Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Með endurnýjanlegri raforku, vatni og andrúmslofti er hægt að framleiða rafeldsneyti. Í fyrsta skrefi er vetni framleitt úr vatni með rafgreiningu. Vetninu er síðan umbreytt í ammoníak með því að bæta við nitri sem skilið er úr andrúmsloftinu. Hliðarafurðirnar varma og súrefni er hægt að fullnýta með hagkvæmum hætti fyrir samfélag og atvinnulíf.
Með endurnýjanlegri raforku, vatni og andrúmslofti er hægt að framleiða rafeldsneyti. Í fyrsta skrefi er vetni framleitt úr vatni með rafgreiningu. Vetninu er síðan umbreytt í ammoníak með því að bæta við nitri sem skilið er úr andrúmsloftinu. Hliðarafurðirnar varma og súrefni er hægt að fullnýta með hagkvæmum hætti fyrir samfélag og atvinnulíf.
Mynd / Fjarðarorka
Í deiglunni 5. desember 2023

Knúið á um regluverk fyrir vindorku

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Til stendur að byggja upp orkugarð á Reyðarfirði og framleiða þar rafeldsneyti með efnagreiningu. Nú hefur danska fyrirtækið CIP samið við átta jarðeigendur í Fljótsdal um leigu á landi undir vindmyllur til raforkuframleiðslu fyrir orkugarðinn.

Í samræmi við áherslu á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins stóð CIP, eigandi Fjarðarorku, ásamt fleirum árið 2021 að stofnun Orkugarðs Austurlands (OGA) sem er samstarfsvettvangur um nýtingu grænna tækifæra á Austurlandi. Markmið hans er að stuðla að aukinni verðmætasköpun og byggja upp þekkingu á orkuskiptum á svæðinu með sérstakri áherslu á nýsköpun, hátækni, grænar lausnir og sjálfbærni.

Framleiðslan hefur að sögn aðstandenda verkefnisins það markmið að tryggja framboð á rafeldsneyti til orkuskipta í sjávarútvegi og sjóflutningum auk annarra greina sem munu reiða sig á rafeldsneyti til orkuskipta. Undirbúningurinn miðar við að raforka til framleiðslunnar verði tryggð með uppbyggingu vindorkugarðs í Fljótsdal. Það hefur þó tafið verkefnið að ekki er til staðar regluverk um vindorkunýtingu hérlendis.

Samið við átta landeigendur í Fljótsdal

Til þess að orkugarður geti orðið að veruleika þarf auðvitað orku til og því fór CIP í viðræður og samningagerð við landeigendur í Fljótsdal vegna vindorkuvers og hefur verið horft til Fljótsdalsheiðar, Múla og Víðivallaháls í því sambandi. Þurfi tæpar 60 vindmyllur með 350 MW í uppsettu afli.

Lóðaleigusamningar í Fljótsdal eru við 8 landeigendur og spanna rannsókna- og rekstrartíma mögulegs vindorkugarðs, skv. upplýsingum CIP. Innan tíðar verði send inn umsókn til Orkustofnunar en ekki liggi fyrir nein leyfi eða ákvarðanir um fjárfestingar vegna vindmyllanna að svo komnu máli, enda engu opinberu regluverki til að dreifa. CIP muni nú hefja umhverfis- og vindrannsóknir.

Ljóst er að mjög skiptar skoðanir eru um vindorku, einkum vindmyllur á landi. Var fjallað um það m.a. í fréttaskýringu Bændablaðsins sl. sumar og kom t.d. fram mismunandi afstaða fólks á svæðinu þar sem fyrirhugaður vindorkugarður Fjarðarorku á mögulega að rísa.

Ammoníak fyrir skip og í áburð

Í OGA er gert ráð fyrir að framleiða rafeldsneyti með vetni eftir að vatn hefur verið klofið með rafmagni. Horft er til þess að framleiðsla rafeldsneytis verði hafin eigi síðar en árið 2030. Sveitarfélagið Fjarðabyggð úthlutaði OGA lóð árið 2022 skammt utan við álver Fjarðaáls í Reyðarfirði. Talið er að um þrjú ár taki að byggja verksmiðjuna þegar þar að kemur.

Áform eru einnig um að byggja frekari starfsemi sem nýtir hliðarafurðir. Þá er hugmynd um umhverfisvæna áburðarverksmiðju en með vetnisframleiðslu væri hægt að búa til rafeldsneyti með rafgreiningu, svo sem ammoníak, til að nota í áburðarframleiðslu.

Magnús Bjarnason hjá MAR Advisor, sem er í forsvari fyrir verkefnið, sagði í Bændablaðinu fyrir nokkru síðan að ætlunin væri að nýta ammoníak sem rafeldsneyti fyrir skip. „Í framtíðinni munum við nota vistvænt eldsneyti, eins og ammoníak, og þá þarf að ákveða hvort það eigi að framleiða það hér eða flytja það inn. Okkar áætlanir ganga út á að kosið verði að nota innlenda framleiðslu. Ammoníakið verði þá notað annars vegar sem eldsneyti á skip, en hins vegar til að umbreyta í áburð. Aukaafurðir verða svo varmi og súrefni, sem munu nýtast til húshitunar og til fiskeldis á landi,“ sagði Magnús.

Til skoðunar er að nýta varmaorkuna til húshitunar á Reyðarfirði með uppbyggingu hitaveitu, en byggðarlagið reiðir sig nú á rafmagn til húshitunar. Súrefni er hægt að nýta á ýmsan hátt, til dæmis við landeldi á fiski, skólphreinsun og við iðnað af ýmsu tagi.

Er sett á oddinn að OGA verði leiðandi í mótun nýs markaðar fyrir rafeldsneyti og framleiðslugeta rafeldsneytisverksmiðju allt að 220 þúsund tonn af ammoníaki á ári en orkuþörf hennar væri 240 MW.

Verður að ljúka rammaáætlun

„Til þess að ná loftslagsmarkmiðum þarf græna orku – svo einfalt er það,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í ræðu á Alþingi fyrr í mánuðinum.

„Og ef menn greiða atkvæði gegn því að það sé verið að afla grænnar orku þá eru menn að koma ívegfyriraðþaðséhægtaðná loftslagsmarkmiðum. Svo einfalt er það. Það er ekki nokkur einasta leið fyrir okkur [...] að ná árangri í loftslagsmarkmiðum ef menn klára ekki rammaáætlun,“ sagði ráðherrann.

Opinn íbúafundur um fyrirhugaðan Orkugarð Austurlands og rafelds- neytisframleiðslu þar var haldinn á Reyðarfirði um miðjan mánuð. Fóru fulltrúar Fjarðabyggðar, Fjarðarorku og CIP þar yfir stöðu og forsendur. Mynd/Fjarðabyggð

Ekkert fast í hendi

Aðilar að orkugarðinum eru ásamt CIP, eftir því sem næst verður komist, Fjarðabyggð, Atmonia, Laxar, Fiskeldi Austfjarða, Síldarvinnslan, Fljótsdalshreppur, Gallon, Artic Hydro og Skeljungur, allt aðilar sem geta komið að því að nýta afurðir og hliðarafurðir rafeldsneytisframleiðslu í samræmi við hugmyndafræði hringrásar- hagkerfisins.

Þó er að sögn CIP eingöngu um viljayfirlýsingar að ræða en ekkert fast í hendi um fjárfestingar þessara aðila. Landsvirkjun mun einnig koma að verkefninu og CIP hefur átt í viðræðum við Landsnet vegna raforkuflutnings.

Hvað er CIP?

CIP, Copenhagen Infrastructure Partners, var stofnað árið 2012, fjárfestir á alþjóðlega vísu í orkuinnviðaverkefnum; endur- nýjanlegri orku og ekki síst vindorku. Höfuðstöðvar þess eru í Kaupmannahöfn en auk nokkurra útibúa í Evrópu starfar fyrirtækið einnig í Bandaríkjunum, Kóreu, Japan, Singapúr og Ástralíu og starfa hjá því um hálft þúsund manna.

CIP stýrir að sögn 19 milljörðum evra í tíu sjóðum sem fjárfesta í grænum orkuverkefnum víða um heim. Það mun vera í meirihlutaeigu fjögurra einstaklinga. Lífeyrissjóðurinn Pension Danmark var stofnfjárfestir í CIP og er enn stór fjárfestir.

Fjölmiðillinn Berlingske segir í fjögurra greina umfjöllun sinni um CIP að það hafi orðið alþjóðlegt milljarðafyrirtæki á mettíma. Einn hluthafa CIP, með 25% hlut, sé stærsti vindmylluframleiðandi heims, Vestas, sem hafi selt tæplega 85.000 vindmyllur í meira en 85 löndum.CIP er talið vera eitt stærsta sérhæfða sjóðstýringafélag heims í fjárfestingum í endurnýjanlegri orku og leiðandi á heimsvísu í vindorku á sjó.

Samkvæmt upplýsingum um fyrirtækið fjárfesta þeir sjóðir sem CIP stjórnar í haf- og landvindi, sólarorku, lífmassa og orku úr úrgangi, flutningi og dreifingu, forðagetu og geymslu, Power- to-X (umbreytingartækni sem breytir rafmagni í kolefnishlutlaust tilbúið eldsneyti, ss. vetni jarðgas, fljótandi eldsneyti eða kemísk efni) og háþróaðri líforku.

Fyrirtækið leggi áherslu á að koma að verkefnum á upphafsreit og fá þannig einkarétt á áhugaverðum fjárfestingatækifærum.

Skylt efni: austurland | vindorka

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...