Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Leiguverð fyrir þorskkvóta er í hæstu hæðum um þessar mundir. Að sögn Ingva Þórs Georgssonar hjá fyrirtækinu Aflamiðlun hefur eftirspurnin farið upp úr öllu valdi.
Leiguverð fyrir þorskkvóta er í hæstu hæðum um þessar mundir. Að sögn Ingva Þórs Georgssonar hjá fyrirtækinu Aflamiðlun hefur eftirspurnin farið upp úr öllu valdi.
Mynd / HKr.
Fréttaskýring 30. maí 2022

Leigukvóti fyrir milljarða

Höfundur: Guðjón Einarsson

Leiguviðskipti með þorskkvóta námu rúmlega sex milljörðum króna á árinu 2021. Alls var verslað með rúm 23 þúsund tonn eða sem svarar 13% af úthlutuðum heildarkvóta til aflamarks- og krókaaflamarksskipa á síðasta fiskveiðiári. Leiguverð hefur rokið upp undanfarna mánuði vegna hærra afurðaverðs, minna framboðs á leigukvóta og aukinnar eftirspurnar.

Á vef Fiskistofu má finna tölur um viðskipti með aflamark og krókaaflamark. Þar kemur fram að alls voru tæplega 59 þúsund þorskkvótatonn flutt milli skipa á árinu 2021. Meirihluti þess, eða tæp 36 þúsund tonn, flokkast undir svokallaðar núllfærslur, en þar er að sögn Fiskistofu um að ræða flutning á kvóta milli skipa í eigu sömu útgerðar eða skipti á aflaheimildum á jöfnum verðmætum. Afgangurinn, eða 23 þúsund tonn, er hins vegar viðskipti þar sem peningar skipta um hendur.

Á meðfylgjandi töflu eru viðskiptin sundurgreind í aflamark og krókaaflamark. Viðskipti með aflamark námu 5 milljörðum króna (18.284 tonn – meðalverð 276 kr/kg) og viðskipti með krókaaflamark námu rúmum 1,2 milljörðum (4.998 tonn – meðalverð 241 kr/kg).

Ýsukvóti

Ef skoðuð eru viðskipti með ýsu­kvóta og núllfærslur undanskildar sést að alls námu þau 5.165 tonnum fyrir tæplega 1,3 milljarða króna. Þau skiptust þannig að viðskipti með aflamark námu 929 milljónum króna (3.582 tonn – meðalverð 259 kr/kg) og með krókaaflamark um 350 milljónir (1.560 tonn – meðalverð 225 kr/kg).

Hjá Fiskistofu fengum við þau svör að ekki væri ástæða til að ætla annað en að gögnin um kvótaviðskiptin gæfu rétta mynd af viðskiptunum þótt eitthvað væri um að menn skráðu viðskipti á núlli þótt greiðslur hefðu verið inntar af hendi.

Kvótaverð rýkur upp

Leiguverð fyrir þorskkvóta er í hæstu hæðum um þessar mundir. Að sögn Ingva Þórs Georgssonar hjá fyrirtækinu Aflamiðlun hefur eftirspurnin farið upp úr öllu valdi.

„Það eru kannski tíu aðilar tilbúnir að leigja til sín kvóta fyrir hvern einn sem er reiðubúinn að leigja frá sér,“ segir hann. Hann bendir á að leiguverð á þorskaflamarki á síðasta fiskveiðiári hafi verið um 280 krónur kílóið að meðaltali, hafi farið upp í 300 krónur í byrjun nýs fiskveiðiárs og væri núna 420 krónur ef það væri í boði. Sama þróun hefði verið í krókaaflamarkinu. Leiguverð á síðasta fiskveiðiári hefði verið 210-230 krónur en væri núna 370 krónur. Þetta skýrðist af hærra afurðaverði, minna framboði vegna skerðingar þorskkvótans og aukinni eftirspurn. (Hægt er að fylgjast með framboði og eftirspurn á vefnum kvotamidlun.is sem Aflamiðlun sér um).

Fiskverð – kvótaverð

Margir hafa velt því fyrir sér nú sem fyrr hvers vegna leiguverð á kvóta sé svona hátt samanborið við fiskverð. Samkvæmt tölum Verðlagsstofu skiptaverðs fyrir árið 2021 var meðalverð á slægðum þorski í beinum viðskiptum 281 kr/kg og á fiskmörkuðum 344 kr/kg. Til samanburðar var leigukvótaverð á þorski 268 kr/kg á sama tíma. Spurningin er: Hvernig getur borgað sig að leigja kvóta á verði sem er litlu lægra en fiskverð?

Jaðarverð

„Ég held að það skýrist helst á því að þetta er jaðarverð. Menn eru kannski í góðri veiði og vantar viðbótarkvóta, eru með fastan og breytilegan kostnað, stundum bæði á sjó og í landi, og sjá sér hag í því að bæta þessu við og reikna þá dæmið yfir allt árið,“ segir Ingvi.

„Svo er annað að verð á fiskmörkuðum endurspeglar ekki alltaf afkomu í einstökum vinnslugreinum. Núna er verð á sjófrystum fiski t.d. mun hærra en verð á ferskum afurðum. Hækkun á leiguverði þorsks núna gæti m.a. stafað af gríðarlegri eftirspurn eftir sjófrystum fiski.“

Ingvi bætti við að margir sem leigðu til sín kvóta hugsuðu sér að nýta leigukvótann á öðrum tíma ársins þegar væntingar væru um hærra afurðaverð.

Hann sagði að samþjöppunin í krókakerfinu á síðustu árum hefði gert það að verkum að fækkun hefði orðið í hópi þeirra sem eingöngu gerðu út á leigukvóta. Margir í þessum hópi sæju sér frekar hag í því að snúa sér alfarið að strandveiðum.

Óvíst um fjölda kvótalausra

En hversu margir kvótalausir bátar gera út á leigukvóta? Ekki er einhlítt svar við því, að sögn Þorsteins Hilmarssonar hjá Fiskistofu. Alls voru gefin út veiðileyfi til 1.150 fiskiskipa á síðasta fiskveiðiári. Aðeins 423 skip og bátar fengu úthlutað aflaheimildum og af þeim eru margir með örlitla hlutdeild, t.d. í hlýra eða makríl, og veiða einhverjar aðrar tegundir með aðfengnum kvóta. Sá kvóti er ekki bara leigukvóti og að auki bætist við það sem nefnist „sérstakar úthlutanir“ – m.a. byggðakvóti sem raðast einmitt á kvótalitla báta.

Tilgangur leigukerfisins

Megintilgangur leigukvótakerfisins er að gefa útgerðum kost á að samræma kvótastöðu sína þeim afla sem veiðist, því í blönduðum veiðum getur veiðst meira af einhverjum tegundum en báturinn hefur kvóta fyrir. Þá er hægt að skipta við aðra á aflaheimildum eða leigja til sín kvóta. Þessi möguleiki hefur verið talinn forsenda þess að kvótakerfið sé starfhæft.

Lengi vel stóð mikill styr um leigukvótakerfið og því líkt við lénsfyrirkomulag miðalda þar sem lénsherrar (kvótahafar) leigi leiguliðum (kvótalausum) aðgang að jarðnæði (óveiddum fiski í sjó) en liggi sjálfir í makindum á sólarströndum.

Veiðiskylda 50%

Þessi kenning er nokkuð ýkjukennd því samkvæmt lögum verður skip að veiða að minnsta kosti helming af úthlutuðum kvóta sínum á hverju ár og á á hættu að missa hlutdeildir sínar (varanlega kvótann) ef þessi veiðiskylda er ekki uppfyllt. Að sögn Fiskistofu hefur það gerst einstaka sinnum gegnum árin og þá í litlum mæli. Aðrir hafa bent á að þeir sem hafi á annað borð lagt í þann kostnað að útbúa skip sitt til veiða hafi yfirleitt ekki hag af því að veiða bara helming aflaheimildanna og leigja frá sér afganginn.

Afstaða sjómanna

Leigukvótaviðskipti voru áður fyrr mikill þyrnir í augum sjómanna en þær raddir hafa hljóðnað í seinni tíð.

„Mótmæli sjómanna á sínum tíma beindust fyrst og fremst gegn því að sjómenn væru látnir taka þátt í kvótakaupum útgerða. Það er nú úr sögunni enda er athæfið ólöglegt,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands.

„Við höfum í seinni tíð ekki verið að fetta fingur út í þessi leiguviðskipti að öðru leyti en því að við sjáum að sumar útgerðir leigja óeðlilega mikið frá sér til þess að rétta af efnahagsreikninginn hjá sér. Við það skerðist hlutdeild sjómannanna á viðkomandi skipum. Við höfum alltaf sagt að meginreglan eigi að vera sú að þeir sem fá úthlutað kvóta úr auðlindinni eigi að nýta hann sjálfir ef ekkert óvænt kemur upp á.“

Heildarveltan 10,4 milljarðar

Því má svo bæta við að hér hefur eingöngu verið fjallað um leigu­viðskipti með þorskkvóta og ýsukvóta, sem reyndar eru umfangs­mest í verðmætum á þessum markaði og námu samtals 7,6 milljörðum króna. Ef bætt er við öllum öðrum kvótategundum nemur heildarveltan á leigumarkaðnum 10,4 milljörðum króna og heildarmagnið tæpum
78 þúsund tonnum.

Skylt efni: Leigukvóti veiðar

Upprunamerki matvæla skipta máli
Fréttaskýring 7. maí 2024

Upprunamerki matvæla skipta máli

Þegar kemur að því að versla matvæli horfa neytendur mikið til upprunalands fram...

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...