Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
E. coli á uppleið
Fréttir 19. apríl 2023

E. coli á uppleið

Höfundur: Vilmundur Hansen

Matvælaframleiðsla í heiminum á víða undir högg að sækja. Bakteríur og veirur sem valda fuglaflensu og svínapest eru gríðarlegt vandamál sem sækir í sig veðrið. Veruleg hætta er talin á að fuglaflensa fari innan skamms að smitast í menn með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Í Bandaríkjunum finnast E. coli bakteríur í auknum mæli í kjötvöru.

Frá Bandaríkjum Norður- Ameríku berast þær fréttir að bakterían Escherichia coli finnist í auknum mæli í matvælum. Ekki er nýtt að E. coli finnist á matvælum en með aukinni notkun sýklalyfja í landbúnaði hefur fjöldi baktería, þar á meðal stofn E. coli, myndað með sér ónæmi fyrir sýklalyfjum og geri það baráttuna við þá erfiða.

Mælingar á E. coli bakteríum í kjötvöru í Bandaríkjunum sýna að fjöldi þeirra hefur aukist mikið á undanförnum árum. Sérstaklega er beint augum að stofni sem kallast FZEC. Á sama tíma er varað við að mikið magn af E. coli í matvöru geti valdið alvarlegum blóð- og þvagfærasýkingum og jafnvel dauða.

Dæmigerð einkenni þvagfærasýkingar af völdum E. coli eru tíð þvaglát sem fylgja verkir, sviði og illa lyktandi þvag. Sérstaklega er bent á að konur séu viðkvæmar gagnvart sýkingum. Spár gera ráð fyrir að bakterían geti valdið hátt í milljón sýkingum á ári í Bandaríkjunum og að tilfellum eigi eftir að aukast.

Smit með menguðum matvælum

Á heimasíðu MAST segir að uppruna sýkinganna megi oftast rekja til meltingarvegs blóðheitra dýra og er því almennt álitið að tilvist E. coli í matvælum sé vísbending um saurmengun. Bakterían getur komist í kjöt við slátrun, ef innihald þarma dýrsins berst á kjötið.

Eiturmyndandi E. coli bakteríur nefnast STEC, Shiga Toxinproducing Escherichia Coli, og geta í sumum tilvikum valdið alvarlegum veikindum í fólki. Fólk getur smitast af STEC með menguðum matvælum eða vatni, með beinni snertingu við dýr eða umhverfi menguðu af saur þeirra. Bakterían kemst þannig um munn og niður í meltingarveg og framleiðir eiturefni sem getur valdið blóðugum niðurgangi og í alvarlegum tilfellum nýrnabilun og blóðleysi, svokallað HUS, Hemolytic Uremic Syndrome. Einnig getur beint smit manna á milli átt sér stað, þá einna helst hjá litlum börnum.

Meiri líkur á sýkingu með kjöti

Bakterían sem um ræðir getur borist í fólk hvort sem er með kjöti eða grænmeti en oftar en ekki er smitleiðin með kjötvöru og fundust þær í miklu magni í alifugla- og svínakjöti í verslunum í Bandaríkjunum. Í dag eru í gangi rannsóknir til að skoða magn E. coli í nautakjöti. Bent er á að mestur fjöldi E. coli mældist í kjöti sem var rakin til búa þar sem dýr voru alin innandyra og þéttleiki þeirra var mikill og smitleiðir því greiðar.

Á sama tíma segir að á búum þar sem smit er algengt og notkun á sýklalyfjum mikið séu líkur á að nýir stofnar baktería myndist.

Hvað er til ráða?

Víða hefur reynst erfitt að koma í veg fyrir smit E. coli í kjötvöru. Bent er á nauðsyn þess að gæta fyllsta hreinlætis við pökkun, meðhöndlun og eldun kjötsins. Rannsóknir eru í gangi um möguleika á að bólusetja alifugla á eggjastigi og þannig koma í veg fyrir að bakterían komist inn í fæðukeðjuna.

Sýkingar í matvælum af völdum E. coli eru þekktar hér á landi en sjaldgæfar af völdum innlendra matvæla og er það góðu eftirliti að þakka. Vitað er að þær hafa borist hingað til lands með matvælum erlendis frá.

Skylt efni: E. coli