Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Skógur gerir bóndann ríkari
Mynd / Skógræktin
Fréttir 29. apríl 2020

Skógur gerir bóndann ríkari

Höfundur: Pétur Halldórsson

Fyrir fáeinum árum hugðist kúabóndi á Norðurlandi endurnýja fjósið á bæ sínum. Nýjar reglur um aðbúnað nautgripa voru í augsýn og ný tækni gerði kleift að búa með fleiri kýr við betri skilyrði en jafnframt komast af með færri vinnandi hendur og minna vinnuálag. Ekki datt bóndanum þó í hug að það yrði skógurinn hans sem skipti sköpum um hversu stórt fjós hann gæti reist.

Bóndinn fór á stúfana að kanna möguleika sína og talaði við bankann. Bankinn vildi fá upplýsingar um hitt og þetta sem snerti búreksturinn og eignir sem tilheyrðu jörðinni. Bóndi tíundaði stærð jarðarinnar, stærð ræktaðs lands, húsakost, vélakost og fleira. Bankans megin fór að mótast hugmynd um lánamöguleika bóndans og grunnur að lánshæfismati. Þegar bóndinn hélt að hann hefði tíundað allar sínar eignir mundi hann eftir skóginum sínum. „Já, svo er það skógurinn. Kannski allt í lagi að nefna hann líka. Hann er svona þrjátíu ára gamall og þó nokkrir tugir hektara.“

Bóndanum til mikillar furðu lyftist brúnin á bankamönnum við þessar fréttir. Þeir reiknuðu upp á nýtt og og voru nú tilbúnir að lána talsvert meira en áður. Bóndinn fékk lán fyrir stærra fjósi en áður hafði litið út fyrir.

Vegna skógarins er reksturinn á þessu norðlenska býli nú hagkvæmari og fjárfesting í mjaltaþjónum og fasteignum verður fljótari að skila sér til baka. Jafnvel þótt enn séu allmörg ár þar til bóndinn uppsker smíðavið úr skógi sínum er skógurinn nú þegar farinn að skapa honum betra lífsviðurværi og betri rekstur. Þetta dæmi er fært í stílinn en á sér raunverulega stoð.

Skógur er nefnilega langtímafjárfesting. Fáar langtímafjárfestingar standa betur af sér efnahagssveiflur en skógur. Og langtímafjárfestingar geta óbeint skilað sér löngu áður en þær fara að gefa af sér beinar tekjur eða söluhagnað. Þær treysta eignagrunn eigenda sinna.

Bændur í Skandinavíu hafa lengi notað skóginn sinn til að jafna sveiflur í búrekstrinum. Þegar timburverð er lágt er dregið úr skógarnytjum og skógurinn látinn vaxa áfram þar til timburverð hækkar. Þá er skógur höggvinn og ný tré vaxa upp í staðinn, ýmist með sjálfsáningu eða endurgróðursetningu. Þannig viðhelst vistkerfi skógarins. Skógurinn minnkar ekki heldur endurnýjast.

Skógarhögg í sjálfbærri skógrækt er ekki ósvipað náttúrulegum áföllum í skóginum vegna elda, storma, meindýraplágu eða annarra orsaka. Náttúran sjálf fellir skóg og nýr vex upp í staðinn. Maðurinn fellir skóg og nýr vex upp í staðinn. Munurinn er ekki svo mikill þegar vel er staðið að skógræktinni eins og gert er til dæmis í Skandinavíu. Þannig er líka skógrækt á Íslandi skipulögð.

Skógrækt er eitt af því sem Íslendingar geta notað til að jafna efnahagssveiflur sínar til framtíðar. Bændur sem rækta skóg fá skjól, aukna frjósemi og margt fleira sem gagnast kvikfjárrækt og ræktun nytjaplantna á ýmsan hátt. Til skógræktar er gjarnan tekið það land á bújörðum sem minnst gefur af sér og þannig gengur skógræktin á engan hátt gegn öðrum möguleikum í búskapnum heldur þvert á móti. Ef bóndinn vill hugsa til skemmri tíma með skógræktinni kemur til greina að taka frjósamara land til asparræktar. Slíkan skóg má fella eftir 20–25 ár og selja viðinn. Að því búnu má breyta landinu í tún eða akur ef það þykir henta. Ef það hentar ekki vaxa upp af rótum aspanna nýjar aspir fyrirhafnarlaust og ókeypis. Þær þurfa ekki einu sinni áburð. Það eina sem þarf að gera er að sjá til þess að einungis einn teinungur vaxi upp af hverri rót svo að aftur verði hægt að uppskera eftir 20–25 ár. Ungur bóndi gæti séð tvær slíkar uppskerur á starfsævinni.

Hjá sumum sveitarfélögum í landinu gætir nú þess misskilnings að verja þurfi landbúnaðarland fyrir skógrækt. Með því að setja skorður við skógrækt er dregið úr möguleikum bænda til að treysta eignagrunn sinn og byggja upp fjölbreyttan rekstur sem nýtur lánstrausts í bönkum og þolir betur efnahagssveiflur og aðra óáran. Samþykkt skipulag sem hindrar skógrækt sem eðlilegan þátt í búskap vinnur beinlínis gegn bændum og stuðlar því að hnignun búskapar.

Skógrækt er nú þegar bundin í margvísleg lög og reglugerðir og framkvæmdaleyfi fyrir skógrækt fæst ekki nema tekið sé tillit til landslags, landgerða, fornminja, náttúruverndar og fleiri þátta. Skógrækt vinnur ekki gegn kjötframleiðslu, ræktun nytjaplantna eða öðrum búgreinum. Hún styður við allar aðrar búgreinar. Skógrækt er búgrein sem gerir bóndann ríkari.

Pétur Halldórsson
Skógræktinni

Skylt efni: Skógræktin | Skógrækt

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauð...

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...