Kúabændur á Suðurlandi jákvæðir gagnvart nýjum búvörusamningi
Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi var haldinn á Hellu mánudaginn 1. febrúar. Þar voru væntanlegir búvörusamningar m.a. til umræðu.

„Þetta var mjög gagnlegur og vel sóttur fundur. Það voru um 130 manns með gestum. Fjöldinn allur af ungu fólki hefur gengið í félagið síðustu daga og greinilega er mikið um kynslóðaskipti víða síðustu ár á bæjum og einnig tveggja kynslóða bú,“ segir Valdimar Guðjónsson, kúabóndi í Gaulverjabæ í Flóa og formaður Félags kúabænda á Suðurlandi.
Á fundinum var m.a. farið ítarlega yfir samningaviðræður við ríkið um búvörusamning sem væntanlega verður til 10 ára.
„Það var frekar jákvæður andi fundarmanna um stöðu viðræðna og því sem náðst hefur fram. Kom það allnokkuð á óvart miðað við nokkuð neikvæða umræðu sem átt hefur sér stað, sérstaklega á samfélagsmiðlum,“ segir Valdimar, sem var endurkjörinn formaður félagsins á fundinum.