Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Matvælaáætlun SÞ hlaut friðarverðlaun Nóbels
Fréttir 2. nóvember 2020

Matvælaáætlun SÞ hlaut friðarverðlaun Nóbels

Höfundur: ehg

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna, stærsta mannúðarverkefni í heiminum, hlaut á dögunum friðarverðlaun Nóbels fyrir átak sitt við að berjast gegn hungri og að bæta friðarskilyrði fólks á svæðum þar sem átök geisa ásamt því að koma í veg fyrir að matur sé notaður sem vopn í stríði og deilum. Það kristallast vel í einkunnarorðum áætlunarinnar; „Matur er besta bóluefnið gegn ringulreið“.

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna var sett á laggirnar árið 1961 og brauðfæðir í dag yfir 90 milljónir manna ár hvert. Samt sem áður eru enn í dag einn af hverjum níu manns í heiminum sem fá ekki nægan mat.

Mikilvægi matvælaöryggis og friðar

Í kjölfar kórónuveirufaraldursins hefur fjöldi þeirra sem lifa við hungurmörk margfaldast undanfarna mánuði. Markmiðið með áætluninni hefur verið að beina sjónum að deilum í og milli landa ásamt loftslagsbreytingum, en í ár hefur COVID-19 bæst í hópinn. Sú vinna sem matvælaáætlunin byggir á leggur áherslu á hversu mikilvægt það er að lönd framleiði sín eigin matvæli til að tryggja matvælaöryggi. Nóbelsverðlaunin er áminning til allra þjóða heimsins um að aðstæður verði að vera til staðar hjá hverri og einni þeirra til að lönd hafi tækifæri til að framleiða matvæli ofan í íbúa sína.

„Allar þær 690 milljónir manna sem búa við hungur í dag í heiminum eiga rétt á að lifa í friði og án hungurs. Starfsfólkið okkar er þarna úti og starfar við afar erfiðar aðstæður á hættulegustu stöðum í heiminum, hvort sem það er stríð, deilur eða miklar öfgar í veðurfari vegna loftslagsbreytinga, það skiptir ekki máli. Þau eru þarna úti allt árið um kring og þau eiga þessi friðarverðlaun skilið. Samt sem áður vinnum við þetta starf ekki ein því við störfum náið með stjórnvöldum í hverju landi fyrir sig, íbúum og alþjóðlegum samtökum ásamt aðilum í einkageiranum sem hafa allir ástríðu fyrir því að bregðast við hungri og fyrir þá sem eru í viðkvæmri stöðu. Án allra þessa aðila gætum við ekki hjálpað neinum,“ sagði framkvæmdastjóri Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, David Beasly.