Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, og Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands og formaður Arctic Circle, á ráðstefnu í Hörpu fyrir skömmu.
Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, og Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands og formaður Arctic Circle, á ráðstefnu í Hörpu fyrir skömmu.
Fréttir 23. nóvember 2016

Fjárfesta þarf meira í þróun í dreifbýlinu

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Í umfjöllun Fréttamiðstöðvar Sameinuðu þjóðanna (UN News Center) segir að landbúnaðurinn verði að laga sig að breyttum aðstæðum til að tryggja fæðuframboð í hlýnandi heimi.
 
Þar segir að náin tengsl séu á milli landbúnaðar, hlýnandi loftslags, sjálfbærni, fæðu- og næringaröryggis. Loftslagið sé að breytast og landbúnaðurinn verði að aðlaga sig breyttum aðstæðum. 
 
Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, sagði í yfirlýsingu í tilefni Fæðudags heimsins 2016 þann 16. október sl., að samhliða fjölgun jarðarbúa yrðu þjóðir heims að fullnægja aukinni eftirspurn eftir matvælum. Hækkun hitastigs á jörðinni sé þegar farið að hafa mikil áhrif á lífríkið, landbúnað og möguleika fólks til að framleiða mat. 
 
Benti Ban Ki-moon á að 70% af fátækustu íbúum jarðar reiddu sig á landbúnað, fiskveiðar og hjarðmennsku til að afla sér lífsviðurværis. Ef ekkert verði gert sé hætta á að milljónir manna muni bætast í þann hóp sem lifir undir fátæktarmörkum og hefur ekki möguleika á að afla sér nægrar fæðu. – „Til að styrkja fæðuöryggið í heimi hlýnandi loftslags, verða þjóðir heims að taka fæðuöflun og landbúnað inn í áætlanir sínar og fjárfesta meira í þróun í dreifbýlinu.“

Skylt efni: fæðuöryggi