Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Fjölhæfni íslenska hestsins á tölti og skeiði er hans sérstaða en oft getur verið erfitt að greina á milli gangtegundanna í sjón. Hér tekur Jakob Svavar Sigurðsson Sprota frá Innri-Skeljabrekku til kostanna á Fjórðungsmóti Vesturlands.
Fjölhæfni íslenska hestsins á tölti og skeiði er hans sérstaða en oft getur verið erfitt að greina á milli gangtegundanna í sjón. Hér tekur Jakob Svavar Sigurðsson Sprota frá Innri-Skeljabrekku til kostanna á Fjórðungsmóti Vesturlands.
Fréttir 15. ágúst 2017

Greindi tölt og skeið með háhraðamyndavélum

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Gunnar Reynisson kannaði og mældi eiginleika gang-tegundanna tölts og skeiðs og bar þá saman við skilgreiningu á gangtegundunum í rannsókn sem nýlega kom út hjá Landbúnaðarháskóla Íslands.
 
Niðurstöður benda til þess að samræmi sé milli huglægs mats og mældum breytum á tölti en ósamræmis gætir milli mats og mælinga á skeiði. Notkun tækninnar við kynbótasýningar geti haft áhrif á samræmi dóma.
 
„Íslenski hesturinn býr yfir miklum ganghæfi-leikum. Sérstaða hans er ekki að hann búi yfir tölti og skeiði heldur er sérstaðan fjölhæfni hans á þessum gangtegundum. Í kynbótadómum er farið fram á fet, brokk, hægt og hratt stökk og hægt og hratt tölt, hinn fullkomni gæðingur á líka að búa yfir skeiði. 
 
Tölt og skeið eru mjög líkar gangtegundir og oft spyrja áhorfendur sig þegar hesturinn þýtur eftir brautinni var þetta tölt eða var þetta skeið? Í kjölfarið skapast oft mjög skemmtilegar og spennandi umræður og menn eru oft mjög ósammála,“ segir Gunnar Reynisson sem útskrifaðist með meistaragráðu í hestafræðum frá Auðlinda- og umhverfisdeild Landbúnaðarháskólans í vor. 
 
Bar saman breytur
 
Gunnar gerði rannsókn á gangtegundum tveimur þar sem hann mældi þær breytur sem helst einkenna þær og bar þar saman úrvals hross og lakari hross á tölti og skeiði. Markmið rannsóknarinnar var að skoða samhljóm milli huglægs mats og mældra breyta á gangtegundunum.
 
Hestar voru teknir upp á ferð með háhraðamyndavél um leið og þeir voru dæmdir af tveimur kynbótadómurum. Gögn um hraða, snertingu og upptöku fóta voru greind út frá vídeó upptökum í tölvu og eiginleikar eins og hraði, taktur, skreflengd, skreftíðni, svif og hlutfall stöðutíma fram- og afturfóta voru mældir og bornir saman við huglægt mat.
 
„Við tókum fjölda hesta upp með háhraðamyndavél og samtímis var hver ferð dæmd af tveimur kynbótadómurum samkvæmt reglum um kynbótadóma, auk þess sem þeir gáfu stig fyrir hverja ferð á línulegum skala fyrir þætti eins og takt, svif, fótaburð, rými og mýkt. Gögn um hraða, snertingu og upptöku fóta voru greind út frá vídeó upptökum í tölvu og eiginleikar eins og hraði, taktur, skreflengd, skreftíðni, svif og hlutfall stöðutíma fram- og afturfóta voru mældir og bornir saman við huglægt mat,“ segir Gunnar.
 
Ólíkar niðurstöður á tölti og skeiði 
 
Þegar hópar voru bornir saman kom í ljós að hágæða tölt (einkunn ≥ 9) hafði mun meira hraðabil (2,7-9,14 m/s) en lággæða tölt (einkunn ≤ 7.5) (3,31-6,23 m/s). 
 
Taktur var mældur sem sá tími sem líður á milli snertinga hliðstæðra fóta (LAP) þar sem 25% er fullkominn fjórtaktur. Hestar á hágæða tölti sýndu hreinni fjórtakt og héldu líka hreinum takti á öllu hraðabilinu (meðaltal LAP =  24,8% ± 2,3%). 
 
Hestar á lágæða tölti voru á skeiðbundnu tölti og urðu hliðstæðari með auknum hraða (meðaltal LAP 16,8% ± 2,9%). Hestar með hágæða tölt voru með styttri stöðutíma framfóta heldur en afturfóta, sérstaklega á hægu tölti. Við samanburð á huglægu mati og mældum breytum var marktæk fylgni á milli takts, skreflengdar á hröðu tölti og rýmis og mældra breyta á þessum eiginleikum. 
 
Þegar hestar á hágæða skeiði (einkunn ≥ 9) voru bornir saman við hesta á lággæða skeiði (einkunn ≤ 7,5) kom í ljós að það var hærri meðalhraði og skreflengd á hestum á hágæða skeiði. Hinsvegar reyndist ekki marktækur munur á milli hágæða og lággæða skeiðs fyrir mælingar á LAP, LAL (tími milli upptöku hliðstæðra fóta), skreftíðni og svifi. 
 
Mælingar sýndu að svif jókst með auknum hraða og skreflengd en hafði neikvæða fylgni við LAP. Hinsvegar hafði LAP ekki marktæka fylgni við hraða. Meðalgildi fyrir LAP á hæstu einkunn fyrir takt var 12,53 % ± 2,41. Fylgni á milli einkunna fyrir svif og mælds svifs var mjög lá og reyndist ekki marktæk. 
Það reyndist vera veik marktæk fylgni á milli einkunna fyrir takt og skreflengd og mældra breyta fyrir þessa þætti. Einungis einkunnir fyrir hraða og mældur hraði höfðu háa fylgni. 
 
Bæta þarf skilgreiningu á skeiði
 
Gunnar segir þessar niðurstöður benda til þess að skilgreining á tölti sé nokkuð skýr og að íslenski hesturinn geti tölt í hreinum fjórtakti á breiðu hraðabili. 
 
„Huglæga matið var í góðu samræmi við mælingar og niður­stöður benda til að dómarar geti í flestum tilvikum metið takt á tölti nokkuð áreiðanlega, þó svo það mætti bæta nákvæmni.“
 
Niðurstöður fyrir skeið benda hins vegar til þess að það sé misræmi milli skilgreiningu gangtegundarinnar og mældra og metinna breyta fyrir takt og svif. „Einnig benda niðurstöður til þess að huglægt sjónmat á takti og svifi á skeiði sé takmarkað og bæta þurfi bæði skilgreiningu á þessum þáttum og nákvæmni við dóma,“ segir Gunnar.
 
Skiptar skoðanir um notkun tækninnar
 
Inntur eftir þýðingu slíkra niðurstaða á kynbótadóma og mati á hrossum segir Gunnar að skiptar skoðanir séu um hvort eigi að nýta sér tækni við mat á gangtegundum. 
 
„Sumir vilja halda spennunni sem felst í því að vera ósammála og aðrir vilja aukið samræmi og öryggi við dóma á kynbótahrossum. Það eru nokkur atriði sem skipta máli hvort eigi að nota tækni eða ekki. Tæknin þarf að vera frekar einföld, örugg, nákvæm og það þarf að vera hægt að mæla á öllum sýningum. 
 
Við erum enn ekki komin það langt að notast megi við tækni við dóma, en tæknin er í örri þróun og hver veit nema við náum að þróa búnað sem hjálpar dómurum að meta takt, hraða, skreftíðni og svif þegar fram líða stundir. Í fyrstu væri gaman að skoða hversu vel væri hægt að auka nákvæmni og samræmi dómara með þjálfun og æfingu með hjálp mælinga á hljóði og myndum,“ segir hann.
 
Hljóðnemar við mat á takti
 
Í ár var í reynd fyrsta skrefið í þessa átt tekið. Til að bæta mat á gangtegundum voru settir upp hljóðnemar við brautirnar á öllum sýningarsvæðum. Það var gert svo dómarar heyri betur takt.
 
„Eyrað er jú mun nákvæmara að nema meta takt heldur en augað. Mikilvæg er að íslenskir hestamenn tileinki sér nýjustu og bestu vinnuaðferðir sem völ er á og verði fremstir í flokki í rannsóknum og þróun starfsaðferða sem auka nákvæmni við mat á hæfileikum hrossa, það myndi auka bæði skilvirkni og virðingu greinarinnar,“ segir Gunnar Reynisson.
Evrópa bjó sjálf til orkukreppu
Fréttir 9. desember 2021

Evrópa bjó sjálf til orkukreppu

Það sem getur farið úrskeiðis mun fara úrskeiðis, samkvæmt lögmáli Murphys. Leik...

Notkun lífræns áburðar og beitarfriðun aukist
Fréttir 9. desember 2021

Notkun lífræns áburðar og beitarfriðun aukist

Í skýrslu Landbótasjóðs segir að 2020 hafi verði úthlutað tæpum 95 milljónum kró...

Ísteka riftir samningum við bændur
Fréttir 8. desember 2021

Ísteka riftir samningum við bændur

Líftæknifyrirtækið Ísteka hefur rift samningum við þá bændur sem sjást beita hry...

New Holland T6 Metan, sjálfbærasta dráttarvélin 2022
Fréttir 8. desember 2021

New Holland T6 Metan, sjálfbærasta dráttarvélin 2022

New Holland dráttar­véla­framleiðandinn heldur áfram að sópa að sér verðlaunum o...

Konur borða meira af laufabrauði en karlar
Fréttir 8. desember 2021

Konur borða meira af laufabrauði en karlar

Um 90% þjóðarinnar borða laufabrauð um jólin samkvæmt könnun sem Gallup gerði fy...

Skortur á yfirsýn í úrgangs- og loftslagsmálum
Fréttir 8. desember 2021

Skortur á yfirsýn í úrgangs- og loftslagsmálum

Niðurstöður könnunar benda til skorts á yfirsýn í úrgangs- og loftslagsmálum. Sa...

Erfðabreytt búfé
Fréttir 6. desember 2021

Erfðabreytt búfé

Erfðafræðingar binda vonir við að með aðstoð erfðatækni megi koma í veg fyrir al...

Íbúar hópfjármagna byrjun framkvæmda
Fréttir 6. desember 2021

Íbúar hópfjármagna byrjun framkvæmda

„Undanfarin ár hefur sveitarstjórn Húnaþings vestra lagt áherslu á að framkvæmdu...