Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Ónýt felga og marið dekk eftir viðureign við brotholu í illa skemmdu malbiki.
Ónýt felga og marið dekk eftir viðureign við brotholu í illa skemmdu malbiki.
Mynd / HLJ
Fréttir 12. apríl 2017

Dapurt ástand vega og viðhald

Höfundur: Hjörtur L. Jónsson
Fyrir nokkru las ég í einhverjum miðli að minna væri um „brotaholur“ í malbiki í Reykjavík eftir veturinn miðað við undanfarna vetur. 
 
Síðustu þrjá vetur hafa komið stórar holur í malbikið í Reykjavík á tímabilinu frá febrúar og fram í maí.
Nú í ár eru holurnar ekki færri, en sökum góðrar tíðar í vetur eru holurnar ekki eins stórar og undanfarna vetur. Þessar stóru holur eyðilögðu ófá dekkin og felgurnar á smærri bílum og þá aðallega á bílum sem eru með dekk, sem stundum eru kölluð „lakkrísreimar“ af þeim sem ekki eru hrifnir af þessari tískubylgju að vera á stórum felgum með breið dekk sem varla eru með hærri prófíl en reiðhjóladekk. Álfelgur sem eru undir flestum nýjum bílum brotna oft við höggið sem kemur á þær við að keyra ofan í svona holur, en stálfelgur er í mjög mörgum tilfellum hægt að laga. 
 
Holurnar ekkert færri en undanfarin ár
 
Sem atvinnubílstjóri fer ég víða um bæinn og fannst mér fréttin um færri holur í Reykjavík frekar skrítin því að mér finnst holurnar vera mun fleiri en undanfarin vor. Hins vegar eru flestar holurnar smærri og minna af stórum djúpum og slæmum holum. 
 
Undanfarinn mánuð hef ég séð örfáar verulega varasamar holur, en nánast um leið og holurnar urðu varasamar var kominn vinnuflokkur til að fylla í holurnar varanlegu efni, eitthvað sem ekki var síðustu þrjá vetur bíleigendum til mikillar gremju. Það sem verra er að út á þjóðvegunum er komið mikið af holum sem eru orðnar verulega varasamar vegna þess að hraðinn þar er miklu meiri og samfara meiri hraða er hættan á slysum meiri ef maður missir stjórn á ökutæki við að keyra yfir skemmdir í malbikinu.
 
Hélt að bílstjóri í Húnavatnssýslu væri svartfullur
 
Vegurinn frá Reykjavík og upp að Litlu kaffistofu er verulega illa farinn, en á þessum kafla eru miklir malarflutningar vörubíla farnir að setja mikil skörð og lægðir í veginn. Afgerandi verstur er fyrsti kafli þessa vegar frá Rauðavatni og upp að Lögbergsbrekku. Þar er vegurinn bara einfaldur og álagið allt of mikið. Ég ek þennan vegkafla reglulega og sé alltaf nýja holu í hvert sinn sem ég fer þar um. 
 
Fyrir skömmu fór ég veginn á milli Reykjavíkur og Akureyrar og á leiðinni til baka á stuttum kafla rétt sunnan við Blönduós tók ég eftir undarlegu aksturslagi bílsins sem var fyrir framan mig. Þessi bíll virtist vera frekar óstöðugur á veginum, fór sikk, sakk á milli vegkantanna í löngum sveigum, það hefði mátt halda að bílstjórinn væri svartfullur undir stýri. Ég var fljótur að átta mig á að bílstjórinn var allsgáður.
Hann var bara að sveigja frá holunum sem voru í veginum. Var ég fljótur að taka upp aksturslag hans eftir að hafa lamið bílnum í nokkrar holur í malbikinu. Mér til mikillar gremju beygði bíllinn heim að sveitabæ í Víðidal. Varð ég þá að treysta á mína eigin sjón í holusviginu eftir að heimamaðurinn, sem greinilega þekkti hverja holu á veginum þarna, var farinn af vettvangi. Kannski er þarna komið atvinnutækifæri fyrir hugaða ökumenn að lóðsa bílalestir um krákustíga á milli hola á þjóðvegum landsins. 
Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...