Landbúnaðarsýningin Hey bóndi
Laugardaginn 14. nóvember var haldin landbúnaðarsýningin „Hey bóndi“ í Félagsheimilinu Hvoli á Hvolsvelli að undirlagi Fóðurblöndunnar.
Á sýningunni voru fluttir 11 fyrirlestrar með ýmsum fróðleik tengdum landbúnaði. Fyrirlesarar voru bæði innlendir og erlendir sérfræðingar. Þá útvarpaði Útvarp Suðurlands beint frá sýningunni.
Kynnt var ný sýnatökuvél sem tekur prufur af heyi, korni og fóðri, fjöldi tilboða var einnig á landbúnaðarvörum meðan á sýningu stóð og boðið var upp á reynsluakstur á nýjum bifreiðum og traktorum.
Fjölmörg landbúnaðartengd fyrirtæki auk Fóðurblöndunnar voru þar mætt til að kynna sínar vörur og þjónustu.
Sýningin var vel sótt, en það má gera ráð fyrir að um 500 manns hafi komið í Hvol. „Já, það var margt um manninn og það myndaðist góð og skemmtileg fjölskyldustemning þar sem óhætt er að segja að allir hafi fengið eitthvað við sitt hæfi,“ sagði Pétur Pétursson, sölustjóri Fóðurblöndunnar.