæjarhverfinu sem nefnist Lindarbær. 
 
Í Borgarfirði er frekar rólegt yfir ferðamönnunum yfir veturinn og ég þurfti meira af heilsársgestum, stærra húsnæði og meiri finnanleika, eins og ég kalla það. Hér í Árbæjarhverfi er auðvelt að finna mig en það er beygt á hringtorginu hjá Toyota inn Árbæjarveginn og ekið í 900 metra þar til skiltið Hespuhúsið birtist. Hér hef ég 210 fermetra fyrir Hespuhúsið og hef látið útbúa stórt bílastæði þar sem komast fyrir bæði rútur og margir bílar án þess að skapa truflun fyrir nágrennið. 
 
Hér er einnig ódýrt heitt vatn og hér er lögbýlisréttur og landbúnaðarskipulag sem styður við það að ég hafi starfsemi hér.  Ég var eiginlega dálítið stressuð fyrir þessum flutningum á Suðurlandið því ég þekki fáa hér og hef bara ekkert spáð í Selfoss og auk þess var ég svo ánægð í Borgarfirði og mig eiginlega langaði alls ekki að fara þaðan. En nú er ég búin að koma mér vel fyrir hér og er að kynnast Selfossi og Árbæingum betur og ég er alsæl. Hér er allt til alls og stutt í allt en samt er ég í sveitaumhverfi með kindur og hesta á næsta túni. Selfyssingar og Árbæingar hafa tekið mér mjög vel og ég er spennt að kynnast þeim betur,“ segir hún.
 
Með yfir 200 fm fyrir handverkið
 
– Þú ert með fyrirmyndar aðstöðu. Hvað getur þú sagt mér um  hana og hvernig er „hefðbundinn“ vinnudagur hjá þér?
„Hér í skemmunni hef ég yfir 200 fermetra fyrir handverkið. Ég er með hluta af minni búslóð hér á vinnustofunni til að gera aðstöðuna hlýlega og heimilislega. Þar sem ég er nærri því alltaf á vinnustofunni þá segi ég að þetta sé mitt heimili, þetta er eiginlega heimili og vinnustofa. 
 
Hér hef ég góða setustofu og stórt sjónvarp sem nýtist sem fyrirlestraskjár og setustofan er þá fyrirlestrasalur eða góður vettvangur fyrir prjónakvöld eða kósíkvöld. Í setustofunni eru hillur með gömlum hlutum tengdum handverki sem gestir geta skoðað, ég kalla það þjóðháttadeildina. 
 
Ég var búin að hlakka mikið til að hafa Eurovision-prjónakvöld en það varð víst ekkert úr því þetta árið. Hér er nóg af stólum fyrir gesti til að tylla sér og svo hef ég mín vinnuborð til að vinna með bandið, undirbúa fyrir litun eða pakka inn lituðu bandi. Svo eru hillur með söluvöru og þá pottarnir sem geta mallað meðan ég vinn í frágangi. Þá hef ég gott þurrksvæði fyrir bandið með hitablásara,“ segir Guðrún og heldur áfram: 
 
„Enginn vinnudagur er eins, í dag var ég t.d. í Reykjavík að funda með prentsmiðjunni og aðilum tengdum næsta verkefni hjá mér sem er útgáfa á púsluspilum og spilum. Ég var einnig að afhenda sendingar og stússast í tengslum við Hespuhúsið, t.d. að sækja einband í Ístex. Síðdegið fór í tölvustúss. Mér finnst allt of mikill tími fara í tölvuvinnu miðað við það að ég á að heita að vinna við handverk. Draumadagur sem væri fremur hefðbundinn yfir sumartímann væri að vakna snemma og ganga frá bandi í skolun og þurrkaðstöðuna og fara svo út að tína þær jurtir sem ég mun lita með yfir daginn, skella í potta sem svo malla í 1–3 daga (ekki stöðugt) og á meðan ég hef auga með pottunum get ég tekið á móti gestum á vinnustofunni eða unnið með bandið, hespað í hnykla og sett í pakka. Um kvöldið er ég oft að skola band til að setja í þurrk, afrakstur dagsins.“
 
Margir amerískir hópar koma í Hespuhúsið og fá fræðslu um jurtalitunarhefðina. Stundum grípa hóparnir í prjónana og rifja upp gamla takta. Þessi mynd er frá Hespuhúsinu þegar það var í Borgarfirði og þar var þröng á þingi. Mynd / Úr einkasafni
 
Ánægjulegt hve margir hafa áhuga á þessu gamla handverki
 
– Þú ert með mikið af fyrirlestrum, færð marga í heimsókn og alltaf meira en nóg að gera hjá þér?
„Já, það er svo ánægjulegt hve margir hafa áhuga á að heyra um þetta gamla handverk. Spjallið mitt yfir pottunum er alls ekki prjónatengt, þetta er þjóðlegur fróðleikur sem allir hafa gaman af, konur og karlar. Þegar hópar óska eftir því þá spjalla ég í um það bil 25 mínútur yfir pottunum og segi frá litunarsögunni og litunarfræðunum.  Blessunarlega þá er það spjall ekki alltaf eins og bara frekar frjálslegt og getur tekið alls konar stefnur eftir áhuga gesta og spurningum. 
 
Eitt árið tók ég á móti 250 hópum á vinnustofuna og missti bara úr 3 fyrirlestra sem góð vinkona tók fyrir mig. Í ár verða hóparnir talsvert færri út af ástandinu en það lagast vonandi á næsta ári. 
 
Ég held að lykillinn að því að halda dampi sé áhuginn, ég hef svo endalausan áhuga á efninu og gaman af því að fræða og vekja áhuga fólks á náttúrunni og grasnytjum. Ég er þakklát fyrir að fá gesti til mín sem spyrja spurninga og hafa áhuga á því sem ég er að gera. Það er ómetanlegt og gaman.  Ég hef oftast aðstoð yfir sumartímann, stundum fastan starfsmann en stundum bara íhlaupastarfsmann. Þetta er mikil törn í nokkra mánuði og ég held ég lifi þetta af með gönguferðum og heitapottsferðum, þannig hreinsa ég hugann og endurnærist fyrir næsta dag.“
 
Hefur  nýtt tímann á COVID- tímanum til að undirbúa sumarið
 
– Hvernig hefur þú náð að þreyja þorrann í COVID-19 ástandinu, hvernig hefur það komið við þig?
„Ég flutti úr Borgarfirðinum í nóvember og hér var allt á haus til jóla í framkvæmdum og kassar úti um allt. Í janúar og febrúar sinnti ég kennslu við Landbúnaðarháskólann svo ég var rétt að byrja að njóta mín í þessu nýja rými og þessari frábæru aðstöðu þegar COVID skellur á. Ég náði nokkrum vikum þar sem erlendir og innlendir ferðamenn voru farnir að renna við og gestagangurinn var eiginlega meiri hér á þessum vetrarmánuðum en á miðju sumri í Borgarfirði. Ég var orðin mjög spennt fyrir framhaldinu og sumrinu en þá allt í einu kom enginn. 
 
 Ég hef nýtt tímann til að undirbúa sumarið og huga að því hvernig ég get tekist á við að hér komi mest Íslendingar. Í raun er lítil breyting á áherslunum en ég hef alltaf sinnt báðum hópum eins tel ég. Veturinn hefur því verið rólegur í Hespuhúsinu og ekki hjálpaði COVID til, núll innkoma í langan tíma eftir miklar framkvæmdir er ekki góður kokteill,“ segir Guðrún.
 
Mjög spennt fyrir sumrinu
 
– Sumarið í sumar, hvernig sérðu það fyrir þér og hvar verða þínar helstu áherslur?
„Eftir strembinn vetur þá er ég mjög spennt fyrir sumrinu. Ég finn fyrir miklum áhuga Íslendinga á því að kíkja í Hespuhúsið og fá fræðslu og kíkja í kringum sig. Hespuhúsið eins og áður stendur fyrir fræðslu og jurtalitun, Hespuhúsið er opin vinnustofa og gestir geta kíkt í pottana og séð litunarferlið en til að takast á við breyttar aðstæður þá fór ég að vinna í gamalli hugmynd að framleiða púsluspil með myndum af blómum og einnig litunum í bandinu mínu. Alltaf fylgir einhver fræðsla eða upplýsingar með þessum vörum. Einnig er ég að vinna í spilinu „Veiðimaður“ en í þetta sinn eru veiddar plöntutegundir. „Áttu baldursbrá? Áttu lúpínu? Og svo framvegis. Spilið er hugsað til að kenna fólki að þekkja íslenska flóru en almennt er plöntuþekking Íslendinga dálítið döpur en áhuginn er fyrir hendi.“
 
Nemendur á litunarnámskeiði á Prjónagleði á Blönduósi fyrir nokkrum árum. Í nýju Hespuhúsi er gott rými fyrir alls kyns námskeið og fræðslu. 
 
Ullarvika á Suðurlandi
 
– Svo er það ullarvikan á Suður­landi í haust, kemur þú ekki sterk þar inn?
„Jú, ég geri ráð fyrir að hér verði urmull af íslensku og hugsanlega líka erlendu prjónafólki. Ég hef líka heyrt að íslenskar prjónakonur sem vanalega fara erlendis á prjónahátíðir ætli að gera vel við sig og koma á Suðurlandið í haust og gista og njóta þess að ferðast innanlands á prjónahátíð í stað erlendis.
 
Ég verð með námskeið í grunn­atriðum jurtalitunar og einnig kenni ég notkun indígós til að lita blátt. Ég geri líka ráð fyrir að vera virk á ýmsum viðburðum prjónahátíðarinnar þó það sé ekki komið alveg í ljós enn þá.“
 
– Þú verður með opið í allt sumar í Hespuhúsinu í Skemmunni við Lindarbæ. Hvernig verður opnunartíminn, hvað ertu að selja og af hverju ætti fólk að leggja leið sína til þín?
„Sumaropnun hófst um hvítasunnuhelgina og það er opið alla daga nema mánudaga frá 10-17. Utan þess tíma þá er fólki velkomið að renna við og ef ég er heima þá opna ég en best er þó að láta vita af sér á undan en það er enginn tími heilagur. 
 
Ég hef opið fram á haust, hugsanlega út október, en það fer bara eftir ástandinu, en a.m.k. til 1.  september. Ég er yfirleitt sjálf á vinnustofunni og gestir geta kíkt í pottana og fræðst um jurtir og jurtalitun. Hægt er að tylla sér með prjónana eða bara skoða gamla dótið í þjóðháttadeildinni og glugga í bækur um handverk. 
 
Þótt vinnustofan sé í raun ekki barnvæn, skæri og heitir pottar úti um allt þá eru börn hjartanlega velkomin og alltaf gaman að spjalla við börn um jurtirnar en foreldrar þurfa að passa vel upp á litla putta. Tveir barnastólar eru á staðnum fyrir yngri börn og leikföng í kassa,“ segir Guðrún að lokum.