Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Sífellt algengari sjón af stöðu vatnsmála á heimsvísu. Vatnið þverr og líf fjarar út.
Sífellt algengari sjón af stöðu vatnsmála á heimsvísu. Vatnið þverr og líf fjarar út.
Fréttaskýring 7. febrúar 2017

Heimsbyggðin gæti horft fram á hrikalega vatnskreppu

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Vatnsnotkun í heiminum fer ört vaxandi og ljóst að maðurinn er víða farinn að ganga hressilega á grunnvatnsbirgðir sem til staðar eru. Þar sitja Íslendingar sannarlega á gullkistu sem aðrar þjóðir munu örugglega fara að sýna mikinn áhuga.
  
Áætlað hefur verið að árleg úrkoma á jörðinni sem fellur á landi samsvari um 117.000 rúmkílómetrum (km3) af vatni. Um 4% af þeirri úrkomu nýtist beint í landbúnaði og um 50% gufar ýmist upp aftur eða nýtist í vatnsupptöku skóga og gróðurlendis utan ræktaðs lands. 
 
 
Þau 46% úrkomunnar sem eftir eru af útkomunni seytlar niður í jörðina sem grunnvatn og oft er talað um það sem hámarks uppsprettu endurnýjanlegs neysluvatns. Það vatnsmagn hefur verið áætlað 52.579 km3. Þetta er það hámark yfirborðs og grunnvatns sem jarðarbúar geta mögulega notað við sínar athafnir. Á árinu 2007 var talið að 69% þessa nýtanlega vatns hafi verið notað í landbúnaði. Um 5,1% vatnsnotkunarinnar í landbúnaði er vegna vökvunar og oftar en ekki er þar um að ræða uppdælingu grunnvatns. Um 19% af vatnsnotkuninni er síðan notað í margvíslegum iðnaði.
 
Samkvæmt skýrslu sem McKinsey&Company gaf út í desember 2009 fóru þá 71% af heimsnotkuninni á vatni til landbúnaðarframleiðslu. Þar kom einnig fram að birgðir jarðar á hreinu vatni muni aðeins uppfylla 60% af eftirspurninni eftir vatni árið 2030 eða eftir aðeins 13 ár. Síðan þessi skýrsla var gerð hefur staðan bara versnað. 
 
Orkugeirinn og iðnaðurinn þurfa sitt
 
Orkugeirinn og iðnaður nota gríðarlegt vatn við framleiðslu og til kælingar. Var það talið nema um 16% af heildareftirspurninni árið 2009 og áætlað að hlutfallið færi í 22% árið 2030. Samkvæmt skýrslunni var talið að 40% af aukinni þörf í orkugeiranum og iðnaði verði til í Kína. Indland réð árið 2009 aðeins yfir helmingi þess vatns sem eftirspurn er talin verða eftir árið 2030. Sömu sögu er að segja af Kína og löndum eins og Brasilíu.   
 
Í skýrslunni kemur fram að skipt geti sköpum að það takist að bæta vatnsnýtingu í landbúnaði og einnig að auka framleiðsluna á þeim stöðum sem búa við næga úrkomu. Þá verði bankar líka að koma að málinu í auknum mæli og lána til vatnsverk­efna og ekki síst til að lagfæra lek vatnskerfi. 
 
Peter Brabeck-Letmathe, forstjóri stórfyrirtækisins Nestlé, varar við vatnskreppu. Grunnvatnsstaða lækki ört á svæðum þar sem landbúnaðarframleiðsla fari á sama tíma vaxandi eins og á Indlandi. 
 
„Vatnskreppa, sem er mjög líkleg á næstu 10 til 20 árum, mun að öllum líkindum valda umtalsverðum samdrætti í kornframleiðslu. Það mun síðan leiða til gríðarlegrar matvælakreppu á heimsvísu.“  
 
Hann segir einnig að líf eins þriðja jarðarbúa muni verða fyrir áhrifum af vatnsskorti þegar árið 2025. 
„Við gætum verið að horfa á árlegt uppskerutap á korni sem nemur allri framleiðslu Indlands og Bandaríkjanna til samans. Það yrði hræðileg niðurstaða. Slík heimskreppa myndi hafa áhrif á öll fyrirtæki, ekki bara þau sem starfa við matvælaframleiðslu,“ sagði Brabeck-Letmathe í svari við fyrirspurn McKinsey um málið.
 
Athyglisvert er að sjá þessi varnaðarorð frá yfirmanni fyrirtækis sem m.a. hefur verið gagnrýnt fyrir að ganga freklega á grunnvatnsbrigðir í Kaliforníu, Bandaríkjunum.
 
Íslendingar enn í góðum vatnsmálum
 
Ekki er ónýtt að vita til þess í þessu samhengi að meðalúrkoma á Íslandi sé ein sú mesta í Evrópu. Þannig var heildarúrkoman á landinu öllu 174.485 milljónir rúmmetra af vatni á árinu 2015. 
Séu vatnsauðlindir landsins skoðaðar árið 2015 var heildarúrkoma 174,485 milljón rúmmetrar. Þar af var regnvatn 75,934 milljón rúmmetrar, snjókoma 60,262, uppgufun 12,396 og þurrgufun 1,886 milljón rúmmetrar.
 
Vatnsnotkun árið 2015 var um 280 milljónir rúmmetra en var 275 milljónir rúmmetra árið 2014. Þar af var 92,8% af neysluvatni fengið úr grunnvatni en 6,8% voru yfirborðsvatn.
 
Vatnsnotkun fyrirtækja á Íslandi var um 198 milljónir rúmmetra árið 2015, eða um 71% af heildarvatnsnotkuninni. Þar af voru hæstar notkunartölur hjá fyrirtækjum í fiskeldi og hjá jarðvarmavirkjunum. Um 77 milljónir rúmmetra af vatni voru nýttar í þéttbýli árið 2015.
 
Ljóst er að íslensk stjórnvöld verða að halda vöku sinni í þessum efnum og halda fast um eignarhaldið á þeim gríðarlega auð sem þjóðin á í vatni.
 
Vatnsnotkun víða komin á hættulegt stig
 
Gallinn á heildarmynd vatnsmálanna í heiminum er að vatnsnotkunin hefur aukist hröðum skrefum vegna athafna mannsins á liðnum árum og áratugum. Er svo komið að víða hefur verið gengið hættulega mikið á vatnsbirgðir, bæði yfirborðs- og grunnvatn. Í síðasta Bændablaði var m.a. fjallað um fréttir af hrikalegri stöðu vatnsmála í Íran. 
 
Íslendingar vart hálfdrættingar í vatnsnotkun miðað við íbúa ESB
 
Sem dæmi um notkunina á Vesturlöndum, þá er áætlað að vatnsnotkunin á hvern íbúa Evrópusambandslandanna sé um 4.815 lítrar af vatni að meðaltali á dag. Þá er allt talið með, en 44% af þessari vatnsnotkun er vegna framleiðslu á orku, einkum með kolum og kjarnorku. Kostnaður vegna þurrka á síðustu 30 árum er af ESB metinn á 100 milljarða evra.
 
Þó undarleg kunni að virðast er vatnsnotkun  í ESB-löndunum mun meiri á hvern íbúa en á Íslandi. Ræðst það trúlega af gríðarlega vatnsfrekum þungaiðnaði og raforkuframleiðslu með kolum og kjarnorku í ESB-ríkjunum. Einnig er meiri vatnsnotkun í landbúnaði en hér þekkist. Samkvæmt framangreindum tölum um vatnsnotkun hér á landi, nam meðaltalsnotkunin á mann að meðaltali 2.269 lítrum á dag á árinu 2015. Þá er notkunin í atvinnulífinu meðtalin. Er það innan við helmingur þess sem notað er á mann í ESB-löndunum. Samt höfum við gjarnan talið okkur fara mjög illa með vatn í venjulegu heimilishaldi. Það vegur bara tiltölulega lítið í heildarsamhenginu. 
 
Samkvæmt vatnsþróunarskýrslu Sameinuðu þjóðanna sem gefin var út 2016 eru yfir milljarður starfa á jörðinni mjög háð aðgengi að vatni. Þau sem standa fyrir meira en 40% af störfum allra vinnufærra manna. Þessi störf eru m.a. í landbúnaði, skógariðnaði, fiskirækt á landi, í námuiðnaði, orkugeiranum og margvíslegri annarri starfsemi. Annar milljarður starfa er talsvert háður aðgengi að vatni. Samkvæmt skýrslunni er öllum þessum störfum hætta búin sökum minnkandi sjálfbærni í vatnsbúskap jarðarinnar. 
 
Sjálfbærni í vatnsbúskap
 
Fjöldi stofnana og fyrirtækja sem hafa hagsmuni af vatnsnotkun horfa æ meir á hvernig tryggja megi sjálfbærni í vatnsnýtingu. Ein stofnunin sem einbeitir sér að þessu verkefni er Pacific Instuitute í Bandaríkjunum sem stofnuð var 1987. Þar hafa menn áhyggjur af því að of miklu grunnvatni hefur verið dælt upp úr jarðlögum til notkunar í landbúnaði og fyrir vatnsveitur borga, ekki síst í Kaliforníu á undanförnum árum. Er staðan þar komin á mjög hættulegt stig. Þar er Colorado-áin farin að láta mjög á sjá. Einnig er bent á Guluá í Kína. Staðan í báðum þessum ám er þannig að þær ná ekki lengur að renna alla leið til sjávar hluta af ári. Þá er grunnvatninu í Kaliforníu líka dælt upp til að tappa á drykkjarvatnsflöskur í stórum stíl. Fyrirtækin sem það gera kæra sig kollótt um að verið sé að ofnýta vatnasvæðið. 
 
Almenningur er farinn að reiða sig æ meir á vatn í flöskum. Sem dæmi drukku 50% Bandaríkjamanna flöskuvatn að staðaldri árið 2013. Það eru yfir 150 milljónir manna. Vatnið er í langflestum tilfellum keypt dýru verði í verslunum í plastflöskum. Áætlað er að sala á vatni í plastflöskum velti árlega um 100 milljörðum dollara og fer ört vaxandi. Spurningin er hvort nýlegar áhyggjur um að efni í plastflöskunum kunni að skýra aukningu ýmissa sjúkdóma kunni að slá á þessa eftirspurn. Ef það gerist, hvað kemur þá í staðinn? Notkun á glerflöskum er ekki augljós lausn, sökum þunga glersins í flutningum. 
 
Eldsneytisframleiðsla
 
Samkvæmt tölum International Energy Agency (IEA) frá 2012, þá fór um 15% af allri vatnsnotkun heimsins í að framleiða eldsneyti árið 2010 eða 583 milljarðar rúmmetra. Búist er við að sú vatnsnotkun aukist í 20% fyrir árið 1935 en heildareftirspurnin eftir vatni aukist um 85%. 
 
Við framleiðslu á eldsneyti þarf mikið vatn. Einna minnst vatn þarf til að framleiða eldsneyti úr jarðolíu, en mest við vinnslu á gasi. Mikið vatn þarf líka til að framleiða metanól og etanól og kemur sú vatnsnotkun næst á eftir framleiðslunni á gasi. Megnið af metanóli heimsins er framleitt úr gasi og kolum, en etanól er að verulegu leyti framleitt úr sykurreyr og korni. Á Íslandi er rekinn harður áróður fyrir að auka íblöndun á metanóli sem framleitt er við Svartsengi í bensín og olíu. Metanól er alkóhól sem gjarnan er kallað tréspíri og skapar mjög hreinan bruna. Það er þó baneitrað og mjög tærandi efni og að því leyti talsvert öðruvísi en etanólið sem framleitt er m.a. með gerjun korns. Mjög lítið magn af metanóli þarf til að framkalla alvarleg eitrunareinkenni hjá fólki, t.d. nýrnabilun og blindu. 
 
„Alheims vatnsfótspors-staðall“
 
Settur var á fót svokallaður „Alheims vatnsfótspors staðall“ (Global Water Footprint Standard) þann 24. júlí 2014 samkvæmt ISO staðli 14046. Grunnhugmyndin að  vatnsfótsporinu var þó lögð fram af Arjen Y. Hoekstra hjá UNESCO árið 2002. Varð þá byggt á kolefnisfótsporinu og landnotkunarfótsporinu.
UNESCO gaf það síðan út árið 2004 hvernig ætti að finna út vatnsfótspor þjóða. John Allan prófessor kom svo með enn frekari útlistun á vatnsfótsporinu árið 2008. Sama ár gaf UNESCO út bókina „Globalization of Water“ og 2011 handbókina „The water footprint assessment manual: Setting the global standard“.
 
Hafa verður í huga að á bak við útreikninga á vatnsfótspori eru flókin fræði. Í kjötframleiðslunni er til dæmis búið að reikna út vatnsnotkunina við ræktun og fóðurframleiðsluna sem þar að baki liggur og ýmislegt annað.
 
Sem dæmi um vatnsnotkun við ræktun nytjajurta standa t.d. 210 lítrar á bak við framleiðslu á hverju kílógrammi af sykurreyr, en 1.782 lítrar eru á bak við fullunninn sykur.
 
Þá er vatn líka í bakgrunni við fullvinnslu á matvörum svo ekki sé talað um vatnsfótsporin á bak við framleiðslu á tækjunum sem þar eru notuð.
 
Blá, græn og grá fótspor
 
Ýmsar stofnanir og fyrirbæri hafa síðan verið sett á fót í kringum vöktun og útreikninga á vatnsfótspori manna á jörðinni. Þar er líka talað um skilgreiningar eins og „blávatns fótspor“, sem tekur á áætlunum um ferskvatn, „grænvatns fótspor“ miðast við vatnsuppgufun og „grávatns fótspor“ miðast við vatnsmengun vegna athafna mannsins. Þá bætist við skilgreining á endurnýjanlegu vatni og sjálfbærni í vatnsbúskap (Sustainable water use). 
 
Athyglisvert er að skoða vatnsfótspor ýmiss konar landbúnaðarframleiðslu og vatnsnotkun heimshluta og landa samkvæmt úttekt og skýrslu M. M. Mekonnen and A. Y. Hoekstra sem gefin var út í janúar 2011. 
Þar kemur m.a. fram, eins og búast mátti við, að því hlýrri sem landsvæðin eru, þeim mun meira af vatni er notað í formi vökvunar. 
 
Allt að 3,4 tonn af vatni fyrir hvert kíló af korni
 
Tekið er dæmi af ræktun á korni. Þar ber þó að hafa í huga að útkoman fyrir aðrar tegundir getur verið allt önnur, hvað varðar hlutfallslega uppskeru á hektara. 
 
Í Norður-Evrópu er vatnsnotkunin nokkurn veginn til helminga frá regni og síðan með vökvun. Heildarvatnsnotkunarfótsporið við framleiðslu á hverju kílói af korni er um 637 lítrar. Það er jafnframt minnsta vatnsnotkunin sem þekkist í heiminum við framleiðslu á korni og uppskeran jafnframt sú næstmesta sem þekkist, eða 5,17 tonn að meðaltali á hektara. 
 
Í Vestur-Evrópu fæst talsvert hærra hlutfall af vatnsnotkuninni með vökvun, en heildarnotkunin er mjög svipuð, eða 654 lítrar á hvert kíló af korni. Þar er uppskeran líka langmest að meðaltali á heimsvísu, eða 6,77 tonn á hektara. 
 
Í Austur-Evrópu er hlutfallið af rigningarvatni og vökvun nokkurn veginn til helminga. Þar er hins vegar notað mun meira vatn í heildina. Er vatnsfótsporið 1.795 lítrar fyrir hvert kíló af korni. Þar er uppskeran samkvæmt þessum tölum líka frekar léleg, eða 2,27 tonn að meðaltali á hektara. Þetta þætti ekki einu sinni sæmilegt á íslenskan mælikvarða.  
 
Í Suður-Evrópu er dæmið hlutfallslega annað. Þar er nær tvöfalt hærra hlutfall af vatnsnotkuninni frá vökvun, en heildarnotkunin er samt talsvert minni en í Austur-Evrópu eða 1.217 lítrar á kílóið. Þar er meðaluppskeran 3,81 tonn að meðaltali á hektara, en heil 7,07 tonn af þeim ökrum sem mest eru vökvaðir.  
Minnst meðaltalsvatnsnotkun við kornrækt er í Evrópu
 
Meðalvatnsnotkunarfótsporið við framleiðslu á korni í Evrópu er 1.214 lítrar á hvert kíló og er það lægsta sem þekkist í heiminum. Uppskeran er að meðaltali 3,36 tonn á hektara.
 
Næst kemur Ameríka (Norður-, Mið- og Suður-Ameríka) með 1.294 lítra á hvert kíló. Meðaluppskeran þar er 4,28 tonn á hektara. 
 
Þá kemur Asía eins og hún leggur sig með 1.774 lítra af vatni á hvert kíló af korni að meðaltali. Þar er meðaluppskeran 3,17 tonn á hektara. 
 
Síðan er það Eyjaálfa (Ástralía og Nýja-Sjáland) með 1.969 lítra á hvert kíló. Meðaluppskeran þar er ekki nema 1,96 tonn á hektara en 5,21 tonn þar sem mest er vökvað.
 
Verst er staðan í Afríku
 
Það er svo Afríka sem reynist vera með langmestu vatnsnotkunina við framleiðslu á korni, eða 3.388 lítra á hvert kíló. Þar er líka langstærsti hlutinn af framleiðslunni fenginn með vökvun, eða 4 á móti 1. Meðaltalsuppskeran er sú lakasta sem þekkist, eða 1,30 tonn á hektara, en 4,25 tonn þar sem mest er vökvað. 
 
Huga þarf að sjálfbærri vatnsnotkun í landbúnaði
 
Þessi dæmi um vatnsnotkun við framleiðslu á korni eru tiltölulega saklaus í samanburði við margvíslega aðra framleiðslu. Að mati alþjóðlegu vatnsstjórnunarstofnunarinnar (International Water Management Institute) þarf að huga betur að vatnssparnaði í landbúnaði. Þar skipti miklu máli hvar ræktun og framleiðsla fer fram. Þannig þurfi vatnsfrekur landbúnaður alls ekki að vera skaðlegur ef hann fer fram á stöðum þar sem vatnsbúskapur er öruggur. Með öðrum orðum, ef vatnsnýtingin er sjálfbær, eins og hún vissulega er á Íslandi. 
 
24 tonn af vatni á bak við eitt kíló af kakómassa
 
Margir elska súkkulaði og vilja helst trúa því að það sé allra meina bót. Um síðustu jól og áramót hafa Íslendingar líka hesthúsað ansi mörg tonnin af gæðasúkkulaði í ýmsu formi. Rétt væri hjá öllum þeim sem borðuðu súkkulaði um jólin að hafa það í huga að á bak við framleiðslu á hverju kílógrammi voru 17.196 lítra fótspor af vatni. Það hjálpar súkkulaðinu að við framleiðslu þess er notað ýmislegt annað en massi úr kakóbaunum. Við framleiðslu á einu kílói af slíkum massa standa hvorki meira né minna en 24.000 lítrar af vatni – já, tuttugu og fjögur tonn! Því hreinna sem súkkulaðið er því stærra er vatnsfótsporið
Séu möndlur í súkkulaðinu lagar það stöðuna ekkert, því 16.194 lítrar af vatni eru á bak við hvert kíló af skelflettum möndlum. Valhnetur eru skömminni skárri með vatnsspor upp 5.264 lítra á hvert kíló af skelflettum hnetum. 
 
Víst er að ekki þarf að hafa alveg eins mikið samviskubit yfir að fá sér kaffi með súkkulaðinu. – Hvað eru svo sem 132 lítra vatnsfótspor fyrir einn 125 millilítra kaffibolla?
 
Tómatar átta sinum hagstæðari en epli
 
Ræktun á ávöxtum og grænmeti er athyglisverð í þessu samhengi. Epli þykja líka vel við hæfi til að borða um jólin. Vatnsfótsporið við ræktun og framleiðslu á einu kílói af eplum er ansi mikið, eða 1.800 lítrar miðað við heimsmeðaltal. Ávöxturinn tómatur, sem fæstir vita þó hvort eigi að skilgreina sem ávöxt eða grænmeti, er mun hagstæðari fyrir vatnsbúskapinn. Ekki eru „nema“ 214 lítrar á bak við framleiðslu á hverju kílói af tómötum.  Gúrkur eru á svipuðu róli og tómatar, en á bak við hvert kíló af þeim er vatnsfótspor upp á 353 lítra. Við framleiðslu á kílói af salati fer svipað vatnsmagn, eða 237 lítrar. Það telst mjög lítið miðað við marga aðra fæðu, en orkuinnihaldið er að sama skapi ekki mjög mikið. 
 
Stórt vatnsfótspor á bak við framleiðslu á kjöti
 
Vatnsfótsporið við framleiðslu á nautakjöti er mun minna en við framleiðslu á súkkulaði, en samt er það að meðaltali á heimsvísu 15.400 lítrar á hvert kíló. Hafa verður í huga að um 18 til 24 mánuði tekur að jafnaði að rækta nautgrip til slátrunar. 
 
Stærsti hluti vatnsfótsporsins við framleiðslu á nautakjöti er grænt, eða 94%, en um 4% blátt og 2% grátt.  Stærsti hlutinn af græna fótsporinu er vegna fóðursins sem nautgripirnir éta, eða 99%. 
 
Til samanburðar er vatnsfótsporið við framleiðslu á kindakjöti um 10.400 lítrar á kíló. Þá er það um 6.000 l/kg við framleiðslu á svínakjöti, um 5.500 l/kg við framleiðslu á geitakjöti og um 4.300 l/kg við framleiðslu á alifuglakjöti. 
 
Próteinframleiðsla með kjöti er vatninu óhagstæð
 
Vatnsfótspor við framleiðslu á próteini úr kjöti er mun hærra á hverja kaloríu en við framleiðslu á kornmeti. Þannig er meðaltals vatnsfótspor við framleiðslu á kjötpróteini  um tuttugu sinnum hærra en við framleiðslu á korni eða sterkjuríkum rótum. Samkvæmt skýrslu Mekonnen and Hoekstra, 2010, 2012 var vatnsfótsporið við framleiðslu á nautakjöti á árunum 1996 til 2005 um þriðjungur af heildarfótspori á kjöti af öllum öðrum dýrum í heiminum. 
 
Æðislegur maískólfur með nautasteikinni
 
Ekki er ónýtt ef manni áskotnast góð nautasteik og vill vera flottur á því, þá á að sjálfsögðu að steikja kjötið upp úr sesamolíu. Hún skilur eftir sig „myndarlegt“ vatnsfótspor, eða 19.674 lítra á hvern fullunninn sesamolíulítra. Að steikingu lokinni væri svo frábært að hafa maískólf á hliðarlínunni.
Annaðhvort grillaðan eða soðinn og smurðan með smjöri og stráð „dass“ af salti yfir. Maísræktunin er þó alls ekki saklaus af að skilja eftir sig vatnsfótspor. Á bak við hvert kíló af maís er vatnsspor upp á 1.222 lítra. Kannski ættum við ekkert að nefna smjörið sem drýpur af rjúkandi maískólfinum. Það þarf nefnilega 5.553 lítra af vatni til að hvert kíló af slíkum munaði líti dagsins ljós. 
 
Eitt kíló af hrísgrjónum og 2.497 lítrar af vatni
 
Mjög algengt er að bera fram hrísgrjón með kjúklingaréttum af ýmsu tagi en það er heldur ekki vatnsfótsporsfrítt. Framleiðsla á einu kílói af hrísgrjónum skilur nefnilega eftir sig 2.497 lítra vatnsfótspor. Ef pasta er líka á borðum liggja 1.849 lítrar af vatni á bak við framleiðslu á hverju pastakílói. 
 
Egg eru hins vegar tiltölulega hagstæð hvað vatnsfótspor varðar, allavega miðað við kjöt. Á bak við hvert 60 gramma hænuegg er fótspor vatnsnotkunar upp á 196 lítra. Það þýðir vatnsnotkun upp á 3.266 lítra við framleiðslu á hverju kílói af eggjum. Vissulega verður þó ekki neitt egg nema hæna komi þar nærri.
Varphæna þarf svo ríflega fjögur tonn af vatni áður en hún nær því að verða eitt kíló að þyngd.
 
148 lítrar fara í að framleiða bjór í eina dós
 
Sem dæmi um vatnsfótspor á annars konar matvöru, þá er vatnsfótsporið á bak við eina dós, eða hálfan lítra af bjór, að meðaltali 148 lítrar af vatni. Við að framleiða eitt glas af rauðvíni (125 millilítra) fara 109 lítrar af vatni og 654 lítrar standa því á bak við hverja 750 millilítra rauðvínsflösku. 
 
Það má skoða þetta enn frekar og þá sjáum við að við framleiðslu á einu kílói af hveitibrauði er búið að nota 1.608 lítra af vatni. 
 
Á fimmta hundrað tonn af vatni á bak við einn tank af bíó-dísil
 
Nú til dags þykir það sérlega fínt og vistvænt að nota Bíó-dísilolíu á ökutæki. Sennilega gera fæstir notendur sér þó grein fyrir að vatnsfótsporið á bak við hvern einasta lítra af bíó-dísil er 11.397 lítrar af vatni. Við framleiðslu á bíó-dísil fyrir einn 40 lítra tank í meðal fólksbíl liggur því notkun á 455.880 lítrum, eða 455 tonnum af vatni. 
 
Samkvæmt tölum Belefer Center og úttekt Electric Power Research Institute frá 2008, þá stendur orkuiðnaðurinn í Bandaríkjunum fyrir 27% af allri vatnsnotkun landsins. Inni í því er vatnsnotkun vegna síaukinnar framleiðslu á lífeldsneyti, sem og hefðbundnu jarðefnaeldsneyti og raforkuframleiðslu úr kolum og gasi.
 
Eitt kíló af leðri = 17 tonn af vatni
 
Kvenfólki þykir ekki ónýtt að geta sýnt sig úti á götu með fallegt leðurveski hangandi um öxl. Fyrir nokkrum árum þótti heldur enginn karlmaður standa undir nafni nema að sveifla stresstösku og helst úr leðri. Eflaust hafa þó fæstir hugsað um að 17 tonn af vatni liggja á bak við framleiðslu á hverju kílói af leðri. 
 
Þekking bænda hefur aldrei verið mikilvægari
 
Hvort sem okkur líkar það betur eða verr, þá mun maðurinn sem tegund þurfa að framleiða mat og þau prótein sem þarf til að komast af. Spurningin er bara að stýra vatnsnotkuninni í farvegi til  framleiðslu á hagstæðum próteinum og forðast ofnotkun.
 
 
Líklegt er að sterkt ákall verði um það á næstu árum að leita eftir hagstæðara próteini m.a. úr nytjajurtum. Ljóst er að vegna komandi áskorana hefur þekking bænda aldrei verið mikilvægari. 
Aukin fiskneysla og fiskirækt gæti líka leyst próteinframleiðsluna  að hluta, en þá helst ef um fisk er að ræða sem lifir í saltvatni. 
 
Heilbrigðisstofnun  Sameinuðu þjóðanna (World Health Organization - WHO) setti upp fyrir nokkrum árum leiðarvísi um æskilegt mataræði. Þar kom fram að æskilegt væri að maðurinn færði sig frá neyslu á kjöti til neyslu á nytjajurtum. Það hlýtur því að verða verk­efni landbúnaðar og vísindasamfélagsins hvernig standa eigi að slíku og jafnframt að tryggja fæðuöryggi þjóða sem verður vaxandi ákall um á komandi árum. 

5 myndir:

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...

Ræktunarland verður kortlagt
Fréttaskýring 8. desember 2023

Ræktunarland verður kortlagt

Gert er ráð fyrir að þingsályktunartillaga um nýja landsskipulagsstefnu til 15 á...