Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Miklar breytingar í vændum
Fréttaskýring 14. júlí 2023

Miklar breytingar í vændum

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Er miklu meiri skógrækt á Íslandi mál málanna? Eða er of hratt farið? Skógrækt til kolefnisbindingar er sögð brýnust, einnig til landbóta og skjóls og sömuleiðis talið áríðandi að létta á skipulagsferlum innan sveitarfélaganna svo ný skógræktarverkefni komist hraðar á legg. Þá þurfi að herða mjög á plöntuframleiðslu og efla fræðslu.

Skógrækt á Íslandi stendur að sumu leyti á krossgötum vegna breytinga á loftslagi. Landið er samkvæmt veðurfarslíkönum mögulega að færast úr barrtrjáabelti í laufskógabelti á svo sem eins og hundrað árum og það gefur ýmsa möguleika á nýjum trjátegundum með fjölbreyttari nýtingarmöguleikum.

Þó gæti þetta orðið þveröfugt og landið kólnað, um það er torvelt að segja og byggist á hvort hringrás Atlantshafsins, Golfstraumurinn og suðurkvísl hans AMOC, hægi verulega á sér og jafnvel stöðvist á komandi tímum. Þá yrðu fjórar megintegundir Íslands: greni, fura, lerki og ösp, áfram framverðir okkar á sviði skógræktar, í það minnsta um hríð. Mikil óvissa er um þetta allt saman og þarf því skógræktarfólk, sem ævinlega horfir til langs tíma, að undirbúa að brugðið geti hér til beggja vona.

Skógar þurfa að vera fjölbreyttir til að þola loftslagsbreytingarnar

Þröstur Eysteinsson.

„Það sem mestu máli skiptir í dag er að auka skógrækt mikið í þágu kolefnisbindingar,“ segir Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri. „Þeir skógar þurfa auk þess að þola þær loftslagsbreytingar sem fram undan eru. Þeir þurfa að vera fjölbreyttir. Okkar „náttúrulega einrækt“, birkiskógarnir, hafa ekki meira þanþol en einhæfir skógar annarra tegunda. Þess vegna þurfum við að nota þær tegundir í skógrækt sem hvað besta aðlögun sýna hverju sinni.

Til að vita hvaða tegundir það eru er nauðsynlegt að stunda öflugar rannsóknir, en ekki t.d. byggja á kreddum um innlendar versus innfluttar tegundir eða hugmyndum um að endurheimta það sem var fyrir landnám. Við þurfum að horfa til framtíðar en ekki fortíðar,“ segir Þröstur. Að koma upp skógum segir Hlynur Gauti Sigurðsson, sérfræðingur Búgreinadeildar skógarbænda hjá Bændasamtökum Íslands, vera efst á baugi en einnig fræðslu og skipulagsmál.

Hlynur Gauti Sigurðsson.

„Við þurfum að efla skilning á hvað skógrækt er og hvernig skógar haga sér, af hverju þeir eru mikilvægir hér en ekki þar,“ segir hann. Stórefla þurfi fræðslu um skógrækt, meðal annars í skólum. „Til að búa til auðlind verðum við að byrja strax. Nytjar af skógrækt eru margvíslegar, en augljósast er þó líklega skjólið; skjólbelti og skjólskógar ættu því að vera forgangsatriði. Skógrækt byggir alltaf upp jarðveginn, hún er fyrsta aðgerð í loftslagsmálum og í sjálfbærni þjóðar.

Grunnurinn að sjálfbærni er skógrækt og þetta vita skógarmenn og áreiðanlega bændur líka.“

Sigríður Hrefna Pálsdóttir.

Mikilvægustu markmið skógræktar á Íslandi eru landgræðsla, endurheimt skógarþekju og sjálfbær nytja skógrækt sem minnkar innflutning á timburafurðum segir Sigríður Hrefna Pálsdóttir, skógræktarráðgjafi hjá Skógræktinni og formaður Skógræktarfélags Eyjafjarðar. Brýnt sé einnig að koma upp skjóli fyrir gróður, menn og dýr og lengja þannig tíma og möguleika fólks til að stunda útivist og hreyfingu. „Mikil tækifæri eru í að rækta skjólbelti við akra og tún. Það eykur uppskeru og ver bústofn fyrir vondum veðrum. Þetta er löngu vitað en lítið notað og mikil tækifæri þar, sérstaklega þar sem stjórnvöld vilja efla kornrækt í landinu,“ segir Sigríður.

Birgir Arason.

Vitaskuld eru ekki allir sammála þessum áherslum skógræktarfólks. Birgir Arason, bóndi í Gullbrekku og formaður Búnaðarsambands Eyjafjarðar, telur til dæmis að samspil landbúnaðar og skógræktar eigi að vera þannig að landbúnaður hafi alltaf forgang að landi til ræktunar og beitar vegna matvælaframleiðslu.

„Skógrækt á að vera skipulagsskyld, helst að fara í grenndarkynningu og að sjálfsögðu að vera afgirt,“ segir hann.

Skipulagsmál hamli skógrækt

Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands, segist ekki líta á skipulagsmál sveitarfélaga sem hindrun eins og málum sé nú fyrir komið.

Brynjólfur Jónsson.

„Skógrækt er skipulagsskyld og töluverð vinna og kostnaður er fólginn í því að afla framkvæmdaleyfa auk þess sem það tekur oft töluverðan tíma.“ Hann leggur áherslu á að ekki megi leggja frekari eða ríkari kröfur á landeigendur en orðið er. „Slíkt dregur úr vilja og getu landeigenda til að efla og auka skógrækt. Skógrækt er lífsnauðsynleg fyrir land og þjóð,“ segir hann.

Samkvæmt Hlyni er þó einn helsti ásteytingarsteinn í skógrækt skipulagsmál. Ganga megi svo langt að segja að þau haldi íslenskri skógrækt í gíslingu og góðu uppbyggingarstarfi fyrir sjálfbærni niðri. Ótrúlega flókið geti verið að koma skógræktarverkefnum í gegnum skipulagsferli og hreinlega letjandi fyrir margan.

„Mín tilfinning er að allir vilji vel, sveitarfélög; starfsmenn þeirra og kosnir fulltrúar,“ segir hann. „En skipulagsmálin eru skógrækt óþægur ljár í þúfu. Oftar en ekki er allt tilbúið til að hefja skógræktarverkefni og svo stoppar það á skipulagsmálunum. Þetta ferli er svo tímafrekt og trén bíða á meðan.

Svo er einhver togstreita um hvernig túlka beri lög og ákvæði. Aðalskipulag á að vera lifandi plagg, hjálpargagn og verkfæri fyrir okkur, en virðist oft vera svo þungt í vöfum og snúið að það er eingöngu á færi þeirra sem hafa starfað við skipulagsmál í áraraðir að skilja.“ Auðveldustu og bestu lausnina telur hann vera að samþykkja að skógrækt sé landbúnaður innan skipulagslaga. „Skógargeirinn allur er að þrýsta á þetta og væri óskandi að viðeigandi aðilar tækju upp á sína arma að breyta þessu,“ segir Hlynur.

Sigríður tekur í sama streng. „Mér finnst stjórnsýslan þurfa að straumlínulaga ferla sína. Ef það er markmið stjórnvalda að auka skógrækt og þar með kolefnisbindingu þá vantar upp á samtal við sveitarstjórnaryfirvöld og að það sé einhver samræming á milli sveitarfélaga, bæði hvað varðar skipulagsmál og hver beri kostnað af fornminjaskráningu. Það þyrfti að fylgja fjármagn til að mæta þeim kostnaði sem skráning á fornminjum hefur í för með sér. Oft er fornminjaskráningar krafist áður en framkvæmdaleyfi er veitt og sá kostnaður lendir í dag á skógræktandanum og veldur því að sumir hætta við að fara í skógrækt. Á sumum stöðum hafa sveitarfélögin sjálf séð um kostnað á fornminjaskráningum þannig að þau sem vilja í skógrækt sitja ekki við sama borð og fer eftir því í hvaða sveitarfélagi þau búa hversu hár byrjunarkostnaðurinn er við að hefja skógrækt,“ segir hún.

Helstu áskorun skógræktarfélaganna segir Sigrún vera að virkja fólk til góðra verka og standa vörð um þá skóga sem þau hafi ræktað upp. „Góðir útivistaskógar, útivistarstígar og gróðursæl hverfi er ekki bara verkefni fyrir skipulagsyfirvöld á hverjum stað og nokkra eldhuga í sjálfboðavinnu fyrir skógræktarfélög og garðyrkjufélög landsins, heldur ættu allir að láta sig sitt nærsamfélag varða og leggja hönd á plóg, hvort heldur sem er að bjóða sig fram í vinnu við skógarumhirðu eða styrkja fjárhagslega það skógræktarfélag sem er að sinna skógum og grænum svæðum í nágrenninu,“ segir hún.

Nýjar tegundir á sjóndeildarhringnum

Breytingar vegna hnattrænnar hlýnunar eru þegar að gera vart við sig eins og flestum mun kunnugt. Sigríður telur loftslagsbreytingar eina helstu áskorun skógræktar – spurning sé hvort breytingar á veðurfari á Íslandi verði óhagstæðar fyrir þær trjátegundir sem vaxa á Íslandi í dag.

Að sögn Hlyns segja spár, og ekki þær svartsýnustu, að hér verði mögulega miðjarðarhafsloftslag eftir um hundrað ár og Ísland þá á pari við núverandi loftslag Portúgal. Breytinga sé að vænta í skógræktarmálum. „Nú erum við bara með fjórar alvöru tegundir: greni, furu, lerki og ösp. Og birkið er þarna með en það er ekki tré, heldur fallegt kjarr. Ég sé bara hvað hefur gerst í loftslagsbreytingum á minni stuttu ævi og meira er á leiðinni. Það er augsýnilegt hversu hratt þetta er að gerast fyrir augum okkar. Það stefnir í að hlýni á Íslandi þótt ýmsar forsendur þess geti vissulega brugðist.“

Hrymur muni lifa inn í yfirvofandi breytingar þar sem hann sé blendingur af evrópu- og rússalerki og hafi mikið þol fyrir umbreytingum í hitastigi. Möguleikar séu fólgnir í öðrum trjátegundum innan fárra ára. Til dæmis í degli/döglingsvið (Oregon pine) sem þegar sé byrjað að rækta hér á landi þótt í litlu mæli sé.

Stórar tegundir nytjatrjáa gætu þrifist hér innan tíðar og eðaltré svo sem eik og beyki, hlynur, askur, lind og alls konar elritegundir á borð við blæöl, rauðöl og svartöl ásamt ýmsum berjategundum. Einnig megi nefna ývið, hreint evrópulerki, sifjalerki og jafnvel svartgreni þegar lengra líði.

„Svo litið sé til ísaldar þá uxu hér stærstu tré jarðar á þeim tíma, við sjáum það á surtarbrandi og steingervingum, til dæmis fyrir vestan,“ heldur Hlynur áfram. „Ísland er skilgreint í barrskógabelti, þrátt fyrir að hér sé ekki svo mikið af barrtrjám, en er að færast inn í laufskógabelti. Tegundafjölbreytni okkar er takmörkuð en mun vaxa á komandi árum og áratugum. Í fyllingu tímans mun birkið þurfa að hopa og aðrar tegundir vera á því landi þar sem birki var áður. Við eigum að nýta okkur þetta sem tækifæri. Mörgum kann að finnast þetta miður en það er samt í kortunum. Trén, kornið og fleira eru nokkurs konar flóttategundir úr sínum heimahögum og við hér getum tekið á móti þeim innan einnar kynslóðar.“

Ef verði hins vegar kuldaskeið þá er landið komið aftur í þær fjórar tegundir sem ræktaðar eru hér nú þegar, fururnar, grenið, lerkið og öspina.

Dregið úr einsleitni og aukin kolefnisbinding

Svonefndur mónókúltúr var stundaður hér framan af í skógrækt og kannski eðli málsins samkvæmt, hafandi aðeins fjórar nytjatrjátegundir. Þá var gróðursett ein trjátegund, jafnvel klón með sömu arfgerð, í tugi eða hundruð hektara lands. Á síðari tímum hefur verið hugað að blandaðri skógum, þar sem ein tegund taki við af annarri. Jafnframt er í kjölfar grisjunar reita, þar sem ein tegund er allsráðandi, reynt að gróðursetja aðrar tegundir, eina eða fleiri. Í grisjaða mónó-reiti er hægt að planta til dæmis degli.

„Partur af umhirðunni er að endurnýja, segir Hlynur. „Þekkt er í skógargeiranum að besta leiðin til að rækta birki er að rækta lerki vegna þess að lerkið er miklu nægjusamara og býr til jarðveg. Birkið vex ekki nema það sé í góðum jarðvegi.“

Hann tiltekur að gott sé að skilja að við landnám hafi samkvæmt skráðum heimildum verið hér birki milli fjalls og fjöru, sem sé einmitt mónókúltúr. Einstaka reynihríslur og blæösp hafi einnig vaxið hér. „Líffræðilegur fjölbreytileiki byggir ekki á fábreytileika forfeðranna, og að hafa allt eins og það er, eða var, gengur ekki upp. Náttúrunni er sama, hún kemur alltaf jafnvægi á allt með einhverjum hætti. Að skilja líffræðilegan fjölbreytileika eftir í fábreytileika er ekki hægt og þarf að horfa á þetta allt saman með fjórðu víddinni, sem er tíminn, og þá kemur í ljós að á misjöfnu þrífast börnin best, það á líka við um líffræðilegan fjölbreytileika,“ segir Hlynur jafnframt.

Ólafur Arnalds, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, hvatti í grein í Bændablaðinu fyrr á árinu til að gætt sé hófs við notkun á erlendum plöntutegundum og telur að þegar fram líða stundir muni skógrækt og önnur svæði með mjög einsleitri tegundasamsetningu framandi trjátegunda ekki verða tekin gild til kolefnisjöfnunar.

„Allir skógar og allur gróður bindur kolefni, bara mishratt, mismikið og mislengi, það er góð aukaafurð og þarf að vera vottuð ef nota á til kolefnisjöfnunar,“ bendir Sigríður á.

Birgir telur hins vegar skógrækt mjög ofmetna í þessari umræðu. „Tré binda minna kolefni en annar gróður, t.d. gróið land og ræktað land, þar sem sól og regn kemst óhindrað að fósturjörðinni til endurnæringar,“ segir hann og heldur áfram: „Tré eru rándýr í gróðurríkinu líkt og tófan og hrafninn í dýraríkinu; hugsa fyrst og fremst um sjálf sig. Allt of víða eru skógarblettir út um allt land sem aldrei hafa og verða væntanlega aldrei grisjaðir. Inni í þeim er og mun verða mikið af brotnum trjám sem rotna þar í friði, engum til góðs og allra síst umhverfinu. Ég hef takmarkaða trú á skógrækt til landbóta, ekki síst þar sem land er óafturkræft þegar búið er að planta í það skógi,“ segir Birgir og bætir við að hann telji skjólbelti ágætis kost ef þau nýtist sem slík fyrir menn og dýr en ekki þar sem þau valda takmörkun á útsýni.

„Ég hef verið mjög gagnrýninn á framsetningu og framgangi þessara yfirgengilega ósönnu fullyrðinga um kolefnisbindingu og losun; að endurheimt votlendis og skógrækt eigi að bjarga Íslandi og heiminum öllum, sem er svo fjarri sannleikanum. Í mínum huga snýst þetta um pólitík og peninga, þó aðallega peninga. Nýlegt dánarvottorð Votlendissjóðs er ágætis áminning um á hvaða villigötum þessi málaflokkur er,“ segir Birgir jafnframt.

Skógar eru unaðsreitir og sálinni hollir. Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Hallormsstað, fræðir almenning um sögu skógarins. Mynd / SÁ

Hvatt til varfærni

Vinir íslenskrar náttúru (VÍN) sendu í vor bréf til Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem fjallað er um skipulag skógræktar og ábyrgð sveitarstjórna þar að lútandi. VÍN eru samtök vísinda- og fræðafólks, náttúruverndarfólks og fulltrúa helstu innlendra náttúruverndarsamtaka, samkvæmt upplýsingum á vefsíðu VÍN. Í bréfinu, sem Sveinn Runólfsson undirritar fyrir hönd stjórnar samtakanna, segir að þeim sem fari með skipulagsmál sé falin mikil ábyrgð og ákvarðanir þeirra ráði miklu um hvernig vistkerfi og ásýnd landsins muni mótast til framtíðar. VÍN leggist ekki gegn skógrækt heldur telji mikilvægt að menn átti sig á að með stórfelldri skógrækt, einkum með framandi hávöxnum trjátegundum, sé verið að gerbreyta íslenskri náttúru. Þar skipti skipulagning gríðarlega miklu máli og að unnið sé af vandvirkni og með langtímasjónarmið í huga, eins og segir í bréfinu.

VÍN hefur áhyggjur af stórtækum áformum um að auka skógrækt á Íslandi, sem iðulega séu settar upp sem aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Fyrir liggi mögulegur áhugi og vilji erlendra aðila til að hefja stórfellda skógrækt hér á landi í þeim tilgangi. Með vélvæðingu við jarðvinnslu og plöntun sé víða hægt að ná miklum afköstum í skógrækt og með henni megi byggja upp kvóta sem verði söluvara sem samsvari því kolefni sem binst við ræktun skógarins. Segir í bréfinu að ,,Fyrirtæki með neikvætt kolefnisspor virðast því geta keypt sér nokkurs konar aflátsbréf frá þeim aðilum sem hafa jákvæða stöðu í því uppgjöri.“

Markmiðin eru skýr

Þröstur Eysteinsson ritaði í aðsendri grein í Bændablaðinu 22. júní sl. að „því sé stundum haldið fram að skógrækt sé skipulagslaus, jafnvel stjórnlaus, að verið sé að rækta skóg „út um allt“ og að fyrir því séu engin rök eða markmið. ... Eflaust er það einstaklingsbundið hvað vakir fyrir þeim sem leggjast gegn skógrækt.

Hugsanlega gera þeir sér þó ekki grein fyrir því að þar með séu þeir að leggjast gegn mjög vel ígrundaðri, viðamikilli og afar mikilvægri stefnumörkun stjórnvalda í loftslagsmálum,“ segir Þröstur. Hann bendir á að stjórnvöld á alþjóðavísu, Evrópuvísu og landsvísu hafi lagt fram markmið um aukna skógrækt í þágu kolefnisbindingar sem þátt í að takast á við loftslagsvandann.

„Stefnumörkunin er skýr. Það á að rækta meiri skóg. Miklu meiri skóg. Það er þó ekki gert án hugsunar eða skipulags því jafn mikilvægt er að skógurinn vaxi vel, að hann falli að umhverfinu og samfélagið sé sátt við hann til að markmiðunum verði náð. Á Íslandi er þetta gert í samræmi við nýlega setta skógræktarlöggjöf, landsáætlun sem ráðherra gaf út á liðnu hausti og ýmis lög s.s. um náttúruvernd, minjavernd og skipulag.

Háskólamenntaðir sérfræðingar vinna skógræktaráætlanir og þær fara gegnum formlegt ferli hjá sveitarstjórnum. Markmiðin eru skýr og einnig stefnan og umgjörðin,“ segir Þröstur í greininni.

Brynjólfur er á sömu línu og Þröstur um að halda beri áfram að rækta skóga og gróðursetja tré.

Grænt land sé fagurt land. Helstu áherslur Skógræktarfélags Íslands, ásamt með sínum ríflega 60 aðildarfélögum og 7.500 félagsmönnum, séu tenging almennings við skógrækt.

„Ræktun útivistarskóga í nágrenni við þéttbýli og ræktun á „Grænum treflum“ þar sem almenningur er velkominn og getur notið útvistar og skjóls,“ segir Brynjólfur og bætir við að fjölga þurfi opnum skógum víðs vegar um land þar sem sé gott aðgengi, góðir stígar, bekkir, upplýsingar og síðast en ekki síst fjölbreyttur trjágróður og skógar.

Skjólbelti og skjólskógar ættu að vera forgangsatriði, að sögn Hlyns Gauta Sigurðssonar. Mynd / Hlynur Gauti

Tré hátt og lágt

Því hefur stundum verið slegið fram að þar sem hátt í 75% landsins séu hærra en 200 m.y.s. og vilji standi til að planta skógi í 10% lands, sé í raun lítið láglendi sem eftir standi. Þröstur segir þetta hvergi nálægt neinum raunveruleika.

„Vangaveltur um 10% þekju birkiskóga plús 2% þekju gróðursettra skóga: 12% samanlagt, hafa verið lagðar fram sem möguleikar en ekki sem opinber stefna,“ segir hann.

„Engum sem kann að reikna dettur í hug að hægt verði að planta í 10% landsins nema á árhundruðum eða jafnvel þúsundum. Slíkt myndi kosta um átta hundruð milljarða króna, sem er um fjórðungur landsframleiðslu Íslendinga. Þá hefur 200 metra hæðarlínan enga þýðingu fyrir skógrækt. Við förum víða upp í 400 metra með nytjaskógrækt og mun hærra með birki. Þetta eru algjörar ýkjur og ekki neinum til gagns.“

Látum Hlyn eiga síðasta orðið: „Við vitum að það sem er áþreifanlegast, öruggast, það sem náttúran hefur lengi gert, þar sem bindingin fer fram, eru tré. Mesta kolefnisbindingin, besta lausnin, best fyrir samfélagið, atvinnuskapandi og auðlindarauki sem fylgir því.“

Skylt efni: Skógrækt

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...