Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
„Ég tel það gríðarlega mikilvægt að við náum að skapa þennan grundvöll, Störf óháð staðsetningu, því að hérlendis er fjölmennur hópur fólks sem vill búa utan þéttbýlis, en hefur í raun ekki tök til þess, hvort sem er vegna atvinnu eða menntunar,“ segir Arnar Már Elíasson, forstjóri Byggðastofnunar.
„Ég tel það gríðarlega mikilvægt að við náum að skapa þennan grundvöll, Störf óháð staðsetningu, því að hérlendis er fjölmennur hópur fólks sem vill búa utan þéttbýlis, en hefur í raun ekki tök til þess, hvort sem er vegna atvinnu eða menntunar,“ segir Arnar Már Elíasson, forstjóri Byggðastofnunar.
Mynd / SP
Fréttir 25. maí 2022

Kynslóðaskipti gerð auðveldari með allt að 90% veðsetningu

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Í samtali við Arnar Má Elíasson, settan forstjóra Byggðastofnunar, var litið yfir stöðu lánaflokka og mál byggðafestu, atvinnu og menntunartækifæra fólks í dreifbýli, en störf óháð staðsetningu eru nú að ryðja sér rúms í æ ríkara mæli. Við gefum Arnari orðið, og tökum fyrst fyrir Almenn lán, Kynslóðaskiptalán og stækkun lánasafns.

„Lengst af var bara einn lána­flokkur hjá Byggðastofnun. Sama hvaða verkefni stóðu fólki fyrir höndum, sóttu allir í almennan lánaflokk. En árið 2013 var tekin sú ákvörðun og stefna að horfa til mismunandi atvinnugreina og landsvæða með sértækum lánaflokkum. Lánaflokkur landbúnaðar var fyrst stofnaður og upp- haflega eingöngu ætlaður til kynslóðaskipta. Í kjölfar stofnunar hans greindist mikil eftirspurn frá öðrum bændum um mögulega lántöku hjá Byggðastofnun vegna hugsanlegra endurbóta á sínum jörðum og því var ákveðið að breyta lánaflokknum þannig að hann næði yfir allan landbúnað.

Kynslóðaskiptahugtakið sem við fórum af stað með upphaflega varð þannig að lánveitingum til allra bænda.“
„Breytingin á landbúnaðar- lánunum árið 2020 var sú,“ segir Arnar, „að skapaður var hliðararmur, ef svo má segja, út frá landbúnaðarlánunum með kynslóðaskiptum og möguleg lánveiting hækkuð úr 75% í 90%. Gríðarleg breyting sem gerir það að verkum að ungir bændur geta keypt hundrað milljóna króna bú með tíu milljóna króna eiginfjár framlagi.

Þetta er stór ástæða þess hve mikið lánasafnið okkar hefur stækkað, en frá árinu 2020 höfum við veitt 40 kynslóðaskiptalán að upphæð tæplega þriggja milljarða króna, af þeim níu milljörðum sem landbúnaðarlánasafnið stendur nú í. (Lánasafn Byggðastofnunnar í heild er rétt rúmir 20 milljarðar.) Það má því segja að stofnunin hafi, með þessum lánum, stuðlað að því að fjörutíu bú hafi farið í gegnum kynslóðaskipti frá árinu 2020 þar sem ungir og efnilegir bændur taka við af þeim sem eldri eru.

Í einhverjum þessara tilvika hefðu kynslóðaskipti ekki verið möguleg nema með þessum 90% lánum. Þetta hefur því reynst mjög eftirsótt og að mínu viti afar mikilvægt því landbúnaður er lykilbreyta í byggðafestu í landinu. Með þessum lánveitingum tel ég að stofnunin sé að stíga mjög sterkt inn, kynslóðaskiptalánin eru mikilvæg fyrir landbúnaðinn.“ „Þegar kemur að þjónustu stofnunarinnar um málefni landbúnaðarins,“ heldur Arnar áfram, „má kannski bæta því við, að þeim lánsumsóknum sem við fáum fylgja vanalega rekstraráætlanir frá RML sem við leggjum mikla trú og traust á, enda starfsmenn RML sérfræðingar í greininni og gott samstarf okkur mikilvægt.

Við höfum reynt að hitta fulltrúa reglulega og farið yfir stöðuna í landbúnaði þannig að við séum meðvituð og meira samstiga þegar lánsumsóknir og rekstraráætlanir berast, auk þess að vera betur undirbúin til að taka góðar ákvarðanir.

Samstarfssamningur Fjárfestingasjóðs Evrópu og Byggðastofnunar

Varðandi frekari fjölgun lánaflokka koma svo einnig til samstarfsviðræður okkar við European Investment Fund (EIF) í Lúxemborg, eða Fjárfestingasjóð Evrópu, sem Ísland á aðild að í gegnum EES samninginn. Sjóðurinn er með verkefni sem kallast COSME, sem stuðlar að því að fjármálastofnanir geti veitt lán í verkefni eða til svæða sem eru að einhverju leyti á jaðrinum, í raun erfið verkefni sem hefðbundnar fjármálastofnanir með arðsemismarkmið að leiðarljósi myndu síður fjármagna.

Í samstarfsviðræðunum kom í ljós að fulltrúar Fjárfestingasjóðsins telja að nánast allar lánveitingar Byggðastofnunar gætu fallið undir verkefnið. Við teiknuðum því upp nýja lánaflokka undir samkomulaginu, en það virkar þannig að lán hafa 50% ábyrgð frá þessum sjóði. Svo dæmi sé tekið: Veitt er 100 milljón króna lán. Reksturinn gengur ekki upp og stofnunin þarf að fullnusta veðið – og við fullnustu dugar endursala á því ekki fyrir láninu eins og það stendur á þeim tíma. Þá tekur þessi sjóður 50% af þeirri afskrift sem verður í kjölfarið. Með þessum bakhjarli getur stofnunin veitt áhættusamari lán en áður og minnkað vænt tap stofnunarinnar af slíkum verkefnum.

Nýir lánaflokkar verða eins og áður sagði, kynslóðaskiptin í landbúnaði – 90% lánin, svo stofnuðum við flokk sem heitir Græn lán, líka 90% sem veitt eru til verkefna í öllum atvinnugreinum sem með einum eða öðrum hætti stuðla að umhverfisvernd – fórum af stað með 80% lán til fiskvinnslu eða útgerða í viðkvæmum sjávarbyggðum, einnig undir COSME samkomulaginu, auk þess að koma undir samkomulagið lánaflokki sem reyndar var stofnaður fyrir mörgum árum síðan, lán til stuðnings atvinnurekstri kvenna. Hann ber þá minni áhættu en áður þar sem undir samkomulaginu minnkar vænt tap stofnunarinnar af þeim verkefnum. Nýsköpunarlán eru svo nýr lánaflokkur, veittur til frumkvöðla í landsbyggðunum.

Þannig þessi samstarfssamningur við Fjárfestingasjóð Evrópu gerði okkur kleift að búa til fjóra nýja lánaflokka, alla á mjög flottum kjörum og með góðum skilyrðum, í raun alger bylting fyrir stofnunina,“ segir Arnar alvarlegur í bragði.

Úttektir á stöðu bænda í byggðalegu tilliti

„Byggðastofnun kemur iðulega að alls konar úttektum, greiningum og skýrslum er varða stöðu landsbyggðanna“ heldur hann áfram, „til dæmis er ekki langt síðan að við unnum að samantekt á byggðaáhrifum landbúnaðar.Litið var þar sérstaklega til kynslóðaskipta. Nýlega bað innviðaráðherra okkur svo að vinna úttekt á stöðu sauðfjárræktar, þá sérstaklega í byggðalegu tilliti, sem við ætlum að skila vonandi núna í lok maí, en eins og við vitum hefur sauðfjárrækt átt undir högg að sækja síðustu ár. Í samantektinni verður litið til þess hvar búin eru, hvaða byggðafesta er í þeim, hvort kynslóðaskipti séu möguleg eða í vændum o.s.frv.

Til viðbótar hefur Byggðastofnun svo oftar en ekki brugðist við og tekið þátt í einskiptisaðgerðum til aðstoðar í landbúnaði þegar þess hefur þurft, sem er mikilvægt fyrir landbúnaðinn. Dæmi um slíkt er til að mynda erfið staða minkabænda, en árið 2019 var unnin greining á stöðu minkaræktar. Í kjölfarið var svo haldið af stað með sérstakan lánaflokk, til stuðnings minkabændum í landinu, sem glímdu við mikinn lausafjárvanda vegna verðhruns á skinnum á markaði.“

Útvíkkuð starfsemi dreifbýlis

„Annað sem ég tel afar mikilvægt og færist sífellt í aukana hérlendis – er að bændur eru margir hverjir að útvíkka sína starfsemi og bæta við sig ferðaþjónustu, en í dag eru landbúnaður og ferðaþjónusta langstærstar í lánasafni Byggða- stofnunar. Oftar en ekki höfum við veitt lán til landbúnaðar og ferðaþjónustu á sama staðinn. Mér finnst þetta mjög merkileg og góð þróun, að bændur geti nýtt það landsvæði og hugsanlega þær húseignir sem þeir eiga, í ferðaþjónustu og aukið tekjur sínar með slíkri sameiningu.

Að auki trúi ég að upplifun ferðamanna af Íslandi verði allt önnur og betri við að kynnast íslenskum bændum. Með þessu er rétt að horfa til þess að landbúnaður er gríðarlega mikilvægur fyrir landið út frá byggðafestu, því ef hans nyti ekki við væri ekki fólk í dreifðari byggðum sem að myndi koma niður á m.a. ferðaþjónustunni.
Ferðamaðurinn vill þjónustu sem hann fengi ekki, ef dreifðari byggða nyti ekki við. Hringferðir í kringum landið yrðu ekki mikil upplifun ef þar væri enga þjónustu að finna,“ segir Arnar og brosir. „Það er einn þáttur í því hversu mikilvægt það er að halda byggð sem víðast og að styrkja dreifðari byggðir á sem mestan hátt.

Brothættar byggðir

Eitt verkefna Byggðastofnunar er síðan Brothættar byggðir og varðar byggðalög sem standa höllum fæti. Þar má til dæmis sjá áhrif kynslóðaskiptalánanna. Málið er það að í mjög dreifðum byggðum kemur fyrir að ekki verða kynslóðaskipti, lítill sem enginn áhugi er hjá afkomendum að flytja í sveitina og taka við rekstri búsins. Í einhverjum tilvika er staðan líka sú að jarðir eru það afskekktar að illa gengur að selja þær og þá leggjast þessi bú í eyði. Það er náttúrlega mjög bagalegt.

Þess vegna, meðal annars, höfum við verið að bjóða upp á 90% kynslóðaskiptalánin sem gera það að verkum að einhver utanaðkomandi fær tækifæri til að kaupa umrædda jörð og hefja þar búskap. Í raun er vandamálið það að færri byggðarlög komast að en vilja í verkefnið. Eins og er sinna verkefninu hjá okkur tveir starfsmenn sem fara á íbúafundi og -þing auk þess að sitja í verkefnastjórnun.

Það sem er svo frábært við verkefnið er að það er alfarið unnið af og með heimamönnum, í heimabyggð, að verkefnum sem heimamenn telja ástæðu til að fara í, og þá eftir umræður og kosningar þeirra sjálfra. Það er algerlega lykilatriðið í þessu, að ekki er um að ræða ákvörðun ráðuneytis eða nefndar frá höfuðborgarsvæðinu. Enda eru niðurstöður og ánægja heimamanna eftir því, tekið er á þeim verkefnum og vandamálum sem þeir telja þörf á.“

Störf óháð staðsetningu

„Í raun, svo punktur sem tengist þessu einnig,“ bætir Arnar við, „er að mínu viti ein stærsta byggðaaðgerð síðustu ára; Störf óháð staðsetningu. Við vorum að klára ársfund Byggðastofnunar núna 5. maí og var þetta þema fundarins, rætt frá öllum hliðum, kostir og gallar. Í ríkisstjórnarsáttmálanum er kveðið á um að öll störf hins opinbera skuli auglýst óháð staðsetningu, sé hægt að vinna þau á þann máta. Mikil áhersla virðist lögð á þetta hjá hinu opinbera og tel ég það afar mikilvægt.

Oft atvikast málin þannig að yngra fólkið fer á höfuðborgar- svæðið til þess að mennta sig en kemur ekki aftur í landsbyggðirnar. Ef viðkomandi fær ekki starf tengt náminu í sinni heimabyggð er auðvitað mjög erfitt fyrir þann einstakling að flytja þangað aftur, þó viljinn sé fyrir hendi.

Hins vegar, ef sá möguleiki væri fyrir hendi að fólk geti flutt aftur í heimabyggð og unnið störf óháð staðsetningu, þá er það gríðarlegt byggðarmál að mínu viti og gæti orðið til þess að meiri byggðafesta næðist á þeim stöðum sem hafa glímt við viðvarandi fólksfækkun. Ég tel að yngri kynslóðirnar, sem eru í háskóla núna, séu opnari fyrir slíkri tilhögun og eftir fimm eða tíu ár muni slíkt þykja sjálfsagt. Það verði ekki einu sinni til umræðu hvar þú býrð á landinu – þú bara vinnur starfið þaðan sé þess kostur.

Það má segja að Covid hafi ýtt okkur 10 ár fram hvað varðar þessa hugmynd þegar stór hluti landsmanna neyddist til að vinna heiman frá sér. Þetta er stór punktur hvað varðar byggðafestu – að þessi möguleiki sé fyrir hendi. Við gerðum könnun árið 2020 í dreifbýli og sveitum þar sem íbúar voru spurðir um ýmsa þætti – þar á meðal hvort þeir hygðust flytja í þéttbýli á næstu þremur árum. Af þeim sem sögðust ætla að flytja í þéttbýli var rúmur helmingur sem sagði ástæðuna vera atvinnu- eða menntunartækifæri.

Ef við getum stuðlað að því og komið því til leiðar að fólk geti unnið og sinnt námi frá þeim stað á Íslandi sem það helst kýs, í dreifbýli, sveitum eða þéttbýli – þá er mikill sigur unninn. Ég tel mjög mikilvægt að við náum að skapa þennan grundvöll því að fjölmennur hópur fólks vill búa utan þéttbýlis samkvæmt þessari könnun, en hefur í raun ekki tök á því vegna atvinnu- eða menntunartækifæra.

Val um fjarvinnu og fjarnám er framtíðin.“