Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Hvorki heimskt né hjálparvana
Fréttir 28. apríl 2017

Hvorki heimskt né hjálparvana

Höfundur: Vilmundur Hansen

Sauðfé er líklega sú skepna á jörðinni sem verður fyrir mestum fordómum og líklega er ekkert dýr sveipað viðlíka staðalímynd. Sauðfé er sagt heimskt og varnarlaust og ráfa um í tómu tilgangsleysi, fáum til gagns og öllum til skaða. Flestir viðurkenna þó að kjötið sé gott og ullin hlý.

Í grein sem birtist fyrir skömmu á vef BBC er komið sauðfé til varnar hvað gáfnafar varðar og sagt að það sé vel greint, með gott minni og eigi auðvelt með að bera kennsl á fólk og annað sauðfé. Sagt er að sauðfé myndi tengsl við annað fé og fólk, að það berjist sameiginlega við rándýr og finni til saknaðar þegar einn úr hópnum hverfur.

Í greininni segir einnig að sauðfé sé ein af þeim skepnum sem veldur hvað mestum skaða í heiminum.

Gáfað og félagslynt

Sauðfé er sem sagt gáfað, flókið tilfinningalega og félagslynt. Allt orð sem við notum um fólk en tengjum ekki í fljótu bragði við síðreifa kindur í haga eða sunnudagssteikina.

Nei, þess í stað höfum við flest ákveðið að sauðfé, Ovis arie, sé einfaldlega heimskt. Samkvæmt greininni á vef BBC hefur hugmyndin um heimsku sauðfjár verið viðvarandi frá því á 17. öld þegar George Washington, ein helsta hetja sjálfstæðisbaráttu Bandaríkjanna, sagði að ef frelsið til tjáningar væri afnumið væri fólk líkast sauðfé sem væri leitt heimskt og þögult til slátrunar.

Stundum er sagt um leiðitamt fólk sem er án skoðana að það séu sauðir og geti ekki hugsað. Sannleikurinn er aftur á móti sá að sauðfé er mun klárara en við höldum.

Flókið tilfinningalíf

Nýlegar rannsóknir í Kína á atferli sauðfjár sýna að féð getur munað allt að fimmtíu andlit einstaklinga, manna og sauðfjár, í að minnsta kosti tvö ár og það er talsvert meira en margt fólk gerir.

Í annarri rannsókn var sauðfé þjálfað til að greina á milli 25 mismunandi einstaklinga af eigin tegund með því að tengja hvern einstakling við fóðurgjafir. Í skýrslu í tengslum við þá rannsókn segir að sauðfé þekki greinilega einstaklinga á myndum og jarmi til mynda af einstaklingum sem það þekkir. Þar segir einnig að margt bendi til að sauðfé geri greinarmun á svipbrigðum og gleðjist fremur af brosi en fýlusvip.

Niðurstaða rannsóknarinnar var að heili sauðfjár starfaði þannig að það sýndi tilfinningaleg viðbrögð gagnvart umhverfi sínu.

Kannanir sýna að um 8% sauðfjár er samkynhneigt og að kynhneigð þess haldist yfirleitt sú sama alla ævi.
Rannsóknir í Ástralíu á vitsmunum sauðfjár sýna að fé getur lært að rata í gegnum flókin völundarhús. Ástralska rannsóknin sýndi einnig að auk þess að vera vel gefið sé sauðfé eðlisglatt og leikgjarnt.

Niðurstöður ríflega tveggja áratuga rannsókna við Kaliforníu-háskóla í Bandaríkjunum sýna að hrútar mynda traust vináttusambönd og aðstoða hver annan við erfiðar aðstæður. Ljóst þykir að þess konar aðstoð byggi á tilfinningum og að ljóst sé að sauðfé búi yfir margs konar tilfinningu, eins og hræðslu, reiði, vonleysi, leiða og gleði.

Í annarri rannsókn sýndi sauðfé merki um streitu á svipaðan hátt og fólk við óvæntar og óþægilegar aðstæður. Hjartsláttur fjár, sem fóðrað var við jötu og truflað við átið með því að vifta var sett í gang ofan við jötuna, mældist fjórum sinnum hraðari en hjá fé sem fékk að éta við jötur án truflunar. Fé sem truflað var við átið jarmaði einnig fjórum sinnum meira en féð sem át í friði.

Flestir vita lítið um sauðfé

Í grein BBC segir að í raun sé kaldhæðnislegt hversu lítið flestir viti um sauðfé miðað við hversu samofið það er menningu okkar og sögu. Sauðfé var tamið fyrir níu til ellefu þúsund árum fyrir upphaf okkar tímatals og hefur síðan verið nýtt vegna kjötsins, ullarinnar og mjólkur. Nytjar á sauðfé þekkist hjá fjölda ólíkra menningarsamfélaga og þeirra er getið í trúartextum ólíkra trúarbragða.

Hrúturinn er eitt af grísku stjörnumerkjunum og í forn-egypskri trú er hann tákn margra guða. Í Nýja testamentinu er talað um að sauðunum sé skipað til hægri handar en höfrunum til vinstri. „Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: „Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims.“

Uppruni sauðfjár er rakin til villtra kinda sem lifðu í fjöllum Evrópu og Asíu auk þess sem mikið var af því í Mið-Austurlöndum, Írak, Kúveit, Sýrlandi og í suðaustur-héruðum Tyrklands.

Samkvæmt grein BBC hafði frumféð stór horn sem það varði sig með en vegna kynbóta hafi hornin að mestu horfið af nútímafé. Þar segir einnig að fé í dag sé alið þannig að það sé stórt og loðið og gefi af sér ull allt árið, bændum til hagsbóta.

Fótvist og fótfrátt

Sjón sauðfjár er góð og kindur geta sparkað hraustlega frá sér og sérstaklega ef þær eru að verja lömbin. Þær geta einnig hlaupið hratt og eru fótvissar í skriðum og fjalllendi.

Rúmlega milljarður sauðfjár

Samkvæmt tölum Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna er fjöldi sauðfjár í heiminum 1,2 milljarðar. Flest er féð í Kína, um 200 milljón, í Ástralíu telst það vera 70 milljón, á Indlandi 60 milljón og 45 niður í 30 milljón í Íran, Nígeríu, Súdan, Bretlandseyjum og Nýja-Sjálandi.

Hér til glöggvunar má bæta við texta BBC að vetrarfóðrað sauðfé á Íslandi veturinn 2015 til 2016 var 474 þúsund en í sumarbeit 2016 um ein milljón fjár.

76% fjölgun sauðfjár í Kenía

Í Kenía er sauðfé talið vera um 17 milljón hausar og að það hafi gríðarlega slæm áhrif á náttúru og dýralíf landsins. Í skýrslu frá 2016 um fækkun villtra dýra og fjölgun sauðfjár í Nígeríu kemur fram að frá 1977 og til 2016 fækkaði villtum dýrum í landinu um 68% en að sama tíma fjölgaði sauðfé um rúm 76%. Í skýrsl­unni segir að loftmyndir og sjónflug sýni svo ekki verði um villst að sauðfé hafi fjölgað gríðarlega í landinu síðustu fjóra áratugi.

Kindur bíta gras mjög nærri sverðinum með skelfilegum afleiðingum fyrir aðra grasbíta eins og fíla, buffalóa og sebrahesta sem þurfa hávaxið gras til beitar.

Fjöldi buffalóa í Maasai Mara-þjóðgarðinum árið 1992 var um þrettán þúsund. Eftir að sauðfé kom til sögunnar yfirtók það beitilöndin á þurrkatímum og hrakti buffalóana burt með þeim afleiðingum að þeim fækkaði um 76% á einu ári.

Þurrkar eru algengir í Kenía og í dag er fjöldi grasbíta, villtra og búfjár, gríðarlegt vandamál í landinu og langmest er af sauðfé. Í landinu eru uppi raddir sem vilja takmarka fjölda sauðfjár til að koma í veg fyrir að stærri grasbítar deyi út.

Í grein BBC segir að ástandið í Kenía sé einungis brot af vandamálinu því að á heimsvísu sé beitarálag búfjár á graslendi sífellt að aukast.

Langur skuggi sauðfjár

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna sendi árið 2006 frá sér skýrslu sem heitir Livestocks Long Shadow, eða Langur skuggi búfjár. Þar segir að áhrif þaulbeitar búfjár séu landeyðing á stórum landsvæðum … búfjárrækt seilist sílengra í samkeppni um beitarland, vatn og önnur gæði … búfé nýtir um 70% af öllu landbúnaðarlandi og um 30% af þurrlandi jarðar.

Í grein BBC segir að sauðfé í stórum hópum sé skaðræðisskepna og að nytjar á því hafi leitt til skógareyðingar og landeyðingar, aukið hraða loftslagsbreytinga og skorts á ferskvatni víða um heim.
Þrátt fyrir allt þetta er þó ekki hægt að kenna sauðkindinni um því það erum við, maðurinn, sem stjórnum nýtingunni.

Í lok greinarinnar er klykkt út með því að segja að eftir á að hyggja sé sauðfé ekki eins heimskt, varnarlaust og krúttlegt og það virðist í fyrstu.

Skylt efni: Sauðfé

Fresta banni við endurnýtingu
Fréttir 21. maí 2024

Fresta banni við endurnýtingu

Bændum verður heimilt að endurnýta örmerki í sláturtíð 2024 og nota þau til 1. n...

Stjórnvaldssekt staðfest
Fréttir 20. maí 2024

Stjórnvaldssekt staðfest

Bændur á Vesturlandi telja jafnræðis ekki hafa verið gætt þegar Matvælastofnun (...

Sama sláturhús sektað þrisvar
Fréttir 17. maí 2024

Sama sláturhús sektað þrisvar

Matvælastofnun (MAST) hefur þrisvar sinnum á þessu ári lagt stjórnvaldssekt á sv...

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna
Fréttir 17. maí 2024

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna

Hagnaður Kaupfélags Skagfirðinga af rekstri félagsins á árinu 2023 reyndist rúml...

Vorverkum bænda seinkar
Fréttir 16. maí 2024

Vorverkum bænda seinkar

Veturinn sem leið var sá kaldasti frá vetrinum 1998 til 1999, samkvæmt tíðindum ...

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára
Fréttir 16. maí 2024

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára

Landsáætlun um riðuveikilaust Ísland hefur verið sett í samráðsgátt stjórnvalda.

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði
Fréttir 16. maí 2024

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði

Grunnur undir kornþurrkstöð í Eyjafirði er nú að taka á sig mynd í landi Laugala...

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu
Fréttir 16. maí 2024

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu

Kúabændur á starfssvæði Auðhumlu mega gera ráð fyrir arðgreiðslu frá samstæðunni...