Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Kalt vor og langvarandi þurrkar í sumar hafa áhrif
Mynd / Anna Margrét Jónsdóttir
Fréttir 16. ágúst 2021

Kalt vor og langvarandi þurrkar í sumar hafa áhrif

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdótttir

Gera má ráð fyrir að heyfengur á norðanverðu landinu verði almennt heldur minni en í meðalári.

Vorið var einstaklega kalt og hafði langur kuldakafli í vor og byrjun sumars í för með sér að spretta var seinna á ferðinni en áður.

Þannig hófst sláttur síðar og á stöku stað er fyrri slætti ekki lokið, þó ekki sé það algengt. Langvarandi þurrkar í sumar höfðu í för með sér að þó nokkuð var um bruna í túnum.

Eiríkur Loftsson, ráðunautur í Skagafirði, segir að heyskapur hafi ekki fyrir alvöru hafist þar fyrr en í lok júní, enda lengst af kalt um vorið, þurrt og spretta hæg. „Uppskera var því víða í minna lagi,“ segir hann. Uppskera á yngstu túnum hafi einnig verið mismikil, yfirleitt betri og sums staðar mjög góð, þéttleiki grasa í þeim góður eftir hagstæðan vetur. „Sums staðar þar sem jarðvegur var grunnur var uppskerutap vegna þess að gróður var farinn að brenna.“

Eiríkur segir að heyskapartíð í júlí hafi verið hagstæð til að forþurrka eða þurrka hey. Háarsláttur er lítið hafinn en hefst af krafti fljótlega ef tíð leyfir. „Spretta á henni hefur verið misjöfn milli svæða, sennilega mest vegna þess hve sumarið var þurrt og úrkomu misskipt.“ Hann segir heyfeng úr fyrri slætti líkast til vera undir meðallagi og væntingum en fóðrunarvirði gæti verið bærilegt. Hvað korn varðar segir hann sprettu hafa farið hægt af stað vegna kulda í vor, „en kom sér samt greinilega vel fyrir því þegar hlýnaði fór spretta vel af stað og var bygg að skríða um og upp úr miðjum júlí og á stöku stað fyrr.“

Ekki komið í ljós hvert umfang brunninna túna er

Anna Margrét Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Búnaðar­sambands Húnaþings og Stranda, segir stöðuna breytilega í sínu héraði. Víða hafi bændur náð inn góðum heyfeng og eigi það frekar við um Austur-Húnavatnssýslu. „Mér finnst eins og vestursýslan hafi ekki sloppið eins vel frá þurrkunum í sumar og það sama á við um Strandirnar,“ segir hún.

Þurrkar háðu sprettunni vissulega og sums staðar eru tún mikið brunnin og bændur horfa fram á töluvert tjón, eða rýra uppskeru af þeim völdum. „Við vitum ekki strax hvert umfangið er, það er ekki að fullu komið í ljós,“ segir Anna Margrét.

Hún segir heyfeng misjafnan á milli svæða og jafnvel bæja. Sumir hafi náði inn ágætis magni á meðan aðrir horfi upp á lakari uppskeru. Hún segir að eflaust muni bændur miðla heyi á komandi vetri sín á milli.

Ná að heyja ofan í skepnur sínar

Haukur Marteinsson, bóndi í Kvíabóli í Kinn í Suður-Þingeyjarsýslu, segir að menn þar um slóðir kvarti ekki mikið. „Vorið var rosalega kalt og þurrt og lítið spratt, en sumarið sem á eftir kom hefur verið með eindæmum gott. Heyskapur hefur því víðast hvar gengið afbragðs vel,“ segir hann.

Haukur segir að farið hafi að bera á þurrkskemmdum í túnum í júlí en undanfarnar vikur hafi víðast hvar bleytt vel í sem sé til bóta. Hann gerir ráð fyrir að heyfengur verði með minna móti í ár og segir að menn hafi örlitlar áhyggjur af því að ef ágúst verði sólríkur og góður áfram geri hann ráð fyrir að bændur í héraði nái að heyja ágætlega ofan í sínar skepnur. 

Skylt efni: heyfengur