Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Skemmtiferðaskip við Skarfabakka.
Skemmtiferðaskip við Skarfabakka.
Mynd / Aðsendar
Fréttaskýring 20. febrúar 2023

Kostur skemmtiferðaskipa

Höfundur: Vilmundur Hansen

Von er á tæplega 300 farþegaskipum til Íslands á þessu ári. Ætla má að farþegar verði ríflega 300 þúsund. Eitthvað er selt af íslenskum eggjum, fiski og mjólk til þessara skipa en lítið af grænmeti og kjöti. Hér er um stóran og mögulega vannýttan markað að ræða fyrir íslenskar landbúnaðarvörur og sjófang.

Líkt og gefur að skilja er þjónusta við slík skip mikil og eitthvað þarf allt þetta fólk að borða. Bændablaðið
leitaði upplýsinga hjá markaðsaðilum og framleiðendum um hvernig þessi markaður er og hvort skipin væru að kaupa íslenskar matvörur. Viðmælendur eru sammála um að markaðurinn sé stór og áhugaverður en að ólíklegt sé að íslensk framleiðsla eins og hún er í dag geti sinnt honum nema litlum hluta hans.

Leiðangursskip vænlegri markaður

Skemmtiferðaskipin sem koma hingað eru aðallega tvenns konar. Svokölluð leiðangursskip eru skip sem taka að jafnaði allt að 500 farþega, en eru oftast 200 til 300 farþega skip.

Þau skip leggja áherslu á upplifun á Norðurslóðum og ekki síst að upplifa menningu íbúanna. Þar með talið matarmenningu.

Stærri skip geta tekið allt að 4.000 farþega en algengara að þau séu á bilinu 1.000 til 2.500 farþega skip sem koma til Íslands. Sigurður Jökull Ólafsson, markaðsstjóri Faxaflóahafna, segir að leiðangursskipin leggi áherslu á menningu þeirra svæða sem þau sækja heim og þar með talið matarmenningu.

„Þau eru því vænlegri markhópur fyrir íslenska framleiðendur. Hins vegar hafa stærri skipin verið að versla eitthvert lítilræði samkvæmt því sem ég hef heyrt.“

Jóhann Bogason, framkvæmdastjóri Gáru skipamiðlunar.

Stóru skemmtiferðaskipin kaupa lítið af íslenskum mat

Jóhann Bogason, framkvæmdastjóri Gáru skipamiðlunar, segir komur skemmtiferðaskipa vítt og breitt um landið þegar allt er talið mörg hundruð á ári og þar af hátt í þrjú hundruð bara til Reykjavíkur.

„Við fáum reglulega fyrirspurnir um afgreiðslu á matvöru, sérstaklega ferskvöru eins og grænmeti og mjólkurafurðir, um borð í þessi skip. Við kaupum vörurnar hjá stórum birgjum eins og Innnesi, Ekrunni og Garra og ég veit ekki hvort þeir leggi áherslu á að selja íslenskar matvörur eða ekki, enda gerum við ekki greinarmun á innlendri eða erlendri matvöru þegar við kaupum hana fyrir skipin.

Fyrir Covid var í gangi verkefni sem hét Flavour of Iceland þar sem unnið var markvisst að því að kynna íslenskar matvörur fyrir útgerðum skemmtiferðaskipa en ég veit ekki til þess að slík markaðssetning hafi átt sér stað síðan þá.“ Jóhann segir að minni skipin, leiðangursskip, gefi sig út fyrir að bjóða staðbundinn mat um borð að minnsta kosti einu sinni í viku. „Þá er keyptur íslenskur bjór og eitthvað sterkara líka, kjöt og fiskur og búinn til viðburður í kringum íslenskt þema. Stóru skipin stoppa stutt og allt meira fyrirséð og fast í skorðum og þau kaupa lítið af matvöru hér. Ég sé alveg fyrir mér að það sé góður markaður fyrir íslenskar matvörur hjá leiðangursskipunum, sérstaklega ef lögð er áhersla á lífræn matvæli.“

Framboð af grænmeti af skornum skammti

Jóhannes Þór Ævarsson, framkvæmdastjóri ferskvöru hjá Innnesi, segir að fyrirtækið hafi mikið af íslenskum vörum á boðstólum og að þeir selji þær til skipamiðlara eins og innfluttar vörur séu þær í boði og að beðið sé um þær.

„Ef við tökum íslenskt grænmeti sem dæmi þá seljum við það klárlega svo lengi sem það er í boði en því miður er framboðið oft af skornum skammti.“

Lítil skref í fyrstu

Konráð Grétar Ómarsson, sölu- og innkaupastjóri hjá Sölufélagi garðyrkjumanna, segir að fram til þessa hafi sorglega lítið verið selt af íslenskum landbúnaðarvörum um borð í skemmtiferðaskip sem heimsækja landið eða þau skip sem bjóða upp á siglingar í kringum það.

„Við hjá Sölufélaginu höfum skoðað þessi mál undanfarin ár og síðastliðið haust urðum við vör við aukinn áhuga hjá umboðsmönnum skipanna. Þetta á sérstaklega við um þá aðila sem bjóða upp á siglingu í kringum landið.

Það er því tækifæri fyrir íslenska framleiðendur að bjóða fram íslenskar vörur á leiðangursskipin, sem eru minni skip og sérhæfa sig í siglingum á heimsskautasvæðunum. Stóru skipin, sem eru sum að taka kost hér á landi að hluta, hafa ekki lagt áherslu á íslenskar matvörur enn sem komið er en vissulega er það mál sem vert er að skoða líka. Sérstaklega ef vel gengur með þessi minni skip. Við ákváðum því að skoða hvort það er áhugi á að koma inn með séríslenskar vörur undir vörumerkinu Pure Artcic, sem er að flytja út íslensk matvæli inn í þetta verkefni. Til að byrja með hugsuðum við verkefnið nánast einungis út frá íslensku grænmeti en það virðist vera áhugi á öðrum íslenskum vörum, þar með talið lambakjöti og íslenskum fiski, inn í þetta verkefni.

Það væri gaman að geta boðið upp á ferskar íslenskar vörur um háuppskerutímann og viljum við leggja áherslu á að yfir sumartímann verði íslenska varan á borðum þessara ferðamanna í framtíðinni.

Tíminn verður síðan að leiða það í ljós hvort af þessu verður en þeir ferðamenn sem eru að sigla í kringum landið og skoða sig um hafa klárlega áhuga á íslenskri matvöru og um það snýst málið.“

Þorsteinn Sigmundsson, eggjabóndi að Elliðahvammi.

Talsvert keypt af eggjum

Þorsteinn Sigmundsson, eggjabóndi að Elliðahvammi, segir að skemmtiferðaskip og annars konar skip sem til landsins koma kaupi talsvert af eggjum. „Ég hef selt egg til skemmtiferðaskipa og annarra skipa í mörg ár en er ekki í föstum viðskiptum við neitt þeirra. Yfirleitt er það svo að stóru skipin taka á móti matargámum sem koma erlendis frá og eru geymdir á frísvæði þar til þeir eru teknir um borð. Stundum bregst það og þar sem egg eru fersk vara og ekki hægt að geyma þau lengi panta þeir egg hér.

Magnið sem pantað er í stærstu skipin er í tonnavís og upp í fimm tonn í einu og því um nokkra tugi tonna á ári að ræða sem við söfnum saman og seljum í skipin.“

Aðalsteinn H. Magnússon, sölu- og markaðsstjóri hjá MS.

Íslenskar matvörur varaskeifa

Aðalsteinn H. Magnússon, sölu- og markaðsstjóri hjá Mjólkursamsölunni, segir að MS selji nokkuð af mjólkurvörum um borð í stór skemmtiferðaskip á hverju ári en ekki nógu mikið og að það sé alltaf verið að reyna að auka þann markað.

„Við seljum meðal annars skyr, mjólk og aðallega G-mjólk, og eitthvað af ostum.

Á hverju ári rekumst við aftur á að stóru skemmtiferðaskipin eru yfirleitt búin að taka allan sinn kost á ódýrum mörkuðum úti í Evrópu og fá talsvert af matvöru senda hingað inn á frísvæði sem þau taka síðan um borð. Skipin nota því íslenskar matvörur sem varaskeifu ef annað klikkar. Ætli MS selji ekki vörur til skemmtiferðaskipanna fyrir um 50 milljónir króna á ári.“

Aðalsteinn segir að fyrir Covid hafi Ekran leitt saman nokkra framleiðendur, MS, TVG, Banana, Gára, Kjarnafæði, Sjófisk og CCEP, til að reyna að nálgast þá örfáu aðila sem stjórna markaðinum fyrir skemmtiferðaskip.

„Við lögðum í talsverðan kostnað undir heitinu Flavour of Iceland og sendum fulltrúa á sýningar sem eru haldnar til að kynna íslenskar vörur fyrir þá sem reka skemmtiferðaskip. Ein af hugmyndunum var að fá skipin til að vera með íslenska daga um borð þegar þau kæmu til landsins og bjóða upp á íslenskar matvörur.

Verkefnið gekk vel til að byrja með og ágætlega tókst til við að koma vörum til þeirra en árið 2019 jókst stórlega gámaflutningur til landsins á kosti erlendis frá sem skipin taka svo um borð í íslenskum höfnum. Kynningin var okkar leið til að fá skipafélögin til að kaupa íslenskar vörur en satt besta að segja höfum við ekki náð miklum árangri en sem komið er. Enda snýst áhugi skipafélaganna meira um verð en gæði.“

Aðalsteinn H. Magnússon, sölu- og markaðsstjóri hjá MS.

Engar umframbirgðir af lambakjöti

Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, segir að möguleikinn á að selja íslenskar kjötvörur um borð í skemmtiferða- skip hafi ekki verið áherslumál hjá þeim. „Staðan í dag er breytt frá því sem áður var og þannig að ekki eru til birgðir af lambakjöti nema fyrir innanlandsmarkað fram á haust.

Það er því ekki ástæða til að leggja áherslu á skemmtiferðaskipin sem markað eins og er, ekki nema þá að skipin séu tilbúin til að greiða hærra verð en aðrir markaðir.“

Skylt efni: skemmtiferðaskip

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...