Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Frá Bæjaralandi í Þýskalandi. Sveitirnar og minni bæir og þorp þykja sífellt eftirsóknarverðari hjá fólki sem leitar að alvöru lífsgæðum.
Frá Bæjaralandi í Þýskalandi. Sveitirnar og minni bæir og þorp þykja sífellt eftirsóknarverðari hjá fólki sem leitar að alvöru lífsgæðum.
Mynd / HKr.
Fréttaskýring 20. apríl 2021

Hátt fasteignaverð og dýr húsaleiga er að hrekja fólk úr borgunum víða um lönd

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Rannsóknir sýna að fólk víða í Evrópu og í Bandaríkjunum er í auknum mæli að flýja stórborgirnar, vegna hárrar húsaleigu, lítils fasteignaframboðs og hás fasteignaverðs. Sama þróun virðist vera að eiga sér stað á Íslandi þar sem ofuráhersla hefur verið lögð á þéttingu byggðar á dýrum lóðum á höfuðborgarsvæðinu.

Greinilegt er að stórborgirnar eru ekki sama aðdráttarafl og áður og fólk er farið að meta lífsgæðin í öðru en þröngu sambýli í þéttbýlustu byggðakjörnunum. Frelsið sem dreifðari byggð veitir fólki, ekki síst í miðjum COVID-faraldri, þykir mörgum nú eftirsóknarverðara en að geta rölt í gegnum mannmergð á milli yfirfullra kaffihúsa. Þetta má greinilega sjá í erlendum umfjöllunum af þróuninni. Þá virðist líka skipta máli sterkari staða einstaklingsins í fámennum byggðarlögum samhliða bættum fjarskiptum og netsambandi.

Reutlingen er sögð eina borgin í Baden-Württemberg í Þýskalandi sem ekki hefur þurft að glíma við fólksfækkun.

Innviðir eru lykilatriði breytinga

Til að flutningur fólks úr borgum í dreifbýlið geti virkað í flóknu nútíma neyslusamfélagi þurfa samt nokkur lykilatriði að vera til staðar þar sem „innviðir“ er samnefnarinn. Þar er m.a. um að ræða vegakerfi og aðra samgöngumöguleika, heilbrigðisþjónustu, aðgengi að tryggri orku allan sólarhringinn, fjarskipti um háhraðanet og helst með ljósleiðaratengingu og gott aðgengi að öruggri fæðu.

Framsæknir bændur hafa knúið fram ljósleiðaravæðingu Íslands

Ef innviðauppbygging á að heppnast verða íbúar dreifbýlisins að vera með í ráðum. Áhugavert er hvað íslenskir bændur með Bændasamtök Íslands og búnaðarþing í fararbroddi hafa verið framsýn í að krefjast ljósleiðaravæðingar um allt land. Haraldur Benediktsson, bóndi og alþingismaður og formaður Bænda­samtaka Íslands frá 2003 til 2013, hefur verið ötull talsmaður ljósleiðaravæðingar. Hann tók sæti á Alþingi 2013 og varð formaður í starfshópi 2014 sem lagði grunn að „Ísland ljóstengt“.

Haraldur lagði grunninn að hugmyndafræðinni við ljósleiðarvæðinguna sem unnið hefur verið eftir undanfarin ár. Hann lagði þó áherslu á í samtali við Bændablaðið að eftirspurnin og áskorunin hafi átt uppruna sinn í starfi Bændasamtakanna og á búnaðarþingi.

Mannmergð stórborganna er hætt að þykja sérlega eftirsóknarverð.

Lítið fasteignaframboð, hátt húsnæðisverð og há húsaleiga hrekur fólk úr stórborgunum

Samkvæmt úttekt Efnahagsstofnunar Þýskalands (Institut der deutschen Wirtschaft), þá var sókn inn í stórborgirnar á árunum frá 2003 til 2013, en þá fór dæmið að snúast við. Á árinu 2017 var orðin neikvæð íbúaþróun í 8 af 71 borg sem til skoðunar voru. Þessi þróun hefur verið að aukast hratt. Ástæðan er einkum lítið framboð af húsnæði í borgunum, hátt húsnæðisverð og hátt verð á húsaleigu. Fjölskyldufólk hefur í æ ríkari mæli verið að koma sér burt frá miðborgunum og jafnvel út í minni samfélög utan við stórborgirnar. Það er einkum ungt skólafólk sem enn laðast að miðborgarsvæðunum.

„Skortur á framboði íbúða, hækkandi leiga og fasteignaverð dregur úr miklum straumi fólks að stórborgunum að undanförnu. Höfuðborgarsvæðin eru áfram sérstaklega aðlaðandi fyrir námsmenn og ungt fagfólk. Fjölskyldur kjósa hins vegar í auknum mæli svæðið í kringum stórborgirnar. Í jafnvægi hafa fleiri íbúar dregið sig út úr stórborgunum síðan 2014 – og þróunin eykst,“ segir m.a. í skýrslu um rannsókn Efnahagsstofnunar Þýskalands sem fram fór á árinu 2019.

Yfirvöld í Baden-Württemberg tala á sömu nótum. Í fréttabréfi sem gefið var út í febrúar síðastliðinn er tekið undir hvert orð Efnahagsstofnunarinnar hér að framan og farið yfir niðurstöður rannsókna. Síðan segir:

„Að auki er þróunin að aftengja skrifstofustörf með föstum staðsetningum og sú þróun hefur vaxið á óvæntan hátt vegna heimsfaraldursins.“

Þá segir í fréttabréfinu að tilflutningar fólks í Þýskalandi hafi breyst verulega á undanförnum áratugum. Á áttunda og tíunda áratug síðustu aldar hafi verið mikill kraftur í mörgum dreifbýlissvæðum í jaðri stórborganna og talsvert meiri en í þéttbýlinu. Frá síðustu aldamótum hafi borgir og þéttbýl svæði í landinu aftur á móti orðið meira aðlaðandi fyrir nýliða, en hafi krafturinn í strjálbýlum svæðum minnkað. Skortur á framboði íbúða, hækkandi húsaleiga og fasteignaverð hafi síðan leitt til minnkandi aðstreymi til stórborganna á undanförnum árum. Höfuðborgarsvæðin þyki þó áfram aðlaðandi fyrir námsmenn og ungt fagfólk enda séu menntastofnanirnar með aðsetur þar. Þannig hafi hlutfall skólafólks í helstu borgum Baden-Württemberg aukist úr 7% frá árinu 2000 í 11% á árinu 2013. Þetta hlutfall hafi síðan verið nær óbreytt, en rannsókn Efnahagsstofnunarinnar sýni að uppistaðan í aðflutningi fólks til borganna á undanförnum árum sé fólk af erlendum uppruna (ekki innfæddir Þjóðverjar), ekki síst í borgum í Suðvestur-Þýskalandi.

Á árunum 2017 til 2019 var mestur brottflutningur fólks frá Stuttgart og Freiburg og íbúum fækkaði. Eina borgin í Baden-Württemberg sem ekki bjó þá við fólksfækkun var Reutlingen, sem er nú með um 116 þúsund íbúa.

Flóttamenn sækja í stórborgirnar en heimamenn flytja á brott

Mat Efnahagsstofnunarinnar er byggt á rannsókn á 71 þéttbýlissvæði í borgum sem voru með fleiri en 100.000 íbúa og 330 landsvæðum í Þýskalandi. Að auki voru tekin sérstaklega fyrir Hanover svæðið og borgarsvæði Aachen sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Stofnunin vekur athygli á því að Þjóðverjar hafi í vaxandi mæli reitt sig á menntað erlent vinnuafl. Meirihluti þessa vinnuafls sækist ekki lengur eftir búsetu í stórborgunum, eða 57%. Þá sé þetta fólk almennt að sækjast eftir minna húsnæði en Þjóðverjar.

Meðalstærð íbúða í Þýskalandi á árinu 2016 var 48,4 fermetrar á hvern innfæddan, en 32,9 fermetrar á hvern innfluttan íbúa. Þá bendir stofnunin á annan vanda, sem er aukinn innflutningur á hælisleitendum. Þeir voru um 20% af öllum innflytjendum í Þýskalandi 2018. Þeir sæki einkum til stórborganna en í staðinn séu „venjulegir Þjóðverjar“ að flýja borgirnar. Einungis 14 borgir í Þýskalandi búi við fjölgun innfæddra Þjóðverja, á meðan innfæddum hafi verið að fækka í sjö stærstu borgunum. Segir stofnunin að þessi þróun hafi vaxið hratt á undanförnum árum.

Hámarks íbúafjölda talið náð í Þýskalandi á þessu ári

Þetta er mjög athyglisverð þróun sé horft til þess að samkvæmt spám mun íbúafjöldi í Þýskalandi ná hámarki á þessu ári (2021) í 83,9 milljónum. Hann var 83.869.063 þann 4. febrúar síðastliðinn. Eftir það fari íbúum Þýskalands ört fækkandi og verði komnir undir 80 milljónir árið 2050 og muni líklega ná einhverju jafnvægi í um 75 milljónum árið 2085. Í febrúar síðastliðnum létust 484 fleiri á dag en fæddust í Þýskalandi og það var einungis innflutningur fólks upp á 833 einstaklinga sem hélt uppi íbúaaukningu upp á 349 manns á dag í þeim mánuði.

Innviðauppbygging og einkum góðar nettengingar skipta höfuðmáli

Það sem hefur mikil áhrif á þessa þróun er uppbygging innviða utan stórborganna og þar virðist háhraða- tölvunettengingar skipta mestu máli. Þar virðist Þýskaland samt ekki eins vel statt og t.d. Ísland, enda telur Efnahagsstofnun Þýskalands að leggja þurfi aukna áherslu á uppbyggingu innviða í dreifbýlinu. Þá hefur góð reynsla af fjarvinnu fólks í heimsfaraldri COVID-19 ýtt enn frekar undir þessa þróun.

Ljósleiðaralagning í hröðum vexti

Rannsóknir Research And Markets sýna að lagning ljósleiðara er lykilþáttur í áframhaldandi þróun efnahagslífs um allan heim. Lagning ljósleiðara hefur aukist hröðum skrefum og markaður með slíka strengi var um 37,95 milljarðar dollara árið 2019. Síðan hefur verið gert ráð fyrir myndarlegum árlegum vexti á þessum markaði og að veltan muni nema um 87,58 milljörðum dollara á árinu 2023.

Íslendingar flestum þjóðum heims fremri í ljósleiðaravæðingu

Á Íslandi eru nærri 99,9% heimila í dreifbýli að verða komin með ljósleiðaratengingu á meðan 40% heimila í dreifbýli í ESB löndunum eru með slíka tengingu.

Hin tæknivæddu Bandaríki Norður-Ameríku hafa greinilega ekki getað haldið í við tækniþróunina í fjarskipatgeiranum með háhraðatengingum um ljósleiðara. Þau eru þar t.d. langt á eftir Íslandi.

Bandaríkjamenn langt á eftir í ljósleiðaravæðingunni

Í Bandaríkjunum virðist staðan mun verri og Bandaríkjamenn miklir eftirbátar Íslendinga hvað þetta varðar. Þar er enn að langmestu leyti stuðst við tengingar um koparþræði eða örbylgjusamband en ljósleiðaratengingar eiga þar langt í land.

Samkvæmt gögnum sem byggja á tölum FCC og NTIA á árinu 2020 er meðaltal ljósleiðaratenginga í 52 ríkjum Bandaríkjanna samtals 23,78%. Verst er staðan í Púertó Ríkó, eða 0,47%, en langbest á Rhode Island, eða 97,88%. Víðast hvar er staðan slæm og sem dæmi er næstbesta staðan í New Jersey ríki, eða 62,57% og í New York ríki, eða 61,54% (63,5% í heild ná þar breiðbandstengingu).

Kalifornía, sem státar nú af menningu á háu stigi, er aðeins með 15,68% ljósleiðaravæðingu og Washington ríki með 29,84%. Á Flórída nær ljósleiðari aðeins til 39,37%, eða til rúmlega 7,8 milljóna manna, og á eyríkinu Havaí er ljósleiðaravæðingin aðeins 6,91% og nær til rúmlega 98 þúsunda íbúa. Í Alaska er staðan afar slæm og ljósleiðaravæðingin aðeins 1,94% og nær til rúmlega 14 þúsund íbúa. Hins vegar ná breiðbandstengingar í heild til 60,8% íbúa Alaska og í gegnum aðrar leiðir en ljósleiðara og þá einkum næst landamærunum að Kanada. Mjög stór hluti Alaska er án allra nettenginga.

Kanada aftarlega á merinni

Kanada er í 21. sæti þeirra þjóða sem hafa internetsamband. Þar ná um 89,8% íbúanna netsambandi, en aðeins lítill hluti þeirra er með ljósleiðaratengingu. Flest netþjónustufyrirtækin bjóða upp á afar lítinn gagnaflutningshraða, eða 5, 10, 15 og upp í 50 megabita á sekúndu, og örfá fyrirtæki bjóða upp að 100 megabita hraða á sekúndu eða meira, eða 12, af mörgum tugum fyrirtækja sem segjast bjóða upp á „bestu ljósleiðaralausnirnar“.

Sama þróun í Bandaríkjunum um flótta úr stórborgunum

Þýskaland er ekkert einsdæmi um flótta fólks frá stórborgunum. Sömu sögu er að segja frá Bandaríkjunum. Fjöldi umfjallana hefur verið um þessi mál í Bandaríkjunum þar sem m.a. hefur verið velt upp spurningunni um hvers vegna fólk sé að flýja stórborgirnar. CNN-Business ræddi m.a. við innfæddan New York-búa sem hafði búið alla sína tíð í stórborginni. Þar hafði fasteignaverð verið að rjúka upp úr öllu valdi, eða um allt að 60%, bæði á Manhattan-svæðinu sem og í einbýli í útjaðri borgarinnar.

Einn daginn datt honum og konu hans í hug að flytja á brott frá stórborginni og kaupa hús á Boca Raton í Flórída. Hann sagði að þetta hafi sannarlega ekki verið léttvæg ákvörðun og að þurfa að sjá eftir öllum uppáhaldsstöðunum í New York, eins og Central Park.
„Þegar COVID skall á vissum við að við vildum ekki vera lengur í borginni. Mesti drifkrafturinn í ákvörðun okkar var að geta haldið áfram að njóta frelsis og lífsgæða á viðráðanlegu verði. […] Hugsun okkar snerist um hvar við gætum fengið mestu lífsgæðin fyrir okkar fjölskyldu.“

Á Flórída búa þau í þrisvar sinnum stærra húsnæði en í New York með sundlaug og tennisvöll í næsta nágrenni.

CNN ræddi við annað ungt par frá Boston, Aterah og Morgan Dix. Þau vildu stækka við sig, en leist ekki á hátt fasteignaverð í borginni. Þau ákváðu því að kaupa hús í Longmont með þrem svefnherbergjum og fallegu fjallaútsýni. – „Við elskum, elskum elskum þetta,“ sagði Dix.

Samstarfsfólkið, Tanya Hayre og Eva Synalovski, bjuggu í leiguhúsnæði New York og fluttu hvor í sína íbúðina á Fort Lauderdale á Flórída þar sem leiguverð er mun lægra. Þær hafa alls ekki áhuga á að flytja aftur til New York.

CNN heldur áfram að telja upp fjölmörg dæmi þar sem hátt fasteignaverð í stórborginni er að hrekja einstaklinga og venjulegt fjölskyldufólk á brott. – Ætli Íslendingar séu farnir að kannast eitthvað við svipað ástand?

COVID-ástandið og bætt fjarskipti eru að gjörbreyta viðhorfi til búsetu

Þróun búsetu er mjög hröð núna – það sé ég á fréttum sem ég hef fylgst með á fréttaveitum sem ég hef skoðað í nágrannalönd­um okkar,“ segir Haraldur Benediktsson, bóndi og alþingismaður.

Haraldur Benediktsson.

„Fréttaveitum sem ég hef fylgst með síðan ég var formaður BÍ, og fjalla um dreifbýlið, getum við sagt. Að sama skapi hef ég í verkefni mínu Ísland ljóstengt, fylgst með hér á landi, hvernig skipt búseta hefur stóraukist. Það er aukaheimili í dreifbýlinu. En líka undanfarið ár þar sem aðalheimilið er í sveit – og íbúðin í þéttbýlinu orðin aukabúseta.

Breytt landslag vegna COVID-19 faraldursins

„Strax í upphafi COVID faraldursins bar mikið á því að fólk flutti aðsetur sitt í ljósleiðaratengd frístundahús sín. Þannig þekki ég til að sveitarfélög hafa aukið þjónustu sína við slík hverfi, einmitt vegna fastrar búsetu þar. Þá er eftirspurn eftir húsnæði í sveitum, og fyrsta spurning er hvernig fjarskipti séu. Það er samdóma álit þeirra sem ég ræði við í tengslum við ljósleiðaraverkefnið að búsetumynstur er að breytast. Sem aftur birtist í aukinni netverslun og svo framvegis. Hef séð í rannsókn að netverslun úr dreifbýli jókst um 35% á síðasta ári.“

Um 40% heimila í dreifbýli í ESB ljósleiðaratengd, en brátt 99,9% á Íslandi

„Sömu sögu má lesa í umræðu í öðrum löndum. Nýleg samantekt um tengingar innan landa ESB segir að 40% heimila í dreifbýli höfðu aðgengi að háhraðatengingu en 76% heimila í þéttbýli. Það er ekki alveg einfalt að átta sig samt á útbreiðslu ljósleiðara – því skilgreining á háhraðatengingu er önnur en hvort tengt er með ljósleiðara. Þannig að samanburður við Ísland er ekki alveg nákvæmur. En hér á landi erum við að ná 99,9% tengingu með ljósleiðara í dreifbýli.”

Fyrirspurnir frá Norðurlöndunum og Þýskalandi

„Ég hef fengið mjög margar fyrirspurnir, frá fyrrum kollegum mínum á Norðurlöndum í forustu bænda, um íslenska verkefnið. Hef miðlað af okkar reynslu. Veit til að mynda að byggt var í einu sveitarfélagi í Noregi, með hugmyndafræði Ísland ljóstengt. Þá stóð til að ég færi í fyrravor til Þýskalands að kynna verkefnið – en COVID-ástandið stoppaði það. En hef í staðinn tekið fjarfundi vegna þess. Þannig að víða vekur það athygli og horft er til þess.

Veruleikinn er að mjög víða er ástand fjarskipta mjög dapurt í dreifbýli og eftirspurn eftir úrbótum gríðarlega mikil.“

COVID-19 og bætt fjarskipti eru að gjörbreyta viðhorfi fólks

„Ég er ekki í vafa að COVID ástandið og bætt fjarskipti eru að gjörbreyta viðhorfi til búsetu í dreifbýlinu. Hvort heldur er til þess að vinna og starfa yfir netið – og bæta búsetuskilyrði eins og verslun og viðskipti óháð búsetu. Ég þekki til hundruð starfa sem hafa verið flutt í íslenskar sveitir eftir að tengingar bötnuðu. Ísland á að taka forustu í að leiða umræðu um þessa þróun og láta sig hana varða. Við erum líklega fyrsta landið í heiminum sem gengur jafn hraustlega til verks.

Að sama skapi hafa úrbætur í aðgengi að góðum og traustum tengingum við raforkukerfi skipt þar grundvallarmáli. Með aukinni jarðstrengjavæðingu er afhending raforku orðin mun traustari. En það er þróun sem er eldri en fjarskiptaátakið – en hefur nú verið settur aukakraftur í það í kjölfar óveðurs á Norðurlandi vestra um þarsíðustu áramót.

Þetta er þróun sem sveitarfélög verða að láta sig varða í sínum áætlunum um þróun byggðar. Það verður að vera rými og skilningur á að búsetuform er að breytast og mögulega erum við að sjá allt annað byggðamynstur á næstu árum. Bæði verða núverandi frístundabyggðir að íbúðahverfum og eftirspurn eftir að byggja hús utan slíkra svæða.

Ég bendi til að mynda á áætlun þeirra Húsafellsbænda að byggja 75 heilsárshús til viðvarandi eða aukabúsetu. Það er aðeins byrjunin á þeirri þróun sem ég trúi að verði. Það eru hús sem eru af stærð og gerð þannig að þau munu verða aðsetur fólks sem vill búa í tengslum við víðáttu og náttúruna. Ljósleiðarinn er að breyta íslenskum sveitum.“

Dropinn holar steininn

„Ég minnist að búnaðarþing lét sig varða skiptabúsetu og skráningu lögheimila hér á árunum 2005–2010. Ég átti sjálfur tillögur að þessum búnaðarþingsmálum. Þá var afar lítill skilningur á hvað við værum að segja að gæti orðið þróun mála. En þetta er sannarlega allt að koma fram.

Ég skora á Bændasamtökin að leiða áfram þessa umræðu og láta sig hana varða.

Fátt eflir byggð í íslenskum sveitum meira og betur en örugg og afkastamikil fjarskipti og gott dreifikerfi raforku. Nú erum við til að mynda að ná á þessu ári áfanga í að jafna dreifikostnað raforku á milli þéttbýlis og dreifbýlis. Það er áfangi – en í raun þarf algjöran uppskurð á kerfi verðlagningar á dreifingu raforku og þeim fyrirtækjum sem starfa á því sviði. Það á ekki að vera munur á hvar þú býrð á Íslandi í aðgengi að raforku og kostnaði vegna þess. Það er grundvallar lýðræðismál,“ segir Haraldur Benediktsson. 

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...

Upprunamerki matvæla skipta máli
Fréttaskýring 7. maí 2024

Upprunamerki matvæla skipta máli

Þegar kemur að því að versla matvæli horfa neytendur mikið til upprunalands fram...

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Farsæll áhugaræktandi
15. júlí 2024

Farsæll áhugaræktandi

Bænder
12. júlí 2024

Bænder

Skammur aðdragandi að sölunni
11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Magnað Landsmót 2024
12. júlí 2024

Magnað Landsmót 2024

Stjörnuspá vikunnar
15. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar