Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Stjarna og Bliki.
Stjarna og Bliki.
Fréttir 16. nóvember 2015

Eins og gott hross á að vera

Stjarna frá Kjarri er eina hryssan sem hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi í ár. Eiganda Stjörnu, Helga Eggertssyni, verður því afhentur Glettubikarinn á ráðstefnunni Hrossarækt. Helgi segir Stjörnu alltaf hafa verið ætlað ræktunarhlutverk sem hún hefur nú skilað af sér með glæstum árangri.
 
Stjarna frá Kjarri er fædd 1998, undan Gusti frá Hóli og Þrumu frá Selfossi. Ræktandi Stjörnu er skráður Garðar Einarsson en Helgi Eggertsson, hrossaræktandi í Kjarri, er eigandi hennar.
 
 
 „Móðir Stjörnu, Þruma frá Selfossi, var í eigu félaga míns en var alltaf hjá mér. Ég tamdi hana að mestu, þjálfaði og sýndi og fékk síðan flest folöldin undan henni,“ segir Helgi en Þruma gaf af sér 17 afkvæmi, þar af átta fyrstu verðlaunahross. Helgi segir að Stjörnu hafi alltaf verið ætlað ræktunarhlutverk.
„Ég hafði lengi haft áhuga á að eignast hross undan Gusti frá Hóli og því hélt ég, með samþykki Garðars, Þrumu undir hann og vonaðist eftir hryssu og fékk Stjörnu. Það voru nú meira gæðin en útlitið sem dró mig að Gusti en þegar ég fékk myndarlega hryssu, sem varð auk þess góð, var sjálfgefið að setja hana í ræktun.“
 
Helgi segir Stjörnu hafa verið frá upphafi meðfærilegt hross.
„Hún hefur alltaf verið yfirveguð og látið lítið yfir sér. En fljótlega eftir að farið var að temja hana sýndi hún að hún var ekki bara þæg, heldur einnig viljug og sinnug. Hún var svona, eins og maður vill hafa góð hross.“
 
Stjarna var sýnd í kynbótadómi árið 2003, þá 5 vetra, og hlaut hún jafnan og góðan dóm, 8,28 í aðaleinkunn, 8,39 fyrir sköpulag og 8,21 fyrir kosti.
 
Hélt Stjörnu oftast undir Stála
 
Stjarna hefur nú í kynbótamati aðaleinkunnar 117. Hún hefur eignast tólf afkvæmi og hafa fimm þeirra hlotið kynbótadóm. Helgi segir afkvæmin eiga það sammerkt að sýna mikinn fótaburð og rými. 
 
„Þau eru flest hágeng og viljug. Flest eru þau með gott tölt og skeið og sum með gott brokk, önnur síðra.“ Meirihluti afkvæma Stjörnu er samfeðra, sem verður að teljast nokkuð óalgengt.
 
„Ég er bara svo heppinn að eiga stóðhest sem mér finnst passa vel við hana,“ segir Helgi og vísar þar í heiðursverðlaunastóðhestinn Stála frá Kjarri.
 
„Þau eru bæði viljug og rúm á gangi. Hún er faxprúð með svera og sterka fætur á meðan Stáli er með granna fætur og síst þekktur fyrir prúðleika. Stjarna er hvergi með lægri einkunn en 8 í kynbótadómi og virðist vega upp Stála þar sem hann er lægstur í byggingu. Meðaltal afkvæmanna hefur því alltaf verið gott,“ segir Helgi en til gamans má geta að Stáli og Stjarna eru jafnaldrar og voru sýnd á sömu kynbótasýningu 5 vetra gömul.
 
Af afkvæmum Stjörnu hefur hæst dæmdi sonur hennar, stóðhesturinn Spói frá Kjarri, látið hvað mest á sér bera. Hann hefur komið fram í keppnum undir stjórn sonar Helga, Eggerts Helgasonar, með mjög góðum árangri. Tvö afkvæmanna voru seld utan en mörg efnileg afkvæmi undan Stjörnu eru enn ung og ósýnd.
 
Farsæl hrossarækt í Kjarri
 
Hrossaræktin í Kjarri í Ölfusi á sér yfir 30 ára sögu, en fyrstu folöldin sem kennd voru við bæinn eru fædd árið 1983. Árlega fæðast 7–10 folöld á Kjarri og eru flest þeirra undan fyrstu verðlauna hrossum. Ræktunin er farsæl en hápunktur hennar var eflaust þegar fyrrnefndur Stáli hlaut heiðursverðlaun fyrir afkvæmi árið 2014.
 
„Við þekkjum vel bakgrunn allra hryssna sem við höfum í  ræktun, og temjum þær sjálf. Stjarna er dæmi um það, en ég tamdi bæði mömmu hennar og ömmu.“ Hann segir vilja, rými og þjálni einkenna hross frá Kjarri. „Við höfum lagt áherslu á gott tölt og ræktun á alhliðahrossum og ræktum ekki vísvitandi klárhross.“ 
 
Mikil breidd og fáir toppar
 
Hjónin í Kjarri, Helgi og Helga, munu taka við Glettubikarnum á ráðstefnunni Hrossa­rækt sem haldin verður í Sprettshöllinni laugardaginn 7. nóvember næstkomandi. Þar verður hrossaræktarárið 2015 gert upp. Helgi telur árið hafa sýnt mikla breidd í íslenskri hrossarækt. 
 
„Það sést á kynbótadómum og á afrekum keppnishrossa að góðum hrossum er að fjölga og breiddin eykst. Á móti kemur að færri hross reynast framúrskarandi enda erfitt að standa upp úr slíkri breidd gæðahrossa. Hrossaræktin er því á góðri leið. Við verðum hins vegar að passa upp á að hrossaræktin snúist ekki eingöngu um keppnishross, heldur líka um geðgóða og þjála hesta fyrir þá sem vilja ríða út sér til ánægju.“
 
Tveir stóðhestar í afkvæmaverðlaun
 
Við uppfærslu kynbótamats í haust bættust tveir stóðhestar við lista þeirra sem uppfylla lágmörk til afkvæmaverðlauna.
 
Til að hljóta 1. verðlaun þurfa stóðhestar að hafa 118 stig í aðaleinkunn kynbótadóms og eiga a.m.k. 15 dæmd afkvæmi. Álffinnur frá Syðri-Gegnishólum uppfyllir lágmörkin en hann er nú með 126 í aðaleinkunn kynbótamats og hafa 15 afkvæmi hans hlotið kynbótadóm. Auk þessa uppfyllir stóðhesturinn Natan frá Ketilsstöðum lágmark til afkvæmaverðlauna, en hann er með 122 stig í aðaleinkunn kynbótamats og 15 afkvæmi hans hafa hlotið dóm. Natan drapst árið 2012, þá 11 vetra gamall. Enginn stóðhestur uppfyllir lágmörk til heiðursverðlauna.

Álffinnur frá Syðri-Gegnishólum hlaut lágmark til 1. verðlauna fyrir afkvæmi í ár.
Hann er aðeins 8 vetra gamall en meðalaðaleinkunn dæmdra afkvæma hans er 8,06.
Knapi er Olil Amble.

4 myndir:

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi
Fréttir 26. september 2023

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi

Nemendur Landbúnaðarháskóla Íslands vinna fjölbreyttar rannsóknir og tilraunaver...

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar
Fréttir 26. september 2023

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar

25 af 33 eyfirskum bændum sem spurðir voru, sögðu að þeir myndu myndu nýta sér k...

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru
Fréttir 25. september 2023

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru

Lífræni dagurinn var haldinn hátíðlegur víðs vegar um landið laugardaginn 16. se...

Ágúst verður forstöðumaður
Fréttir 25. september 2023

Ágúst verður forstöðumaður

Ágúst Sigurðsson hefur verið skipaður forstöðumaður Lands og skógar, nýrrar stof...

Skeljungur kaupir Búvís
Fréttir 25. september 2023

Skeljungur kaupir Búvís

Samningar hafa tekist um kaup Skeljungs á öllu hlutafé í Búvís. Bæði fyrirtækin ...

Ævintýralegt ferðalag fjallkóngsins
Fréttir 22. september 2023

Ævintýralegt ferðalag fjallkóngsins

Heimildamyndin Konungur fjallanna var frumsýnd 12. september í Bíóhúsinu á Selfo...

Sauðfjárafurðir af sjálfbæru beitilandi
Fréttir 22. september 2023

Sauðfjárafurðir af sjálfbæru beitilandi

Nú í haust verða íslenskar sauðfjárafurðir af vel grónu og sjálfbæru beitilandi ...

Fé fækkað um 3.500 á undanförnum árum
Fréttir 21. september 2023

Fé fækkað um 3.500 á undanförnum árum

Laugardaginn 2. september var réttað í Ljárskógarétt í Dölum, rétt norðan Búðard...